Er ríkið sem næstum enginn vill viðurkenna að standa sig hvað best?

Ekki vill ég ræna þær heiðurskonur sem nefndar eru í fréttinni hér á mbl.is hrósinu eða heiðrinum.

Þær hafa staðið sig almennt vel, ekki eingöngu hvað varðar baráttuna gagnvart Kórónuveirunni, heldur einnig í mörgu öðru.

Það er samt rétt að taka það fram að það er ekki tímaritið Forbes, sem er að hrósa leiðtogunum, heldur er um að ræða það sem oft er kallað dálkahöfundur (Forbes kallar það "contributor) að nafni Avivah Wittenberg-Cox.

Hún er ráðgjafi, markþjálfi, rithöfundur og fyrirlesari.

Forbes tekur það fram að skoðanir í slíkum dálkum séu dálkahöfundanna (ekki blaðsins), rétt eins og fjölmiðlar gera gjarna.

Þetta er því ekki grein viðskiptatímaritsins Forbes, heldur grein í viðskiptatímaritinu Forbes.

Hér stendur mbl.is þó mjög vel miðað við ruv.is, sem slær því upp í fyrirsögn: "Forbes mærir Katrínu og kvenleiðtoga í COVID-faraldri."

Í fréttinni eru skrifin síðan eignuð blaðamanni Forbes.

Ég geri mér grein fyrir því að mörgum þykir þetta vera tóm leiðindi af minni hálfu, en ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að vandaðir fjölmiðlar hafi staðreyndir í heiðri og segi rétt frá.

En þetta var útúrdúr.

Það sem mér kom í hug þegar ég las þessa frétt og svo síðar dálkinn í Forbes, er sú staðreynd að öll þessi ríki (nema eitt auðvitað) sem stjórnað er af þessum skörulegu konum eiga það sameiginlegt að viðurkenna ekki eitt ríkið sem fjallað er um.

Taiwan.

Það eru aðeins í kringum 15 ríki sem viðurkenna Taiwan og ekkert þeirra "vestrænt" ef ég man rétt.

Taiwan fær ekki aðild að Sameinuðu þjóðunum, né undirstofnunum þess, eins og vel hefur komið í ljós í samskiptum þess við WHO á undanförnum vikum.

Þó varð Taiwan einna verst af öllum ríkjum í SARS faraldrinum 2003, ég held að einungis Kína og Hong Kong hafi orðið verr úti. Ef til vill er það hluti af skýringunni á því hvað það stendur sig vel nú.

Í upphafi stóðu Taiwan og Kína andspænis hvort öðru og hvort ríkið taldi sig eiga að ráða yfir hinu.

En Taiwan hefur breytt um stefnu í viðleitni sinni til að verða viðurkennt í samfélag og þjóðanna og en hefur lítið miðað áleiðis.

En eftirtektarverð undantekning er á, en Taiwan, undir skráningunni Chinese Tapei (er samt undir T í stafrófsröðinni), er meðlimur í WTO (Alþjóða viðskiptastofnuninni), þó að Kína sé það sömuleiðis.

Það var einmitt núverandi forseti sem leiddi samninganefnd Taiwans við það tækifæri, en þá hafði hún ekki hafið stjórnmálaþátttöku.

Þar hafa bæði Kína og Taiwan tekið þátt í starfseminni frá því snemma á þessari öld.

Það er óskandi að svo geti orðið í fleiri alþjóðlegum stofnunum og ríkin semji sín á milli.

Hér má lesa ágætis skrif um Taiwan og diplómatískar tilraunir  þess.

P.S. Líklega hafa margir tekið eftir ónákvæmni í dálkaskrifunum í Forbes, þegar talað er um að undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, standi öllum Íslendingum til boða ókeypis skimun.

Þar er ekki við Forbes að sakast, heldur dálkahöfundinn.

Þannig gerast þó hlutirnar oft, og ég varð margsinnis var við slíkt t.d. hvað varðaði fréttaflutning um Ísland í kringum bankahrunið. 

Fékk mig virkilega til að velta því fyrir mér hversu mikið ég gæti treyst fréttum, sérstaklega frá fjarlægari löndum.

 


mbl.is Kvenleiðtogar ná hvað bestum árangri gegn veirunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ástæður þess hve fá ríki viðurkenna lýðræðisríkið Kína (Taiwan) er einkum að rekja til þeirrar frekju kínverska kommúnistaflokksins að neita að eiga diplómatísk samskipti við önnur ríki nema þau lýsi því að það sé aðeins til ein lögleg stjórn yfir Kína: kommúnistaflokkurinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.4.2020 kl. 10:29

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er auðvitað bara svona dæmigerð bullgrein eins og gjarna birtast í tímaritum á borð við Forbes. Öll þau lönd sem þarna eru nefnd eiga það sameiginlegt að vera rík lönd þar sem efnahagur stendur í blóma og innviðir eru traustir. Og þau eru auk þess einfaldlega handvalin til að styðja niðurstöðuna. Það eru í það minnsta tvö ár þar til raunverulegur árangur kemur í ljós. Og þá verður spurningin einfaldlega sú hversu mörgum einstaklingum, lífi þeirra, hamingju og framtíðarhorfum, hafi verið fórnað til að hægja á útbreiðslu pestar sem er lítið hættulegri en venjuleg flensa.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 10:32

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lítið hættulegri en venjuleg flensa?

Frá því að Covid smit braust út í New York hefur dánartíðnin af völdum þess verið meiri en samanlagt af öllum öðrum ástæðum, þ.m.t. sjúkdómum, slysum og morðum sem jafnan eru ófá þar í borg.

Hvernig er "einstaklingum, lífi þeirra og framtíðarhorfum" fórnað með því að bjarga sem flestum mannslífum?

Guðmundur Ásgeirsson, 14.4.2020 kl. 10:48

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmdundur, þakka þér fyrir þetta. Flestum er líklega kunnugt um hvers vegna svo fá ríki viðurkenna Taiwan. Eins og þú segir réttilega er það vegna "one China" stefnu stjórnar Kínverska kommúnistaflokksins í Kína.

En það útskýrir ekki hvers vegna vestræn lýðræðisríki gangast undir þá stefnu, hvers vegna Sameinuðu þjóðirnir "hlýða" Kína hvað þetta varðar o.s.frv.

Að sjálfsögðu ráða viðskiptahagsmunir þar mestu og gott að hafa það ´i huga þegar þjóðarleiðtogar tala fjálglega um ást sína á lýðræði og mannréttindum.

Ekki það að ég er hlynntur því að ríki heims eigi samskipti við Kína. Tel samskipti af hinu góða.  En æskilegt væri að Taiwan ætti sömuleiðis aðild sameinuðu þjóðunum.

Ég er almennt fylgjandi sjálfsákvörðunarrétti þjóða og þjóðarbrota, ef skýr vilji kemur fram í heiðarlegum og vel framkvæmdum atkvæðagreiðslum.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Greinin í Forbes, er hvorki betri eða verri en hundruðir annara svo kallaðra skoðanagreina sem birtast í blöðum eða tímaritum dagalega um allan heim.  Svona eins og opnugrein í Mogganum eða Bakþankar í Fréttablaðinu.

Ekkert nema gott um það að segja að konan hafi skoðanir og hafi vettvang til þess að tjá þær.

Það sem er skrýtið er þegar fjölmiðlar fara að skrifa fréttir upp úr slíkum skoðunum og gera það frjálslega. Síðan kemur "upphefðin að utan" og reynt er að byggja á því að tímarit eins og Forbes njóta enn nokkurrar virðingar, þó dregið hafi úr slíku í nútíma fjölmiðlun.

En það er rétt að þetta eru öll velstæð lönd og hafa mun meiri möguleika en mörg önnur til að takast á við vandann.  En það þarf samt að takast á við hann.

En ég er sammála því að það munu líða nokkur ár þangað til niðurstöður fást, ef nokkurn tíma því það er það erfitt að safna og meta upplýsingar.

Ég sá í gær frétt frá Bangladesh þar sem stórir hópar almennings mótmælti aðgerðum stjórnvalda.  Þar sögðu nokkrir fulltrúar almennings, við eru hræddir við að verða veik og ef til vill deyja.  En við vitum að við munum deyja ef við getum ekki unnnið okkur in fé til að kaupa mat.

Ástandið er auðvitað mun betra í ríkari löndum, en margir virðast vera þeirrar skoðunar að ríki prenti bara pening og þá bjargist þetta.

@Guðmdundur, þakka þér fyrir þessa seinni athugasemd.  Henni er nú ekki beint að mér, en ég ætla að svara henni stuttlega eigi að síður.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að Kórónuveiran sé ekki hættuleg.  Það er hún án nokkurs vafa.

En það verður ekki ljóst fyrr en síðar hvernig allt þetta fer og hver verður niðurstaðan.

Ég las grein í dag (greinin er frá 20 mars): https://www.usnews.com/news/health-news/articles/2020-03-20/coronavirus-pandemic-overshadows-a-deadly-flu-season

Þar stendur m.a að CDC hafi á yfirstandandi flensutíð: "..recorded 36 million flu cases in the U.S., with 370,000 hospitalizations and 22,000 deaths."

Það er rétt að taka fram að ég er ekki í þeirri aðstöðu að meta þessar tölur og sannleiksgildi þeirra, ekki frekar en tölur um smit og dauðsföll af völdum kórónuveirunnar.

Síðan þegar frekari rannsóknir munu fara fram verður áreiðanlega reynt að grafast um hvers vegna einstaka staðir eins og t.d. New York og Bergamo verða svona illa úti.

En flensutíðin 2017 til 2018 er talinn hafa orðið 61.000 manns að bana í Bandaríkjunum. Sem betur fer er kórónuvírusinn ekki nálægt þeirri tölu, í það minnsta enn sem komið er.

Svo má velta fyrir sér, er einhver "venjuleg" flensa í New York?  Deyr einhver af henni?

En eru það fáir sem smitast að það er ekki "fréttnæmt"?

Ég hef ekki svörin.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 11:53

5 Smámynd: Haukur Árnason

Áætlun CDC fyrir veturinn 2019-2020 um komandi inflúensu

38.000.000 (10-11%) til 54.000.000 ( um 15% ) muni smitast

18.000.000 til 26.000.000 muni þurfa læknishjálp.

400.000 til 730.000 lenda inná spítala.

24.000 til 62.000 muni deyja.

Þessi áætlun er gerð áður en kórónan kemur inní spilið. Tekur mið af árunum 2011 til 2017-2018. Þannig að búast má við hærri tölum núna, því að Kórónan virðist smitast meira en t.d. H3N2 2014-2015, sem var þó slæm.

Talið er að í USA hafi 675.000 dáið í Spænsku veikinni 1918-1919.

Þessi áætkun er gerð í júni-júlí 2019.

Haukur Árnason, 14.4.2020 kl. 12:29

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hérlendis hafa 5-10000 manns smitast af þessari flensu. Það eru átta látnir. Það er nú ekki há dánartíðni. Í New York fylki létust 155.000 manns árið 2017.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 14:04

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sko, það eru ritstjórar Forbes sem endanlega ákveða hvað birtist á síðum blaðsins (eða vef þess). Dálkahöfundar njóta sjálfstæðis en þeir lúta engu að síður endanlegu valdi ritstjóra þess fjölmiðils sem þeir birta í.

Ég þekki þetta af eigin raun!

Þannig að já, þetta eru nú hártoganir í þér. Segi ekki leiðindi.

En við covid-afneitara á borð við Þorstein Siglaugsson langar mig að nefna, hvers vegna er svona mikilvægt að setja sig í þetta besservisserasæti? Hvað gerir þig réttsýnni í þessum efnum en heilbrigðisyfirvöld? Í stuttu máli: Hvað heldurðu að þú sért?

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 14:24

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er tvíeggjað fréttamatið í þessari feministafrétt. Sennilega hefði allt brjálast ef þessu væri snúið uppá karlþjóðina.

Það að taka konur út fyrir sviga og hæla þeim virkar á mig eins og verið sé að segja: Sko konurnar. Þær geta jafnvel náð árangri eins og karlar.

Ef karlar ná göðum árangri er það aldrei nefnt á nafn hvað þá metið útfrá legu þvagfæra.

Í fréttinni segir að þær séu meðal þeirra sem bestum árangri hafa náð. Það hljómar enn kjánalegar. Árangri í þessu er ekki að þakka kyn þeirra leiðtoga sem um ræðir. Þetta er svo absúrd að maður botnar ekki í því hvernig fjölmiðlum dettur í hug að éta þetta eftir.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.4.2020 kl. 14:24

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jón Steinar, þetta er ekki frétt. Eins og fram kemur í bloggfærslunni er þetta eftir dálkahöfund. Þú verður eiginlega að vita hvað þú ert að tala um ef þú ætlast til að tekið sér mark á þér.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 14:28

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er svona á mörkunum að það taki því að svara þér Kristján. Í fyrsta lagi hef ég ekki afneitað tilvist Covid 19. Í öðru lagi set ég mig ekki í besservisserasæti. Í þriðja lagi snýst málið ekki um "réttsýni". Það snýst um að kynna sér staðreyndir og draga ályktanir af þeim. Gagnrýnin hugsun er vissulega eitthvað sem flest fólk forðast eins og heitan eldinn. Og þú ert eflaust þar á meðal. En staðreyndirnar tala einfaldlega sínu máli. Viljir þú rökræða málið skaltu reyna að einbeita þér að málefninu en forðast persónulegar árásir og innihaldslaust rant. Ef þú getur.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 15:11

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Haukur, þakka þér fyrir þetta.  Það hafa verið mörg hræðileg influensu ár og ólíklegt að við höfum séð það síðasta.

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Það veit auðvitað enginn hvað margir hafa "verið krýndir" á Íslandi.  Líklega verður það aldrei 100% ljóst.  Eins og er er "staðfest tala" í kringum 1700.  Þekki Íslendinga (sem starfa í túristageiranum) sem telja sig nú hugsanlega hafa smitast snemma í febrúar, en hugsuðu ekkert út í það á þeim tíma.

En seinna meir fáum við einhverja hugmynd, ef gerðar verða mótefnamælingar. Til að þær verði 100%, yrði að mæla alla þjóðina sem mér þykir ólíklegt að verði gert.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki frá því að þú sért að toga fastar í hárið en ég gerði.

Ég er t.d. "ritstjóri og ábyrgðarmaður" þess bloggs.  Ég ákveð hvað birtist hér og er gefið vald til þess að eyða athugasemdum (ekki hótun, lol).  Ég leyfi athugasemdum að standa þó að ég sé hreint ekki sammála þeim, ef þær eru kurteislega fram settar.  Ég tel það einfaldlega kost að misjafnar skoðanir komi fram.

Ég hygg að það sama gildi um Forbes og mörg önnur blöð og tímarit. Vissulega eru alltaf einhver mörk. En Forbes tekur það fram (eins og svo margir aðrir fjölmiðlar, að skoðanir dálkahöfunds séu þeirra eigin.  Þetta er að ég held við öll dálkaskrif sem birtast og var við þann sem hér er talað um.

Það er því hártogun að segja að allt sem birtist í Forbes, séu skoðanir Forbes, af því að þeir samþykki það.

Aldrei hef ég séð Þorstein afneita Covid, og ég tel það ekki til fyrirmyndar að gera öðrum upp skoðanir.

Ég tel það hins vegar gott og heilbrigt að aðgerðir stjórnvalda séu gagnrýndar, sé það gert á kurteislegan máta.

Ég hef til dæmis lesið ýmislegt eftir Frosta Sigurjónsson (sem ég ber mikla virðingu fyrir), það hefur verið ágætlega framsett.  En ég er ekki sammála honum. 

Þorsteinn kemur úr hinni áttinni, en það er ekkert að heilbrigðum skoðanskiptum.

Persónulega tel ég jafn eðlilegt og sjálfsagt að gagnrýna aðgerðir "þríeykisins"  og efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar.  Reyndar allar aðgerðir stjórnvalda ef út í það er farið.

Sóttvarnar- og efnahagsaðgerðir tengjast enda sterkum böndum.

En ég tel að okkur beri að fara eftir þeim lögum og reglugerðum sem hafa verið sett í þeim löndum sem við dveljum.

Það þýðir ekki að ekki megi gagnrýna þau.  Það þýðir ekki að umræða og tjáningarfrelsi hafi verið afnumið.  Ja, alla vegna ekki þangað til lög koma í þá veru.

Upprunalega greinin í Forbes eru dálkaskrif. Það sem birtist á vefum mbl.is og ruv.is eru fréttir.  Ég ætla ekki að fullyrða um hvað af þessu Jón Steinar er að tala um.

En það er einmitt að það þurfi að gera greinarmun á þessu tvennu sem ég var að gagnrýna í upphaflegu bloggfærslunni.

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta. Það eru allir frjálsir að skoðunum sínum og dálkahöfundur Forbes eins og aðrir.

Það eru margir að reyna að nota kórónuveiruna til að ota fram sínum pólítísku skoðunum.  Við því er lítið að gera.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 15:48

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þegar talað er um covid-faraldurinn eins og árlega flensu og gefið í skyn að viðbrögð yfirvalda hafi verið of harkaleg gleymist kannski ýmislegt.

Ég sett hér inn í athugasemd við aðra bloggfærslu um daginn tengil á graf/frétt í New York Times um þetta: 

https://www.nytimes.com/interactive/2020/04/10/upshot/coronavirus-deaths-new-york-city.html?action=click&module=Well&pgtype=Homepage&section=The%20Upshot

Þetta bendir til að ekki sé um "venjulega flensu" að ræða.

Hitt sem gleymist kannski er að viðbrögð yfirvalda miða að því að vernda tvennt: heilbrigðiskerfið (og þar með heilbrigðisstarfsfólk) og gamalt fólk.

Þorsteinn sagði áðan að hér á landi hefðu átta manns dáið, sem væri ekki mikið. Nei, en hvernig heldur háttvirtur Þorsteinn að þessi tala hefði verið ef yfirvold hérna hefðu litið á faraldurinn eins og hann sjálfur, þ.e. sem venjulega flensu? Ástæðan fyrir þessari lágu tölu er sennilega einmitt þær aðgerðir sem gripið hefur verið til.  

Hérna er svo önnur athyglisverð grein úr NYT þar sem fram kemur munurinn á útbreiðslu faraldursins í Detroit (USA) og Windsor (Kanada), borgum sem standa hlið við hlið, sitthvorumegin við á.

https://www.nytimes.com/2020/04/10/world/canada/coronavirus-canada-detroit-nurses-hospital.html

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 16:48

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Enn sem komið er hefur Kórónuveiran (eðe Covid), ekki haft í för með sér jafn mörg dauðsföll og árleg influensa gerir.  Það er alltof snemmt að segja um hvað verður, því miður.

Það er enginn vafi á því að viðbrögð stjórnvalda um allan heim hafa bjargað mannslífum, en þau geta líka átt eftir að kosta þau, og halda áfram að gera það um ókomin ár.

New York hefur vissulega orðið illa úti, en enn er of snemmt að segja nákvæmlega hvað veldur, ég ætla ekki að fullyrða um það.

Það er alls ekki svo að t.d. í Kanada séu ekki mismunandi skoðanir um hvort að aðgerðir séu réttar, of harðar eða of linar.

Víða hafa því miður aðgerðir stjórnvalda í Kanada verið fumkenndar og ef til vill ekki verið á réttum stöðum.  Skelfilegar fréttir berast um að u.þ.b. helmingur dauðsfalla í Kanada sem þegar þetta er skrifað eru 823 (nokkuð nákvæmlega á pari við Ísland ef miðað er við hina margfrægu höfðatölu), séu á dvalarheimilum.  Því miður hafa leiðinlegar sögur borist frá dvalarheimilum borist frá öðrum löndum.

Hitt er svo að margar rannsóknir hafa farið fram á tengslum líkamlegrar og andlegrar heilsu við efnahagsáföll og atvinnuleysi.

Niðurstöður eru auðvitað mismunandi en ég held að enginn neiti þeim tengslum og að efnahagsáföll og atvinnuleysi halda áfram að kosta mannslíf löngu eftir að þeim lýkur.

Hver sá fjöldi verður veit enginn, en ef efnahagssamdráttur verður á bilinu 5 til 12% hér og þar um heiminn, má reikna með því að það verði töluvert.

En þetta er auðvitað ömurlegar og allt að því óviðkunnalegar umræður.

En heilt yfir gefst best að ræða málin af hreinskilni, hreinskiptni og kurteisi.

Það er alla vegna mín skoðun.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 17:25

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Svo má kannski til þess að skemmta skrattanum bæta því við að helsta ástæða þess að hér á Íslandi hefur gengið vel að hemja útbreiðslu covid (og þá væntanlega fækka dauðsföllum) er það stranga eftirlit sem yfirvöld hafa haft með fólki. Þetta segir yfirlæknir covid-göngudeildar Landspítala.

Með öðrum orðum: hið hryllilega ríkisvald hefur beitt fasískum vinnubrögðum til að sigrast á sjúkdómnum. Stóri bróðir fylgist með okkur.

Sem betur fer.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 17:27

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tómas, áttu við að það sem fram kemur í frétt NYT sé rangt? Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki síðustu athugasemd þína (nema þetta með að ég hafi verið ókurteis). Mætti kannski tala aðeins meira hreint út? (Það var þetta með hreinskilnina).

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 17:29

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Samhengið á milli kórónuveirunnar og covid er það að covid-19 er nafnið á sjúkdómnum sem kóronuveiran þessi getur valdið.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 17:33

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ekki veit ég hvort að þú ert að vísa til mín þegar þú talar um skrattann LOL. En mér var skemmt.

En hitt er það að víða um lönd hafa hálf (eða al) fasískar aðferðir notið hylli stjórnenda um þessar mundir og hafa margir varað við slíku.

En aðrir hrífast.

Ríkisvaldið hefur hins vegar staðið sig ágætlega í þessu máli.  Það má þó velta því fyrir sér hvað margir einkennalausir hefðu gengið um samfélagið (og sumir þeirra gera það ábyggilega enn), ef ekki væri fyrir dótturfélag Bandaríks einkafyrirtækis og röggsams stjórnenda þess, en það er önnur saga.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 17:33

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En þetta með frétt NYT, áttu við að hún sé röng?

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 17:38

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Kristján, þakka þér fyrir þetta. Eins og ég hef skilið þetta er Covid-19, nafnið á sjúkdómnum, eða jafnvel kórónasvírusjúkdómur. Formlega nafnið á veirunni er  SARS-CoV-2.

https://en.wikipedia.org/wiki/Coronavirus_disease_2019

Ég er alls ekki að segja að frétt NYT sé röng, og enn eiga eftir að koma slæmir fréttir.  En hver vegna er ástandið í New York svo hrikalegt?

Út hverju eru dauðsföll í Bandaríkunum af völdum kórónuveirunnar og "venjulegrar" influensu svipuð eins og staðan er nú? 

Ef til vill á það versta eftir að koma. Ég ætla ekkert að fullyrða um slíkt.  Ef til vill hafa allar aðgerðirnar sem gripið hefur verið til sömuleiðis orðið til þess að influensutilfelli verða mun færri en ella hefði orðið.

Það er engin leið að segja til um það.

En þýðir þetta að gripið verði til sambærilegra aðgerða hvert ár ef von er á slæmum influensufaraldri?

Það eru ótal margar spurningar og breytur sem má velta fyrir sér. Ég hef áður sagt að þessi mál verði ekki gerð upp fyrr en að nokkrum árum liðnum.

Hvort að "fasistarnir" hafi sigur í þeim dómi á eftir að koma í ljós. En dómurinn verður líklega aldrei endanlegur né óumdeildur.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 17:46

20 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Aftur skil ég ekki véfréttastílinn hjá þér. 

Í umræddri grein í NYT segir: 

"the deaths over the last month dwarf what would be expected from seasonal variations, and look more like a mass casualty event."

Áttu við að þetta bendi ekki til að ekki sé um að ræða "venjulega flensu"?

Ef þú svarar þeirri spurningu játandi skil ég þig sem svo, að þú segir þessa frétt ranga í mikilvægum atriðum. Ef þú svarar með nei lít ég svo á að þú sért sammála mér.

Ef þú færist undan því að svara beint held ég að þú hafir ekki áhuga á eiginlegu samtali um málið.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 17:54

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér enn og aftur fyrir þetta. Ég veit ekki hvernig ég get komið þessu til skila.

En svarið er á þessa leið. Ég held að enginn neiti því að ástandið í New York sé slæmt og þar eru dauðföll langt yfir því sem gengur og gerist hvort sem við erum að tala um "venjulegt" influensuár eða annars staðar í heiminum, nema þá ef til vill í Bergamo.

En hvað veldur?

Ef ég man rétt (ég fletti því nú ekki upp) komu smit fyrr upp á Vesturströndinni.

Skoðaðu ástandið í Austurríki, sem er talinn hafa verið mikil "smitmiðstöð" og var gagnrýnt fyrir slæleg viðbrögð.  Þar eru smittilfellin (staðfest) rétt ríflega 14.000, andlát eru 384 og þeir voru að byrja tilslakanir í dag.

Fréttin í NYT fjallaði um ástandið í New York og er ábyggilega rétt þar að lútandi.

Það segir ekki til um ástandið annars staðar í heiminum.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 18:10

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta var í fréttum í Canada fyrir 3. dögum. Sem betur fer eru ekki allar fréttir slæmar.

https://nationalpost.com/news/canada/that-is-a-surprise-doctors-still-waiting-for-feared-surge-of-covid-19-patients-in-canadian-icus

Justin Trudeau gaf sér svo tíma til þess að skreppa í sumarbústaðinn um páskana, þó að búið væri að hvetja alla landsmenn til að vera heima.

G. Tómas Gunnarsson, 14.4.2020 kl. 18:22

23 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fádæma yfirlæti og hroki er þetta í þér Kristján. Geturðu ekki rætt við fólk án þess að ætla það fífl og fábjána? Ertu í glasi? Þarftu kannski bara að skifta yfir í koffeinlaust?

Mig skiptir engu máli hvort þetta var einhver álitsgrein eður ei, samþykkt af einhverri ritstjórn eður ei. Gildir mig einu. Morgunblaðið birtir þetta sem fyrstu frétt í morgun og RUV einnig, sama hvaðan það er étið upp.

Eina sem ég gerði var að gefa mitt álit á þesskonar skrifum og tel þau frekar tala niður til kvenna en upphefja þær, auk þess sem árangur í sóttvörnum getur varla verið háður þvagfæragerð.

Þú þarft ekki að svara. Sé að þú hefur fangið fullt í drullumakeríinu. Athugasemdir þínar eru persónu þinni meiri vitnisburður en þeirra sem þú heggur á báðar hendur. Ég vona að ég lokist aldrei inni í lyftu með þér. Má ég heldur biðja um vírusinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.4.2020 kl. 19:08

24 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Kæri Jón Steinar. Ef þú færir rétt með myndi ég ekki svara, en þú gerir mér upp orð, því engan hef ég kallað fífl eða fábjána. Ekki skil ég hvers vegna þú ferð þannig með rangt mál, en fremur væri ég til í að lokast inni í lyftu með þér en að fá vírusinn. 

Tommi, þetta er sannarlega góð frétt, gjörgæslur hér á Íslandi hafa líka ráðið nokkuð vel við ástandið skv. sóttvarnalækni, þannig að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið virðast ætla að skila árangri, amk. hérlendis og sumstaðar í Kanada.

En af því að þetta er nú National Post læðist að manni sá grunur að fréttin eigi að fela í sér dulda sneið gegn stjórnvöldum sem hafi hrópað úlfur úlfur. En kannski er það bara fordómar í manni. Skiptir á endanum ekki máli því að eins og þú segir eru þetta bara góðar fréttir og til marks um að vel hafi verið staðið að viðbúnaði.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 20:00

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þóttann þykist ég lesa úr viðmóti þínu, þar sem þú segir mig ekki hafa vit á því sem ég er að segja að því að ég greini ekki á milli þess hvort fréttin á mbl. Var tekin upp úr annarri frétt eða álitsgrein. Þú talar svo niður nefið á þér til fleiri en mín hérna.

Ef mér skilst rétt þá varstu allavega blaðamaður hjá morgunblaðinu og einnig emeritus eða kennari á Bifröst. Finnst persónulega að þú gætir tamið þér meiri stillingu í orðum og framkomu. Hér ertu að munnhöggvast við alla sem sækja þessa slóð. Þú kemst líklega ekki frá tölvunni þessi misserin af því að það eru svo margir á internetinu sem hafa rangt fyrir sér.

Svo kallarðu aðra besservissera. 

Þakka þér fyrir skemmtunina. Ér búinn að hlæja mikið.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.4.2020 kl. 20:20

26 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er augljóst að Kristján skilur ekki hugtakið dánarhlutfall. Átta manns af 5-10.000 er lágt hlutfall. Staðreynd þessa máls er sú, að fjöldi þeirra sem raunverulega hafa smitast er almennt óþekktur. Hér búum við svo vel að ÍE hefur gert rannsókn sem sýnir að 0,6-1% þeirra sem skimaðir eru hafa reynst smitaðir. Þegar litið er til tímans sem líður frá smiti og þar til það hverfur má álykta, mjög gróflega, að raunverulega hafi fimm til tíu þúsund manns smitast hér. 

Hitt sem Kristján virðist ekki skilja er að hér er ekki um einfalt mál að ræða þar sem aðeins eitt sjónarmið, þ.e. sjónarmið sóttvarna, hefur vægi. Neikvæð áhrif takmarkana (sama hversu hrifnir sumir kunna að vera af því að láta stjórna sér með fasískum hætti), fjöldaatvinnuleysis, tekjumissis heimila, brottfalls úr námi, einangrunar og þar fram eftir götunum, eru veruleg. Við sjáum þau nú þegar og þau munu aðeins eiga eftir að aukast. Ég bendi Kristjáni á að kynna sér til dæmis ágæta grein Hlyns Orra Stefánssonar heimspekings og ágætt viðtal við Vilhjálm Árnason siðfræðing á vef Stundarinnar.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 20:33

27 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jón Steinar. Það er lítið uppúr því að hafa að skrifa athugasemdir við blogg til þess eins að lýsa sig sammála. Þá getur maður eins þagað. Svo er nú engin goðgá á orðaskipti séu hvöss og hafandi verið blaðamaður og háskólakennari (eins og þú dregur fram) er mér einmitt tamt að gefa helst ekki eftir. Verða jafnvel ókurteis. Það gerist.

Gott að þér fannst gaman.

Sjáumst í lyftunni.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 20:42

28 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þorsteinn, þú ert ekki að bregðast við því sem ég fann að. 

Ég skil vel að málið er ekki einfalt, og veit alveg um þessi atriði sem þú tínir til. En ég er að halda því fram að sóttvarnasjónarmiði sé mikilvægara í svipinn því að það er illgerlegt að bregðast við á öðrum forsendum. 

Eða áttu við að það hefði verið betra að bregðast ekki jafn hart við og gert var? Hver væru rökin fyrir því? Hefðu fleiri tilfelli sjúkdómsins og hærri dánartíðni verið æskilegri og líklegri til að koma betur út fyrir efnahagslíf landsins? 

Það er óskup auðvelt að vera gagnrýninn í véfréttastíl. En það er ekki mjög gagnleg gagnrýni.

(PS: ég veit að "gagn" í "gagnrýni" vísar ekki til þess að "gera gagn")

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 20:50

29 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Annað PS: Greinarnar sem þú bendir á í Stundinni, Þorsteinn, bæta svosem engu við og dýpka ekki neinn skilning. Grein Hlyns Orra er meira að segja alveg frámunalega yfirborðslegt froðusnakk. Það sem Vilhjálmur segir eru mest sjálfsagðir hlutir.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 21:07

30 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hlynur og Vilhjálmur benda báðir á mikilvægi þess að hafa ekki aðeins þröng skammtímasjónarmið að leiðarljósi. Ég reikna með að flestu hugsandi fólki þyki það gild ábending. En þeir eru bersýnilega til sem finnst hún ekki skipta máli. Það eru hinir skammsýnu, eins og þú. Inntakið í grein Hlyns er að með aðgerðum okkar erum við að velja milli einstaklinga, hver lifir og hver deyr, og að við komumst ekki undan þeirri ábyrgð. Það þarf nokkuð einbeittan skilningsskort til að kalla þá þörfu áminningu froðusnakk.

En þeim sem geta séð hlutina í víðara samhengi er ljóst að það verður að líta til fleiri þátta en sóttvarnasjónariða einna. Það er mjög líklegt að víðtækar lokanir og bönn geti leitt til verri niðurstöðu en mildari aðgerðir þegar upp er staðið. Aðgerðir hérlendis eru alls ekki þær alvarlegustu. Á Indlandi hafa til dæmis 300 milljón manns misst lífsviðurværi sitt vegna útgöngu- og ferðabanns stjórnvalda. Þetta er fólk sem lifir af daglaunavinnu og ölmusum. Það er enginn vafi á að fleiri hafa látist þar vegna aðgerðanna en vegna sjúkdómsins sjálfs.

Vissulega hafa ýmsir reynt að stilla þessu upp sem einföldum átökum milli þeirra sem vilja verja líf fólks og annarra sem vilja verja efnahagslífið. En til allrar hamingju hafa þær tilraunir ekki náð fótfestu. Það er líklega vegna þess að þegar hindranir og ferðabönn taka að bíta gerir flest fólk sér áþreifanlega grein fyrir því að efnahagslífið er ekki abstrakt hugtak sem kemur engum nema fjárfestum og bankamönnum við, heldur er það einfaldlega allt það sem við gerum til að hafa í okkur og á. Það að við getum gert það sem þarf til þess er forsenda þess að við getum dregið fram lífið.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 21:26

31 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti nú bara við að ég held að allir átti sig "á mikilvægi þess að hafa ekki aðeins þröng skammtímasjónarmið að leiðarljósi."

Aftur á móti er kannski ekki tími til að leggjast í heimspekilegar pælingar um þetta heldur þarf aðgerðir. Þá þarf að vega þetta og meta og það hefur verið gert. Hin endanega "rétta" niðurstaða (ákvörðun) verður ekki fundin að svo komnu, kannski kemur hún í ljós seinna, eins og Tommi hefur tönnlast á í bloggfærslunni og í sínum kommentum. Þannig að Hlynur er ekki að segja neitt sem ekki er þegar fyrirliggjandi og allir vita. 

Varðandi "að með aðgerðum okkar erum við að velja milli einstaklinga, hver lifir og hver deyr, og að við komumst ekki undan þeirri ábyrgð," þá gildir það sama. Sem betur fer virðast læknar hérlendis ekki hafa lent í að þurfa að velja um hver fái öndunarvél og hver ekki. En varðandi þetta þá lá fyrir að yfirleitt væri horft til þess að veita þeim aðstoð sem ættu mesta möguleika á að lifa af. Þannig að yfirleitt lá þetta ljóst fyrir og enginn sosum að reyna að skorast undan neinni ábyrgð varðandi þetta. 

Þetta með "einföld átök" hef ég ekki séð slíka uppstillingu. Mér hefur sýnst íslenskir pólitíkusar yfirleitt nálgast málið af skynsemi, t.d. hefur verið vit í því sem Bjarni Ben. hefur sagt, nú síðast í dag eða gær, minnir mig.

Þess vegna voru þessar greinar ekki neitt sérstaklega drjúgt innlegg í upplýsandi umræðu.

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 21:59

32 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Valið sem Hlynur talar um er ekki milli sjúklinga sem hafa fengið veiruna. Ef þú heldur það hefur þú ekki lesið grein hans. Valið snýst um hverjum við fórnum til að fækka dauðsföllum vegna veirunnar. Þær fórnir, sem til dæmis geta verið í formi sjálfsvíga þeirra sem missa lífsviðurværi sitt og lífsvon, eru raunverulegar.

Áhyggjuefnið í þessu er þegar stjórnmálamenn úthýsa ákvörðunum sem þeim sjálfum ber með réttu að taka, þar sem nauðsynlegt er að líta til margra sjónarmiða, til sérfræðinga sem aðeins hafa eitt þröngt sjónarmið að leiðarljósi. Það er nefnilega verið að taka ákvarðanir út frá þröngum skammtímasjónarmiðum. Ef menn áttuðu sig í raun og veru á mikilvægi þess að gera það ekki, þá myndu þeir ekki gera það.

Það verður aldrei nógsamlega hamrað á því að viðbrögðin við faraldrinum munu valda mjög miklum fjölda fólks mjög miklum hörmungum. Við höfum ekki séð nema örlítið brot af þeim áhrifum ennþá. Þess vegna virðast margir enn líta á þetta sem einhvers konar samkvæmisleik. En það er það svo sannarlega ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 14.4.2020 kl. 22:36

33 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Allt þetta sem þú segir Þorsteinn liggur fyrir og hefur verið sagt oft. Allir vita að þetta mun valda fjölda fólks miklum hörmungum. Stjórnmálamenn hafa sagt sitt viðhorf, sbr. Bjarna Ben í fréttinni sem tengillinn er á hér að neðan.

Sérfræðingarnir sem þú vísar til eru ekki að hugsa um sína eigin hagsmuni heldur heildarhagsmuni. Það er því alrangt að um sé að ræða þröngt sjónarmið, og einmitt ekki skammtímasjónarmið, heldur langtíma. Þess vegna er höftum ekki aflétt hratt.

Hérna er Bjarni, ég er ekki frá því að ég sé sammála honum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/04/08/hofum_ekki_efni_a_ad_forna_lifi_og_heilbrigdi_folks/

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 22:48

34 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Svo má spyrja: Hvað bendir til að vægari aðgerðir af hálfu íslenskra yfirvalda hefðu leitt til vægari afleiðinga fyrir efnahagslífið?

Td. er það ekki vegna aðgerða Íslendinga að ferðaþjónustan lagðist af í heilu lagi á einum sólarhring eða svo. Komur ferðamanna til Íslands voru ekki bannaðar (það varð einmitt deilt á sóttvarnalækni fyrir að banna það ekki).

Kristján G. Arngrímsson, 14.4.2020 kl. 22:57

35 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sérfræðingarnir vinna einungis á grundvelli þröngra sjónarmiða. Og þeir hafa sagt það sjálfir. Það er rétt að það voru ekki aðgerðir Íslendinga sem ollu því að ferðaþjónustan lagðist af. Enda hef ég aldrei sagt það. Það voru aðgerðir stjórnvalda í öðrum ríkjum. Að miklu leyti hafa aðgerðir grundvallast á því að byggt hefur verið á kolröngum tölum um afleiðingar sjúkdómsins. Dánartíðni var upphaflega sögð 2-4%. Þar var byggt á tölum um fjölda smita sem mátti vera ljóst að stóðust alls ekki, því einungis þeir sem þegar höfðu mikil einkenni voru skimaðir. Dánartíðnin er líklega 0,1-0,3%.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2020 kl. 00:35

36 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég vil að lokum benda á mjög vandaða grein Hauks Arnþórssonar á Kjarnanum í dag og skynsamlegar tillögur sem þar koma fram.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2020 kl. 00:47

37 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég vill þakka öllum þeim sem hér hafa lagt orð í belg.  Ég ætla ekki að svara því sem hér er sett fram enda mikið verið sett hér inn á meðan ég svaf svefni hinnn (næstum) réttlátu.

En ég vil ítreka það að mér er illa við ókurteisi, hvort sem hún beinist að mér eða öðrum hér. Sömuleiðis persónulegar ávirðingar eða aðdróttanir.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.

En vil bæta því hér við, þó enn sé of snemmt að dæma út frá tölulegum staðreyndum, þá eru komnar fram vísbendingar um að að víða um lönd hafi aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til, ekki verið á þeim stöðum þar sem þeirra væri mest þörf.

Á dvalarheimilum.

Ef rétt er að u.þ.b. 45% dauðsfalla á í ýmsum löndum, m.a. þeim sem hvað verst hafa orðið úti, s.s. á Spáni og Ítalíu, séu á dvalarheimilum er eitthvað brogað við aðgerðir stjórnvalda.

https://www.theguardian.com/world/2020/apr/13/half-of-coronavirus-deaths-happen-in-care-homes-data-from-eu-suggests

Það má velta því fyrir sér, þó að enn sé of snemmt að draga stórar ályktanir, hvort að of mikil áhersla hafi verið lögð á takmarkanir gagnvart almenningi, frekar en að leggja áherslu á viðkvæmustu hópana.

Ef þetta er rétt getur það skýrt að hluta, hvers vegna Spánn er að opna fyrir byggingarstarfsemi o.s.frv.

En það getur líka bent til þess að þéttleiki íbúa spili einhverja rullu.  Óvíða er búið "þéttar" en á dvalarheimilum.  En það sama gildir auðvitað um sumar borgir.

En þetta eru auðvitað bara vangaveltur.

Ritsjórnargrein Globe And Mail er nokkuð harðorð og sagði að Kanada "hefði afhent kórónaveirunni lyklana að dvalarheimilum".

https://www.theglobeandmail.com/opinion/editorials/article-how-canada-gave-a-pandemic-the-key-to-the-countrys-nursing-homes/

Það var reyndar önnur mjög góð ritstjórnargrein sem birtist fyrir nokkru og fjallaði um "fasíska" tilburði ríkisstjórnar Justin´s Trudeau. En sem betur fer voru þingmenn ekki á því að gefa minnihlutastjórn slík völd.

En þetta fær ekki mikla athygli í "heimspressunni". Er ekki Trudeau "einn af góðu gæjunum"?

https://www.theglobeandmail.com/opinion/editorials/article-you-dont-stop-a-virus-by-bleeding-democracy/

Slíkt gerðist einnig í Alberta og þar fór það í gegn.  "Ríkisfasisminn" á sér víða fylgjendur.

Og ef menn vantreysta fréttum frá National Post (sem ég tel í heild sinni áreiðanlegt) þá er hér frétt úr Globe and Mail, sem segir álíka sögu.

https://www.theglobeandmail.com/canada/article-canada-so-far-avoids-surge-of-covid-19-patients-that-paralyzed/

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2020 kl. 08:27

38 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, Þorsteinn minn, það er óheppilegt að þú skulir ekki hafa fengið að ráða því hvernig brugðist var við, vitandi eins og þú greinilega gerir allt um það hverjar hinar raunverulegu afleiðingar sjúkdómsins eru.

Við minni spámenn reiðum okkur bara á heimsku vísindamennina. Og hlýðum Víði!

Kristján G. Arngrímsson, 15.4.2020 kl. 08:29

39 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Og takk Tommi fyrir afnotin af blogginu þínu. Það er gott að geta viðrað hérna harkalega gagnrýni sína á yfirvöld og aðra algjörlega óhultur fyrir raunveruleikanum. LOL

Kristján G. Arngrímsson, 15.4.2020 kl. 08:35

40 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er gott að yfirvöldin eiga sér málsvara, sem verja allar þeirra ákvarðanir, sama hverjar þær eru. Þau hljóta að vera þakklát fyrir það.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2020 kl. 09:20

41 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hér eru allir velkomnir, hvort sem það er til þess að gagnrýna stjórnvöld eða lofa þau.  Nú eða tjá sig um önnur málefni ef þau eru til umfjöllunar.

Ég hef hins vegar farið fram á að rætt sé á málefnalegum nótum og almenn kurteisi viðhöfð og mun halda því áfram.

Vísindamenn hafa misjafnar skoðanir á þessum málum eins og öðrum og skipta jafnvel um skoðun.

Það er vert að hafa það t.d. í huga á í aðgerðum gegn kórónaveirunni var i upphafi talinn engin ástæða til þess að hefta komu erlendra ferðamanna, né setja þá í sóttkví, af þeirri ástæðu að þeir hefðu öðruvísi samskipti (eða eitthvað í þá áttina) við landsmenn en heimamenn.

Þetta gagnrýndu ýmsir.

Síðan lokaði Trump á Schengen og svo lokaði hvert Evrópulandið á fætur öðru að miklu eða öllu leyti.

Nú er hins vegar talað um að engin leið sé að hleypa útlendum ferðamönnum inn í landið, fyrr "en guð má vita hvað" og helst ekki fyrr en bóluefni hefur verið fundið.

Er það vegna þess að óttast er að samskipti erlendra ferðamenn við heimamenn hafi breyst?

Hafa vísindamenn skipt um skoðun?

Eða er þetta enn eitt dæmið um að auðveldara er að setja bönn en afnema þau?

Eða er óþarfi að minnast á þetta vegna þess að vísindamennirnar hafa "talað"?

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2020 kl. 09:50

42 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þegar það verður búið að ráða allt atvinnulausa fólkið úr ferðaþjónustunni til að sinna "arðbærum" opinberum framkvæmdum, þá verður engin þörf á neinum ferðamönnum lengur. Því verður ástæðulaust að leyfa þá. Líklega verða notuð lýðheilsurök gegn því. Þau eru vinsæl og virka vel. Gagnrýnin hugsun bítur nefnilega ekki á þau.

Í alvöru er væntanlega lítil ástæða til að ætla að þýskur ferðamaður verði eitthvað líklegri til að smita íslenskan sveitamann en íslenskur ferðamaður, að því gefnu að smittíðni í báðum löndum sé á svipuðu róli.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2020 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband