Blessað áfengið og heilbrigðisráðherra

Nokkuð mikið hefur verið rætt um frumvarp þess efnis að leyft verði að selja áfengi í fleiri verslunum en hins opinbera, þ.e.a.s. að verslun með létt vin og bjór verði gefin frjáls og geti farið fram í matvöruverslunum. 

Reyndar hefur komið í ljós að þess munu vera dæmi um að áfengi fáist í matvöruverslunum á landsbyggðinni, og það án þess að hið háa Alþingi hafi verið spurt álíts, en það er í auðvitað önnur saga, því ef "neyðin" er fyrir hendi, þá er þetta sambland áfengis og matvæla auðvitað fyrirgefanlegt og enginn hefur heyrt um "róna" í dreifbýlinu, hvað þá á þar þekkist að bjór sé seldur kældur í stykkjavís.

(Þetta minnir mig reyndar á það hvað margt vill verða líkt með tilhögun hér í Ontario og á Íslandi, en hér er að segja má sama fyrirkomulag á áfengissölu (fylkið rekur hana) með þeim undantekningum að vínframleiðendur mega selja eigin vöru, björframleiðendur reka saman bjórverslanir og svo er það rétt eins og á Íslandi að í dreifbýlinu eru áfengisverslanir í "slagtogi" við aðrar verslanir, þar með taldar matvöruverslanir).

En rökin sem fram eru færð á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum virðast helst vera þessi:

Að aðgengi að áfengi aukist og þar með "lýðheilsutjón" sem það veldur.

Að úrval minnki og verð komi til með að hækka þegar einkaaðilar taki við.

Margir nefna það einnig að það sé enginn fyrirhöfn að fara í aðra verslun (gjarna hvort eð er í sömu verslunarmiðstöð) og þeir hafi aldrei orðið að neita sér um vín þess vegna. Þessu er ég reyndar nokkuð sammála, þ.e.a.s. að ég man ekki eftir því í fljótu bragði að hafa ekki getað drukið vín þegar ég vildi við hafa, en það skiptir einfaldlega ekki miklu máli í umræðunni.

Það hlýtur þó flestum að vera ljóst að þetta gengur ekki alveg upp, enda varla hægt að tala um að aðgangur aukist, ef verð hækkar og aðgangur er slíkur að enginn hefur nokkru sinni misst af því að kaupa vín, eða fundið nokkuð óhagræði af núverandi fyrirkomulagi.

Það má líklega einnig minna á þær "heimsendaspár" sem fram komu þegar rætt var um að leyfa sölu á áfengum bjór á Íslandi.  Ég held að það geti ekki talist að þær hafi gengið eftir.

Loks hafa margir hneykslast á því að sjálfur heildbrigðisráðherra skuli hafa lýst því yfir að hann styðji frumvarpið og gangi þannig gegn ráðleggingum jafnvel sjálfs Landlæknis.  Slíkt virðist þeim þykja hneysa.

Slíku fólki þykir líklegast heilbrigðisráðherra nokkuð óþarfur í stjórnsýslunni, enda geta líklega Landlæknir og aðrir embætitismenn í heilbrigðiskerfinu hæglega stjórnað með tilskipunum, ef það er reginhneyksli að ráðherra skuli leyfa sér að hafa aðra skoðun en þeir.

Í umræðunni hafa einnig verið rannsóknir frá Svíþjóð, Kanada og einhverjum öðrum löndum sem eiga sýna það að einkavæðing á léttvíns og bjórsölu sé feigðarflan og komi til með að kosta tugi Íslendinga lífíð árlega. 

Ekki hef ég kynnt mér þær rannsóknir og efast reyndar um að ég eigi nokkurn tíma eftir að gera það, svo sterkur er áhugi minn á þessu máli ekki.  Það er reyndar svo oft með rannsóknir að þær virðast stundum sýna það sem menn hafa áhuga fyrir að þær sýni (hér er ekki verið að alhæfa, eða taka sérstaklega til þeirra rannsókna sem hér um ræðir), enda þveröfugt við það sem margir halda, þá hafa margir vísindamenn skoðanir.

En svo háttar þó til að ég bý í Kanada, þar sem einkasala ríkír hér í Ontario, þar sem ég bý, en í næsta "hreppi" Quebec, er leyft að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum.  Eftir því sem ég hef heyrt, ríkir þó síst verra ástand í áfengismálum í Quebec en hér í Ontario.  Reyndar hafa margir fullyrt í mín eyru að þar hafi alkóhólismi dregist saman frekar en hér í Ontario.

Þegar ég núna rétt í þessu googlaði þetta fann ég tvær rannsóknir, sem má finna hér og hér.

Á fyrri hlekknum má lesa eftirfarandi:

"This paper examines the effect of introducing wine into grocery stores in Quebec. Beer has been available in Quebec grocery stores for many years but limited wine sales were introduced in 1978. Data on wine sales and total sales of alcoholic beverages were examined for Quebec and Ontario for the years 1967–1983. Neither beer nor wine are sold in the grocery stores of Ontario and it represented a control province. The analyses show that there was no impact on wine sales or total alcohol sales from the introduction of wine into grocery stores. In fact, alcohol consumption fell a little more in Quebec than in Ontario. The reasons for the lack of impact could include depressed economic circumstances, the relative unpopularity of wine compared to other beverages and the long-term trend toward lower alcohol consumption throughout Canada. "

Á þeim seinni segir að alkóhólistar sem hlutfall af 100.000 íbúum hafi verið 4300 bæði í Quebec og Ontario árið 1975.  Árið 1990 var hlutfallið 2700 í Ontario en komið niður í 2500 í Quebec.

Ekki ætla ég að segja að þessar rannsóknir séu einhver stóri dómur, enda hef ég hvorki kynnt mér þær né aðrar rannsóknir til hlýtar.  En þessar niðurstöður benda vissulega til þess að það séu einhverjir aðrir "kraftar" að verki en hvort að létt vín og bjór er selt í matvöruverslunum eður ei, þegar umræðan er um "lýðheilsutjón" og áfengisfíkn.

Ég vil því taka ofan fyrir heilbrigðisráðherra fyrir að taka afstöðu með frjálsræðinu og ganga ekki í forræðisbjörgin í þessu máli.

Að lokum vil ég rétt minnast á það, að þegar forræðishyggjumennirnar byrja að tala að hætta sé að stórauknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu vegna aukins aðgengis að áfengi, að það eru verstu meðmæli með opinberu heilbrigðiskerfi sem hugsast getur, ef forræðishyggjumenn nota það sem vopn til þess að banna allt það sem hugsanlega getur aukið útgjöld í því sama kerfi.

Má ég þá frekar biðja um að standa utan þess kerfis (sem ég annars held að sé nokkuð mikil sátt um bæði hér í Kanada sem og á Íslandi), heldur en að fela ákvarðanir sem varða lífstíl minn og frelsi forræðishyggjufólkinu í hendur.

Slík forræðishyggja grefur undan samkomulaginu um sameiginlegt heilbrigðiskerfi og almannatryggingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ágæt grein.

Ég tel samt að hyggilegast sé að setja áfengi í aflokaða deild innan verzlananna hér á landi, alla vega til að byrja með. Það eru brengluð skilaboð um eðli vímuefnisins að hafa það á stall með sykri og brauði.

Afnám ríkiseinokunnar er annað mál og sjálfsagt að gera það.

Hvernig er það með Ontario og Quebec annars, eru það ekki frekar ólík samfélög? Sitthvort tungumálið og allt?

Páll Geir Bjarnason, 2.11.2007 kl. 15:04

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má vel vera að það geti borgað sig að stíga styttra skref og hafa áfengið í svona "shop in shop" til að byrja með og sjá til hvernig það reynist.  Þá ætti auðvitað að taka allt áfengi, líka sterkt.  Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé best að flytja allt áfengið úr einkasölu og leggja ÁTVR niður, sömuleiðis LCBO hér í Ontario.

Vissulega má segja að Ontario og Quebec séu nokkuð ólík samfélög þó að bæði séu í Kanada, Enska töluð í Ontario en Franska í Quebec.  En samfélögin voru ef eitthvað er ólíkari árið 1975 þegar tölurnar hvað varðar hlutfall alkóhólista voru jafnar.  Það er síðan eftir að létt vín er fært í matvöruverslanir í Quebec sem að sigið er meira þar en í Ontario, þannig að það er eitthvað annað en mismunandi samfélag sem þarf til að skýrar muninn.

G. Tómas Gunnarsson, 3.11.2007 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband