Spurningar sem ég vildi að einhver spyrði á blaðamannafundum Almannavarna

Eftir því sem ég heyri er daglegur fundur Almannavarna eitthvert alvinsælasta sjónvarpsefni á Íslandi.

Sjálfur hef ég aðeins horft á einn fund (ekki í beinni útsendingu, heldur á vefnum) og að sjálfsögðu aldrei verið viðstaddur.

En eigi að síður hafa vaknað hjá mér spurningar sem ég vildi óska að einhver myndi spyrja á fundinum.

Sjálfsagt er ég ekki einn um að hafa spurningar, og ef til vill vantar vettvang fyrir þær.

En hér eru nokkrar af þeim spurningum sem hafa vaknað hjá mér, ef til vill mun ég birta fleiri síðar.

 

Mjög stór hluti af þeim sem hafa greinst með smit upp á síðkastið hafa verið í sóttkví og hefur hún augljóslega reynst vel.

En hvað hafa margir af þeim hafa reynst smitaðir t.d. í apríl verið í "eðlilegri" vinnu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa haft undanþágu frá samkomubanni?

Hafa smit komið upp hjá þeim sem starfa í matvöruverslunum?  Ef einhver, hvað hefur mátt rekja mörg smit til slíkra verslana?

Margir sakna þess að geta farið í sund.

Hefur einhver rannsókn farið fram á því hvort að klórblandað vatn, s.s. í sundlaugum dugi til þess að drepa Kórónuveiru?

Er eitthvað sem bendir til þess að veiran geti dreifst í vatni?

Er sú ákvörðun að "Tveggja metra reglan" þurfi ekki að gilda í strætó byggð á vísindaniðurstöðum, eða er þetta pólítísk ákvörðun?

Ef einhver blaðamaður tekur þessar spurningar upp á arma sína, væri ég þakklátur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

"Er eitthvað sem bendir til þess að veiran geti dreifst í vatni?"

Svarið við þessari spurningu ér . Í wuhan kom í ljós, að veiran lifði góðu lífi í vatninu utan fyrir.

"Tveggja metra reglan"

Er pólitísk ákvörðun, og er byggð á grundvelli gamalla kerlinga-bóka. Næst þegar þú verður kvefaður, spurðu þá sjálfan þig "hver smitaði þig" ... og spurðu síðan, hver smitaði hann ... og, fékkstu kanski smitið af unnustunni sem ekki er með kvef.  Eða, hver var patient-zero í kvef veirunni í ár og hvaðan fékk hann/hún veiruna? Kjöf frá Guði?

Með öðrum orðum, hugmyndir manna um smit .. er fyrst og fremst byggð á bakteríu sýkingu, en ekki veiru-sýkingu.

Örn Einar Hansen, 3.5.2020 kl. 16:30

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér þætti líka gaman að vita hvort samkomubann sé bundið í lögum eða hvort það er bara tilskipun. Hefði haldið fyrir það fyrsta að samkomubann sé brot á stjornarskrá og í öðru lagi að þeim er engin heimild að sekta eða innheimta sektir af einhverju sem ekki er brot á lögum.

Þetta er allt ansi fljótandi og geðþóttafullt. Ströng tilmæli ættu að nægja til að setja það í sjálfsvald fólks að gæta varúðar. Mér finnst þetta allt frekar óhugnanleg fordæmi.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 16:38

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rétt að leiðrétta sófaserfræðinginn Örn hér að ofan.

Þetta er af opinberri síðu um covid 19:

There is no evidence that the virus that causes COVID-19 can be spread to people through the water in pools, hot tubs, spas, or water play areas. Proper operation and maintenance (including disinfection with chlorine and bromine) of these facilities should inactivate the virus in the water.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 16:42

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Örn, þakka þér fyrir þetta.  Hvað áttu við með vatninu utan fyrir? Í "drullupollum", vötnum, eða eitthvað allt annað?

Ég held nú að "Tveggja metra reglan" sé byggð á áætluðum krafti hósta og hnerra, þó að vissulega séu einstaklingar misjafnlega kraftmiklir á þeim sviðum sem öðrum.

En ég var að velta fyrir mér hvaða ástæða sé til þess að ekki þurfi að virða hana í strætó.

Finnst það undarleg ákvörðun.

En sjálfsagt eru skiptar skoðanir um vatnið.

https://faq.coronavirus.gov/water-transmission/

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta.  Heilbrigðisráðherra hefur ýmsar valdheimilildir, en ég ætla ekki að segja hvernig allt tengist stjórnarskrá, hvað lengi slík lög geta gilt o.s.frv. 

Ég veit hins vegar að víða um lönd hefur stjórnarskráin haft mun meira vægi í ákvarðanatöku en á Íslandi.

Ég hef líka heyrt frá lögfræðingum sem ég þekki að víða um lönd séu lögfræðingar að undirbúa lögsóknir gegn allra handa yfirvöldum fyrir hönd umbjóðenda sinna, hvað varðar ofríki og yfirgang.

En hvernig það endar veit enginn. 

En það verða ábyggilega skrifaðir út þó nokkuð af tímum.

"Sósarnir" í Svíþjóð hafa farið aðra leið.  Gagnrýndir harðlega, en í gær las ég í fréttum að WHO og Norðmenn segðu að mikið mætti læra af Svíum.

En ég held að þetta skýrist ekki fyrr en að einhverjum árum liðnum.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 16:58

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér hefur heyrst Björn Ingi, sem er alltaf á þessum fundum, sé oft að spyrja spurninga sem hann er beðinn fyrir. Þú getur sent honum línu

bjorningi@viljinn.is

Kristján G. Arngrímsson, 3.5.2020 kl. 17:02

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Steinar Ragnarsson.

Samkomubann byggist á heimild í sóttvarnalögum til að leggja slíkt bann á í því skyni að hefta útbreiðslu farsóttar. Þar er ráðherra falið að taka slíka ákvörðun að fenginni tillögu frá sóttvarnalækni. Þar er einnig mælt fyrir um að "Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum."

Samkomubann er ekki brot á stjórnarskrá því þar er ekkert sem veitir neinum rétt til að skapa almannahættu, svo sem smithættu þegar farsótt geisar. Þvert á móti er það skylda stjórnvalda að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda almannaheill á slíkum stundum.

Þú getur verið alveg rólegur yfir þessu því ekki er verið að fremja neina lögleysu heldur er farið eftir gildandi lögum í þessum efnum.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2020 kl. 17:58

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þar sem er vilji er vegur.  Aldrei að vita nema ég notfæri mér þessa leið.

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta.  Tel mig ekki stjórnskipunarsérfræðing. En til að "hártoga" málið aðeins, man ég ekki eftir heimild í stjórnarskrá til að banna fólki að koma saman, nema ef... "uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir."

Þetta mun þó aðeins gilda um samkomur utandyra.

En þetta getur vissulega hafa farið fram hjá mér. 

En ég vil taka það fram að ég er ekki andsnúinn samkomubanni, þó að vissulega megi ræða einstaka framkvæmda atriði og hve strangar takmarkanir þurfi að vera.

Í mínum huga er engin spurning að risasamkomur, t.d. á sviði íþrótta, trúar og tónlistar, hafa átt verulegan þátt í útbreiðslu Kórónuveirunnar víða um lönd.

Má ef til vill leiða líkur að því að slíkt sé mun mikilvægari þáttur en að stöðva rekstur pínulítilla fyrirtækja.

Svo má líka velta því fyrir sér hvort að hættulegra sé að standa í hnapp á t.d. Ingólfstorgi, en að sitja þétt í strætó.

Og þá vaknar spurningin um hið margfræga "meðalhóf".

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 18:36

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

G. Tómas Gunnarsson.

Ákvæðið sem þú vísar til snýst um svokallað fundafrelsi þ.e. að fólki sé almennt frjálst að safnast saman vopnlausu.

Heimild til sóttvarnaráðstafana kemur vissulega hvergi fram berum orðum í stjórnarskrá, enda er hún ekki svo ítarleg að taka til alls milli himins og jarðar heldur felur hún í sér almennar reglur. Að sama skapi kemur hvergi fram í henni bann við sóttvarnaráðstöfunum.

Meðal þeirra almennu reglna sem koma fram í stjórnarskrá er réttur manna til aðstoðar vegna til dæmis sjúkdóma eða örbirgðar og réttur viðkvæmra hópra til að njóta verndar fyrir ógnum gegn velferð þeirra.

Löglegar ráðstafanir til að vernda almannaheill með því að hemja banvæna farsótt rúmast fyllilega innan ramma stjórnarskrár, ef gætt er meðalhófs og ekki gengið lengra en tilefnið réttlætir.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2020 kl. 19:12

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Okkur er sagt að veiran skolist burt með vatni. Það sagði Sóttólfur þegar hann var spurður að því á sínum tíma hvers vegna sundlaugum væri ekki lokað. Og það er hægt að finna fullt af gögnum um þetta.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.5.2020 kl. 19:14

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

En í kvöld mun Kata tilkynna að búið sé að leggja þingið niður. Hún og Bjarni, ásamt Sóttólfi, lögregluþjóninum og konunni sem ávallt hljómar eins og hún sé með borðtusku uppi í sér, hafi tekið völdin. Þau Bjarni eigi von á barni. Það muni heita Belsebúb og erfa ríkið. Belsebúb muni jafnframt ganga í hjónaband með Kim Jong Il.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.5.2020 kl. 19:16

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta.  Ég hefði talið að engin lög geti verið æðri stjórnarskránni.  Vírus getur varla talist vopn.

Og spurningin um meðalhóf og ekki gengið lengra en tilefnið réttlætir hefur einmitt verið til umræðu í öðrum löndum.

Til dæmis þegar opnað var fyrir umferð um Uusimaa. Þá sögðu stjórnmálamenn að það stangaðist á við stjórnarskrá að hafa slíkar takmarkanir lengur.

Það má segja að stjórnarskráin leggi þá ábyrgð á hið opinbera að vernda viðkvæma hópa s.s. íbúa dvalarheimila o.s.frv.

En ekkert heimilar því að takmarka að óvopnað fólk komi saman.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 19:20

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Í athugasemdinni gleymdi ég að skrifa að Uusimaa er í Finnlandi.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Það er þetta með vatnið og eru það ekki bara "útlendingar" sem ekki þvo sér með sápu áður en haldið er í laugina?

Ef til vill væri ráð að fjölga ríkisstarfsmönnum í formi sturtuvarða.  Sú stétt gæti heyrt beint undir sóttvarnarlækni.

Ég er mest hissa á á Ágúst Ólafur skuli ekki vera búinn að leggja það til.

Það hlustar enginn Íslendingur á þingið. Það á ekki skilið neina hlýðni.

G. Tómas Gunnarsson, 3.5.2020 kl. 19:29

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm, þetta meðalhóf er greinilega afstætt. Ég hefði samt haldið að einföld tilmæli hefðu nægt hér og að það sé ekkert meðalhóf að sekta fólk fyrir að hafa ekki tvo metra á milli sín. Svo á þetta ekki alltaf við eins og í strætó.

Ég held að memn mættu fara að slaka á. Það eru 98% batalíkur í þessari veiki og 80% fá lítil eða engin einkenni. Það vanta 80 manns uppá að,allir hafi náð bata sem greinst hafa og fjórir liggja á spítala að jafna sig.

Hélt að þessar ráðstafanir væru til að íþyngja ekki spítulum. þar hefur aldrei reynt á einhver ósköp. Business as usual.

Held að landlæknir sé að reyna að setja eitthvað heimsmet í árangri svona prívat og persónulega að öllum forspurðum. 

Persónulega finnst mér þetta alger bilun að halda þessari vitleysu áfram og valda frekara óafturkræfu tjóni.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.5.2020 kl. 22:13

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef ég væri Kínverjar væri ég mjög ánægður með að sjá Vesturlönd halda vitleysunni áfram. Það þarf ekkert mjög marga mánuði þar til hægt verður að hirða fyrirtæki, land og fasteignir fyrir spottprís.

Þorsteinn Siglaugsson, 4.5.2020 kl. 00:03

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta.  "Meðalhóf" er líklega frekar illa skilgreint hugtak og gefur stjórnvöldum frekar mikið svigrúm, í þessu sem mörgu öðru.

En ég held að æ fleiri velti þessum málum fyrir sér, sem eðlilegt er.  Ákvarðanir sem hafa verið teknar á örfáum vikum, munu hafa gríðaleg áhrif á líf og lífsafkomu um ótal mörg ókomin ár.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Kínverjar eru sjálfsagt þokkalega ánægðir og verða æ hrokafyllri í framkomu við aðrar þjóðir.

En það verða næsta ár eða svo, sem kemur til með að skipta gríðarlegu máli. Einhverjir eru að vakna.  Það er jafnvel talað um að endurskoða 5G ákvarðanir og sitthvað fleira.

En hvernig stjórnmálamenn bregðast við þegar heyrist hringla í aurum er annað mál.

G. Tómas Gunnarsson, 4.5.2020 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband