Andri og Björk að berja á ríkisstjórninni með baráttumáli Samfylkingarinnar?

Þeir sem hafa lesið þetta blogg í gegnum tíðina er líklega ljóst að ég hef ekki verið hrifinn af því að lagður yrði raforkustrengur á milli Íslands og Bretlands. Þó hef ég ekki lagst eindregið á móti rannsóknum þess efnis, enda upplýsingar í eðli sínu oftast af hinu góða. 

Bloggið hér á undan er ágætis dæmi um það.

En mér fannst samt sem áður nokkuð merkilegt að lesa um blaðamannafund Andra Snæs og Bjarkar.  Sérstaklega vakti athygli mína herkvöð þeirra gegn ríkisstjórninni.

Það kemur mér ekki á óvart að Andri Snær og Björk séu andstæðingar lagningar sæstrengs til raforkuflutnings frá Íslandi til Bretlands, ekki síst vegna þess að mér þykir nokkuð einsýnt að til að slíkt eigi möguleika á því að bera sig, þurfi til frekari virkjanir.

En að leggja dæmið upp eins og fyrst og fremst sé þörf á að berja á og berjast gegn núverandi ríkisstjórn fannst mér nokkuð langt til seilst og raunar gefa herferð þeirra nokkuð flokkspólítískan blæ.

Því það er langt í frá að núverandi stjórnarflokkar hafi barist hart fyrir lagningu sæstrengs, eða að það geti kallast þeirra baráttumál.

Núverandi ríkisstjórn hefur frekar verið legið á hálsi fyrir að draga lappirnar í málinu.

Staðreyndin er auðvitað sú að utan Landsvirkjunar (og reyndar að hluta til einnig þar) hefur málið fyrst og fremst verið keyrt áfram af liðsmönnum Samfylkingarinnar.

Fyrrverandi ráðherrar, Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir og Oddný Harðardóttir eru þau sem fyrst og fremst börðust og töluðu fyrir sæstreng.

Ég minnist ekki að Andri Snær og Björk hafi barist hart á móti þeim áformum þegar þau voru á forsjá ráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar.

En auðvitað hefði verið best að berjast gegn þeim frá upphafi.

Sumir þeirra höfðu í huga tröllsleg áform um að sæstrengi og orkusölu frá Grænlandi, um Ísland, til Evrópu.

Hér er Össur í ham og ræðri við orkumálastjóra "Sambandsins" um leiðir til að flytja íslenska jarðhitaorku til Evrópu.

Hér talar Katrín Júlíusdóttir um "að mikil orka væri til í landinu sem hægt væri að nýta og þjóð sem væri rík að auðlindum ætti að kanna öll þau tækifæri sem gefast til að nýta þær auðlindir og auka hagsæld í landinu. Þannig væri t.d. nauðsynlegt að kanna möguleika þess að leggja sæstreng til að selja orku úr landi, en sú vinna er nú þegar hafin."

Í þessari frétt er Oddný Harðardóttir að dásama möguleika sæstrengs á ársfundi Landsvirkjunar.

Hér er Oddný svo að skora að núverandi iðnaðarráðherra að keyra málið áfram.

Hér lýsir Katrín Júlíusdóttir yfir fyllsta stuðningi ríkisstjórna Samfylkingar og Vinstri grænna við kannanir Landsvirkjunar varðandi sæstreng.

Hér er fyrirsögnin: Íslensk stjórnvöld íhuga að leggja sæstreng til Skotlands. Með er mynd af Katrínu Júlíusdóttur og vitnað í hana.

Hér  má lesa (og horfa á) umræður á Alþingi um sæstreng.  Hér er svo skýrslan sem lögð var fram á Alþingi í oct 2013.

Það er því óneitanlega sérstakt að mínu mati að lesa um að Björk Guðmdundsdóttir biðji um stuðning gegn núverandi ríkisstjórn.

Nær hefði verið að biðja um stuðning gegn Alþingi, eða hreinlega íslensku stjórnmálastéttinni, því málið getur á engan hátt talist sem baráttumál núverandi ríkisstjórnar, þó að hún hafi vissulega komið að því.  Líklega verður þó Samfylkingin að teljast drifkrafturinn í málinu.

Vinstri græn hafa verið meira efins og beggja megin girðingar, ef svo má að orði komast, og hefur Steingrímur J. Sigfússon alls ekki viljað útiloka stuðning við sæstreng, rétt eins og lesa má í þessari frétt. Þar er haft eftir Steingrími: "... að ein rök með sæstreng væru hámarksnýting á orkunni í stað þess að geyma forða til vara fyrir stóriðjurnar í öryggisskyni vegna t.d. álframleiðslu, orku sem annars lægi dauð í kerfinu.“Þetta eru langsterkustu rökin fyrir sæstreng. Umhverfisflokkar í Evrópu, græn samtök í t.d. Hollandi og Bretlandi styðja sæstreng af því að það bæti nýtingu orku og minnki notkun á kolum og kjarnorku. Ísland býr þó ekki við sambærilegar aðstæður."

Steingrímur verður enda líklega að teljast einn af sporförunum í umræðunni um sæstreng, ásamt Svavari Gestssyni, en þeir félagar lögðu fram þingályktunartillögu um að slíkur kostur yrði athugaður árið 1992.

Það var þegar þeir félagar voru ennþá rauðir í gegn og höfðu enga græna skel.

Hér má lesa frétt um tillöguna frá þessum tíma.

 

En ég er ekkert hissa á því að Andri Snær og Björk kjósi að berjast á móti sæstreng til Bretlands. Sjálfur er ég fullur efasemda um slíka framkvæmd og finnst umræðan um hana fyrst og fremst hafa snúist um mögulegan ofsagróða.  Ég er þó líklega ekki skoðanabróðir þeirra hvað varðar virkjanir, ef góð not eru fyrir orkuna.

En mér finnst framsetning þeirra skrýtin og hvernig þau kjósa að setja málið fram eins og málið hverfist um núverandi stjórnarflokka og það ríði á að koma þeim frá.

Það má leiða rökum að því að ef til dæmis Samfylkingin kæmist í stjórn yrði það sæstrengsmálinu til framdráttar og aukin kraftur mynid færast í það. Sagan segir okkur svo að Vinstri græn myndu ekki kæra sig um, eða megna að standa á mót málinu í ríkisstjórn með Samfylkingu. Það var alla vegna ekki raunin í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Mig rekur heldur ekki minni til annars en að Björt framtíð hafi verið frekar áfram um sæstreng, en afstöðu Pírata þekki ég ekki.

Það má því segja að Björk og Andri hafi sett undarlega flokkspólítískan blæ á málið með því að beina baráttu sinni fyrst og fremst gegn núverandi stjórnarflokkum.

Það setur undarlegan vinkil á blaðamannafund þeirra.

Kom mér all nokkuð á óvart og mér þykir þau bæði setja verulega niður fyrir vikið.

 


mbl.is „Það er ekki til nein álfaorka“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Kærar þakkir fyrir þennan pistil og að hafa fyrir því að safna saman þessum tilvitnunum. Þessi fundur þeirra Andra og Bjarkar kom mér verulega á óvart.

Umræðan um sæstreng komst ekki á flug fyrr en Jóhönnustjórnin komst til valda og mín tilfinning var að Hörður Arnar hafi verið settur þarna inn, í stað Friðriks, til að vinna að málinu. Ketill Sigurjóns hefur verið ötull baráttumaður fyrir sæstreng, en nú hefur hann tekið sér frí frá umræðunni. Vill kannski ekki fara gegn Björku og Andra.

Ragnhildur Kolka, 20.11.2015 kl. 09:06

2 identicon

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá að KS væri hættur vað að nú hefði hann talað of "fallega" um álfyrirtækin fyrir smekk mbl (hvað sem er nú rétt í málinu).

Þó að þessi sæstrengstenging við þessa ríkisstjórn sé e.t.v. einkennileg er það samt ekki einkennilegt að þeim sé ekki vel við þessa stjórn; hún er greinilega samstilltari í að vilja virkja meira en sú síðasta.

ls (IP-tala skráð) 20.11.2015 kl. 09:43

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ragnhildur Þakka þér fyrir þetta. Þetta er nokkuð sem ég ætlaði að koma í verk fyrr, en dróst. En þetta er ekki mikil vinna með Hr. Google sér til aðstoðar. Í raun merkilegt að enginn fjölmiðill hafi fjallað um þennan vinkil.

@ls þakka þér fyrir þetta. Ég hef nú ekki trú  því að þrýst hafi verið á Ketil, margt sem kemur álfyrirtækjunum ver en hans pistlar hafa birst á mbl.is og í Mogganum. En þó að ég sé ekki alltaf sammála honum, finnst mér pistlarnir hans yfirleitt góðir. Skemmtilega skrifaðir og oft dregnir fram nýir og skemmtilegir vinklar.

Ég tek líka undir það að ekkert undarlegt sé að Andri Snær og Björk vilji berjast á móti ríkisstjórninni. Slíkt er öllum heimilt og sjálfsagt að gera í lýðræðissamfélagi. Ég einfaldlega undraðist það að þau skyldu draga fram sæstrengin til að reyna að "flengja" hana með.

Það er greinilegt að núverandi ríkisstjórn er samstilltari en sú síðasta, enda þarf líklega ekki mikið til. Núverendi ríkisstjórn stendur heldur ekki í neinum hrossakaupum (alla vegna ekki mér vitandi) um virkjanakosti og "Sambandsumsókn" eins og sú síðasta.

En ég held að það megi flestum vera ljóst að sá sem er fylgjandi því að legga sæstreng, er fylgjandi því að það verði virkjað meira. En það er nokkuð sem hefur þó ekki fylgt sæstrengsumræðunni oft á tíðum.

En ég hygg að enginn vilji leggja sæstreng upp á þau býtti að fá svo allt í einu litla eða enga raforku til að flytja, í slæmu árferði.

En það sem ég var fyrst og fremst að benda á er að það er nokkuð merkilegt nota þetta baráttumál Samfylkingarinnar til að berja á núverandi ríkisstjórn og eins má velta því fyrir sér hvers vegna gagnrýnin á sæstreng kom ekki fram fyrr?

Eða er náttúruverndin mismunandi mikilvæg, eftir því hvaða flokkar eru í stjórn?

G. Tómas Gunnarsson, 20.11.2015 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband