Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Ekki gefið að niðurstaða fáist

Það voru margir sem fögnuðu fyrirhuguðum fríverslunarsamningi á milli Bandaríkjanna og "Sambandsins".  Enda engin ástæða til annars.

En það er heldur engin ástæða til að ætla að það verði auðvelt viðfangsefni, eða að það taki stuttan tíma.  Það er meira að segja engin ástæða til þess að gefa sér að niðurstaða fáist.  Ekki frekar en í nokkrum öðrum samningaviðræðum.

En það er sjálfsagt að vona það besta.  En líklega koma æ fleiri skilyrði upp á borðið.  Það er heldur ekki ólíklegt að Frakklanda verði þar í fararbroddi.

Það þarf ekki flókin útreikning til þess að sjá að ef hvert ríki "Sambandsins" kæmi með nokkur af sínum "hagsmunamálum" eins og Frakkland, er óþarfi að hefja umræðurnar.

Hvað þá ef ríki Bandaríkjanna færu að koma með álíka kröfur.

Fríverslunarsamningar á milli stórra aðila eru  eðlilega gríðarlega flóknir, og enn flóknari vegna uppbyggingar nútíma viðskipta og iðnaðar.  

Fríverslunarsamningur á milli Kanada og "Sambandsins" hefur verið býsna lengi í vinnslu.  Enn stendur ýmislegt út af borðinu.  Meðal annars hafa viðskipti með bíla verið deiluefni.  Ekki hvað síst eftir því sem heyrst hefur, hvenær bíll er Kanadísk framleiðsla og hvenær ekki.

Ennfremur eru viðskipti með bæði nautakjöt og  svínakjöt deiluefni (hljómar kunnuglega, eða hvað?), Ekki hefur heldur náðst samkomulag um fjármálaþjónustu og lyf (þar hefur Kanada ekki viljað fallast á kröfur "Sambandsins um lengingu á "patentum" lyfjafyrirtækja).

Nú eru tvíhliða fríversunarsamningar aftur uppi á borðum um allan heim.

Það er tvímælalaust tækifæri fyrir ríki eins og Ísland.  Fríverslundarsamningurinn við Kína er góð byrjun og nú ættu Íslensk stjórnvöld að marka stefnuna fram á við.  Ekki loka sig inni í stóru bandalagi eins og "Sambandinu".

P.S.  Þess má geta hér að Ísland hefur hefur í nokkur ár haft fríverslunarsamning við Kanada i gegnum EFTA 

 


mbl.is Fleiri frönsk skilyrði fyrir fríverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sitja og standa við borðið - eins og þeim er sagt

Auðvitað hefur Kýpur "sæti við borðið".  Þar sitja þeir og standa eins og þeim er sagt, eða fara ella. Auðvitað er öllum það ljóst (sem vilja vera það ljóst) að hagsmunir smáríkis eins og Kýpur eru ekki teknir framyfir hagsmuni stærri þjóða, Eurosvæðisins, eða "Sambandsins" alls.

Er það ekki það sem eðlilegt má teljast?

Vissulega.  Það er ekkert óeðlilegt við að hagsmunir þeirra stærri njóti forgangs.  Að hagsmunir margra séu teknir framyfir hagsmuni færri.

Og það er einmitt það sem gerir það svo hættulegt fyrir smáa aðila að leggja hagsmuni sína í "púkk" með stærri aðilum.

Því eins og gamla máltækið segir:  Ríki eiga ekki vini, þau eiga hagsmuni.

Þessu eru Kýpurbúar að kynnast nú, eins og margir aðrir á undan þeim.

Þegar glatt er á hjalla og vín glóir á skál, eru haldnar ræður um áhrif og völd smáríkja innan "Sambandsins".

En þegar vandræðin hellast yfir og fátt er til bjargar, komast smáríkin að þau eru lokuð inn í hálfbyggðu eurohúsinu og eiga fárra kosta völ.

Nema að sitja þæg og undirgefin við borðið. 

 

 

 


mbl.is Segir Kýpur hafa verið beitt þvingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstaðan við euroið vex

Þó að vissulega sé það langt í frá ávísun á árangur í kosningum í haust, að njóta fylgis í skoðanakönnunum að vori, er ástæða til að fagna góðu gengi AfD.

Það er ekki síst vegna þess að þetta stórmerkilega framboð kemur til með að draga athygli að vanda eurosins og auka umræður um þann vanda og hvað leiðir Þýskir stjórnmálamenn hyggjast velja til lausnar.

Velgengni AfD setur pressu á aðra stjórnmálaflokka og málefni eurosins gætu hæglega orðið fyrirferðarmeiri í kosningabaráttunni en ella.

Eitt af meginstefnumálum AfD er leysa upp Eurosvæðið með skipulegum hætti.

Þannig vex andstaðan og efasemdirnar um euroið - líka í Þýskalandi.

 

 


mbl.is Þýskir evruandstæðingar með 19% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ná Íslendingar samningi við Evrópusambandið?

Fyrir síðustu kosningar fyllyrtu margir Íslenskir "Sambandssinnar" að mögulegt væri að kjósa um aðild Íslands að "Sambandinu" á því kjörtímabili sem líkur eftir örfáa daga.

Þeir fullyrtu að aðildarviðræður yrðu kláraðar á 18 mánuðum, eða í versta falli á rétt ríflega 2. árum.  Alla vegna yrði ekki kosið seinna en árið 2012.

Við vitum að þetta var ekki rétt.

En það stoppar ekki "Sambandssinna" að koma aftur með svipaðar fullyrðingar.  Nú fullyrða þeir margir að ekkert mál sé að klára samninga á innan við eða rétt um ári.

Er ástæða til að trúa þeim?

Ég segi nei.  Hvers vegna?

Vegna þess m.a. að það er ekki búið að opna mikilvægasta kaflann.  Kaflann um sjávarútvegsmál.  Ég veit ekki einu sinni til þess að búið sé að leggja fram samningsafstöðu Íslendinga.  Líklega hefur Samfylkingu og Vinstri grænum þótt það of viðkvæmt mál til þess að leggja það fram fyrir kosningar.

Vegna þess að það erheldur ekki búið að opna landbúnaðarkaflann.

Vegna þess að aðalsamningamaður Íslands lét hafa það eftir sér að viðræðurnar yrðu vel á veg komnar árið 2015.  Er þá líklegt að það náist að klára samningana á 1. ári?

Vegna þess að nýlega heyrði ég Össur Skarphéðinsson fullyrða í viðtali að makríldeilan hefði komið í veg fyrir að sjávarútvegskaflinn væri opnaður.   

Eru samningar í makríldeilunni alveg að nást?  Ekkert hefur heyrst um það frá ríkisstjórninni.  Við skulum alla vegna vona að við fáum ekki að heyra af "glæsilegri niðurstöðu" þess samningaferlis fáum dögum eftir kosningasr.

Hann segir líka að hann eigi von á því að þegar Ísland gangi í Evrópusambandið verði komin fríverslunarsamningur á milli "Sambandsins" og Kina.  Á einhver von á því að það gerist innan árs? 

Vegna þess að ef fast er haldið um hagsmuni Íslands, er engan veginn víst að nokkur samningur náist.

Þess vegna skora ég á kjósendur að láta ekki "Sambandssinna" komast upp með blekkingar af þessu tagi tvennar kosningar í röð.

Þess vegna er áríðandi að gefa ekki þeim stjórnmálaflokkum sem berjast fyrir "Sambandsaðild" atkvæði á laugardaginn.

Örvænting "Sambandssinna" er að verða augljós.  Margir þeirra eru tilbúnir að seja hvað sem er í þeirri von að blekkja megi kjósendur og viðræður haldi áfram.

En við eigum ekki að láta þá blekkja okkur.

 


Hagvöxturinn, atvinnuleysið, krónan og "Sambandið".

Það hefur mikið og margt verið rætt um krónuna, gengisfall hennar, hagvöxtinn, atvinnuleysið og Evrópusambandsaðild á undanförnum árum.

Núna er líka mikið í umræðunni hjá "stjórnarliðum" árangur þeirra í baráttunni við atvinnuleysi og árangur þeirra við að ná upp hagvexti.

En skyldi sá árangur hafa verið jafn mikill ef Ísland væri í "Sambandinu" eins og Samfylkingu og Vinstri græn dreymir um?   Hefði hagvöxturinn verið minni ef Ísland væri í  "Sambandinu"?  Hefði atvinnuleysi náð sömu hæðum á Íslandi og í þeim ríkum "Sambandsins" sem hafa lent í erfiðleikum, ef Ísland væri nú þegar meðlimur "Sambandsins"?

Það er að sjálfsögðu ekki til einhlýt svör við jafn stórum spurningum.

En lítum á atvinnuleysið.  Það er staðreynd að atvinnleysi í þeim euroríkjum sem hafa lent í erfiðleikum hefur verið mikið hærra en á Íslandi.  Hæst náði atvinnuleysi á Íslandi ekki meðaltali, hvorki hjá euroríkjunum, eða "Sambandinu" í heild.

En oft heyrist sú fullyrðing, að gengissig hafi lítið hjálpað.  Það hjálpi ekki til við að veiða meiri fisk, eða framleiða meira ál, sem eru jú tvær af stærstu útflutningsgreinum Íslendinga.

Það er rétt.  Eins langt og það nær. En þó að útflutningur sé mikilvægur, er hann ekki það eina sem skiptir máli.  Það skiptir líka máli það sem er framleitt innanlands, og samkeppnishæfi þess skiptir máli.

Það skiptir líka máli það sem við flytjum ekki inn.

Að frátöldum sjávarútvegi og áliðnaði, skipti ferðamannaþjónusta Íslendinga miklu máli, ekki síst þegar kreppti að.  Þar átti auðvitað krónan gríðarstóran þátt.  Þegar Ísland varð ódýrari valkostur, sáu mun fleiri sér fært að ferðast til Íslands.

En það er fleira sem krónan átti þátt í.

Þegar erlend kvikmyndafyrirtæki ákveða hvar myndir séu teknar upp skiptir kostnaður höfuðmáli.  Engin mynd hlýtur (enn að minnst kosti) meiri aðsókn þó að hún sé að hluta til tekin upp á Íslandi.  Gengisfall krónunar á líklega meiri hlutdeild í komu erlendra kvikmyndafyrirtækja en endurgreiðsluprógram stjórnvalda (þó ég geri ekki lítið úr því).  Saman vinna þau vel.

Skyldi gengisfall krónunnar hafa styrkt Íslenska sælgætisframleiðendur í samkeppni sinni við innflutning?

Skyldi gengisfall krónunnar hafa auðveldað Íslenskum bjórframleiðendum að keppa við erlenda starfsbræður sína? (og gert þeim kleyft að flytja örlítið út).

Skyldi  lækkandi gengi krónunnar hafa gert Íslenskum hönnuðum auðveldara að starfa? Þar á meðal gert þeim auðveldara með að ná til þess sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland?

Skyldi gengisfall krónunnar hafa auðveldað Íslenskum húsgagna og innréttingaframleiðendum að standast samkeppni?

Skyldi Íslenskur matvælaiðnaður eiga auðveldara með að standa sig í samkepnninni eftir að gengisfall krónunnar kom til sögunnar?

Þetta eru bara nokkur dæmi.  Áhrif gengis hefur áhrif yfir allt þjóðfélagið, bæði til góðs og ills.  Auðvitað vilja allir aukin stöðugleika, en stöðugleiki gengisins tryggir ekki stöðugleika á öðrum sviðum.  Stöðugleiki gengis tryggir ekki atvinnu, ekki húsnæðisverð, ekki kaupmátt.  Ekki hlutfall launa og lána. Ekki vaxtastig. 

Þessu hafa þær euroþjóðir sem lent hafa í efnahagserfiðleikum kynnst af eigin raun.  Það eina sem euroið hefur tryggt þeim er að íbúar þeirra hafa (að Kýpur undanskildu) getað flutt fjármuni sína úr landi, án þess að bera skarðan hlut frá borði.

Hvað skyldi gengisfall krónunnar hafa gert það að verkum að margir héldu vinnu á Íslandi undanfarin ár? 

Skyldu hagfræðingar ASÍ, hafa reynt að reikna það út?

Hvað skyldi gengisfall krónunnar hafa lagt mikið til þess hagvaxtar sem þó varð á Íslandi undanfarin ár? 

Skyldu spunameistarar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa reynt að reikna það út?

Og af því að við erum að tala um hagvöxtinn.  Hvað skyldu þeir 60 milljarðar sem útflutningur á makríl færði Íslendingum hafa átt mikinn þátt í hagvextinum?

Skyldu spunameistarar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa reynt að reikna það út?

Skyldu einhver hafa reiknað það út hve mikið sjálfstæður gjaldmiðll og full yfirráð fyir fiskveiðilögunni hafa skapað miklar tekjur fyrir Íslendinga undanfarin ár? 

Vilja Samfylkingarmenn og Vinstri græn reyna að giska á það hvað Íslendingar hefðu fengið mikinn makrílkvóta ef Ísland væri meðlimur Evrópusambandsins eins og þeir stefna að?

Það er ekki að undra þó að Samfylkingunni og Vinstri grænum gangi illa að fóta sig í kosningabaráttunni.  

 

 


Það er hægt að taka undir með Ögmundi

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að kosningabarátta færist niður á "persónulegt" plan, og fari að snúast um eitthvað annað en málefnin.

En það er fyllsta ástæða til þess að taka undir með Ögmundi og hvetja hlutaðeigandi til að láta af þessu.

Það er af nógu öðru að taka í kosningabaráttunni.

Reyndar er það tvíeggjað sverð að beita slíkri taktík, hún getur auðveldlega snúist í höndunum á þeim sem henni beita.  Fært þeim sem verða fyrir perónulegum árásum samúð og stuðning.

En það er líka áríðandi fyrir stjórnmálamenn sem verða fyrir slíkum árásum að sætta sig við það.

Sumir kjósa einfaldlega að halda sig í aurnum.  Þó að á einhvern slettist eitthvað af þeim aur sem þeir dreifa, borgar sig aldrei að stökkva niður í aurinn til þeirra. 


mbl.is Ögmundur: Ekki sæmandi kosningabarátta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grikkir Evrópusambandsins

Það hefur oft verið rætt um hve mikið krónan og gengisfall hennar hefur kostað Íslendinga.  Margir tala um að nauðsyn þess að skipta um gjaldmiðl til þess að stemma stigu við því.

En það er gömul saga og ný, að þegar áföll skella yfir verður eitthvað undan að láta.  Ef ekki gengið þá eitthvað annað.

Hvað er þá eitthvað annað?

Atvinnuleysi, laun og kaupmáttur, húsnæðisverð o.s.frv.

Hér er frétt af vefsvæði Vísis.  Þar er talað um  að ráðstöfunartekjur Grikkja hafi lækkað um u.þ.b. 30%.  Flestir vita að atvinnuleysi í Grikklandi er um og yfir 26%. Húsnæðisverð í Grikklandi hefur lækkað um 35 til 50%, og markaðurinn hefur skroppið saman um 95%.

En það verður auðvitað ekki á móti mælt að að gjaldmiðill Grikkja hefur verið nokkuð stöðugur.

Sjálfsagt geta bæði inn og útflytjendur gert áætlanir langt fram í tímann, gjaldmiðilsins vegna, en samt vegnar þeim ekki vel.

Stöðugur gjaldmiðill hefur ekki tryggt stöðugt þjóðfélag eða umhverfi.

Það hefur ekki tryggt eiginfjár eign í fasteignum.  Það hefur ekki tryggt kaupmátt.  Það hefur ekki trygt atvinnu.

En það verður ekki á móti því mælt að þeir sem eiga fjármagn hafa það tryggt.  "Gríska euroið" er enn jafn verðmætt í Brussel, Berlín, London eða Sviss.

Er það stöðugleikinn sem allir eru að leita eftir?

Eða eru það grikkir eurosins?

 


Hvaða setning er það sem allir í Evrópusambandinu óttast að heyra?

Rakst á þennan litla brandara á netinu nýlega.  Þó að vissulega sé þetta gamanmál, er það eins og oft áður að öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Hvaða setning er það sem allir í Evrópusambandinu óttast að heyra?

Góðan daginn, við komum frá Evrópusambandinu til að hjálpa ykkur.


Mismunandi tölur, sömu meginlínur

Enn ein könnunin, þær koma ört þessa dagana.  Engin þeirra hefur sömu tölur, en þær sýna sömu meginlínur.  Það er helst könnun MMR sem sker sig úr að því marki að þar hefur Sjálfstæðiflokkurinn farið yfir Framsóknarflokkinn og er orðinn stærsti flokkurinn, en hinar kannanirnar sýna sömu þróun, en mun hægari.

En hvaða tölur eru réttar?

Um það er auðvitað engin leið að fullyrða.  En meginlínan í öllum þessum könnunum er að fylgið er að leita "heim".  

Frá Framsóknarflokki til Sjálfstæðisflokks, frá Bjartri framtíð til Samfylkingar og að öllum líkindum frá smærri framboðum til þeirra stærri, þó líklega mest ríkisstjórnarflokkana.

Nokkur óvissa er í kringum Pírata sem virðast halda sínu fylgi nokkuð og auka það í sumum könnunum.

Spurningin er hvort að þessi þróun mun halda áfram alveg fram að kjördag?

Það er ljóst að spennan er svo sannarlega til staðar og úrslitin svo langt í frá að vera augljós.

En Framsóknarmenn hafa sigurinn í seilingarfjarlægð, þó að hann líti út fyrir að verða minni en kannanir sýndu áður. Ég hugsa líka að þessar kannanir hafi gert kraftaverk fyrir stemminguna hjá Sjálfstæðisflokknum og kveikt aftur vonina hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Það getur skipt miklu máli á endasprettinum.

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur sækir á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eurokrísa að eilífu?

Það eru endalausar fréttir af eurokrísunni.  Þessari krísu sem skýtur upp kollinum jafnharðan og frammámenn í "Sambandinu" og Össur Skarphéðinsson lýsa því yfir að hún sé leyst.

En nú er eurokrísan búin að standa í að verða 5 ár.  Seðlabankastjóri Þýskaland talar um að hún eigi líklega eftir að standa í áratug til viðbótar.

Hvað verður svo upp á teningnum eftir áratug veit auðvitað engin, en spár fyrir næstu ár benda ekki til uppsveiflu, né sú staðreynd að hagvaxtarspár fyrir "Sambandið" og Eurosvæðið hafa haft tilhneygingu til þess að síga jafnt og þétt.

Enda þarf ekki mikið til að skapa óróa.

Sú sjálfsagða ákvörðun að þing Kýpur greiði atkvæði um þær björgunaraðgerðir sem fyrirhugaðar eru, er nóg til þess að skjálfta verður vart hér og þar.

Ekkert bendir til þess að viðsnúningur sé framundan hjá Spánverjum, Portúgölum, Grikkjum, eða Kýpurbúum.  Stjórnarkreppa ríkir á Ítalíu og margir velta því fyrir sér hvaða euroríki þurfi næst á aðstoð að halda.

Frakkland horfist í augu við mesta niðurskurð frá stríðslokum.

Þó að Seðlabanki Eurosvæðisins, ráðherraráðið og Eurohópurinn telji sig sá þess skýr merki að aðgerðir þeirra séu að virka, eru um það skiptar skoðanir.  Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tók ekki beint undir það og sagði ástandið a Eurosvæðinu ógna stöðugleika í heiminum.

Margir segja frammámenn Eurohópsins og "Sambandsins" fulla af sjálfsánægju og sjálfsblekkingu og þeir geri sér ekki grein fyrir því  hvernig ástandið er.  Og það sem verra er, fáu eða engu sem þeir segi sé treystandi.

Og vissulega eru viðbrögðin sem sýnd voru við erfiðleikunum á Kýpur ekki uppörvandi.  Það var engu líkara en leiðtogar "Sambandsins" gerðu sér enga grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja, eða hvaða afleiðingar það kynni að hafa.

Það má færa góð rök fyrir því að hefði þing Kýpur ekki fellt fyrsta "samninginn" hefðu afleiðingarnar orðið skelfilegar.

Að leggja skatt á allar innistæður, jafnt undir tryggingarmörkum sem yfir, og gera engan greinarmun á því hvort að bankar væru í vandræðum eður ei, er einfaldlega skelfileg aðgerð.

En hvort að eurokrísan varir að "eilífu", eða einungis í tíu ár er erfitt að spá um.  En útlitið gefur enga ástæðu til bjartsýni.

 


mbl.is Evrukrísan í gangi næsta áratuginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband