Tjáningarfrelsið - Vantraust á starfsfólk Landsvirkjunar - Að vera í minnihluta

Ég get vel skilið að fólk vilji mótmæla, það er réttur allra að hafa skoðun á hlutum og framkvæmdum og að láta hana í ljósi.  Ég vona hins vegar að þessi mótmæli fari friðsamlega fram og án ofbeldis.  Það hefur enginn rétt til þess að hindra aðra í að sinna störfum sínum, eða ráðast að þeim með ofbeldi á annan hátt.

Reyndar hefur mér fundist mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun færast í skrýtin farveg nú upp á síðkastið.  Ekki er nóg með að mótmælin á svæðinu virðist hafa snúist upp í  ofbeldi, heldur einnig að hve miklu leyti önnur mótmæli mér virðast snúast um að starfsfólk Landsvirkjunar og annarra þeirra er koma að byggingu virkjunarinnar, séu ekki starfi sínu vaxin.

Þannig er rifist nú um að stíflan sé ekki nógu vel hönnuð, hún muni "springa" eða hrynja og allur sé voðinn vís.  Nú stór partur af mótmælum gegn virkjuninni hefur svo verið á þeim nótunum að engin von sé að framkvæmdin standi undir sér, eilíft tap verði á Kárahnjúkavirkjun og þetta sé þvílíkt böl fyrir þjóðarbúið.

Ef ég reyni að umorða þetta, þá má skilja á andstæðingum virkjunarinnar að engu líkara sé en að starfsfólk Landsvirkjunar stefni leynt og ljóst að því að steypa þjóðinni í glötun og það líklega af ásetningi, nema auðvitað að andstæðingar virkjunarinnar telji að starfsfólkið sé svo afgerandi vanhæft að með eindæmum sé.

Undir þetta taka svo hin ýmsu pólítísku öfl.

Ég verð að viðurkenna að að ég er ekki hæfur til að meta hvort að stíflan sé rétt hönnuð, ég hef heldur ekki þær upplýsingar í höndunum, né tíma, til að reikna út hvort að framkvæmdin komi til með að standa undir sér og skila hæfilegum arði.

Heilbrigð skynsemi segir mér hinsvegar að það sitji ekki heill her manna á skrifstofum Landsvirkjunar og bruggi landi og þjóð launráð.

Ég minnist líka þess að í uppvexti mínum, kvað gjarna við þá söngur að að Búrfellsvirkjun og sala rafmagns til Straumsvíkur, væri glapræði og yrði baggi á þjóðinni.  Gott ef sumir af þeim sem þar töluðu, eru ekki með svipaðar ræður um Kárahnjúkavirkjun nú.

Nú ætla ég heldur ekki að ákveða hvert starfssvið alþingismanna er, það eru líklega einhverjir betur til þess fallnir en ég, en ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að þeirra væri að taka ákvörðun um hvort að virkjun væri leyfð, eður ei.  Ekki að taka afstöðu til þess hvort að virkjun eða stíflugerð væri tæknilega möguleg, eða hvernig þyrfti að standa að hönnun mannvirkisins.  Til þess hefði Landsvirkjun, eða hver sá annar sem leyfi til framkvæmda fengi, til þess bæra sérfræðinga.  Með fullri virðingu fyrir þingmönnum íslendinga, hugnast mér betur að slíkar ákvarðanir séu teknar þar en á Alþingi.  Ég endurtek að ég hef enga trú á því að Landsvirkjun sé að tefla í tvísýnu með þessa stærstu fjárfestingu fyrirtækisins fyrr og síðar.

Eftir stendur að ég get vel skilið að einhverjir vilji mótmæla þeim náttúruspjöllum sem þarna fara fram.  Það fer ekki hjá því að þegar um slíkar framkvæmdir er að ræða eru náttúruspjöll umtalsverð.  Þar vega menn og meta, náttúruspjöllin og þann ávinning sem er falinn í því að nýta auðlindir þjóðarinnar.  Um slíkt mat verða menn líklega aldrei á eitt sáttir.

En Kárahjúkavirkjun hlaut afgerandi meirihlutastuðning á Alþingi, sömuleiðis meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og í bæjarstjórn Akureyrar, ef ég man rétt.  Þannig stóð réttkjörinn meirihluti að ákvörðunum um byggingu Kárahnjúkavirkjunar, bæði á landsvísu og í þeim sveitarfélögum sem deila eignaraðild með ríkinu.

Það er margt sem ríkið gerir og framkvæmir sem bæði mér og öðrum hugnast lítt, þó að í mínu tilfelli sé Kárahnjúkavirkjun ekki þar á meðal, en við verðum að sætta okkur við það.  Ríkisstjórn sem hefur meirihlutastuðning á Alþingi, kemur sínum málum yfirleitt í gegn.  Að sjálfsögðu hafa allir rétt til að tjá vonbrigði sín um hin ýmsu mál, en menn verða að sætta sig við meirihlutaviljann. 

Það er það lýðræði sem íslendingar búa við.

Stundum þarf maður að sætta sig við að vera í minnihluta, stundum þarf maður að sætta sig við að tapa.  En það er ekki þar með sagt að maður þurfi að gera það þegjandi, mótmæli eiga vissulega rétt á sér, en þau þurfa að vera ábyrg og án ofbeldis.

Ég vil að lokum vekja athygli á afar góðu bloggi Atla Rúnars Halldórssonar, en nýleg blogg hans um Kárahnjúkavirkjun má finna hér og hér.


mbl.is Saving Iceland boðar aðgerðir 1. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Það eina sem við getum gert er að bíða og vona. Ég er mjög á móti látunum sem voru í mótmælendunum um daginn, þó eru mínar tilfinningar gagnvart þessari virkjun blendnar. En eins og ein vinkona mín sagði: "Gæti ekki allt orðið iðgrænt í kringum lónið og fallegt. Þar sem er vatn, kemur venjulega gróður". Þessi nýjustu mál, að mikilvægum skýrslum hafi verið stungið undir stól, sem komu í fréttum í dag eru ekki til að róa fólk, em eins og þú segir. Við verðum að sætta okkur við þetta. Svo leiðir tíminn hitt í ljós.

Birna M, 25.8.2006 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband