Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hreiðrið yfirgefið

Hér að Bjórá er vorið í algleymingi, þó að það hafi reyndar verið fremur svalt og blautt það sem af er.  En allt sprettur áfram samt sem áður, blóm rísa úr moldinni, tré blómgast og fuglar leggjast í hreiðurgerð og verpa eggum, sem önnur ár.

Ég hef fylgst með hreiðrinu hjá þrastarhjónunum sem árlega búa sér hreiður við þakrennu nágranna okkar.  Nokkuð er um liðið síðan ungar fóru að byltast þar um.  Ég tók eftir því að einn þeirra virtist mun stærri en systkyni sín og virtist frekur til fjörsins.

Það fór enda svo að hann var fyrstur til að yfirgefa hreiðrið, og var á vappi hér á lóðinni hjá okkur í dag, undir nokkuð öruggu eftirliti foreldra sinna.  Ekki gat hann flogið nema nokkra metra í einu, en sýndi þó framfarir.  Á milli flugspretta leitaði hann skjóls í gróðrinum og tók ég þá af honum meðfylgjandi mynd. 

Fjallmyndarlegur þröstur.

 

Young Robin


Slæmur sonur

Það er erfitt að þurfa að játa það, en líklega verð ég að teljast slæmur sonur.  Raunar allt að því forhertur. Guðhræddir menn myndu jafnvel segja að ég væri hatrammur.  Hvers kyns sonur er það sem teflir lífi móður sinnar í hættu dag eftir dag?  Til að bæta gráu ofan á svart, er það svo í eintómu eiginhagsmunaskyni.

Í stað þess að drífa mig heim til Íslands með fjölskylduna og leyfa börnunum að hitta ömmu sína og hafa þá jafnframt tækifæri á því að gefa þeim almennilegan mat, þá lokka ég móður mína hingað í útlandið.

Þegar hún er hingað komin hefst ég svo handa við að troða ofan í hana hættulegu keti, sem ég kaupi í þokkabót hrátt út í búð, en veit þó full vel að það er stórhættulegt Íslendingum.

Þetta lætur hún yfir sig ganga, brosir framan í börnin, kyssir þau og kjassar og lætur sem ekkert sé.

Ég hef jafnvel gengið svo langt að láta hana éta útlent lambakjet. Grimmdin gerist nú varla meiri. Svo hefur hún þurft að þola stórhættulegt svínakjöt, og allir vita nú hvað hættulegir kjúklingarnir eru hérna.

Ég hef meira segja gefið henni tómata sem eru ekki einu sínni ræktaðir í gróðurhúsi.

Í kvöld gaf ég henni svo nautakjöt, sem líklega hefur verið fullt af einhverjum hroða og kórónaði athæfið með því að hafa spælegg með.

En línuna dreg ég við linsoðin egg.  Ég er nú ekkert skrýmsli.

 


Gamli góði Júlli

Það er bersýnilegt að það þykir "inn" að sjónvarpsstöðvar séu í stjórnmálabaráttu á Íslandi.  Taki afstöðu og standi með henni.  Ekkert að því ef það er gert á beinan og heiðarlegan máta eins og gert er hér.

En eins og eðlilegt er eru líklega fleiri en ein og fleiri en tvær skoðanir á því hver er best til þess fallin að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna.

Ég er ekki viss um að það teljist Júlíusi til framdráttar að helstu stuðningsmenn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar lýsi yfir stuðningi við hann, margir eru án ef þeirrar skoðunar að betra sé að láta aðra um valið.

Skyldu þeir kynna hann til sögunnar sem "Gamla góða Júlla"?

Að því leiti líkist þetta "kossi dauðans".

En auðvitað er eðlilegast að Hanna Birna sem skipaði 2. sætið taki við, en auðvitað má hugsa sér að aðal og varamenn í borgarstjórn greiði atkvæði, því mikilvægt er að næsti borgarstjóri njóti stuðnings alls hópsins.

En ég hjó eftir því í frétt í dag, að Geir Haarde talaði um að sá sem tæki við, myndi leiða flokkinn í gegnum prófkjör og næstu kosningar, árið 2010. 

Það er eitthvað sem segir mér að það sé alls ekki gefinn staðreynd, að sá sem leiðir borgarstjórnarflokkinn þegar haldið er í prófkjör, leiði borgarstjórnarflokkinn að prófkjöri loknu.

Ef ég hefði atkvæðisrétt í því prófkjöri, yrði Júlíus ekki fyrir valinu.

 


mbl.is Lýsir stuðningi við Júlíus Vífil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á plankann

Grillmeti er gríðarlega vinsælt hér í Kanada.  Hægt er að grilla flest sem að kjafti kemur og að sjálfsögðu með ýmsum aðferðum.

Sérstaklega er auðvitað gott að grilla yfir sumartímann til að eldmennskan hiti ekki upp húsið og reyni meira á loftkælinguna en þörf er á.  Eitt af þeim "trikksum" sem Kanadamenn nota gjarna þegar þeir grilla er sedrusviðarplanki.

Þessu hef ég velt nokkuð fyrir mér en ekki orðið af því að þessu sé beitt fyrr en í gærkveldi.

Þá var þessu dýrindis laxaflaki slengt á sedrusviðarplanka sem legið hafði í bleyti í nokkrar klukkustundir.  Kryddað með salti, pipar, dilli og sítrónusneiðar lagðar ofan á.  Fleygt á grillið og látið dúsa þar í u.þ.b. 20. mínútur.

Niðurstaða:  Hrein snilld. 

Afar einfalt, ekkert þarf að stússast í kringum þetta.  Létt reykbragði kemur í laxinn og borinn fram með salati og Kanadísku gewurztraminer er þetta hreint sælgæti.

Plankinn er kominn til að vera.

 


Ódýrar pillur frá lækninum

Ég sagði í færslu fyrir nokkru síðan að helsti möguleiki Sjálfstæðismanna í borgarstjórn til að hífa fylgið upp væri hvað kostirnir væru slakir.

Og hundraðshöfðingjarnir klikka ekki á því. Þessi frétt er með þeim "súrari" sem ég hef lesið um nokkurt skeið.  Leikiur einhver lögfræðilegur vafi á því að starfsmenn borgarinnar megi hafa pólítískar skoðanir, eða skoðanír á þeim fulltrúum sem kjörnir hafa verið til setu í borgarstjórn?

Er það skoðun minnihlutans að svo sé?  Var það eitthvað sem var kynnt starfsmönnum þegar hundraðshöfðingjarnir voru við völd?  Var slíkt í gildi á meðan R-listinn var við völd?

Finnst einhverjum að eftirfarandi geri Jakob F. óhæfan til að starfa fyrir borgarstjórn:

,,Vegna þessarar miklu beiskju í minnihlutanum yfir því að vera ekki lengur í meirihluta, eftir sína 100 daga,“ sagði Jakob Frímann Magnússon, nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála í Vikulokunum á laugardag. Daginn eftir sagði Jakob Frímann á Stöð 2 að Dagur B. Eggertsson væri bitur læknir sem hefði verið borgarstjóri í 100 daga og gæti ekki unnt öðrum lækni að vera það.

Mér þykja þær ódýrar pillurnar sem koma frá bitra lækninum.

P.S. Með þessum pistli (og líklega fleirum) er hætta á að ég hafi (eftir skilgreiningu hundraðshöfðingjanna) gert mig óhæfan til að starfa fyrir borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem skoðanir mínar á kjörnum fulltrúum koma skýrt fram og gætu haft áhrif á störf mín og jafnvel verið rifjuð upp í fjölmiðlum.

Er hægt annað en að vera feginn?


Schumacher í Kanada

Michael Schumacher var víst að þvælast hér í Kanada nýverið.  Það var á vegum Ferrari og  olíufélagsins Shell og hitti hann víst verðlauna bensísölumenn víðsvegar að úr heiminum og sitthvað fleira.

Ekki hitti hég hann, en rakst hins vegar á örstutt viðtal við hann á msn.ca.  Schumacher hefur aldrei notið mikillar hylli hjá Kanadamönnum, allra síst eftir að hann ók á Villeneuve árið 1997.  En hér eru þó vissulega aðdáendur fyrir utan þann sem þetta skrifar, enda mikill fjöldi hér af Ítölskum uppruna.  Hjá þeim er flest sem viðkemur Ferrari goðumlíkt.

En það rifjaðist upp fyrir mér, er ég las viðtalið að fyrir nokkru rakst ég á þorpið Schumacher á korti.  Það er staðsett hér í norður Ontario.  Ekki er það þó nefnt eftir Michael, heldur einhverjum Fred Schumacher, sem var "mógúll" þar fyrir löngu.  Hvort að um einhver tengsl sé að ræða veit ég ekki, en þykir þó ólíklegt.


View Larger Map

Jógúrt og börn

IMG 4163Það er alveg á mörkunum að ég telji að hægt sé að mæla með að jógúrt sé gefið börnum.  Þrátt fyrir hollustu sjálfs jógúrtsins fylgja því ákveðnir "fylgikvillar".

Þannig finnst ómegðinni hér að Bjórá fátt betra en þegar ég gef þeim jógúrt.  Þá er tekin "hrein" jógúrt og sett út í hana frosin ber, t.d. eins og í gær bláber, hindber og "blackberries" (man ekki hvað þau eru kölluð á Íslensku).

Síðan er "töfrasprotanum" beitt á herlegheitin og út kemur þykk, köld og heillandi berjajógurt.

Svo góð er hún að Foringinn sleikir stundum diskinn sinn þegar ekki er meira að fá. En þegar hann kenndi litlu systur sinni þá list, gleymdi hann að taka fram að betra væri að klára það sem var á disknum áður.

Því fór sem fór.


Flokkur á Villi-götum

Það heitir að gera lítið úr málinu þegar sagt er að staðan sé ekki viðunandi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. 

Staðan er óásættanleg.

En því miður er alsendis óvíst að hún horfi til betri vegar á nokkurn hátt.  Engin raunverulegur leiðtogi fer fyrir borgarstjórnarflokknum.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur breyst í "húskofaflokk".  Engin getur útskýrt hvert er verið að stefna með REI. Borgarstjóraembættið er ekki í höndum stærsta flokksins í borgarstjórn, heldur þess minnsta.

Núverandi meirihluti er ekki nógu trúverðugur, talað er út og suður og of algengt er að borgarfulltrúar séu eða þurfi að útskýra hvað aðrir í meirihlutanum hafi nú verið að meina.  Með fæðingu þessa meirihluta má líklega segja að hundraðshöfæðingjarnir hafi verið "skornir niður úr snörunni".  Allar þær klemmur sem sá meirihluti stefndi inn í hurfu eins og dögg fyrir sólu.

Helsta von flokksins til að endurheimta fylgi eins og staðan er nú er hve slakir aðrir valkostir eru.

Sjálfstæðismenn hafa u.þ.b. 2. ár til að snúa taflinu við, sér í hag.  Það er ekki einfalt eða auðvelt verkefni.  Fyrsta skrefið til þess er að ótvíræður leiðtogi sé í borgarstjórnarflokknum.

Síðan þarf að skýra málefnastöðuna og hvessa hana.

Einhver minnisstæðasta setningin frá liðnum vetri er:  "Viljið þið að ég segi eitthvað?".

Ég hygg að það séu ansi margir sem myndu svara henni í dag:  "Já, við viljum að þú segir af þér".


mbl.is Umræðan Sjálfstæðisflokknum afar erfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órói og flóttafólk

Það er víða óróin í sveitarstjórnum á Íslandi þessi misserin.

Eins og ég les og fylgist með úr fjarlægðinni finnst mér þessi óróleiki skiljanlegastur.  Þegar kjörnir fulltrúar fara með umboð sitt frá kjósendum á milli flokka verð ég alltaf nokkuð hugsi, en hitt er að kjörnir fulltrúar verða að eiga það við eigin samvisku og gera það sem þeir telja rétt.

Í þessu tilfelli finnst mér afar skiljanlegt að bæjarfulltrúi F-lista vilja ekki láta spyrða sig við skoðanir og málflutning varabæjarfulltrúa flokksins.  Fulltrúa sem er í þokkabót varaformaður flokksins og aðsoðarmaður formanns hans.

Hennar "flótti" er því í mínum huga bæði sjálfsagður og eðlilegur.

 


mbl.is Sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta á Akranesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldmiðill tengdur euro

Það kemur ekki fram í fréttinni en Lettneska "latsið" er bundið við euro.  Vikmörkin eru + - 1%.  Það má því segja að euro sé gjaldmiðillinn í Lettlandi.  En það kemur ekki í veg fyrir verðbólgu.

Með þessari verðbólgu búa Lettlendingar við yfir 5% atvinnuleysi, sem hefur þó farið heldur lækkandi.  Fasteignaverð hefur farið lækkandi, iðnaðarframleiðsla hefur dregist saman.

Spádómar hafa komið fram um að u.þ.b. 6. ára samdráttarskeið.  Það fari að birta yfir í kringum 2013.

Sumt af þessu hljomar líklega nokkuð kunnuglega fyrir Íslendinga.

En Lettland er búið að vera í "Sambandinu" um nokkurra ára skeið.  Gjaldmiðillinn þeirra er tengdur við hið "almáttuga" euro.

Staðreyndin er auðvitað sú að það dugar ekki að mála húsið að utan ef allt er í ólestri inni.

Það leysir enginn efnahagsvandræði á Íslandi nema Íslendingar.  Stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að fara á undan með góðu fordæmi.

Ef hvetja þarf almenning til að spara er æskilegt að stjórnvöld geri það líka.  Ef þarf að hvetja almenning til að halda að sér höndum í fjárfestingum, er æskilegt að stjórnvöld geri það líka. 

Allt annað á við ef atvinnuleysi fer að aukast, en enn sem komið er næga atvinnu að hafa á Íslandi og enn er mikill fjöldi útlendinga að störfum.  Ef það breytist er þörf á auknum opinberum framkvæmdum.

Þá væri nú gott að eiga digran varasjóð frá "feitu" árunum.


mbl.is Verðbólgan 17,5% í Lettlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband