Finnar bitu í súr epli

Það hljómar skringilega þegar forsætisráðherra  segir að velgengi eins fyrirtækis eigi stóran þátt í vandræðum þjóðar sinnar.

En þegar Finnski forsætisráðherrann segir þetta er ekki hægt að neita því að hann hefur eitthvað til síns máls.  Reyndar er auðvitað orðum aukið að segja Apple sé um að kenna minnkandi pappírsnotkun og hrun Nokia, en vissulega má segja að Apple hafi startað þeirri byltingu snjallsíma og handtölva sem hefur leitt til minnkandi pappírsnotkunar og kom Nokia næstum fyrir kattarnef og alla leið fyrir nef Microsoft.

Þetta sýnir að velgengni og hraður vöxtur fyrirtækja getur haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér, þegar og ef þau tapa forskoti sínu, þó að vissulega leggi þau mikið til með sér þegar vel gengur.

Og það má vissulega segja um Nokia, því rétt eins og  sjálft sig færði það Finna "úr stígvélunum" og í hátækniðnað.

En fyrirtæki koma og fara, sérstaklega í hátækni iðnaði og fallvölt gæfa þar, enda mörg "heimsfræg" merki sem hafa komið þar og farið.  Og Apple, átti einnig langa eyðimerkurgöngu, og er reyndar ekki mjög algengt í þeim geira, að fyrirtæki snúi aftur, úr slíku eyðimerkurráfi, með þeim glæsibrag sem Apple hefur gert.

Og auðvitað hefur minnkandi sala dagblaða, og aukin útgáfa á þeirra og einnig bóka á rafrænu formi áhrif á eftirspurn eftir pappír og timbri.

En vandamál Finna magnaðist upp vegna gjaldmiðils þeirra, sem tók ekkert mið af efnahagsaðstæðum Finna, þeir enda smáþjóð á Eurosvæðinu.

Þannig jókst kostnaður þeirra meira en keppinautanna á þeim kafla þegar euroið styrkti sig hvað mest.  Á árabilinu 2001 til 2008 styrktist euroið um u.þ.b. 50% gegn hinum Bandaríska dollar.  En var það í takt við efnahag Finna?

Síðan þegar fer að harðna á dalnum, þá er gengið ennþá sterkt.

Finnar halda áfram góðum kaupmætti og geta farið til nágrannalandanna s.s. Eistlands til innkaupa.  Sparifjáreigendur eiga sitt sparifé "óskert", en æ fleiri Finnar missa vinnunna og vandamálin hrannast upp í efnahagslífinu.

Timburiðnaðurinn í vandræðum, Nokia svo gott sem horfið og Rússneskum ferðamönnum, sem hafa verið mikilvægir, sérstaklega í austurhéruðum Finnlands, snarfækkar, enda minna sem þeir fá fyrir rúblurnar, sem hefur fallið skarpt í takt við efnahagsástandið í Rússlandi.

Útflutningur til Rússlands hefur sömuleiðs fallið skarpt, bæði vegna gengis og ekki síður viðskiptatakmarkanna á báða bóga. (Það hefur reyndar orðið Finnskum neytendum til góðs, enda má nú kaupa t.d. "Putin" ost og smjör í Finnlandi á verulega niðursettu verði.  Það eru vörur sem eru í umbúðum fyrir Rússland, en fást ekki seldar þangað lengur.  Neytendur kætast og hamstra, en Finnskir bændur og framleiðendur í matvælageiranum eru í vandræðum.)

Svo alvarlegt er útlitið hjá Finnum nú, að þeir hyggjast leita ráða hjá fyrrverandi fjármálaráðherra Svía, við nokkuð blendnar undirtektir í Finnsku stjórnmálalífi.  Borg er þekktur fyrir að segja skoðanir sínar á efnahagsstjórnun annara ríkja án hiks, og vonandi reynist hann Finnum vel.

Ofan á allt þetta er svo útlit fyrir vaxandi óróa í Finnskum stjórnmálum og spurning hvort að Finnska stjórnin springi vegna ágreinings um kjarnorku?

Þau eru vissulega frekar súr eplin sem Finnar hafa bitið í undanfarin ár,  og þó að ég telji ekki rétt að segja að euroið sé rót vandans, hefur það ekki hjálpað til og unnið gegn Finnum.

En ég hef fulla trú á Finnum og að þeir eigi eftir að vinna sig úr vandræðunum, því öfugt við mörg önnur ríki Eurosvæðisins virðast þeir ætla að ráðast á vandann nú þegar, en ekki bíða eftir því að eitthvað gerist og mæna á Seðlabanka Eurosvæðisins.

Nú þegar þeir hafa misst AAA lánshæfiseinkunn sína, sem kemur til með að þýða hækkandi vaxtagreiðslur, bretta þeir upp ermarnar og hyggjast vinna í sínum málum.

En euroið gefur þeim lítinn sveigjanleika, og líklega eiga Finnar fá ráð, nema niðurskurð.  Launalækkanir eru erfiðar viðurfangs í Finnlandi og ekki líklegt að þeir geti aukið útflutning verulega við núverandi aðstæður.

Líklega mun því atvinnuleysi halda áfram að aukast í Finnlandi á næstu mánuðum, og mun áreiðanlega verða eitt meginmálið í kosningunum, sem áætlaðar eru í apríl á næsta ári.  Það er að segja ef ríkisstjórnin springur ekki áður.

En, rétt eins og á Íslandi, er lítil hefð fyrir minnihlutastjórnum í Finnlandi og því líklegt að kosningum yrði flýtt ef ríkisstjórnin springur.

 

 


mbl.is Meðaleinkunn ESB-landa versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband