Að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins - það er þjóðarsport.

Það er ljóst að "allir og eldhúsvaskurinn" taka þátt í prófkjöri Sjálstæðisflokksins sem fram fer um næstu helgi.  Það er þó með misjöfnum hætti sem menn taka þátt, nokkrir bjóða sig fram, býsna margir munu líklega kjósa, en þeir eru líklega flestir sem taka þátt í prófkjörinu með óbeinum hætti, það er að segja með því að ræða um að og taka þátt í umræðunni sem tengist prófkjörinu á einn eða annan veg.

Meira að segja frambjóðendur í prófkjörum annara flokka gefa sér tíma til að skrifa um hve staða hins eða þessa frambjóðanda hjá Sjálfstæðisflokknum sé.  Líklega hafa þeir ekki mikið að segja af sjálfum sér.

En prófkjör Sjálfstæðisflokkins er "Prófkjörið", það er það sem fólk ræðir um og á því hafa flestir skoðun.  Þetta sýnir ef til vill betur en flest annað hvernig Sjálfstæðisflokkurinn gnæfir yfir aðra flokka í íslenskum stjórnmálum.

En vissulega eru umræðan margvísleg, og eins og reikna má með er ekki öll umræðan á þann veg að sómi sé af.  Það er hart barist í prófkjörum og ýmsar sögur fara af stað og vissulega reyna andstæðingarnir að kynda undir þeim sögum sem þeir telja vera sér í hag.  Það er eðli pólístískrar baráttu.  Hún er oft óvægin.  Þetta prófkjör er engin undantekning þar á.

Andstæðingarnir reyna að tala um fylkingar í Sjálfstæðisflokknum.  Þar sé hver höndin á móti annari og jafnvel að um hálfgerðar "hreinsanir" séu í flokknum.  Það er meira að segja merkilegt, að fyrrum framkvæmdastjóri flokksins, sem vinstrimenn hafa verið gjarnir á að skrifa um eins og hann sé "Don Corleone" íslenskra stjórnmála, virðist ekki eiga meira undir sér en svo að hann var hreinlega rekinn, ef marka má þessa sömu vinstri menn í dag.  Manninum sem veit öll leyndarmálin, veit hvar alllar "beinagrindurnar" eru, hefur verið aðalmaðurinn í öllum "plottunum", hann var kallaður fyrir og rekinn, og það sem meira er, hann gekk hljóðalaust inn "í dimma nóttina".  Það er ekki mikill "Corleone" bragur á því.  Hann ku reyndar hafa tekið það að sér að koma eftirmanni sínum inn í starfið, en það er ekkert sem hafa þarf eftir í öngstrætum slúðursíðnanna.

Það sjá líklega flestir sem vilja að það er ekki mikið gefandi fyrir skrif af þessu tagi.

Margir andstæðingar flokksins virðast líka lesa mikið úr því að barist er um annað sætið í Reykjavík.  Það er nú varla nema eðlilegt að menn berjist hvor gegn öðrum, þannig er jú pólítíkin og það þó að 3 sækist eftir 2. sætinu í Reykjavík ætti ekki að teljast til tíðinda.  Hvað ætli menn hefðu sagt ef enginn þorði að bjóða sig fram gegn þeim sem sitja fyrir? Nei, sem betur fer hafa Sjálfstæðismenn ennþá pólítískt hugrekki.

Annars er það svipað hjá Sjálfstæðiflokki og Samfylkingu í Reykjavík, enginn býður sig fram gegn formönnunum, það getur varla talist nema eðlilegt.  Síðan bjóða 3. sig fram í annað sætið hjá Sjálfstæðisflokki, eins og áður sagði, en 2. hjá Samfylkingu.  Þar virðast menn hafa ákveðið að vera ekki að fara gegn þingflokksformanninum og "The Grand Dame" Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þau útkljá þau sæti sín á milli.

En enginn ákvað gefa varaformanninum nokkuð "breik". Hann býður sig fram í 4. sæti ásamt fjölda annara frambjóðenda.  Hefur hann ef til vill ekki meira pólítískt hugrekki en það, eða er það baklandið sem skortir? 

Það er nú líka svo merkilegt að þegar Samfylkingarmenn og jafnvel líka Framsóknarmenn, eru að býsnast yfir því að Sjálfstæðismenn berjist sín á milli, að maður gæti haldið að þeir kæmu af annáluðum "kærleiksheimilum", en flestir ættu að vita að það er ekki raunin.

Framsóknarflokkurinn virðist skiptast í það marga hluta, að með eindæmum hlýtur að teljast með ekki stærri flokk.  Flestir muna líklega hvernig það gekk fyrir sig að skipa listann í síðustu borgarstjóarnarkosningum.  Nú eða hvernig kaupin gerðust á landsþingi flokksins.  Það var ekki beint friðsemdareyri.

Það þekkja líklega líka margir sögur af samskiptum formanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi þingflokksformanns, nú eða núverandi varaformanns.  Eða hvernig JBH lýsti því yfir að ekkert "almennilegt fólk" byði sig fram í prófkjörum.  Það má til dæmis lesa um það á blogsíðu Valgerðar Bjarnadóttur að þetta pirraði hana.

En í sjálfu sér tekur sig varla að ræða þetta.  Það er nefnilega eins og áður sagði prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem er "Prófkjörið".  Hin öll eru í neðri deildum.

Sjálfur kýs ég ekki í "Prófkjörinu", enda ekki búsettur á Íslandi, en eins og allir aðrir tek ég þátt í því með því að "pæla" í því og ræða það.  Það er þjóðarsport á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband