Að neyðast til að éta útlent kjet

Ég er einn af þeim Íslendingum sem neyðast til að éta "útlent" kjöt því sem næst alla daga.  Þó að vinir og ættingjar hafi fært mér annað slagið Íslenskt kjöt, harðfisk og aðrar hreinar vörur.  Sömuleiðis hef ég flutt með mér Íslenskan fisk í þó nokkru magni þegar ég hef átt tök á.

En vissulega neyðist ég til þess að éta "útlent" kjöt flesta daga. 

Það er vissulega erfitt hlutskipti, ekki nóg með að ég þurfi að borga sáralítið fyrir þetta, heldur er þetta oftast nær  betra undir tönn  heldur en það Íslenska, en það er mengað, stórlega mengað.  Sömu sögu er reyndar oft að segja af öðrum landbúnaðarafurðum svo sem ostum og grænmeti.

Auðvitað er það erfið byrði að borga ekki nema rétt ríflega 1200 krónur fyrir kíló af nautalund, nú eða þá bara 420 krónur fyrir kílógramm af grísalund.  Að geta keypt kjúklingaupplæri fyrir 280 krónur kílóið er sömuleiðis auðvitað verulega íþyngjandi.  Kíló af nautahakki sem kostar ekki nema 250 krónur leggst þungt á sinnið og af því að það þarf ekki að spara við sig í mat, er þetta ekki bara sálarlega íþyngjandi, heldur líka þyngjandi.

Auðvitað reiknar maður með að vera meira og minna rúmliggjandi vegna þess hve "mengað" kjötið er, börnin verði föl á vangann og framtíð þeirra óviss. 

Ég veit reyndar ekki hvað það tekur langan tíma á þessu mataræði að verða algert flak, en ég bý mig undir það.  Ekkert amar reyndar að mér ennþá, en örlögin verða ekki umflúin.

Og svo verð ég ábyggilega settur í sóttkví þegar ég lendi á Íslandi i sumar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband