Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Í senn margir og fáir sigurvegarar í seinni umferð frönsku héraðskosninganna

Eins og eðlilegt má teljast hafa fréttir af seinni umferð frönsku héraðskosninganna að miklu leyti fjallað um þá staðreynd að Þjóðfylkingin (FN) náði hvergi í meirihluta. Þrátt fyrir að hafa verið í forystu í 6 héruðum í fyrri umferðinni skilaði það hvergi sigri í þeirri seinni.

Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að Þjóðfylkingin hafi hlotið slæma kosningu. Flokkurinn eykur atkvæðafjölda sinn á milli umferða, en reyndar er prósentutalan heldur lægri í þeirri seinni, en munurinn er þó lítill, innan við eitt %stig.

En Þjóðfylkingin meira en þrefaldar fylgi sitt frá síðustu héraðskosningum og fulltrúar flokksins í héraðsstjórnum þrefaldast einnig.

En það breytir því ekki að enginn sigur vannst, en þó hefur Þjóðfylkingarfólk nokkuð til síns máls, þegar það segir: Hvaða ósigur.

Þeir sem teljast sigurvegarar kosninganna er bandalag mið- hægriflokka Lýðveldisflokkurinn (les Republicains), sem vinnur í meirihluta héraða, eða 7. Ekki aðeins er það meirihluti héraða, heldur einnig þau fjölmennari og auðugri. En samt sem áður eru niðurstöðurnar vonbrigði, því vonir stóðu til mikið betri árangurs. Fyrir engan eru niðurstöðurnar líklega meiri vonbrigði Sarkozy, fyrrverandi forseta, sem vonaðist eftir góðum úrslitum til að gefa forsetaframboði sínu byr í seglinn.

En nú eru vaxandi efasemdir um að hann nái útnefningu flokkabandalagsins.

Sætasti sigurinn (þó að hann væri ekki ýkja stór) náðist í "Ile De France". Þar sigraði Lýðveldisflokkurinn, með 43.8%, en Sósíalistar voru með 42.18%. Þar var Þjóðfylkingin með sinn lakasta árangur(á meginlandinu), með 14.02%.

Sósialistaflokkur Hollande forseta tapaði stórt í kosningunum, en í ósigrinum skína þó margar vonarglætur.

Flokkurinn (og bandamenn hans) hélt velli í 5 héruðum og fékk mun betri útkomu en flestir höfðu spáð.

Það er vert að hafa í huga þegar atkvæðafjöldi og %stig eru skoðuð, að flokkurinn dró frambjóðendur sína til baka í tveimur héruðum og hvatti kjósendur sína til að kjósa "taktískt" til að halda Þjóðfylkingunni frá því að ná í meirihluta.

Staða flokksins er því betri en tölur gefa til kynna og auk þess vilja margir meina að flokkurinn hafi unnið móralskan sigur á meðal kjósenda með þeirri afstöðu sinni.

Sú ákvörðun Sarkoxy að berjast alls staðar áfram er umdeild, jafnvel á meðal stuðningsmanna Lýðveldisflokksins, en þó verður að líta til þess að staða þeirra var alla jafna betri en Sósíalistanna.

Þannig eru þeir margir sigrarnir og býsna margir ósigrarnir líka, en það er reyndar oft raunin í kosningum.

Þjóðfylkingin getur í raun sagt að hún sé stærsti einstaki flokkur Frakklands, því sigur hinna flokkanna byggist á því að kjósendur smærri flokka ganga til liðs við þá í seinni umferðinni.

Næst komst Þjóðfylkingin því að sigra í Bourgogne-Franche-Comté, en þar sigraði Sósialistaflokkurinn með 34.67%, Lýðveldisflokkurinn var með 32.88% og Þjóðfylkingin hlaut 32.43%. Þetta er fimmti besti árangur flokksins í þessum kosningum, en þó þar sem flokkurinn komst næst því að sigra. Í þeim kjördæmum sem betri árangur náðist var munurinn meiri, en í þeim var flokkurinn í öðru sæti.

Í fjórum héruðum náði Þjóðfylkingin að vera í öðru sæti. Í tveimur þeirra dró Sósialistaflokkurinn lista sinn til baka, annars má telja líkegt að Þjóðfylkingin hefði haft sigur.

Það má segja að þessar kosningar sýni að Frakkland hafi ekki lengur tveggja flokka kerfi, heldur séu það orðið þriggja flokka.

Sósialistaflokkurinn má eins og áður sagði nokkuð vel við una, útkoman betri en búist hafði verið við. En það er vissulega áfall að tapa jafn miklu og raun ber vitni og einnig að vera án fulltrúa í tveimur stórum héruðum.

En sú fórn kann að hafa skilað flokknum "the moral highground", eins og stundum sagt á enskunni, en það er vafamál hvort að það þýði fleiri atkvæði síðarmeir.

Lýðveldisflokkurinn styrkir stöðu sína umtalsvert, en það verður að hafa í huga að það er að hluta til með atkvæðum sósialista.

Hefði Sósíalistaflokkurinn ekki dregið frambjóðendur sína til baka í héruðunum tveimur, er líklegt að skiptingin hefði verið Lýðveldisflokkurinn 5. héruð, Sósialistar 5. héruð og Þjóðfylkingin 2. héruð.

Sarkozy þykir því ekki hafa styrkt stöðu sína og óvíst hvort hann nái tilnefningu.

Þessi úrslit þykja hins vegar hafa aukið líkurnar á því að Hollande bjóði sig fram aftur, þó að árangur hans í embætti þyki slakur.

En vegna þess að héraðskosningarnar eru í tveimur umferðum eins og forsetakosningarnar þykja þær nokkuð sterk vísbending um hvernig þær gæti farið.

Þegar litið er til þeirra og skoðanakannana sem birtst hafa, má því segja að líklegustu úrlsltin væru að Marine Le Pen og frambjóðandi Lýðveldisflokksins myndu komast í seinni umferðina, þar sem frambjóðandi Lýðveldisflokksins myndi sigra.

En enn er langt til kosninga og margt sem getur breyst.

 

 


mbl.is Þjóðfylkingin beið alls staðar ósigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill misskilningur að Þjóðfylkingin hafi ekki fengið neinn mann kjörinn

Það er hræðilega rangur fréttaflutningur þegar sagt er í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, að Þjóðfylkingin hafi ekki hlotið neinn mann kjörinn í héraðsstjórnir (eða héraðsráð) í kosningunum í Frakklandi í gær.

Setningin: "Marg­ir Frakk­ar trúðu því þegar þeir vöknuðu í morg­un að FN hefði beðið ósig­ur í gær því eng­inn fram­bjóðandi þeirra náði kjöri.", er eiginlega eins röng og hugsast getur og ber þess vitni að blaðamaður hafi litla hugmynd um hvað hann er að skrifa og hafi ekki haft fyrir því að kynna sér málið.

Staðreyndin er sú að fjöldinn allur af fulltrúum Þjóðfylkingarinnar náði kjöri.

Það var verið að kjósa lista til að stjórna héruðum Frakklands, ekki einstakling og um hlutfallskosningu er að ræða.

Sætunum er skipt með þeim hætti að sá flokkur er hlýtur flest atkvæði, fær fyrst 25% af þeim sætum sem eru í boði. Síðan er afgangnum af sætunum (75%) skipt í réttu hlutfalli við atkvæðafjölda þeirra flokka sem náðu í seinni umferð kosninganna.

French election Ile de France representativesÞannig fékk Þjóðfylkingin 22. fulltrúa kjörna í Ile de France, þó að fylgi þeirra væri ekki mikið og flokkurinn með lang minnst fylgi í seinni umferðinni. (sjá mynd sem fylgir með færslunni).

Í Nord Pas de Calais, fékk Þjóðfylkingin 54. fulltrúa kjörna, en Lýðveldisflokkurinn 116.

Svona mætti áfram telja, hérað eftir hérað.

Það er því mikill fjöldi fulltrúa Þjóðfylkingarinnar sem tekur sæti í héraðstjórnum í Frakklandi, fleiri en nokkru sinni fyrr.

En flokkurinn er ekki í meirihluta í neinu héraði.

French election 2015 mbl.is

 

 

 


mbl.is „Ósigur! Hvaða ósigur?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landið sem Evrópusambandsþingið vildi að yrði aðili að Schengen 2011

Evrópusambandsþingið samþykkti árið 2011 að Búlgaría og Rúmenia uppfylltu öll skilyrði til þess að verða fullir aðilar að Schengen samkomulaginu.

Þá mætti lesa eftirfarandi á heimasíðu þingsins:

After considering progress reports on the two Member States and the findings of expert follow-up teams, MEPs concluded that although some remaining issues will require regular reporting and further attention in the future, they do not constitute an obstacle to full Schengen membership for Bulgaria and Romania.

 

"We are in a position to welcome Bulgaria and Romania into the Schengen area and I hope that the Council will adopt the same position as soon as they receive our positive opinion. (...) Their citizens should be regarded as fully European citizens, and should not be hostages of populist discourse", said rapporteur Carlos Coelho (EPP, PT).

Ennfremur fullyrðingar sem virka hálf kjánalegar í dag:

"Schengen is one of the biggest achievements of the EU. We must not destroy it with rash decisions. The Schengen system is providing the highest standards of border management. Romania and Bulgaria are meeting these standards today - hence, we must not delay their integration. I call on the Council to follow the recommendations of the vote expressed today by the large majority of the European Parliament", said EP President Jerzy Buzek.

En þetta var árið 2011.

Sem betur fer fundust þó skynsamari raddir innan "Sambandsins" og aðild Búlgariu og Rúmenia var frestað og hefur verið "frestað" æ síðan.

Ef marka má fréttina sem þessi færsla er hengd við, hefur lítið breyst, í það minnsta í Búlgaríu, en spilling þar hefur verið mikil.

Það er því næsta víst að Schengen aðild verði frestað enn um sinn, þó að löndin þrýsti ákaft á um aðild. Telja hana nauðsynlega fyrir sig og fyrir Schengen svæðið.

En svo er einnig vafi á því hvort að Schengen svæðið lifi mikið lengur í óbreyttri mynd.

 

 


mbl.is Tollverðir handteknir og landamærum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfga vinstri skríll?

Ég hef stundum minnst á það áður hér á bloggi mínu að mér þykir orðnotkun fjölmiðla gjarna nokkuð mismunandi eftir því hvort að um hægri, eða vinstrisinnaða hópa er að ræða. Reyndar má taka undir að nokkru leyti með þeim sem segja slík hugtök úrelt, en þau eiga sér þó það djúpar rætur að ég á erfitt með að sjá að þau hverfi úr málinu.

En lítum aðeins á fréttina.

Eftir því sem ég get næst komist (með því að lesa aðrar fréttir um sama atburð) þá er rétt að tala um að mótmælin hafi verið gegn samkomu eða hópgöngu hægri öfgamanna.

Flestar fréttir tala reyndar um göngu nýnazista sem er ef til vill meira upplýsandi. Það er eðlilegt að tala um slíkt sem öfga, og hefði fyrir því að tala um þá sem hægri menn, þó að eðlilega hafi verið deilt um það í gegnum tíðina og sé enn.

En 200 nýnazistar fara í göngu gegnum hluta Leipzig.

Eins og oft er boðað til and-mótmæla af hálfu hinna ýmsu samtaka. Það er sjálfsagt og að flestu leyti til fyrirmyndar. Að berjast gegn öfgum er gott markmið.

En hvað köllum við það þegar and-mótmælin leysast upp í skrílslæti með þeim afleiðingum að 69 lögregulumenn eru slasaðir, tugir lögreglubíla eru skemmdir og umtalsvert annað eignatjón á sér stað?

Er þá ef til vill betur heima setið, og hægri öfgamnennirnir gangi óáreittir?

En hvað myndum við vilja kalla óeirðaseggina?

Fréttin talar einungis um að lögreglumenn hafi slasast, "..í átökum við vinstrisinnaða mótmælendur ...".

En væri réttara að tala um "öfga vinstrimenn"? "Ofbeldisfulla vinstrimenn"? Gæti "herskáir vinstri öfgamenn", náð yfir hópinn? Eða færi best á því að nota "öfga vinstri skríll", eins og ég gerði hér í fyrirsögninni?

Það er bæði gömul saga og ný að pólítísk barátta fer ekki síst fram í orðum og orðnotkun.

Og það er vissulega betri aðferð en skrílslæti og ofbeldi á götum úti.

En það sem er svo það óþægilegasta við þessa frétt er hvernig hún kemur eins og óþægilegt bergmál frá fortíðinni, þegar öfgahópar til hægri og vinstri börðust á götum úti og í samkomuhúsum.

Þá þótti flestum flokkum í Þýskalandi nauðsynlegt að hafa "militant" arm í flokki sínum.

 


mbl.is 69 þýskir lögreglumenn slösuðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga íslenskir stjórnmálamenn kröfu á Facebook?

Hér og þar á netinu hef ég rekist á umfjöllun um að Össur Skarphéðinsson hefi verið "sviptur" aðgangi sínum að Facebook.

Tala margir eins og að um sé að ræða hina mestu lýðræðisvá og ógni bæði frjálsum skoðanaskiptum og tjáningarfrelsi.

Sumir, þar á meðal Össur, tala um að skoða verði að setja lög á starfsemi slíkra fyrirtækja.

Það væri í senn fróðlegt,  skondið og sorglegt ef Alþingi íslendinga myndi setja lög sem skylduðu samfélagsmiðla til að halda halda öllum "reikningum" opnum, nema að undangengnum dómsúrskurði á Íslandi.

Eða ættu slik forréttindi eingöngu að vera fyrir þá sem gætu fært sönnur á að þeir væru stjórnmálamenn?

Og hvað með þá miðla sem "starfa" í raun ekki á Íslandi?  Ætti þá einfaldlega að banna íslendingunum að nota þá, ef þeir virtu ekki íslensk lög?

Eins og ég lít á málið eiga íslendingar, eða aðrir, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn eða gegna öðrum störfum, enga kröfu á hendur fyrirtækjum sambærilegum Facebook, um að aðgangur þeirra sé jafn, stöðugur og óslitinn.

Ekki frekar en þeir eiga heimtingu á því að vefsvæði eins og mbl.is, visir.is, nú eða blog.is, birti allt sem þeim dettur í hug að setja fram.

Það er reyndar ekki síst vegna kröfugerða um ábyrgð og að ekki eigi að birta "vafasamt" efni, s.s. eitthvað sem felur í sér jafn teigjanleg hugtök og mannfyrirlitningu, klám, hatur o.s.frv. að sakleysingjar eins og Össur verða fyrir lokunum.

Því miðlar sem eðli málsins samkvæmt lúta ekki stöðugri ritskoðun, eru sífellt hræddir um að "uppþot" verði vegna efnis sem einhver hefur póstað á síðu sína og uppfyllir ekki "standard dagsins" um pólítíska rétthugsun.

Þannig er erfitt fyrir tölvuforrit að greina á milli berbrjósta "pin-up stúlku" og "samfélagslegrar byltingarkonu" sem birtir mynd af geirvörtum sínum.

Það er því affarasælast að banna hvoru tveggja, enda eiga bæði athæfin sér andstæðinga, þó líklega sé um ólíka hópa að ræða.

Þess vegna eru miðlar líkt og Facebook einnig með sjálfvirka lokun, ef ákveðinn fjöldi kvartana berst, og er líklegt að Össur hafi orðið fyrir barðinu á á slíku.

Það þýðir einfaldlega að hópur einstaklinga getur gert Facebook notendum lífið leitt með því að sammmælast um að kvarta, jafnvel þó að það sé að tilefnislausu.

Þeir sem fara fram á leiðréttingu sinna mála, eins og Össur gerði, fara síðan líklegast í nánari skoðun, og fá aðgang sinn opnaðan, eins og mér skilst að hafi verið raunin með Össur.

Allt eftir (Face)bókinni.

En að sjálfsögðu fagna allir stjórnmálamenn fjölmiðlaumfjöllun og fyrir marga þeirra er það plús að geta mátað sig í hlutverki fórnarlambs, þó ekki nema stutta stund.

Í þessu samhengi má minnast á það að margir íslenskir fjölmiðlar hafa valið þá leið að einungis þeir sem eru skráðir á Facebook geta gert athugasemdir við fréttir og greinar.

Þannig er ég og aðrir þeir sem ekki eru skráðir á Facebook útilokaðir frá "umræðunni".

Ætti ég að líta svo á að þetta sé tilraun til þöggunnar? Beinist þetta gegn mér persónulega?

Ætti ég að reyna að hafa áhrif á alþingismenn um að þeir setji lög sem skylda íslenska fjölmiðla til að heimila þeim sem ekki hafa Facebook aðgang að gera athugsemdir?

Auðvitað ekki.

Það að vera ekki með Facebook síðu er mitt val. Rétt eins og þeir sem slíkt hafa, hafa slíkt kosið.

Fjölmiðlaeigendur hafa svo líklega kosið þá lausn, til að reyna að hafa einhverja stjórn á "kommentakerfinu", sem fyrir þá hefur verið einföldust og ódýrust.

Það útilokar vissulega einhverja einstaklinga frá því að tjá sig, en það er ekki tilraun til þöggunar, það er ekki aðför að lýðræðinu.

Það er vel þess virði að velta því fyrir sér hverju við teljum okkur eiga "rétt á", eða "kröfu til".

Slík mál er þarft að ræða, hvort sem sú umræða fer fram á Facebook, í "kommentakerfum", eða annars staðar.

Til dæmis í kaffistofum eða heitum pottum.

 


Hvaða skilaboð eru franskir kjósendur að senda?

Það hefur verið mikið fjallað um úrslit fyrri umferðar frönsku héraðskosninganna, sem fram fóru um síðustu helgi.

Þjóðfylkingin (Front National) vann góðan sigur, er stærsti flokkur Frakklands og hristi upp í frönsku stjórnmálalífi sem aldrei fyrr. Þó hefur flokkurinn orsakað margan skjálftan áður.

En það er ekki þar með sagt að flokkurinn muni komast til valda í seinni umferðinni sem fer fram á morgun (sunnudag).

Skoðanakannanir hafa sýnt þær frænkur  Marine og Marion Le Pen eru undir í kjördæmum sínum. Munurinn er 6 til 7 %stig.

Sú ákvörðun Sósíalistaflokksins að draga frambjóðendur sína til baka ræður mestu um þá stöðu.

En það mun líka skipta máli hver kosningaþátttakan verður. Í fyrri umferðinni skreið hún rétt aðeins yfir 50% á landsvísu.

En það er erfitt að spá fyrir um hver úrslitin verða. Líklegast þykir mér að Þjóðfylkingin nái sigri í 1. eða 2. héruðum, en það gæti hæglega farið svo að flokkurinn næði engu héraði.

En jafnvel 1. hérað yrði stór sigur fyrir flokkinn.

En hvaða skilaboð eru franskir kjósendur að senda með góðu gengi Þjóðfylkingarinnar?

Það er ljóst að vaxandi þreytu gætir með hina "hefðbundnu valdaflokka", og þarf engum að koma á óvart. Staða Frakklands er langt í frá góð.

Skuldir hins opinbera fara sífellt vaxandi, fjárlög hafa ekki verið hallalaus síðan snemma á áttunda áratug síðustu aldar, eða í ríflega 40 ár, atvinnuleysi eykst jafnt og þétt og vaxandi óöld ríkir í landinu.

Æ stærri hluti kjósenda hafa enga trú á því að hinir hefðbundnu flokkar hafi lausnina, enda hafa þeir haft ótal tækifæri til þess að koma hlutunum í lag.

Þeir eru tilbúnir til að reyna næstum hvað sem er, frekar en stöðuna sem ríkir í dag.

Það má ef til vill segja að "dílemman" í frönskum stjórnmálum í dag sé að Þjóðfylkingin sé ekki það sem Frakkland þarfnast, en Sósíalsistaflokkurinn eða Lýðveldisflokkurinn (Les Republicains) hefur mistekist hrapalega við stjórnvölinn og um leið misst tiltrú stórs hluta kjósenda.

Æ fleiri franskir kjósendur líta á þá sem tvær hliðar á sama peningi og finnst tímabært að hleypa öðrum að.

En svo að við nefnum til sögunnar aðeins fleiri tölur, má nefna að í Calais fékk Þjóðfylkingin 49% atkvæða í fyrri umferðinni. Það ættu enda flestir að kannas við Calais úr fréttum.

Þær hafa reyndar ekki verið ýkja skemmtilegar þaðan undanfarna mánuði, en mikil vandræði og barátta hefur verið við þúsundir ólöglegra innflytjenda sem vilja komast yfir til Bretlands.

Calais hefur lengi verið talið öruggt vígi vinstri manna í Frakklandi.

En kannanir hafa líka sínt að stuðningur Þjóðfylkingarinnar á meðal verkamanna er í kringum 55%.

Það er því ekki að undra að margir telji útlitið langt í frá bjart fyrir Sósílistaflokkinn og telja næsta víst að frambjóðandi hans detti út í fyrri umferð í forsetakosningunum 2017.

En margir vilja meina að héraðskosningarnar nú, séu sterk vísbending um við hverju megi búast þá.

En þó að erfitt sé að spá um úrslit, virðist flest benda til þess að ofan á allt annað megi frakkar búast við ólgu og jafnvel upplausn í stjórnmálum landsins.

 


mbl.is Útiloki Þjóðfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landamæralögregla "Sambandsins" er eðlilegt skref

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Evrópusambandið hyggist koma sér upp eigin landamæralögreglu og strandgæslu.

Það verður að teljast ákaflega eðlilegt næsta skref, enda ljóst að einstök ríki innan  "Sambandsins" ráða einfaldlega ekki við verkefnið. Það er enda augljóst að þunginn dreifist mjög misjafnlega á milli ríkja.

Í þessu eins og mörgu öðru gildir hið forkveðna, að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Og veiku hlekkirnir í Evrópusambandinu eru of margir og of veikir. Það er rokið af stað, án þess að undirbúningur sé nægur og stoðir eru of veikar. Þetta á ekki eingöngu við Schengen samkomulagið. Síðan þarf að reyna að bjarga málum þegar í óefni er komið.

Þó má þakka fyrir að sú ákvörðun Evrópusambandsþingsins að Rúmenía og Búlgaríu fengju aðild að Schengen var "frestað".

Ónefndur embættismaður innan "Sambandsins" lét hafa eftir sér við það tækifæri að það væri meiningarlítið að styrkja búlgari til þess að kaupa "gámaskanna" og önnur tól, ef það kostaði ekki nema 50 til 100 euro að sleppa við að fara í gegnum þau.

Í raun mætti líklega segja að ef koma ætti málum í gott horf, þyrfti löggæsla á ytri landamærum að vera skipuð ca. 50/50 af heimamönnum og "róterandi" sameiginlegu löggæsluliði.

Þannig mætti líklega ná völdum á vandamálinu.

Sameiginleg strandgæslu er sömuleiðis löngu tímabær, enda má segja að sú staðreynd hvað hún hefur verið slök (og stefnulaus) sé á meðal orsaka núverandi vandamála.

En það er auðvitað full þörf á því að ræða stöðu Íslands innan Schengen, og hvort að vera þar sé landinu til hagsbóta.

Eyland nýtur ekki nema að mjög takmörkuðu leiti kosta þess, og verður að sama skapi minna vart við gallana. Þó er líklegt að vandamálum, vegna þess hve innkoma á Schengen svæðið hefur verið auðveld, hafi fjölgað á Íslandi.

Ýmsir velta því svo sjálfsagt fyrir sér hvort að Ísland gæti þolað að erlend löggæsla tæki yfir að hluta gæslu landamæra.

Í sjálfu sér væri slíkur samningur ekki óeðlilegri en til dæmis samningur um varnir landsins sem hefur verið í gildi lengi. Þannig má segja að ákveðnum öryggismálum hafi verið útvistað um langa hríð.

En það er full ástæða til þess að meta hvort að Schengen samstarfið sé að nálgast leiðarlok hvað varðar Ísland og vissulega fleiri ríki.

 

 

 


mbl.is Tekur ESB yfir landamæri Íslands?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sósíalistaflokkurinn stærsti flokkur Frakklands? Eða eiga íslenskir fjölmiðlar við vanda að stríða?

Ég verð að viðurkenna það á mig að vera það sem oft er kallað "fréttafíkill". Ég þvælist um netið og les fréttir hér og þar og nýt þess að sjá mismunandi sjónarhorn.

Og íslensku vefmiðlarnir eru alltaf með í rúntinum. Þar má oft finna eitthvað sem mér þykir áhugavert, en að öðrum ólöstuðum þykir mér mbl.is hafa þar staðið upp úr.

Þó hefur mér heldur þótt halla undan fæti, hjá íslensku miðlunum.

Ágætis dæmi er umfjöllun um frönsku héraðskosningarnar í dag.

Mér finnst kosningarnar nokkuð áhugaverðar og hef lesið umfjallanir um þær víða.  Það vakti því athygli mína þegar mátti lesa á mbl.is í morgun (sjá viðhengda frétt) að samanlagt væri Þjóðfylkingin og Lýðveldisflokkurinn (Les Républicains) með 30% fylgi í skoðanakönnunum og síðan kæmi Sósíalistaflokkurinn með 22%. Af því hefði mátt skilja, að annaðhvort væri um að ræða sameiginlegt framboð Þjóðfylkingarinnar og Lýðveldisflokksins, eða að Sósíalistaflokkurinn væri stærsti flokkur Frakklands með 22% atkvæða.

Hvorugt er þó rétt, heldur hafa Þjóðfylkingin og Lýðveldisflokkurinn sitthvor 30% í skoðanakönnunum. Flokkarnir tveir berjast um forystuna og ef ég hef skilið rétt hefur Þjóðfylkingin betur víða í hinum "dreifðari byggðum, en Lýðveldisflokkurinn í þéttbýlinu. 

French election mogginn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

French Election Visir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En fréttin er frekar illa unnin og má segja að setningin "Talið er að báðir flokk­ar muni sigra í meiri­hluta héraða.", gefi tóninn.

En hafi ég verið hissa á því að sjá framsetninguna á mbl.is, varð undrunin margföld þegar ég sá sömu "þýðingarvilluna" endurtekna á Vísi, síðar í dag.

Báðar fréttirnar vísa i sömu fréttina á vef BBC, en hvorugum miðlinum tekst að koma upplýsingunum rétt frá sér.

Þó að varasamt sé að fullyrða um mál sem þetta, verð ég að segja að ég hef það á tilfinningunni að ekki sé um tilviljun að ræða, að sama villan sé í báðum miðlum.

En í hvorugu tilfellinu getur fréttin talist miðlunum til sóma.


mbl.is Þjóðfylkingin býst við sigrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvótagreifarnir í 101

Það er fyrir all nokkru búið að setja kvóta á hlutfall veitingahúsa í miðbæ Reykjavíkur. Fyrir all nokkru varð þessi kvóti fullnýttur, ef ég hef skilið rétt.

Merkilegt nokk, þá var ákveðið þegar kvótinn var settur á að þeir sem höfðu leyfi fyrir heldu þeim, en ekki var farið í að auglýsa þau laus til umsóknar eða að bjóða þau upp.

Eins oft vill verða þegar kvótum er komið á, verður það til þess að "kvótinn" verður verðmæti.

Þannig hefur heyrst að verðmæti veitingaleyfa og -staða, á "kvótasvæðinu" hafi aukist og reynt sé að kaupa veitingaleyfi/veitingarekstur "innan kvóta".

Heyrst hefur af "samþjöppun" á kvótanum og vissulega gerir þetta alla nýliðun erfiðari.

Í raun þarf ekki að efa að almennir reykvíkingar bera skarðan hlut frá borði, þegar arðinum af þeirri auðlind sem miðbærinn í Reykjavík er, er skipt.

Svo ekki sé minnst á eigendur fasteigna sem ekki geta fengið kvóta og eru þannig sviptir frjálsum afnotarétti á eignum sínum. Til framtíðar þarf ekki að draga í efa að kvótaleysið getur orðið til verðlækkunar á fasteignum þeirra

Það má ótrúlegt vera ef borgaryfirvöld, Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri græn og Píratar ætla að láta málið standa eins og það er nú komið.

Það hlýtur að vera á stefnuskránni að innkalla öll veitingaleyfi og endurúthluta þeim með reglulegu millibili, eða jafnvel að bjóða þau út til 1. eða 2. ára í senn.

Þannig myndi arðurinn af miðbæjarauðlindinni skila sér til allra reykvíkinga.

 


Hver skrifaði greinina? Prófessorinn eða stjórnmálamaðurinn sem íslendingar höfnuðu?

Það hefur oft verið sagt um íslendinga að þeir séu í það minnsta í tveimur störfum hver.

Því er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hver skrifaði greinina á vef Vox? Var það Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor, eða var það stjórnmálamaðurinn Þorvaldur Gylfason, sem íslenska þjóðin hafnaði með svo eftirminnilegum hætti í síðustu kosningum, ásamt þeim flokki sem hann tók þátt í að stofna.

Ef minnið svíkur mig ekki, starfaði Þorvaldur reyndar með tveimur flokkum fyrir síðustu alþingiskosningar, en hvorugur þeirra hlaut brautargengi.

En vissulega er erfitt að bera saman tvær þjóðir í efnahagslegu tilliti. Það eru svo margir þættir sem hafa þar áhrif.

Gjaldmiðill er aðeins einn af þeim.

En það er ekki eingöngu Ísland í þessum samanburði sem hefur notið þess að gengi lækki.

Það hefur Írland auðvitað gert sömuleiðis. 

Því tveir stærstu útflutningsmarkaðir íra eru Bandaríkin og og Bretland. Samanlagt eru þessi ríki með nálægt 40% af útflutningi íra.

Sem hefur gert það að verkum að Írland hefur notið góðs af því hvað euroið hefur tapað miklu af verðgildi sínu á undanförnum árum.

En hvernig þessi útflutningur er að hluta til kominn vegna "skattskjóls" sem írar glaðir veita, verður svo aftur til þess að áhrifanna gætir ekki eins mikið hjá almenningi.

Í og með þess vegna er atvinnuleysi ennþá mikið hærra á Írlandi en á Íslandi, þrátt fyrir að fólksflótti þar hefi verið verulegur.

"Nettó brottflutningur" frá Írlandi var t.d. sá mesti í Evrópu árið 2012.

Hér má einnig sjá að "nettó brottflutningur" frá Íslandi varð skarpari (2009), en frá Írlandi, en jafnaði sig fljótar og er mikið minni í heildina.

 

 

 

 


mbl.is Sjálfstæður gjaldmiðill mikilvægur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband