Að leiða ljós til Bretlands?

Hugsanlegur rafmagnssæstrengur frá Íslandi til Bretlands hefur verið allnokkuð í umræðunni undanfarið og sitt sýnst hverjum.

Ég hef skrifað um þær vangaveltur áður og ávallt verið skeptískur á slíkar áætlanir, en ekki lokað á frekari athuganir eða staðreyndasöfnun.

En í íslenskum fjölmiðlum hefur reglulega mátt lesa fréttir um hve háar niðurgreiðslur breta á endurnýjanlegum orkugjöfum séu og hve hagnaðarvon íslendinga sé gríðarleg.  Jafnframt hefur verið fjallað um yfirvofandi orkuskort í Bretlandi og hve mikil búbót sæstrengur gæti orðið í þeim efnum.

Enn fremur hefur mátt lesa hve gríðarlega styrki bretar muni veita fyrirhuguðu kjarnorkuveri sem frakkar og kínverjar hyggjast reisa. Sá styrkur, ef ég hef skilið rétt er fyrst og fremst í formi tryggingar á verulega háu rafmagnsverði.

Það er alveg rétt að bretar hafa í vaxandi mæli áhyggjur af háu raforkuverði og orkuskorti. En fréttirnar í Bretlandi undanfarna daga hafa aðallega snúist um hvernig draga eigi úr niðurgreiðslum á endurnýjanlegri orku og vinda ofan af því kerfi.

Meginstefnan eigi að vera að niðurgreiðslur séu tímabundnar.

Hvað varðar verðtryggingu til kjarnorkuvers, sem er verulega há, hef ég alltaf skilið það svo, að það sé gert vegna þess að kjarnorkuverið geti það sem endurnýjanlegir orkugjafar og sæstrengur geta ekki lofað, boðið upp á trygga og stöðuga orkuafhendingu.

Persónulega get ég því ekki séð að framtíðarhorfur fyrir íslenska orkusölu, um sæstreng til Bretlands yrði jafn gjöfular og góð og margir vilja meina.

Hitt er svo að mér hefur þótt vanta í umræðuna um sæstreng hvar og hvernig eigi að virkja til að selja orku. Því þótt að margir láti í veðri vaka að íslendingar eigi umframorku sem væri einmitt það sem nota á fyrir strenginn, þá þykir mér ekki trúlegt að nokkur fjárfesti í streng á milli Íslands og Bretlands með því fororði að einungis umframorka fari um strenginn.  Það þýddi þá að í slæmu árferði og aukinni orkunotkun á Íslandi væri jafn líklegt og ekki að ekkert rafmagn væri flutt um strenginn.

Slíkt hljómar ekki sem vænlegur fjárfestingarkostur í mínum eyrum.

Það þarf að ræða málið í heild sinni og ekki láta nægja að hlusta á hvað hagnaðurinn "geti" orðið gríðarlegur.

En það má líka velta því fyrir sér, ef að útlit er fyrir að íslendingar vilji virkja frekar og útlit er fyrir að raforka verði umfram eftirspurn á Íslandi, hvort að ekki sé margir aðrir leikir í stöðunni.

Væri til dæmis ekki tilvalið fyrir Landsvirkjun, í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila að fera í kynningarherferð miðaða á lítil og miðlungsstór iðnfyrirtæki í Bretlandi og annars staðar í Evrópu, þar sem lögð er áhersla á lágt rafmagnsverð á Íslandi og afhendingaröryggi.

Sé raunveruleg hætta á orkuskorti í Bretlandi, jafnframt því að orkuverð sé verulega lægra á Íslandi, ætti slíkt að vera kostur sem ýmis fyrirtæki myndu í það minnsta velta fyrir sér.  Vissulega er rafmagn misjafnlega hátt kostnaðarhlutfall, þannig að finna þyrfti geira með hlutfallsega mikla rafmagnsnotkun.  Afhendingaröryggið ætti svo að vera trompið.

Því eftir sem mér skilst, er raforkuverð í Bretlandi ekki það hæsta í Evrópu, þó að það sé vissulega hátt.

industrial electricity prices including taxes

 

 

 

 

 

electricity prices including taxes extra large

 

 

 

 

 

Stöplaritin eru fengin héðan.

P.S. Allar svona vangaveltur verða hins vegar hálf hjákátlegar þegar lesnar eru fréttir um að Landsvirkjun hafi þurft að tilkynna um skerðingu á orkuafhendingu (sem líkega verður þó ekkert af) og að iðnfyrirtæki hér og þar um landið (millistór fyrirtæki) geti ekki fengið þá orku sem þau vilja.

Slíkt ætti auðvitað að vera brýnasta verkefni Landsvirkjunar og Landsnets.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Oft hefur verið rætt um að selja ódýrari orku til ræktunar á ávöxtum grænmeti og janvel blómum (túlipönum).EF stjórnvöld og áhugamenn um ræktun tækju höndum saman í að kanna möguleika á samvinnu aðila,með tilliti til sölu erlendis,væri komin ein útflutningsgrein enn sjálfbær(hagsæld).  

Helga Kristjánsdóttir, 19.11.2015 kl. 21:25

2 identicon

Helstu rökin gegn sæstreng hafa verið að rétt sé að nota orkuna innanlands til að skapa störf.

Þessi rök standast enga skoðun. Trúir því einhver að Norðmenn væru efnahagslega betur settir ef þeir hefðu ákveðið að nota olíuna eingöngu til að skapa störf í Noregi?

Störfum á Íslandi mun ekki fækka þó að orkusala til stóriðju minnki. Sala á orku til Bretlands mun skila ríkinu margfalt hærri tekjum en sala til stóriðju sérstaklega til lengri tíma litið. Sá tekjuauki mun nýtast til að skapa margvísleg eftirsóknarverð störf sem eru mun betur borguð en störf í álverum.

Aðeins þarf að virkja sem nemur orkuþörf meðalstórs álverðs til að sæstrengur komi til greina. Orkusalan um sæstrenginn verður þó mun meiri vegna betri nýtingar. Með orkusölu um sæstreng kemst á eðlileg samkeppni um orkuna. Þess vegna mun verð til stóriðju hækka til muna þegar samningar renna út.

Mörg undanfarin ár hefur Ísland skipað sér í flokk með vanþróuðum ríkjum með uppbyggingu stóriðjuvera sem nú er óðum að fækka í þróuðum ríkjum. Vonandi styttist í að þróunin verði eins hér og að álverum fækki og hverfi jafnvel að lokum alveg.

Án sæstrengs munu erlendir auðhringir geta ákveðið orkuverð á Íslandi sem verður þá með lægsta móti enda værum við þá háð því að þau starfi hér áfram. Það er einfaldlega skelfileg framtíðarsýn.

Það þarf auðvitað að kanna allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin. En þetta lítur vel út að mínu mati einkum til lengri tíma litið.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.11.2015 kl. 22:43

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Helga Þakka þér fyrir þetta. Ég hygg að eftirspurn eftir tryggri og frekar ódýrri orku eigi ekki eftir að gera neitt nema aukast á næstu árum. En til lengri tíma litið, er ekki ólíklegt að verð eigi eftir að lækka.

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Stærstu rökin gegn sæstreng eru að betra sé að nota orkuna innanlands og svo vantrú á kostnaðarmódelinu.

Eins og sjá má í fréttinni sem ég tengdi á, hyggjast bretar vinda ofan af niðurgreiðslum til endurnýjanlegra orkugjafa. Hvernig fer þá fyrir "ofsagróðanum" sem svo margir eru búnir að reikna sig upp í?

Olía og rafmagn eru ekki fyllilega samanburðarhæf, þó að vissulega séu bæði orkugjafar. Olían enda auðflytjanleg og geymsulhæf. Svona eins og íslendingar gætu einfaldlega sett rafmagnið í stórar rafhlöður og sent út.

Ennfremur er magnið sem norðmenn hafa úr að spila það mikið að jafn fámenn þjóð ætti varla möguleika á að nýta sér það. En Bandaríkin hafa hins vegar um langt skeið bannað útflutning á olíu.

Þó að mikið sé gert úr "orkueign" íslendinga í "hátíðaræðum", held ég að ekki sé saman að jafna.

Hins vegar ber einnig til þess að líta að ef orkuástandið og verðið er með þeim hætti í Bretlandi (og víðar í Evrópu, því Bretland hefur ekki hæsta orkuverðið), ættu íslendingar að eiga all góða möguleika á því að fá til landins smærri fyrirtæki sem nota hlutfallslega mikla orku, og þurfa afendingaröryggi. Það er alveg rétt hjá þér að það má ekki og á ekki að einblína á stóriðju.

En lélegir innviðir gætu verið þar í vegi, enda dæmi um að íslensk fyrirtæki fái ekki það rafmagn sem þau kjósa. Það ætti auðvitað að vera forgangsverkefni að tryggja slíkt.

Um alla Evrópu hafa menn áhyggjur af "stóriðjuverum" og að þau séu að leggja upp laupanna, vegna hás orkuverðs og einnig samkeppni frá Kína. Það þarf ekki nema að lesa t.d. fréttir frá Bretlandi og Frakklandi til þess.

Það er líklegt og óskandi að samkeppni um rafmagn á Íslandi fari vaxandi á næstu árum og þar af leiðandi hækki verðið.

Til lengri tíma litið er það að sjálfsögðu mun jákvæðara að orkan sé nýtt og skapi störf og tekjur innanlands en erlendis. Orkunotkun mun aukast stórlega innanlands, t.d. með rafbílavæðingu.

Og verðið sem fengist í Bretlandi þyrfti að vera verulega hærra, því kostnaðurinn við flutninginn er verulegur.

Það er hins vegar rétt að kanna málið, en mér finnst ekki líklegt að þetta sé góð leið til að nýta orkuna til lengri tíma litið.

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2015 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband