Að missa "Sambandið"

Það virðist sem sú ákvörðun stjórnarflokkanna að leggja til að aðlögunarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu verði slitið, hafi komið mörgum "Sambandssinnanum" á óvart og í opna skjöldu.

Margir þeirra virðast reiðir, áttviltir og engu líkara en þeir séu (jarð)"Sambandslausir".

Þeir krefjast þjóðaratkvæðis, sem þeim þótti algerlega óþarft, bæði við upphaf málsins árið 2009 og svo aftur þegar tillaga þess efnis var lögð fram árið 2010. 

Margir þeirra keppast við að spá Íslandi illri framtíð, verði umsóknin dregin til baka og það hvarflar að mér að það styttist í að "Kúba norðursins" og N-Kórea verði komnar í umræðuna.

Ýmsir spá að illa fari fyrir EES samningnum og minna á að Ísland standi ekki við samninginn, hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.  Það er rétt, en sjálfsagt er að minna á að fjármagnsflutningar hafa ekki verið frjálsir um allt "Sambandið" um all nokkurt skeið.  Slík brot eru því að báða vegu.

Aðrir hafa talað um að nú sé útilokað fyrir Íslendinga að sækja um "Sambandsaðild" að nýju, fyrr en í fyrsta lagi eftir 15 til 20 ár.

Ég efast um að sótt verði um aðild aftur, og slík niðurstaða er mér ekki á móti skapi, en ég leyfi mér þó að halda því fram, að ef Íslendingar sækja um aftur, muni Evrópusambandið taka vel á móti þeim. Jafnvel þó að slíkt yrði gert eftir t.d. 5 eða 6 ár.

Auðvitað tala ég ekki fyrir "Sambandið" og geri ekki kröfu um að teljast sérfræðingur í málefnum þess, en ég held að þó að ESB, sé reiðubúið fyrir Íslenska umsókn því sem næst hvenær sem er.

Það er að segja ef sú umsókn er vel undirbyggð og -búin.  Ef Íslensk ríkisstjórn stendur heil og óskipt að baki umsókninni og flest bendi til þess að þjóðinni standi einnig hugur til þess að ganga í "Sambandið".  Þegar samningsmarkmið Íslendinga eru skýr og ákveðin og um þau ríkir nokkuð víðtæk sátt.

En ég reikna ekki með að "Sambandið" sé reiðubúið til að taka til greina aðra jafn illa undirbúna og ruglingslega umsókn og nú er talað um að draga til baka.

Umsókn sem var knúin fram á Alþingi með því að "snúa" nógu margar hendur á loft. Umsókn sem helmingur ráðherra reiknaði með að fella í atkvæðagreiðslu, eða það sögðu þeir í það minnsta.  Umsókn frá þjóð sem margoft gaf til kynna í skoðanakönnunum að hún væri andsnúin því að ganga í "Sambandið".

Það er auðvelt að taka undir með Pírötum þegar þeir segja að Samfylkingin hafi klúðrað umsókninni. Með óðagoti, flumbrugangi og ónógum undirbúningi keyrði hún umsóknina áfram.  Svo illa gekk og lítið miðaði áfram, að ríkisstjórnin sjálf ákvað að slá ferlinu á frest fyrir síðustu kosningar.

Umsóknin var misheppnuð frá upphafi og löngu tímbært að slá hana endanlega af.

Samfylkingin klúðraði þessu meginstefnumáli sínu með eftirminnilegum hætti.  Þeim væri hollast nú, að horfa í eigin barm. 

 

 


mbl.is Ákveðið að slíta aðildarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek algjörlega undir þetta G.Tómas.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2014 kl. 17:04

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er einfalt fyrir mér: Þegar þjóðin vil að sótt verði um inngöngu í ESB þá verður sótt um inngöngu í ESB. Hún hefur ekki enn verið spurð þessarar lykilspurningar og í raun verið neitað um það í tvígang.

Í öðru lagi: ef þjóðin hefði viljað ganga í ESB þá værum við þega í ESB. Já og líklega hefði Samfylkingin orðið sigurvegari i síðustu kosningum. Þannig er það nú bara ekki á þessari plánetu sem við lifum á. Til allrar hamingju, leyfi ég mér að segja.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.2.2014 kl. 18:56

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Krokódílatár Samfylkingarinnar eru bara til heimabrúks. Á því veltur líf hennar sem eins málefnis flokks að halda í rytjulegan söfnuðinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 22.2.2014 kl. 19:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband