Hvers vegna er Íslenska ríkið að innheimta félagsgjöld fyrir marxista?

Stundum setur mig eiginlga alveg hljóðan þegar ég les fréttir.  Þegar lesa má um úrelt lög, sem ekki er þó samstaða um að afnema og hvernig þau auka ár frá ári á vitleysuna.

Að mínu mati er það algerlega úrelt að ríkið innheimti "sóknargjöld" af öllum skattgreiðendum á Íslandi, óháð því hvort að viðkomandi tilheyri sókn eður ei.  Síðan er þessum peningum dreift til alls kyns trú- og/eða lífsskoðunafyrirbæra, eftir því hvað margir hafa skráð sig í viðkomandi félög hjá Þjóðskrá.

Þeir sem ekki tilheyra neinum borga samt.  Hvar er réttlætið í því?

Síðan spretta upp alls kyns samtök og hver hefur ekki skoðun á lífinu? 

Frægasta dæmið er líklega Zuistarnir, sem urðu býsna fjölmennir en nú hefur Íslenska ríkið tekið að sér að rukka inn félagsgjöld fyrir þá sem hafa marxisma sem lífsskoðun.

En ekki nóg með að Íslenska ríkið innheimti fyrir marxistana félagsgjöldin, heldur vilja þeir nú fá ókeypis lóð frá Reykjavíkurborg til að reisa "marxíska kirkju".

Eða ættum við frekar að nota orð eins og hof eða tilbeiðslustað?

Þetta máttti lesa í frétt á Vísi.is. Ég skora á alla að lesa fréttina.

Þar segir m.a.:

"Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið rannsakaði ekki kvörtun marxíska lífsskoðunarfélagsins Díamat vegna synjunar Reykjavíkurborgar á lóðaúthlutun með fullnægjandi hætti, að mati umboðsmanns Alþingis. Hann beinir því til ráðuneytisins að taka kvörtunina aftur til meðferðar.

Forsaga málsins er sú að Díamat, félag um díalektíska efnishyggju, krafðist þess að Reykjavíkurborg úthlutaði félaginu lóð án endurgjalds í maí árið 2017. Það gerði félagið á grundvalli ákvæðis laga um Kristnisjóð um að sveitarfélögum beri að leggja til ókeypis lóðir undir „kirkjur“ og undanskilja þær gatnagerðargaldi."

...

"Díamat hlaut skráningu sem lífsskoðunarfélag árið 2016 og byggir á grunnheimspeki marxismans. Félagið fékk 965.700 krónur í sóknargjöld úr ríkissjóði fyrir síðasta ár en sú fjárhæð miðaðist við að 87 manns voru skráðir í það 1. desember árið 2018. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru nú 139 manns skráðir í Díamat.

Í ársskýrslu sem Díamat skilaði til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, sem hefur eftirlits með starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga, fyrir árið 2017 kom meðal annars fram að félagið hefði sent Reykjavíkurborg erindi þar sem óskað hefði verið eftir að fá úthlutað lóð undir „díalektískan skála“."

Þessi lög hafa þegar haft í för með sér að stjórnkerfið, hjá Reykajavíkurborg, í Sveitarstjórnarráðuneytinu og hjá Umboðsmanni Alþingis, er önnum kafið við að afgreiða og fjalla um umsóknir og kærur.

Allt vegna þess að lög og reglugerðir sem upphaflega var líklega fyrst og fremst hugsuð til að hygla einu trúfélagi, er löngu orðin úrelt og þyrfti að afnema hið fyrsta.

Auðvitað á Ríkissjóður ekki að standa í innheimtu "sóknargjalda", eða að greiða þau fyrir þá sem greiða ekki skatta.

Það fer best á því að hvert félag fyrir sig innheimti sín félagsgjöld.

Til vara má hugsa sér að skattgreiðendum verði boðið að haka í hólf á skattskýrslu, þar sem þeir óska eftir að dregið verði af sér gjald til trú- eða lífsskoðunarfélags. 

Ella verði það ekki gert.

Í sjálfu sér er ekki hægt að áfellast marxista fyrir að vilja notfæra sér lögin á sama hátt og aðrir gera. 

Það gerir ekkert annað en að afhjúpa hvað lögin eru skringileg.  Þar sem jafnvel þeir sem ekki tilheyra neinum söfnuði, þurfa samt að borga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En ríkið innheimtir hvorki félagsgjöld né sóknargjöld. Þú finnur hvergi þann reikning og hvergi kvittun fyrir þeirri greiðslu. Og ríkið greiðir hvorki félagsgjöld né sóknargjöld heldur er framlagið bara kallað framlag í lögunum.

Þú ert ekki að greiða neitt, nema þú sért í félagi sem kýs að innheimta einhver gjöld. Og þó ríkið hætti að borga þessum félögum þetta framlag þá er ekkert sem segir að hagur þinn mundi batna.

Og formlega er sókn landfræðilegt hugtak en ekki félagslegt. Til að standa utan sóknar þarf að fara úr landi. Sókn er þannig eins og hreppur eða sýsla en ekki félag eða flokkur. Þú getur gengið úr þeim félögum sem þú ert í en þú verður í einhverri sókn svo lengi sem þú ert á Íslandi.

Það er ekki annað að sjá en að þú virðist misskilja grundvallar atriði og skorta þekkingu á umfjöllunarefninu.

Vagn (IP-tala skráð) 9.5.2020 kl. 19:15

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vagn, þakka þér fyrir þetta.  Það er skaði að þú skulir ekki vera til staðar til að leiðbeina hinu opinbera.

Það er vissulega ekki til reikningur eða sérstök kvittun til fyrir sóknargjöldum.  Það þýðir ekki að sóknargjöld séu ekki til

Það eru meira segja til lög um þau. Þau lög heita Lög um sóknargjöld o.fl.  Þau tóku síðast breytingum snemma á þessu ári.

https://www.althingi.is/lagas/150a/1987091.html

Enda hugsa ég að hinu opinbera væri varla stætt á því að afhenda Íslenskum marxistum hátt í eina mílljón án þess að það væri nokkur lagabókstafur sem heimilaði slíkt.

Sókn sem er í raun annað orð yfir prestakall er vissulega í raun landfræðilegt, en sá sem ekki er í söfnuðinum, er ekki "sóknarbarn".

Þetta breytir engu um að það er engin ástæða fyrir Íslenska ríkið að standa í innheimtu fyrir félagasamtök "út í bæ".

Hvað þá að veita til þeirra fjárframlögum.

G. Tómas Gunnarsson, 9.5.2020 kl. 20:03

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki minni ástæða til að setja hljóðan yfir sófaspeki Vagns. Skyldi hann ekki hafa Google?

Ég fæ engar sérkvittanir fyrir neinu útvarpsgjaldi né neinum öðrum nefsköttum sem hækka hjá mér skatta. Fyrir eitthvart óskyrt kraftaverk, greiði ég ekkert sóknargjald, því ég er ekki í neinu trúfélagi. Þessi upphæð er þó innheimt af mér og sett í háskolann að mér forspurðum. Svo mikil er hin landfræðilega skilgreining.

Eftir snögga leit eftir orðréttri skilgreiningu fann eg þetta:

Árið 1987 voru lög sett á Alþingi þar sem ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda á landsvísu. Í lögunum var fjársýslu ríkisins falið að reikna á hverju ári samkvæmt verðlagsþróun frá fyrra ári hvert sóknargjaldið skyldi vera hverju sinni. Fyrsta sóknargjaldið samkvæmt lögunum var því framreiknað sóknargjald það sem þjóðkirkjan hafði sjálf innheimt meðal safnaðarmeðlima sinna í hverri sókn fyrir sig árið á undan.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.5.2020 kl. 00:41

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta.  Ég leyfi mér að efast um að sú ráðstöfun á einstaklingar sem hvorki tilbiðja guð eða Marx (eða aðra svipaða) borgi meira i æðri menntunar standist stjórnarskrá landsins.

Það má líka halda því fram með góðum rökum, þar sem ekki er um ákveðna tölu sem einstaklingar eru skattlagðir um, að tekjuháir einstaklingar niðurgreiði sóknar/félagsgjöld fyrir þá einstaklinga sem t.d. greiða ekki tekjuskatt.

Líklega þykir marxistunum það ekki óeðlilegt að staðið sé að málum með slíkum hætti.

En auðvitað á gjald sem þetta að vera föst upphæð sem er valkvætt að greiða.  Svo gætu þessi félagasamtök auðvitað tekið upp tíund að fornum sið.

https://is.wikipedia.org/wiki/T%C3%ADund

En hér má lesa meirafróðlegt:  https://www.althingi.is/altext/136/s/0007.html

M.a.:  "Má benda á í þessu sambandi að í núverandi skipulagi felst að hver einstaklingur sem skráir sig úr þjóðkirkjunni felur í sér sparnað fyrir ríkissjóð sem nemur framlagi í Jöfnunarsjóð sókna, sem er 18,5% af sóknargjaldi, og kirkjumálasjóð, sem nemur um 11,8% af sóknargjaldi."

Löngu tímabært að breyta þessu fyrirkomulagi og í raun óskiljanlegt að það hafi verið sett í þennan farveg svo seint sem 1987.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 06:06

5 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þetta er rétt hjá Vagni, Umboðsmaður Alþingis hefur bent á þetta, og svo hefur fjármálaráðuneytið sagt þetta í áratugi, síðast fyrir nokkrum mánuðum. Hérna er Bjarni Ben að svara fyrirspurn á Alþingi:

>Í fyrstu skal bent á að engin sóknargjöld hafa í raun verið innheimt í ríkissjóð frá því þau voru felld inn í staðgreiðslu á tekjuskatti fyrir liðlega þrjátíu árum, árið 1988, heldur er um að ræða framlög sem eru greidd úr ríkissjóði til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Í lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., segir þó að trúfélög og lífsskoðunarfélög skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti. Í reynd hefur sú framsetning þó ekki haft sérstaka þýðingu fyrir fyrirkomulag þessara mála þar sem engin sérgreind sóknargjöld eru innheimt af ríkinu, hvorki af þeim sem greiða tekjuskatt né þeim sem eru undir skattleysismörkum, heldur eru framlög vegna sóknargjalda greidd úr ríkissjóði af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins óháð innheimtu tekjuskatts. Þetta kemur m.a. fram í því að framlögin eru greidd úr ríkissjóði þrátt fyrir að um fjórðungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins og burtséð frá því að aðrir greiða mishátt hlutfall af tekjum sínum. Sóknargjöldin eru þannig eins konar lögboðin framlög ríkisins til umræddra félaga þar sem löggjafinn hefur ákveðið að gengið skuli út frá tilteknum reikniforsendum, þ.e. margfeldi ákveðinnar krónutölu á mánuði og fjölda einstaklinga 16 ára og eldri sem eru skráðir í félögin.

https://www.althingi.is/altext/150/s/0633.html

Það eru engin sóknargjöld innheimt. Þetta eru ríkisframlög sem eru reiknuð út frá því hvernig fólk skráir sig.

Annars er aðalatriðið í þessari bloggfærslu rétt, alveg óháð því, ríkið á ekki að vera að standa í þessu. Það væri einfalt mál að hækka persónuafsláttinn bara um þessar 900 kr á mánuði sem ríkið er að borga þessum félögum og að ríkið hætti á móti að gefa trúfélögunum þennan pening. Þá getur fólkið sjálft og trúfélögin ákveðið hvernig skuli hátta þessum greiðslum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.5.2020 kl. 11:41

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Hjalti, þakka þér fyrir þetta. Þetta er eins og oft býsna margslungið.  Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að "sóknargjöld" hafa ekki verið innheimt um all langt skeið.

Það að eitthvað hafi verið "fellt inn í staðgreiðslu", þýðir ekki að það hafi horfið.  Þau eru eins og segir í svari Bjarna "hlutdeild" í tekjuskatti.

Enda eru lög um "sóknargjöld" varla lög um eitthvað sem ekki er til.

Þess vegna má segja að "sóknargjöld" séu í örlítið skrýtnu "limbói", ef svo má að orði komast.

En auðvitað væri tilvalið að hækka persónuafslátt um þessa upphæð, eða gefa fremteljundum kost á að afþakka viðbótina, sem rynni þá til þess "safnaðar" sem framteljandi tilheyrir.

Mér finnst það góð tillaga.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 12:10

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ágætis umræður, ég las greinina á Wikipedia um tíund og fór að hugsa (vonandi engar fréttir).

Trúleysingjar eru gjarnir á að hrauna yfir kirkjuna og sjá ofsjónum yfir því fé sem rennur til hennar. Samt sem áður, þá innheimti kirkjan tíund, 10%, en hin veraldlega þenkjandi yfirvöld (oftast því miður), innheimta 35% skatt.

Þá er ekki tekið tillit til ýmissa jaðarskatta, virðisaukaskatts, neysluskatta, áfengisgjalds, vörugjalds og hvað allt þetta heitir.

Það eru engin takmörk á hugmyndaflugi hinna skattaþyrstu veraldlega þenkjandi yfirvalda, þegar kemur að því að seilast í vasa hins vinnandi manns, til að halda uppi eigin afætuher.

Ætli skattprósentan sé ekki nær 50-60% þegar öll skattaáhrif eru tekin með í dæmið? Miðað við 10% hjá kirkjunni, eru þá ekki hin veraldlega þenkjandi yfirvöld 21. aldarinnar, fimm sinnum meiri drullusokkar en prestarnir voru nokkurn tímann?

Theódór Norðkvist, 10.5.2020 kl. 13:39

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Kjáni gat ég verið, gleymi vaxtaokrinu, hvað er það annað en skattheimta? Þá erum við sennilega komin yfir 70% skatthlutfall.

Theódór Norðkvist, 10.5.2020 kl. 13:41

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Theódór, þakka þér fyrir þetta.  Ég held að raunveruleg skattheimta á Íslandi, sé á milli 40 og 50%, það er hlutdeild hins opinbera af þjóðarframleiðslu.

En vissulega er það misjafnt eftir einstaklingunum hvað hlutfallið fer hátt.

Sá sem drekkur vodka borgar hærra hlutfallslega til ríkisins en sá sem drekkur cognac.  Sá sem drekkur 80.000 krónu rauðvín, borgar hlutfallslega minna til ríkisins, en sá sem kaupir sér ódýra "belju".

Sá sem reykir borgar meira til ríkisins sen sá sem ekki reykir.  Sá sem keyrir mikið borgar meira til ríkisins en sá sem á ekki bíl.

Sá sem eyðir öllu sínu fé borgar líklega hærra hlutfall af sínu, en sá sem sparar.  En sá sem sparar borgar síðan árlega af sínum vöxtum, mismikið eftir því hverju hann fjárfestir í þó.

Síðan er það auðvitað misjafnt hvað allt þetta kostar hið opinbera í þjónustus öðru slíku.

En það er líka mjög ólík sú þjónusta sem kirkjan hefur í gegnum tíðina og þess sem þykir tilhlýðilegt að krefjast af ríkinu í dag.

Persónulega hef ég ekki séð ástæðu til að "hrauna" yfir "kirkjuna", sem ég tek að þú sérst að tala um "þjóðkirkjuna".

Ég hef ekkert á móti starfsemi hennar, annara trúarsöfnuða, marxista, eða annara sértrúarsöfnuða (ekki alveg sanngjarnt, en ég gat ekki stillt mig), en ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé sanngjarnt að þjóðkirkjan safni framlögum á meðal sinna félaga rétt eins og marxistar eiga að standa straum af sínum áhugamálum.

Persónuega finnst mér að þessi löggjöf sé orðin að athlægi, og mun með sama áframhaldi verða svo enn frekar en orðið er.

Krafa marxista um ókeypis lóð frá Reykjavíkurborg, undirstrikar svo fáranleikann af lögum sem er ætlað að hygla þjóðkirkjunni, en hafa svo verið teygð og víkkuð.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 14:09

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo bæta því við að víða um lönd, þykir það ekki eingöngu óæskilegt, heldur beinlínis hættulegt að ríkið skrái upplýsingar um trúhneigð eða lífsskoðanir.

Á Íslandi virðast félagasamtök telja slíkt æskilegt vegna þess a það þýðir fjármagn frá ríkinu.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 14:16

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvers konar félagsskapur, af hverju tagi sem er, á að innheimta sjálfur sín félagsgjöld.  Upphaflega hét þessi ríkisinnheimta "sóknargjald" og var þáttur af uppgjöri við aðskilnað ríkis og kirkju.
Í dag er þetta dagað upp í kerfinu og myndi ná allt til félagsgjalda Oddfellow og Rauða Krossins ef það teldist lífsskoðun.
Auðvitað á skattkerfið ekki að koma nálægt svona innheimtu!

Kolbrún Hilmars, 10.5.2020 kl. 14:41

12 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Kannski að frjálshyggjumenn ættu að stofna trúfélag og biðja um lóð fyrir kirkju hinnar alltumlykjandi Nýfrjálshyggju? :)

Emil Þór Emilsson, 10.5.2020 kl. 14:45

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta.  Þekki ekki vel til "Oddfellowa" eða Rauða krossins, en sjálfsagt geta þau flokkast til lífsskoðunarfélaga.

Eru ekki fylgjendur KR nokkurs konar sértrúarsöfnuður og sjá lífið í "svart/hvítu"?

En auðvitað er þetta úrelt fyrirkomulag og raunar orði að athlægi að mínu mati.

@Emil, þakka þér fyrir þetta.  Það er ekkert fráleitara að fylgendur Hayek og Friedman stofni "söfnuði" í kringum sig en fylgjendur Marx.

Ef til vill gætu þeir sameinast í einum "söfnuði" ef til vill ekki.

Og hvað með þá sem trúa á "Bakkus", það er gamall og traustur guð frá tímum Rómverja.

Auðvitað ættu þeir að fá "sína" peninga frá ríkinu og krefja Reykjavíkurborg, sem og önnur sveitarfélög um ókeypis lóðir undir musteri þar sem þeir geta tilbeðið guð sinn.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 15:05

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

G. Tómas, þegar ég talaði um kirkju í þessu samhengi, átti ég bæði við þjóðkirkju og kirkju. Ég átti ekki við þig sem gagnrýnenda, finnst þú þvert á móti hafa verið hóflegur og þitt sjónarmið (í upphafspistlinum) get ég vel skilið.

Þessi umræða um sóknargjöld og opinberan stuðning við þjóðkirkjuna sérstaklega, er bara ormagryfja. Eðlilegast væri sjálfsagt að söfnuðir fjármögnuðu sig sjálfir og flestir kristnir söfnuðir gera það, nema þjóðkirkjan.

Málið er samt ekki svona einfalt. Ef menn ætla að krefjast þess að ríkið hætti að styðja þjóðkirkjuna, eða kristni yfirhöfuð, krefst ég þess um leið að hið opinbera hætti að styðja KR.

Theódór Norðkvist, 10.5.2020 kl. 15:28

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek fram að ég hef ekkert á móti gagnrýni á kristni, eða einstaka kirkjur og kirkjudeildir. Ef þær eru að ganga of langt í þjónustu við Mammon, er bara ágætt að gagnrýni á það komi fram. Það veitir aðhald.

Það sem ég hef hinsvegar á móti, er öfgakenndir sleggjudómar, eins og að kristni sé kjaftæði, gamlar þjóðsögur og slíkt. Kristni er þvert á móti heilsteyptasta hugmyndafræði (sé hún iðkuð rétt, skv. bókinni) sem til er í veröldinni.

Bara að nefna kristni sem slíka í sömu setningu og dellu eins og marxisma, sem hefur lagt stóran hluta heimsins í rúst, er móðgun við kristni. Aftur tek ég fram, að mér finnst þannig málflutningur ekki hafa komið fram hjá síðuhöfunid og er það vel.

Theódór Norðkvist, 10.5.2020 kl. 15:33

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Theódór, þakka þér fyrir þetta.  Að ég best veit þiggja allir söfnuðir stuðning frá ríkinu í formi sóknargjalda.

En það er auðvitað skiptar skoðanir, eins og sjá má í athugasemdum hér, hvort um sé að ræða "sóknar/félagsgjöld" eða framlög frá ríkinu.

En þjóðkirkjan fær síðan aukalega í jöfnunarsjóð o.s.frv., ein og kemur fram hér að ofan.

En alltént fer að efyrir "hausatalningu" á þeim sem eru 16. ára og eldri, óháð því hvort að þeir greiði tekjuskatt eða ekki.  Þannig að "söfnuðirnar" fá meira að segja greitt 2. ár með börnum.

Að því að ég best veit styrkir ríkið KR ekki.  Ég held hins vegar að Reykjavíkurborg geri það með ýmsum hætti, sem og önnur íþróttafélög.

Og það er sannarlega umdeilanlegt.

Eitt er að styrkja íþrótta/tómstundaiðkun barna svo sem með frístundakortinu, annað að styrkja félögin beint.

Svo mætti auðvitað hugsa sér að einstaklingar gætu til dæmis valið að styrkja félag að eigin vali, svo sem KR, Fram eða Þjóðkirkjuna.

Nú eða að fá 950 kalla meira í persónuafslátt á mánuði?

Hvernig hljómar það?

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 15:44

17 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ósammála því að skattkerfið komi nálægt því að innheimta styrki "að eigin vali".  Fólk styrkir sín áhugamál með fram- og/eða félagsgjöldum hvort sem er.  Svo er líka önnur fornleg innheimta í gangi í skattkerfinu; framlög til RÚV sem mætti gjarnan afnema líka.  

Kolbrún Hilmars, 10.5.2020 kl. 16:03

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Að ég best veit þiggja allir söfnuðir stuðning frá ríkinu í formi sóknargjalda...En þjóðkirkjan fær síðan aukalega í jöfnunarsjóð o.s.frv., ein og kemur fram hér að ofan.

Einmitt, þess vegna talaði ég um sóknargjöld og opinberan stuðning við þjóðkirkjuna sérstaklega.

Að því að ég best veit styrkir ríkið KR ekki.  Ég held hins vegar að Reykjavíkurborg geri það með ýmsum hætti, sem og önnur íþróttafélög.

Ég sagði hvergi að ríkið styrkti KR. Ég sagði að ég krefðist þess um leið að hið opinbera hætti að styðja KR. Hið opinbera merkir bæði ríki og sveitarfélög.

Enda skiptir það afar litlu máli hvort peningarnir koma frá sveitarfélögum eða ríkinu. Í báðum tilvikum koma þeir úr mínum vasa og þínum, því öll búum við í einhverju sveitarfélagi, enginn býr í "ríkinu".

Þetta með flutning verkefna frá ríkinu til sveitarfélaga er bara bellibragð stjórnmálamanna til að þeir telji sig geta logið því að þeir hafi lækkað skatta.

Eins og þú virðist hafa áttað þig á, þá var ég ekkert að meina að hið opinbera hætti einungis að styrkja KR og enga aðra, heldur öll íþróttafélög. Sama má segja um margskonar tómstundastarfsemi, án þess að ég reyni að telja öll þannig félög upp (ætli þau séu ekki óteljandi, alltaf að koma ný og mörg þeirra sækja í opinbera spenann).

Ég átti að sjálfsögðu við að ef ríkið hættir stuðningi við kirkjur, þá eigi það sama að gilda um alla starfsemi sem reynir að fylla tómið hið innra með fólki, sem einungis Kristur getur fyllt, bæði íþróttir og menningarstarfsemi.

Af hverju á ég að greiða fyrir tuðruspark í Vesturbænum eða annars staðar?

Theódór Norðkvist, 10.5.2020 kl. 16:09

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Ég er alveg sammála því.  Félagasamtök eiga að reka sig fyrir eigið fé. En hitt er svo að ég held að seint náist samkomulag um slíkt.   Þannig að það gæti verið nauðsynlegt að ná einhverri málamiðlun.

Er þeirrar skoðunar að Ríkisútvarp sé í raun óþarft.  En það mun heldur ekki að mínu mati nást samkomulag um slíkt.  Þess vegna er nauðsynlegt að ná einhverri málamiðlun þar einnig.  En um slíkt eru auðvitað margar mismunandi skoðanir eins og margt annað.

@Theódór, þakka þér fyrir þetta. Það er vert að gera greinarmun á milli ríkis og sveitarfélaga, enda kosið til þeirra sitt í hvoru lagi. Þannig má alveg hugsa sér mismunandi stefnu sveitarfélaga, en ríkið verður aðeins eit..

Persónulega tel ég best að ríkið haldi sig frá félagsstarfsemi.

Ég sé engan rökstuðning fyrir því að þú greiðir fyrir "tuðruspark" í Vesturbænum, frekar en aðrir greiði fyrir einhverjar lífsskoðanir, né heldur að kristni sé eitthvað merkilegra en önnur áhugamál.

En það er einmitt eitt af vandamálunum, það vilja allir koma "sínu" að.  Með því og hefðbundnum atkvæðakaupum, enda hlutirnir með því að ríkið og sveitarfélög eru farin að borga fyrir flest á milli himins og jarðar.

Kristni, marxisma, fótbolta og eiginlega hvern þann hlut, tilbeiðslu, og vitleysu sem hægt er að nefna.

Það endar bara í vitleysu og má eiginlega segja að það sé nú þegar orðið svo.

G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2020 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband