Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Hver verða örlög Kópaskersbúa með bættu aðgengi að áfengi?

Það er fyllsta ástæða til þess að samgleðjast með Kópaskersbúum, ef þeir fá loksins áfengisverslun í plássið.

En ef marka má rök þeirra sem berjast hvað harðast gegn því að áfengi verði selt utan sérverslana, er þetta hræðilegt fyrir íbúana.

Aðgengi Kópaskersbúa að áfengi stóreykst, og líklega yrði áfengisverslunin í göngufæri fyrir þá alla.

Skyldu Kópaskersbúar hafa velt fyrir sér mótvægisaðgerðum.

En auðvitað gildir eitthvað allt annað um þá sem búa í Kópavogi, en Kópaskeri.  Þar er áfengi og göngufæri hættulegur kokteill (pun intended).


mbl.is Leiðin í vínbúðina styttist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem "vita betur" og stinga höfðinu í sandinn

Sem eðlilegt er hefur sigur svokallaðra "Svíþjóðardemókrata" í nýafstöðunum þingkosningum í Svíþjóð vakið mikla athygli.

Þeir eru orðinn þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn á Sænska þinginu.

Það hefur einnig vakið athygli, að þingmenn þeirra virðast ekki "teljast með" þegar rætt er um stjórnarmyndun.

Hvoru tveggja, sigur "demókratanna" og hunsun hinnn hefðbundnu "valdaflokka", er þróun sem má sjá eiga sér stað víða um Evrópu, ekki síst í Evrópusambandinu.

Að sjálfsögðu er öllum flokkum frjálst að velja sér samstarfsflokka og hafna öðrum, það eru bæði eðlilegar og sjálfsagðar reglur stjórnmála og eftirleikur kosninga í lýðræðisríkjum.

En það sem vekur meiri áhyggjur, eru vaxandi tilhneygingar hinna "hefðbundnu valdaflokka" til þess að hlusta ekki á það sem kjósendur láta í ljósi í kosningum.

Þess vegna vex þeim flokkum sem svo vinsælt er að kalla "öfgaflokka" fiskur um hrygg í svo mörgum Evrópulöndum.

Sívaxandi fjöldi kjósenda finnst sem lítið sé á sig hlustað og ekkert tillit tekið til þeirra mála sem þeim vilji ræða.

Hvort að "Svíþjóðardemókratar" séu öfgaflokkur ætla ég ekki að dæma um, en um það eru vissulega skiptar skoðanir.

Það eitt að vilja draga úr fjölda innflytjenda, eða vera mótsnúinn "Sambandinu", dugar ekki til að stimpla flokka öfgaflokka í mínum huga.

En staðan í Evrópu og ekki síst Evrópusambandinu er erfið og brothætt.  Atvinnuleysi er víða mikið (það er þó ekki svo slæmt í Svíþjóð) og sumstaðar hreint skelfilegt á meðal ungs fólks. 

Fréttir af auknum núningi á milli ólíkra kynþátta eru nokkuð áberandi í fréttum og þúsundir ungra Evrópubúa hafa kosið að gerast sjálfboðaliðar í hernaði í Afríku og Mið austurlöndum undir merkjum trúarhreyfingar.

Margir óttast hvað gerist þegar og ef þetta unga fólk snýr heim.

Vandræðaástand hefur myndast vegna ólöglegra innflytjenda víða í Evrópu, má þar til dæmis nefna Ítalíu og Frakkland, þar sem hálfgert umsátursástand ríkir t.d. í hluta Calais.

Því ætti enginn að undrast að innflytjendamál komi æ meir til umræðu í kosningum í álfunni og þeir sem kjósa að stinga höfðinu í sandinn og tala eins og allt sé eins og best verður á kosið í þeim efnum, eru einfaldlega að senda kjósendur til annarra flokka.

Það sama gildir um umræðuna um Evrópusambandið og euroið.  Það er búið að leysa Eurokreppuna svo oft, að stjórnmálastéttin er búin að gera sig að athlægi.  

Það virkar sérstklega hjákátlega í eyrum þeirra milljóna sem enn eru atvinnulausir og sjá ekki fram á bjartari tíð í þeim efnum.

Það er auðvelt fyrir þá sem "vita betur" en kjósendur hvað þeir þarfnast og eiga að ræða um að stinga höfðinu í sandinn og afgreiða þessa flokka sem lýðskrumara og öfgamenn.

Á meðan stækka flokkarnir kosningar eftir kosningar, rétt eins og er að gerast með "Svíþjóðardemókratana", og er þegar farið að spá þeim meira fylgi í næstu kosningum.

Stjórnmálamenn og flokkar sem ekki hlusta á kjósendur, og tala við þá og til þeirra daga hægt og rólega uppi.

Ef til vill er lausnin að hlusta á pöpulinn, ef til vill er það sem þarf meiri populismi, eða ætti frekar að kalla það pöpulisma?

P.S. Þeir sem hæst tala af fyrirlitningu um populisma ættu ef til vill að "googla" orðiðog lesa um merkingu þess og uppruna.

 

 

 


mbl.is Stórsigur Svíþjóðardemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatturinn hækkar ríflega 50% meira á hina efnamestu, borið saman við hina efnaminnstu

Það er engin leið að ég tel til að halda því fram að virðisaukaskattur sé góður til að jafna tekjumun.  Þó virðast margir standa í þeirri meiningu ef marka má umræður á Íslandi.

Ef marka má það sem kemur fram í fréttinni, eykur það kostnað hinna tekjulægstu um u.þ.b. 33.000, að virðisaukaskattur á matvæli hækki úr 7% í 12.  Það eykur hins vegar kostnað þeirra tekjuhæstu um tæplega 53.000.

Þessi hækkun leggst því mun þyngra á hina tekjuhærri.

Það er því þarft að hefja umræðu um hvort að það megi ekki finna betri leið til að styðja við hina tekjulágu en lágan virðisaukaskatt.

Annar angi af hærri virðisaukaskatti á matvæli, er að ferðamenn, sem auðvitað kaupa meiri matvæli með sívaxandi fjölda þeirra skila þá hærri skatti í ríkiskassann.

Með lækkandi vörugjöldum og lækkun almenns virðisaukaskatts,  verður Íslensk verslun vonandi betur samkeppnishæf við útlönd og flytur verslun heim, ekki er vanþörf á.

Síðan er mikið rætt um þá hættu að lækkun á vörugjöldum og efra þrepi virðisaukaskatts muni ekki skila sér til neytenda.  Vissulega er sú hætta alltaf fyrir hendi.

En ef neytendur og hagsmunasamtök þeirra eru vel á verði, ætti að slíkt að gerast í flestum tilfellum. Fordæmi eru fyrir því.

En, allar skattahækkanir, sérstaklega á virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum, ættu að vera þeim sem þannig hugsa sérstakt íhugunarefni.

Allar slíkar skattahækkanir eru sérstaklega varhugaverðar, ef talið er að slíkt sé í raun óendurkræft.  Rétt er að hafa það í huga, næst þegar rætt er um skattahækkanir.

Vissulega er sinn siður í landi hverju, og víða, t.d. í N-Ameríku tíðkast að matvæli séu undanþegin sölusköttum.  Það er nokkuð sem sjálfsagt er að velta fyrir sér og rökræða.  En eins og kemur fram í fréttinni, kemur það þeim sem kaupa dýr matvæli mest til góða.

En það er öllum hollt að rökræða um skatta, hvernig þeir eru lagðir á, og ekki síður til hvers þeir eru notaðir.

En einföldun skattkerfa er af hinu góða og full þörf að stíga frekari skref í þá átt á Íslandi.  T.d. hefði mátt ganga mun lengra í því að afnema undanþágur frá virðisaukaskatti, og kemur þá sala á veiðileyfum fyrst upp í hugann.

 

 


mbl.is Matarútgjöldin aukast um 42 þúsund á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eistlendingar birta myndband af Eistneskum og Rússneskum landamæravörðum, tekið á staðnum þar sem Kohver var rænt

Eistnesk yfirvöld hafa birt myndband sem tekið er á þeim stað þar sem leyniþjónustumanninum Eston Kohver var rænt.  Myndbandið sýnir Eistneska og Rússneska landamæraverði ganga um svæðið þar sem Kohver var rænt og ræða og meta atburði og safna gögnum og taka myndir.  

Landamæraverðirnir ræða saman á Rússnesku, en myndbandið er með Eistneskum texta.  Það þykir taka af flest ef ekki öll tvímæli um að Kohver var rænt á Eistnesku landsvæði.

Ennfremur hafa Eistnesk yfirvöld birt skjal sem undirritað var af landamæravörðum beggja ríkja stuttu eftir atburðinn, sem og skýringamynd gerða við það tækifæri.

Síðar hafa Rússnesk yfirvöld neitað að staðfesta það sem þar kemur fram og haldið sig við aðra útgáfu af atburðum.

Það er ekki ofsögum sagt að spennan á milli Eistlands og Rússlands hafi ekki verið meiri um langt skeið, en Eistnesk stjórnvöld hafa þó frekar reynt að ganga rólega fram og forðast stóryrði.

En það er þess virði að fylgjast með viðbrögðum forystumanna Evrópusambandsins, nú þegar Rússar hafa tekið með valdi leyniþjónustumann eins af ríkjum þess.

Tímasetningin er athygliverð, rétt eftir heimsókn Obama til Eistlands og stuttu áður en "Sambandsríkin" funduðu um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum.  Sem ríkin deila hart um hvað langt eigi að ganga.

P.S.  Neðar á síðunni með myndbandinu, má sjá frétt Eistneska Ríkisútvarpsins um málið og Postimees er að sjálfsögðu einnig með umfjöllun.

 

 


mbl.is Rússar ákæra Eista fyrir njósnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært

Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.  Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að greitt verði atkvæði um slíkt á Alþingi, þó að í raun sé það líklega ekki lagaleg nauðsyn.

Það er áríðandi fyrir kjósendur að sjá hvernig umræðan verður á þingi og hverjir eru fylgjandi umsókn og aðild og hverjir eru á móti.

Nú eru liðin ríflega 5 ár síðan Alþingi samþykkti umsóknina.  Hún var umdeild og fleiri en einn þingmaður lýsti því yfir að þeir væru á móti aðild Íslands að "Sambandinu", þótt að þeir greiddu atkvæði með þingsályktunartillögu um umsókn.

Það má því leiða sterk rök fyrir því að aldrei hafi verið meirihluti fyrir aðild á Alþingi.

Nú hefur "Sambandið" sjálft lýst því yfir að engin ný aðildarríki verði samþykkt næstu 5 árin.  Það verða því hið minnsta 10 ár á milli umsóknar og því að Ísland ætti kost á aðild.  Líklegt er að tíminn yrði lengri.

Það er því rökrétt að afturkalla umsóknina.  Síðan má sækja um síðar, ef sýnt þykir að Íslenskir kjósendur kalli eftir aðild og fyrir því er traustur þíngmeirihluti.

Þá þarf að undirbyggja og búa umsóknina mun betur úr garði en ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði og reyna að sameina þjóðina að baki henni.  Það yrði líklega best gert með þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin yrði send.  Það eru líklega ein stærstu mistök (af mörgum) ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna að fallast ekki á slíkt fyrirkomulag.

Ísland hefur verið umsóknarríki í 5 ár, og ekkert miðað áleiðis í þeim málaflokkum sem mestu máli skipta.  

Það er mál að linni, drögum aðildarumsóknina til baka.

 


mbl.is Stefnt að afturköllun umsóknarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirburðir verðframsetningar í N-Ameríku

Ég man það enn hvað það fór í taugarnar á mér í fyrstu þegar ég var staddur í landi þar sem flest verð voru gefinn upp án sölu/virðisaukaskatts.

Það var í Frakklandi og á veitingastöðum voru sömuleiðis öll verð gefin upp án "þjónustugjalds", þannig að nokkuð snúið gat verið að reikna út hvað máltíðin myndi kosta, þegar upp væri staðið.  Síðan þurfti auðvitað að reikna með hæfilegu "þjórfé", eða "tipsi".

Síðar vandist ég því í Kanada að því sem næst öll verð voru gefin upp án söluskatts.

Og það var þar sem ég sannfærðist um yfirburði þess kerfis.

Þar gerðist nefnilega sá sjaldgæfi atburður að söluskattur var lækkaður.  Og auðvitað breytti það ekki miklu.  Því sem næst engu auðvitað.

Söluskattur var lækkaður um 1%.

En þar sem verð hafði ávallt verið gefið upp án söluskatts í verslunum, þá breyttist uppgefið verð ekki neitt.  

En "lokaverðið" breyttist auðvitað.  Það lækkaði.

Ef að eitthvað hafði kostað $1.99, þá gat kaupmaðurinn auðvitað ekki hækkað það verð, þó að söluskatturinn hefði lækkað.  Það stóð óbreytt.  Þegar söluskatturinn hafði hins vegar lækkað úr 14% í 13%, lækkaði endaverðið úr 2.28, í 2.26.

Ef til vill ekki reginmunur, en þó eftirtektarverður.

Það er einnig góður síður í Bandaríkjunum og Kanada að yfirleitt má lesa á öllum strimlum hvað mikið var greitt fyrir vörurnar og hvað mikið var greitt í söluskatt.

Annað er svo, að í flestum (ef ekki öllum) ríkjum og fylkjum Bandaríkjanna og Kanada er engin söluskattur á matvörum og munar vissulega um minna.

 

 


mbl.is Hækkun á matarskatti vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innheimta á vegum ríkisins er rugl

Það er auðvitað út í hött að ríkið innheimti sjálfkrafa sóknargjald fyrir alla trúarsöfnuði Íslendinga.  Það er enn þá meira út í hött, og raunar ótrúleg valdníðsla af hendi hins opinbera að þeir sem ekki tilheyra trúfélögum skuli ekki borga tilsvarandi lægri upphæð til hins opinbera.

Að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn sem í orði segist fylgjandi frelsi einstaklingsins, skuli láta hjá líða að afnema ofbeldi hins opinbera eins og þetta, segir meira en margt annað, um hvernig forystumenn flokksins hugsa í raun.

Auðvitað má hugsa sér að hið opinbera taki að sér að innheimta sóknargjöld fyrir trúfélög gegn hóflegu gjaldi.

Það ætti þá að fara fram með þeim hætti að einstaklingum ætti að vera gert kleyft að haka við á skattskýrslu, hvort þeir vilji að dregið sé af þeim sóknargjald eður ei.  Síðan hökuðu þeir við hvaða trúfélag þeir vildi að fengið gjaldið.

Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvort rétt væri að opna þessa innheimtuleið fyrir öðrum samtökum, s.s. íþróttafélögum, kvenfélögum, góðgerðarfélögum o.sv.frv.

 

 


mbl.is Sóknargjald hækkar á hvern einstakling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússneskar ögranir. Hið "kólnandi" stríð

Það hefur vakið athygli mína hve lítið er fjallað um brottnám Rússa á Eistneskum leyniþjónustumanni nú nýverið.

Það er sáralítið sem fjallað hefur verið um það í alþjóðlegum fjölmiðlum, þó að vissulega hafi verið fjallað um það í  fréttum.

Ég sá tvær fréttir um málið á Eyjunni, en það er eina umfjöllunin sem ég hef séð í Íslenskum fjölmiðlum.

Þó má segja að þetta sé atvik sem sanni með áþreifanlegum hætti að nýtt "kalt" stríð sé hafið, enda leyfi ég mér að efast um að sambærilegt atvik hafi átt sér stað síðan í "kalda stríðinu".

Vissulega eru tvær útgáfur af því hvar atburðurinn gerðist, á Eistnesku landsvæði eða Rússnesku.  Flest virðist þó benda til þess að Eistlendingar fari með rétt mál og Rússneska leyniþjónustan hafi einfaldlega ráðist yfir landamærin og rænt hinum Eistneska leyniþjónustumanni.  Rétt er að hafa í huga þó að Rússneskir hermenn (og ef til vill leyniþjónustumenn einnig), virðast ekki hafa yfir að ráða fullkomnum staðsetningarbúnaði, og eiga það til að "villast" yfir landamæri eins og gerðist í Ukraínu.

En að öllu gamni slepptu, þá er þetta ekki atburður sem er léttvægur.

Hafi Rússneska leyniþjónustan farið inn í Eistland og rænt þar starfmanni þarlendrar leyniþjónustu er um gríðarlega alvarlegan atburð.

Hafi Eistneskur leyniþjónustumaður verið gripinn Rússlandsmegin (sem ég persónulega hef ekki trú á að sé sanna útgáfan) er sömuleiðis um mjög alvarlegan atburð að ræða.

Það er vert að hafa það í huga að því hefur verið haldið fram að aðalstarf þess einstaklings sem Rússar rændu, hafi verið að berjast gegn og afla upplýsinga um skipulagða glæpastarfsemi.  Það hefur svo vakið ýmsar vangaveltur, hvers vegna Rússneska leyniþjónustan hafi talið nauðsyn að "fjarlægja" hann. 

Það er ljóst að Rússar virðast ganga skipulega fram með ögranir, ef ekki beint ofbeldi eins og í dæminu hvað varðar Eistneska leyniþjónustumanninn.

Annar angi af því eru tilraunir þeirra til að sækja til saka þá íbúa Litháen, sem neituðu að inna af hendi herþjónustu í Sovéska hernum árið 1990 og 91.

Það er því nokkuð ljóst að "kalt" stríð er skollið á í A-Evrópu, og nokkur hiti í því eins og dæmið í Eistlandi sýnir.

Það er líklegt að álíka dæmum eigi eftir að fjölga og ég yrði ekki hissa ef netið yrði vinsæll vettvangur fyrir "kalt" stríð.  Þar eru margir möguleikar til að skapa óróa og óvissu og valda andstæðingnum óþægindum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar má benda á vefi Eistneska ríkisútvarpsins á ensku og Postimees (Póstmaðurinn eða Pósturinn).

 


Stórtíðindi framundan?

Það yrðu vissulega stór tíðindi ef meirihluti Skota samþykkir að skilja landið frá Sameinaða Konungsdæminu og lýsa yfir sjálfstæði.

Ef marka má skoðanakannanir virðist sem kosningabarátta Nei, liða, þeirra vilja halda sambandinu við Englendinga, Walesbúa og N-Íra, hafi mistekist hrapallega og það forskot sem þeir höfðu hafi glatast.

Það er ekki síst áfall fyrir Verkamannaflokkinn, hann hefur að miklu leyti leitt baráttu Nei-liða (Íhaldsflokkurinn enda ekki sterkur í Skotlandi) og hefur haft drjúgt fylgi þar.

Hverfi Skotland úr Sameinaða Konungsdæminu, minnka möguleikar Verkamannaflokksins um að ná meirihluta þingsæta í Bretlandi svo um munar, og verður líklega langt í að slíkt gerist.

En það verður víða fylgst með úrslitunum í þessum kosningum, og ekki síður þeim samningaviðræðum sem munu hefjast á milli stjórnvalda í Skotlandi og Bretlandi um hvernig viðskilnaðurinn verður.

Það verður einnig fylgst náið með því hvernig "Sambandið" mun bregðast við og hvaða mótttökur Skotland mun fá, ef það verður sjálfstætt ríki

Ekki síst mun verða fylgst með í löndum eins og Spáni og Belgíu, þar sem ekki ólíkur klofningur er í spilunum.

En það má segja að framkvæmdin í aðdraganda kosninganna hafi verið til fyrirmyndar (að því minnsta sem ég hef fylgst með), báðar hliðar hafa haft góð tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og baráttan að mestu leyti farið heiðarlega fram.

Hitt er svo, að ef að aðskilnaði kemur, verða alltaf mörg óvissuatriði sem þarf að ná samkomulagi um, og engan veginn er hægt að sjá allt það fyrir sem verður að leysa.

Það er enda svo að í slík bandalög, þarf bæði að ganga í og ganga úr, með varúð og fyrirhyggju.

En kosningarnar í Skotlandi verða spennuþrungnari með hverjum deginum.

 

 

 

 


mbl.is Meirihlutinn vill sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmislegt auðveldara í stjórnarandstöðu

Það er ýmislegt sem getur verið auðveldara fyrir stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu.  Þar á meðal að halda "baklandinu" góðu.

Að standa sem "teinréttur" hugsjónamaður er oft erfiðara sem stuðningsmaður ríkisstjórnar, svo ekki sé minnst á ráðherra.

Þess vegna vill það oft verða að "hugsjónamálin" koma fram þegar stjórnmálaflokkar og alþingismenn eru í stjórnarandstöðu en ekki þegar þeir eru í ríkisstjórn.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslendinga að NATO er dæmigert slíkt mál.

Ögmundi og VG fannst ekki rétti tíminn að leggja slíkt mál fram á síðasta kjörtímabili, þegar þeir sátu í ríkisstjórn.  Líklega að hluta til vegna þess að samstarfsflokkur þeirra, Samfylkingin hefði líklega ekki stutt málið.

Ríkisstjórn VG og Samfylkingar tók enda fullan þátt í störfum NATO og lagði blessun sína yfir aðgerðir NATO í Lýbíu svo dæmi sé tekið.

Enn nú, í stjórnarandstöðu er rétti tíminn fyrir slíkar æfingar, þó að enginn reikni með að slík tillaga yrði samþykkt, það er allt önnur saga.

En þó að ég persónulega telji enga aðkallandi þörf á því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að NATO, er ég því ekki andsnúinn.

Aðild að NATO er Íslandi nauðsyn, meira nú en hefur verið um all langt skeið.  Það er viðbúið að umræður um varnarbandalagið aukist á komandi misserum og það gæti verið þarft að ýta deilum um aðild Íslands til hliðar með afgerandi hætti.


mbl.is Vill þjóðaratkvæði um NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband