Er ekki annað hvort Össur eða Steingrímur J. að segja ósatt?

Í raun er ekkert málefni í komandi kosningum mikilvægara en afstaðan til Everópusambandsins. Þó einhver málefni kunni að þykja mikilvægari á styttri tíma mælikvarða, er ekkert sem skiptir Íslendinga meira máli þegar til lengri tíma er litið.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að skiptar skoðanir séu um málið, en nauðsynlegt að það sé rætt af hreinskilni og sem mestar og réttastar upplýsingar séu á boðstólum fyrir almenning.

Að ýmsu leiti má segja að þar vanti upp á. Vissulega getur hver og einn farið og leitað sér upplýsinga, en fæstir hafa þó tíma til þess. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem starfa við það að afla upplýsinga og mynda sér skoðun (s.s. alþingismenn) geri það af einurð og miðli upplýsingum með sannleika og hreinskilni að leiðarljósi.

Það vantar þó mikið upp á þar, og ekki síst í kringum þar aðlögunarviðræður sem þegar hafa farið fram. Enginn þátttakandi þar hefur gert neina þá tilraun sem ég hef orðið var við, til að upplýsa almenning um framgang viðræðnanna. Allra síst um hvers vegna þær sigldu í strand.

En þegar ég gaf mér tíma til þess að horfa á umræðuþátt RUV um utanríkismál, vakti það mikla athygli mína að Össur Skarphéðinsson talaði á þann veg að Ísland hefði verið hársbreidd frá því að ná "glæsilegri" niðurstöðu í kaflanum um sjávarútvegsmál, þegar viðræðum við "Sambandið" var frestað í janúar 2013. Umræðan um "Sambandið" hefst þegar u.þ.b. 32:30 min eru liðnar af þættinum).

Þetta stangast á við allt sem ég hef áður heyrt og lesið.

Ég hef engan heyrt segja að "sést hafi til lands" í sjávarútvegsmálum og hyllt hafi undir "glæsilega niðurstöðu".

15. janúrar 2013 sagði Össur Skarphéðinsson í samtali við Morgunblaðið:

Ég tel til dæmis að það sé lýðræðislegt af okkar hálfu að búa svo um þetta mál að ný ríkisstjórn geti sett mark, ekki bara á framvindu málsins, heldur sérstaklega á samningsafstöðuna í þeim tveimur málaflokkum sem eru langmikilvægastir,“

Þá talar hann um að ekki einu sinni samningsafstaðan sé að fullu ákveðin.  Þegar spólað er næstum fjögur ár fram í tímann, lá við að niðurstaða væri fengin, þrátt fyrir að engar viðræður hafi farið fram í millitíðinni.

Í frétt Morgunblaðsins stóð ennfremur:

Í samtali við mbl.is sagði Össur þetta ekki vonbrigði fyrir Samfylkinguna, enda hefði alltaf verið rætt um að hægja á ferlinu í kringum kosningarnar. Hann leyndi hins vegar ekki vonbrigðum með hvernig sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin hefðu farið. Heimatilbúinn vandi hefði tafið för í landbúnaði og makríldeilan átt sinn þátt í að tefja sjávarútveginn.

Í þingræðu sagði Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Mitt mat var það að á árinu 2012, a.m.k. langt fram eftir því ári, voru engin þau tímamót uppi sem kölluðu á að endurskoða viðræðurnar, hvað þá slíta þeim. Það var m.a. þannig að allt það ár fram á haust bundu menn vonir við að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Eitt af mínum fyrstu verkum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2012 var einmitt að fara til Brussel og leggja ekki síst áherslu á það að Evrópusambandið drifi sig í að leggja fram rýniskýrslu sína þannig að við gætum farið í að ræða sjávarútvegsmálin eða sjá a.m.k. á spil Evrópusambandsins í því. Það var ekkert nýtt af okkar hálfu. Við höfðum lagt á það mikla áherslu. Í raun og veru er það sem er grætilegt eftir á að hyggja að okkur skyldi ekki takast að koma sjávarútvegskaflanum og eftir atvikum landbúnaðar- og dýraheilbrigðisköflunum lengra áfram þannig að við sæjum eitthvað meira hvar við stæðum í þeim efnum. Ég var og er mjög spenntur fyrir því að sjá það. Það er í sjálfu sér það sem eftir er til að við fáum einhverja mynd af því í hve ríkum mæli eða hvort Evrópusambandið býður upp á einhverjar þær sérlausnir fyrir okkur í þessum efnum sem gætu verið athugunarvirði.

Það voru að mínu mati engin tilefni til að gera brot í þetta ferli á árinu 2012 fyrr en leið að lokum þess og eftir ríkjaráðstefnuna í desembermánuði. Þá var orðið ljóst að við yrðum engu nær þegar kæmi að kosningunum enda biðum við átekta fram yfir ríkjaráðstefnuna í desember. Í beinu framhaldi af því tóku stjórnarflokkarnir að ræða saman um að úr því sem komið væri yrði að horfast í augu við að mikið meira mundi ekki gerast í þessu ferli fyrir kosningar. Þá væri lýðræðislegast að hægja á því (Forseti hringir.) og láta næsta kjörtímabil um að takast á við framhaldið.

Sem sagt, beðið var eftir og vonir stóðu til að að sjávarútvegskaflinn opnaðist. Vonast var eftir að "Sambandið" legði fram rýniskýrslu.

Ekkert hafði í raun gerst í hvað varðar sjávarútvegsmálin.

En í október 2016 talar Össur eins og aðeins hafi vantað herslumuninn á því að "glæsileg niðurstaða" kæmi í sjávarútvegskaflann og "sést hafi til lands".

En þeir geta ekki báðir verið að segja satt Steingrímur J. og Össur.

Annar hvor hlýtur að vera að ljúga.

Reyndar ber Steingrími J. ágætlega saman við Össur árið 2013.  Það er aðeins Össur árið 2016 sem kemst að allt annari niðurstöðu.  Því liggur því beinast við að álykta að Össur sé ósannindamaðurinn.

Nema auðvitað að Össur hafi staðið í samningaviðræðum á bak við Steingrím.

En því miður var því sem næst allt viðræðuferlið á þessa lund. Samfylkingin keyrði upp einhverja óútskýranlega bjartsýni og virtist segja því sem næst hvað sem er, bara að viðræðurnar gætu haldið áfram og áfram væri hægt að blekkja kjósendur.

Aldrei hefur verið rætt hreinskilnislega um hvers vegna viðræðurnar sigldu í strand, og enginn er krafinn svara um hvernig þeir hafi hugsað sér að taka upp þráðinn á ný.

Enn og aftur er meginþráðurinn óhófleg bjartsýni Samfylkingar og trú á "töfralausnina", enn á ný skiptir raunveruleikinn engu máli.

Nú berst "olíumálaráðherrann" fyrrverandi fyrir pólítísku lífi sínu og allt er leyfilegt.  Líka að segja að sjávarútvegskaflinn hafi verið á "síðustu metrunum" og stefnt hafi í "glæsilega niðurstöðu".

Það er óskandi að kjósendur sýni það á morgun, svart á hvítu hvað þeim finnst um slíkan málflutning.

P.S. Hér að neðan er svo stutt myndband, þar sem þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins tekur Össur í stutta kennslustund um hvernig aðlögunarviðræðurnar virka.

Þetta telst líklega vera "klassík".

 

 


Vinstri flokkarnir boða leið franskra sósíalista

Það er líklega ekki seinna vænna fyrir íslensku vinstriflokkana að taka up leið franskra sósíalista hvað varðar 35 stunda vinnuviku.

Því meira að segja franskir sósíalsistar eru að gefast upp á þessu baráttumáli sínu.

Það hefur einfaldlega ekki virkað.

Stytting vinnuuvikunnar átti að draga úr atvinnuleysi (er þörf fyrir það á Íslandi) og "dreifa" störfum á meðal launþega.

En eins og flestir vita er atvinnuleysi í Frakklandi í kringum 10% og hefur verið það lengi. (Atvinnuleysi dróst þó saman stuttu eftir innleiðingu 35 stunda vikunnar árið 2000, en þá voru sömuleiðis betri tímar (um skamma hríð í efnahagnum).

Nú vilja Frakkar frekar láta það eftir aðilum vinnumarkaðarins að semja sín á milli um vinnutíma og hafa hann jafnvel mismunandi eftir fyrirtækjum og starfsstéttum.

En Íslenskir sósíalistar eru oft dulítið á eftir "kúrfunni".

Þess má svo til gamans geta að skoðanakannanir benda til þess að Hollande sé nokkurn veginn eini sósíalistinn í Evrópu sem nýtur minni stuðnings en Samfylkingin, en samkvæmt nýjustu könnunum eru 4% Frakka ánægðir með hann sem forseta.

Spurning er hvort að Samfylkingin geti gert betur en það á kjördag?

 

 


mbl.is Styttri vinnuvika innan seilingar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir segja að maðurinn lifi ekki af geimvísundunum einum saman

Margt skondið gerist jafnan í kosningabaráttu, en ég held að þetta sé það fyndnasta sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.

Það er einfaldlega ekki hægt að búa þetta til, eins og maðurinn sagði, þetta gerist bara í raunveruleikanum.

Vissulega er það ágætt að Ísland taki þátt í geimvísindaáætlun, en sem vinnumarkaðsstefnu er það frekar þunnur þrettándi.

Eiginlega ekki boðlegt.

En hvað lengi telja Píratar sig geta boða að þeir hafi enga stefnu og hafi engan tíma til þess að setja sig inn í málin?

Þingmenn þeirra hafa verið á launum hjá þjóðinni í næstum 4. ár við að mynda sér skoðun og stefnu.

Einn þingmanna þeirra hefur verið á launum við það í næstum 8 ár.

Þeir stæra sig af því að þeir hafi fjöldan allan af meðlimum, virkt spjall og þar fram eftir götunum.

En stefnan er engin í mörgum málaflokkum.

Það veit engin hver er stefna Pírata í vinnumarkaðsmálum, landbúnaðarmálum, hvort þeir vilja að Ísland eigi að vera í NATO og svo má lengi telja.

Eins og Ólafur Ragnar Hannesson sagði, "þetta eru engin geimvísindi".

En það þarf að hafa stefnu og það þarf að taka afstöðu.

Það er engin þörf á þingmönnum sem sitja hjá oftar en ekki.

P.S. Misritunin í fyrirsögninni er með vilja.

 

 


Voru það pólítísk mistök að láta sannleikann koma í ljós?

Nú þegar flestar skoðanakannanir sýna að vinstri VASP stjórn nýtur annaðhvort mjög tæps meirihluta þingmanna, eða jafnvel nær ekki meirihluta, tala margir um að það hafi verið mistök fyrir "fjórflokkinn" (VASP) að ræða saman. 

Það hafi dregið frá þeim fylgi að kjósendur horfðust í augu við vinstristjórn. 

Ef til vill er það rétt.

En hvað annað væri í stöðunni ef þessir fjórir flokkar stjórnarandstöðunnar næðu þokkalegum meirihluta?  Er það pólítísk mistök að staðfesta það sem þó blasir við öllum?

Eru það pólítísk mistök að sannleikurinn blasi við?

En það er ekki ólíklegt að margur hugsi sig um tvisvar þegar vinstristjórn blasir við.

Staðreyndin er sú að lang mestar líkur eru á vinstri stjórn eftir komandi kosningar. Því Viðreisn er sömuleiðis líklegust til að mynda stjórn til vinstri. Sú staðreynd blasir við öllum sem hlustaða hafa á yfirlýsingar forystumanna. Það er líka öllum ljós sú staðreynd að það er til vinstri sem Viðreisn getur látið drauma sína um "Sambandsaðild" mjakast áfram.

Eini möguleikinn sem kemur í veg fyrir myndun vinstristjórnar er að Sjálfstæðisflokkurinn styrki stöðu sína enn frekar, eins og hann er að gera í flestum könnunum.

En hins vegar myndi ég ekki taka undir þá skilgreiningu blaðamanns mbl.is, um að Viðreisn sé í raun í lykilstöðu.  Það tel ég óskhyggju blaðamanns.

Það er alger miskilningur að á ferðinni séu tvær "blokkir" með Viðreisn á miðjunni, þ.e.a.s. ef VASP nær ekki meirihluta.

Enginn VASP flokkanna mun telja sig (að mínu áliti) bundna því samstarfi hafi flokkarnir minnihluta og 5 flokka stjórn með Viðreisn mun sjálfsagt koma til greina, en alls ekki vera bindandi val.

Það eina sem má líklega fullyrða ef að nákvæmlega þessi niðurstaða yrði raunin, væri að stjórnarmyndun yrði erfið.

En það sem verður líklega hvað mest spennandi á kosninganótt, ef marka má skoðanakannanir, er hvort að Samfylkingin eða Björt framtíð falli út af þingi, eða nái ekki uppbótarþingmönnum,  annað hvor flokkurinn eða báðir.

En slíkt myndi auðvitað gjörbreyta stöðunni.


mbl.is Ný könnun sýnir Viðreisn í lykilstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruddaskapur eða spilling

Ég held að fátt ef nokkuð geti komið í veg fyrir að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Í raun eru það all nokkur tíðindi. Ekki aðeins verður hún (ef eftir gengur) fyrsta konan til að gegna þessu "valdamesta embætti" heims, heldur verður hún einnig fyrsti maki fyrrverandi Bandaríkjaforseta til þess að gegna embættinu.

En ég get tekið undir með þeim mörgu sem segja að Bandaríkjamenn standi frammi fyrir tveimur miður góðum kostum.

Annars vegar er það Trump, í raun óþarfi að fara mörgum orðum um hann, með sinni ruddalegu framkomu og innihaldslitlum eða -lausum fullyrðingum.

Hins vegar er það Hillary Clinton, sem ásamt eiginmanni sínum - fyrrverandi forseta virðist hafa tekist að taka stjórnmálaþátttöku sína upp á þær "fjárplógshæðir" að ekki má finna sambærileg dæmi nema hjá vanþróuðum þjóðum og einvöldum (Verkamanna leiðtoginn Tony Blair kemur þó stuttlega upp í hugann).

En þó að kostirnir séu ekki góðir, eru kosningarnar á ýmsan hátt athygliverðar. Á meðal þess sem hefur vakið athygli mína er:

Eins og víða annars staðar snúast kosningarnar að þó nokkru leyti um að kjósendur eru búnir að fá yfir sig nóg af "kerfinu".  Það er þess vegna sem Trump hefur þó haldið því fylgi sem hann hefur.  Það má auðveldlega halda því fram að Hillary Clinton ætti í mun meiri erfiðleikum í að sigra "utan kerfis mann" sem hegðaði sér með hefðbundnari hætti en fyrrverandi demókratinn Donald Trump. Spurning hvort að hún myndi ná að gera það.

Enginn hefur minnstu áhyggjur af því að annar frambjóðandinn hafi úr mun meira fé að spila. Enginn hefur áhyggjur að "fjármagnið" ráði hver sigrar.  Í þetta skiptið hefur "rétti" frambjóðandinn meira fé.

Enginn hefur af því áhyggjur að "Wall Street" fylki sér því sem næst sem einn maður að baki öðrum frambjóðandanum. "Wall Street" er núna með "the good guys".

Wikileaks, sem hefur verið eins og "lýsandi viti" fyrir hinn "frjálslynda heim", er nú "handbendi Rússa". Lekar eiga ekkert erindi til almennings ef þeir hjálpa "vondu köllunum".

Það má svo líklega velta því fyrir sér hversu mikinn þátt "pressan" sem á svo erfitt með að skilja Trump nú, á í að koma honum þangað sem hann er. Líklega hafði enginn frambjóðandi í forkosningum Rúpúblikana jafn góðan aðgang að fjölmiðlum, enda skapaði hann drjúgt af fyrirsögnum. "Hefðbundnir" frambjóðendur voru álitnir jafnvel hættulegri ern Trump - þá.

Að mörgu leyti finnst mér gott að þurfa ekki að velja á milli þeirra tveggja, Hillary og Donalds, en ég vona að enginn miskilji þessi skrif mín svo að ég sé fylgjandi Trump. Þyrfti ég að kjósa myndi ég kjósa Clinton.

Því þrátt fyrir allt er minni hætta af spillingu og peningagræðgi, en æðibunugangi, reynsluleysi, lítt hugsuðum breytingum, vanhugsuðum yfirlýsingum, dónaskap í samskiptum ríkja og "fílum í postulínsbúðum".

En það er samt ekki hægt annað en að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að ein af fjölmennari þjóðum heims og sú öflugasta, stendur ekki frammi fyrir betri kostum.

 

P.S. Hér fyrir neðan má finna myndband frá umræðum á Fox síðastliðinn sunnudag.  Hlustið á orð Bob Woodward.

P.S.S. Líklega má halda því fram að helstu "sigurvegarar" kosninganna verði "hakkarar" og sérfræðingar í tölvu öryggismálum. Líklega verður yfirdrifin eftirspurn eftir starfskröftum þeirra í framtíðinni.

 

 

="


mbl.is Clinton hagnaðist um tugi milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband