Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

1. Klassa kappakstur í Konstantínópel

Þeir sunnudagar sem hefjast með sigri Ferrari í Formúlunni eru góðir dagar.  Það var ljúft að sjá Massa hafa sigur í morgun.  Þriðji póllinn og þriðji sigurinn í röð.  Það hafa ekki aðrir leikið það eftir að sigra á braut þrjú ár í röð, síðan Schumacher hætti.  Hann er sá síðasti á undan Massa sem hefur afrekað það, að ég best man.

En Massa vann verðskuldaðan sigur, ók af öryggi frá upphafi til enda.  En ég hlýt að lyfta hatti mínum til Hamilton og McLaren.  Þeir eiga heiður skilið fyrir djarfa og skemmtilega útfærslu á keppnisáætluninni.  Ég veit ekki hvort að hún breytti í raun miklu, ég held að Raikkonen hafi misst möguleika á sigri eða öðru sætinu með afleitu starti sínu.  Það að falla niður í 6. sætið kostaði hann of mikið.

En það setti skemmtilegan svip á keppnina að hafa léttari bíl í baráttunni, og hefur án efa komið Ferrari ökumönnunum í nokkuð opna skjöldu.  En þetta gerði Hamilton kleyft að aka 3/4 keppninnar á hörðum dekkjum, en mjúku dekkin virtust ekki vera að gera sig vel hjá McLaren.  Það hlýtur hins vegar að vera McLaren mönnum umhugsunarefni að Hamilton skyldi ekki gera betur í tímatökunum á þetta léttum bíl 

Hefði hann verið á pól, er auvelt að hugsa sér að hann hefði náð nægu forskoti til að hafa efni á 3. þjónustuhléum.

En þessi sigur var mikilvægur fyrir Massa, hann er nú kominn í toppbaráttu ökumanna, stendur Hamilton jafn að stigum, en nær öðru sætinu.

Eins og er getur staða Ferrari því ekki verið betri.  En næstu tvær keppir gætu breytt því snarlega.  Fyrst Monaco og svo hér í Kanada.  Þetta eru brautir sem hafa ekki hentað Ferrari sérstaklega vel, en við verðum að vona að þeir hafi lagt sig fram við heimavinnuna.

En mér kæmi nokkuð á óvart ef við sjáum Ferrari sigra á þessum brautum.  En sérstaklega Monaco er þó gjörn að koma á óvart, oft verulega.


mbl.is Massa hafði þrennuna eftir fjörglímu við Hamilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Istanbulpóll til eignar

Gríðarlega gott hjá Massa.  Póllinn í Istanbul hirtur þriðja árið í röð. Unnin til eignar eins og við grínuðumst stundum með í gamla daga þegar einhver náði að sigra þrisvar.

En ég missti af tímatökunni í morgun, eins og oft áður.  Nú var lokadagur í leikskólanum hjá Foringjanum, þannig að rólegra verður á laugardagsmorgnum yfir sumarið.

En Massa gerir sig líklegan til að sigra í Istanbul þriðja árið í röð.  Ekki alveg nógu gott að sjá Kimi í fjórða sætinu, en það er vonandi að hann hafi sig framúr  alla vegna Hamilton í startinu. Ferrari hefur startað vel undanfarið og vonandi verður þar framhald á. 

Þó að mér sé ekki um of um McLaren gefið, fagna ég því að sjá Kovalainen í fremstu röðinni.  Það sýnir að áreksturinn á Spáni hefur ekki haft nein áhrif á hann og ekki dregið úr honum kjarkinn.

Hamilton virðist ekki eiga of góða daga nú um stundir, en það er spurning hvenær honum tekst að komast í fyrra form.  Hann þarf á því að halda að sýna hvað í honum býr og landa sigri.

En það verður líklega eins og oft áður, að línur skýrast ekki fyrr en í fyrstu þjónustuhléum.  Þá sjáum við hvaða spil menn eru með á hendi.

Persónulega veðja ég á að Massa nýti pólinn til sigurs.  Spurningin er svo hvað Raikkonen tekst að klóra sig upp.  En Ferrari virðist vera að gera réttu hlutina nú sem svo oft áður.


mbl.is Hörð átök Massa og Kovalainen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófaglegt fagráð

Ég ætla ekkert að vera að tjá mig um meint kynferðisbrot ínnan kirkjustarfs, það læt ég öðrum eftir.  Ég get hins vegar ekki orða bundist um hve ófaglega og óeðlilega er staðið að skipan ráðsins.

Það er vissulega umdeilanlegt hve lengi málið virðist hafa stöðvast hjá ráðinu, en það sem mér þykir sérstaklega ámælisvert er að ráðinu hefur tekist að gera Barnahús óstarfhæfa hvað margrætt mál varðar.

Það að forstöðumaður Barnahúss sitji í nefnd á vegum ríkiskirkjunar, sem á m.a. að fjalla um hugsanaleg kynferðisbrot starfsmanna hennar gegn börnum er skandall.

Persónulega verð ég að segja að mér þykir það orka verulega tvímælis að lögfræðingur hjá ríkissaksóknara siti í nefndinni.

Ef til vill er þörf á því að setja skýrar reglur um hvaða störf opinberir starfsmenn megi taka að sér utan starfs síns.

Það er alvarlegt mál ef starfsmennirnir gera stofnanir þær sem þeir  starfa við vanhæfa til að takast á við þau mál sem þeim er ætla að sjá um.

Sjá frétt RUV um málið.


Lest í einangrun

Kanadabúum (eins og flestum) er bregður óneitanlega í brún þegar óutskýrðir sjúkdómar skjóta upp kollinum, enda flestum hér SARS í fersku minni.  Kanada var að ég best man það land sem flesti tilfellin voru, utan hins Kínverskumælandi heims.

Enn má sjá hér áhrif (til góðs) sem sjúkdómurinn hafði,  enn er boðið upp á ókeypis sótthreinsandi vökva til að hreinsa hendurvíða, alls staðar á sjúkrahúsum og slíkum stofnunum og jafnvel í matvöruverslunum.  Sömuleiðis hafa rannsóknir leitt í ljós að engir eru jafn duglegir við að þvo sér um hendur eftir salernisheimsóknir og því um líkt og Kanadabúar.

Það er því óneitanlega nokkur beygur sem grípur um sig þegar fréttir berast af því að lest hafi verið sett í einangrun í N-Ontario.

Fregnir eru ennþá óljósar, helst er að skilja að flestir þeir sem hafi veikst séu erlendir ferðamenn, en í það minnsta ein persóna hefur látist og lögregla og heilbrigðisstarfsmenn hafa mikinn viðbúnað.

Nú verður að bíða og sjá, en vonandi er þetta ekki upphafið að neinum faraldri, en það mæðir óneitanlega mikið að heilbrigðisstarfsfólki, sem oft áður.

Fréttir frá Globe and Mail og National Post.

 

 


9000 fólksbílar = 1 flutningabíll = ? strætisvagnar/rútur

Ég sá að þingmaður hafði lagt fram fyrirspurn um það á Alþingi hvað flutningabílar slitu vegum í samanburði við venjulega fólksbíla.

Svarið sem kom frá Samgönguráðherra var að flutningabíll (fullhlaðinn held ég ) sliti vegum á við 9000 fólksbíla.  Það verður því að álykta að sjálfsagt sé að þeir borgi snöggtum meira til vegagerðar heldur en venjulegir bílar.

En það vantaði inn í fyrirspurnina og svarið hvernig sliti annarra stórra farartækja sé háttað.  Hvernig slíta t.d. strætisvagnar götum og vegum?  Hvert er meðalslit hópferðabifreiða?

Ekki að þetta spili stóra rullu fyrir sálartetrið, en það væri gaman að sjá samanburðartöflu yfir vegaslit eftir farartækjum.

Eflaust vilja margir halda því fram að með þessu sé ríkið að greiða niður vegagerð fyrir vöruflutningafyrirtæki og verktaka.  Það má til sanns vegar færa. 

Hins vegar gera sér líklega flestir grein fyrir því hvar sá skattur ætti og myndi enda, eða hvað?

 


Menningarfulltrúi í miðbæinn - blómstra 18 rauðar rósir í Ráðhúsinu?

Ég er alveg hlessa á því hve ráðning Jakobs Frímanns sem framkvæmdstjóra fyrir miðbæ Reykjavíkur hefur skapað mikla úlfúð.  Sérstaka athygli mína vekur hvað Samfylkingarfólk tekur þessarri ráðningu illa.

Ég hefði haldið að Samfylkingarfólk skildi það betur en flestir aðrir hve margþætt starfsreynsla Jakobs, t.d. sem menningarfulltrúa í London gæti nýst vel fyrir miðborgina.  Eru ekki allir sammála um þörfina fyrir aukna menningu þar?

Persónulega verð ég sömuleiðis að segja að ég átti ekki von á því að pólítískar mannaráðningar hættu við það að Ólafur F. yrði borgarstjóri, né heldur þegar Samfylkingin komst í ríkisstjórn.

Íslendingar hafa lengi horft upp á að hæfustu flokksmenn á hverjum tíma hafa verið ráðnir í störf og skipaðir í stjórnir, hvort sem það eru hæfustu R-listamennirnir, hæfustu Sjálfstæðismennirnir, hæfustu Framsóknarmennirnir, eða hæfustu Samfylkingarmennirnir.  Ég hef litla trú á því að það breytist.

Því mega borgarbúar í sjálfu sér prísa sig sæla með að jafn öflugur einstaklingur og Jakob Frímann Magnússon finnist í stuðningsmannahópi Ólafs F. Magnússonar.  Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að sá hópur sé ekki það stór að það sé sjálfgefið.

P.S.  Auðvitað þýðir ekkert að æsa sig yfir yfirvinnutímum.  Starfsemin í miðborginni er þess eðlis að efað á að fylgjast vel með henni og efla, þarf sú vinna ekki hvað síst að fara fram á kvöldin og um helgar.  Það er jú þá sem ífið er þar.


Innanflokksátök eða þverpólítísk samstaða?

Ég get ekki annað en glott út í annað þegar ég sé Samfylkingarfólk fara hamförum yfir meintri pólítískri þátttöku fréttastofu Stöðvar 2.  Öðruvísi mér áður brá.

En það skondnasta í þessu öllu fannst mér þó sú staðreynd að eftir að hafa farið og hlustað á fréttina á Vísi, þá gat ég ekki betur heyrt en að spyrjandinn sem Ingibjörg varð svona pirruð út í sé fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og hafi um hríð verið í framboði til varaformanns flokksins.  Ef til vill flokkast þetta því sem innanflokksátök?

En það er þó ekki hægt að líta fram hjá því að viðkomandi er auðvitað ekki eini fréttamaðurinn á Stöð 2 sem hefur sterk tengsl í stjórnmálaflokk.

Því má ef til vill draga þá ályktun að það hafi náðst þverpólítísk samstaða á fréttastofunni um að gera Ingibjörgu lífið leitt.


Stofnanavæðing umræðunnar

Mér finnst umræðan um mannréttindastjóra eða hvað starfsheitið er, fyrir Reykjavíkurborg nokkuð merkileg.  Ekk hef ég neitt á móti því að mannréttindi séu virt í borginni, en átta mig samt ekki alveg á þörfinni.  Hafa mannréttindamál í Reykjavík verið í miklum ólestri og eru það enn?

En mér finnst þetta reyndar vera hluti af stærra "trendi", sem er að ekkert getur gerst án þess að hið opinbera setji á stofn eitthvert "batterí" og umræðan verður gjarna á milli tveggja eða fleiri opinberra aðila, sem annað hvort eru kjörnir eða skipaðir.

Hvernig væri nú t.d. að borgin einfaldlega réði samtök eins og Amnesty International til að "taka út" mannréttindamál í Reykjavík.  Jafnvel mætti hugsa sér að Amnesty tæki að sér vöktun hvað þetta varðar.

Af sama meiði má til dæmis nefna embætti eins og Talsmaður neytenda.  Fyrir voru á "markaðnum" frjáls félagasamtök, Neytendasamtökin, en auðvitað hafa stjórnmálamenn takmarkaðan áhuga á því að efla slík samtök, þar sem þau hafa ekkert skipunarvald, og geta ekki ráðið hverjir sinna verkefnunum.

Þannig er hvert málefnið af öðru fært undir umsjón hins opinbera og umræðan stofnanavædd.

Tillögur um umboðsmenn hins og þessa (er ekki umboðsmaður Íslenska hestsins eitthvert þekktasta dæmið) heyrast reglulega. Eitt nýjasta dæmið eru hugmyndir um Umboðsmann aldraðra, sem þó hafa með sér ágætis samtök.

Hvað skyldi þeim detta í hug næst?  Umboðsmaður skattgreiðenda?

e

Hin syngjandi bylting

Fyrir nokkru minntist ég stuttlega á heimildamyndina "The Singing Revolution", sem gerð var um baráttu Eistlendinga fyrir endurheimt sjálfstæðis síns.

Í gærkveldi höfðum við Bjóráhjónin loks tök á því að sjá myndina, en hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsi hér í Toronto undanfarna daga.

Myndin olli ekki vonbrigðum.  Gríðarlega sterk heimildamynd, átakanleg og bjartsýn í senn.  Partur af sögu þjóðar sem lenti á milli tveggja helstefna, nazismans og kommúnismans og var fótum troðin af þeim báðum. 

Tug þúsundir manna, kvenna og barna flutt í gripavögnum á brott.  Sumir í fangabúðir nazista, aðrir í Sovéska Gulagið.  Tug þúsundir flýðu í stríðslok.  Fjölskyldur splundruðust.  Að stríðinu loknu hafði þjóðin misst yfir fjórðung af íbúunum.

Sumur flúðu í skógana og síðasti Eistneski "skógar bróðirinn" var handtekin árið 1978.

Skipulega reynt að útrýma menningu og tungumáli íbúanna.

Það er erfitt fyrir mig sem ekki heldur lagi að skilja hvað fær fólk til að leggja til atlögu við heimsveldi, með sönginn að vopni.  En ég söngur og sönglög héldu þjóðinni saman.  Líklega get ég seint eða aldrei skilið hvað söngurinn er þjóðinni mikilvægur.

Enginn lét lifið í þessari baráttu Eistlendinga, þó að stundum skylli hurð nærri hælum.  Lettar og Litháar voru ekki eins heppnir.

En Eistlendingar háðu baráttu sína friðsamlega, þeirra vopn voru orð, lög (hér í lögfræðilegum skilningi) og söngur.

Þeir höfðu sigur.

Ég sá að myndin var erfið áhorfs fyrir konuna mína og marga aðra sem voru í kvikmyndahúsinu.  Upprifjun á stríðinu og fyrstu árunum á eftir er mörgum erfið.  Það leiðir hugann að þeim sem létu lífið, hurfu.  Því sem næst allir Eistlendingar sem ég hef hitt misstu einhvern, í stríðinu eða í Gulagið.  Afa, móður, ömmu, bróður, systur, faðir, frænda eða frænku.  Skólafélagar og vinir hurfu.

En ég gef myndinni mín bestu meðmæli.

Ég held að hún ætti fullt erindi við Íslendinga.  Líklega gengi hún varla á almennum kvikmyndasýningum, en væri fengur fyrir kvikmyndahátíð eða daga og vel þess virði fyrir Sjónvarpið að taka hana til sýningar.

Heimasíða myndarinnar: http://www.singingrevolution.com/

Hrísgrjón og kjöt, upp og niður í matvörubúðinni

Ég fór í matvörubúð í morgun, ekki svo sem í frásögur færandi, en það geri ég þó.  Það vantaði eitt og annað til heimilins.  Kornfleks og malt, grænmeti og ávexti og svo sitt of hvoru tagi eins og segir í kvæðinu.

Það var ekki á listanum að kaupa hrísgrjón og verður það að teljast hálfgerð hundaheppni af minni hálfu, því hrísgrjónahillur verlunarinnar voru því sem næst tómar.  Réttara væri þó líklega að segja að öngvir stórir pokar voru til af hrísgrjónum, svona eins og oftast eru bornir heim að Bjórá.  Eitthvert pakkasull og smáeiningar voru ennþá á boðstólum.

Það hafði greinilega verið verslað vel af hrisgrjónum um helgina.  Þegar spáð er skorti og fjölmiðlar hamra á því aukast líkurnar á skorti verulega.  Konan á kassanum sagði þegar ég minntist á þetta við hana að allir væru að kaupa hrísgjrón og veitingahúsaeigendur keyptu "vagnhlöss" af hrísgrjónum. 

En það er eitthvað sem stemmir ekki í þeirri mynd sem blasti við mér þegar ég gekk um verslunina. 

Hrísgrjón sem kosta u.þ.b. dollar kílóið (plús mínus eftir ætt og uppruna) hækka sem óðfluga og eru rifin út.  Mér sýndist að nokkuð rösklega hefði verið keypt af hveiti sömuleiðis.

En kjöt liggur í bunkum í frystum og kæliskistum og kosta minna en oftast áður.  Lambalærið á 6.59 dollara kílóið og svínalundir á 6.99 dollara.  Af því kaupir enginn meira en hann þarf.  Enda ekki búið að spá hallæri á kjöti.

Egg (sem hraustir Kanadabúar borða jafnvel linsoðin) má ennþá fá fyrir u.þb. tvo og hálfan dollar 18 stykki, og kjúklingur er á lágu verði.

En sjálfsagt verð ég að fara að losa hillu í kjallaranum og fylla hana af hrísgrjónum og hveiti.  Maður verður jú að taka þátt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband