Píratar á plankanum

Ég held að fæstir hafi haft miklar áhyggjur af Pírötum í upphafi þessarar kosningabaráttu.  Þetta var einhver hópur sérvitringa og nörda, sem virkuðu ósköp krúttleg og meinlaus.

En Píratar eru að komast að því að þegar flokkurinn er kominn með svipað fylgi og Vinstri græn og nálgast, jafnvel Bjarta framtíð og Samfylkinguna, þá er ekkert krútllegt við þá lengur.

Þá er nauðsynlegt að finna eitthvað sem hægt er að nota til að níða þá niður og helst auðvitað að láta þá ganga plankann.

Og viti menn.  Komið hefur í ljós að Píratar eru andfemínískir kvenhatarar, ofbeldismenn og hasshausar. 

Flogið hefur fyrir að margir Píratar hafi einnig gerst sekir um ólöglegt niðurhal og talið er að sumir þeirra eigi jafnvel Bitcoins, sem er þekktur gjaldmiðill í eiturlyfjaviðskiptum á netinu.  Ekki hafi þeir einungis reykt hass, heldur hafi margir þeira einnig "tekið oní sig". Sterkur, en óstaðfestur grunur leikur líka á að einhverjir þeirra hafi horft á klám á internetinu.

Fyrst tekur þó steininn þegar farið er að koma í ljós að á meðal Pírata finnast einstaklingar sem leyfa sér að efast um loftlagsbreytingar af manna völdum.

Ætlar þessari ósvífni Pírata aldrei að linna?

Nú ætla ég ekki að afsaka þá sem hvetja til ofbeldis, hafa hvatt til beitingu ofbeldis, eru "netdólgar" eða hafa framið auðgunarbrot.

En ég verð að viðurkenna að mér finnst langt til seilst.

Líklega þurfa þeir flokkar sem bjóða fram til Alþingis að fara að koma sér upp innri rannsóknarrétti, til að forðast slík afglöp í framtíðinni.

Það er líka spurning hvað það tekur langan tima fyrir slík "afbrot" að fyrnast?  Eða gera þau það?

Það er líka spurning hvaða skilaboð þetta sendir?  Er í lagi að hafa reykt hass, en ekki að hafa verið gripinn fyrir vörslu þess?  Er allt í lagi, bara ef maður hefur ekki verið gripinn?  

Eða eiga kjósendur tvímælalausan rétt á því að vita hvort frambjóðandinn í 16. sæti á einhverju listanum hafi einhvern tíma neytt fíkniefna?  Skiptir það máli?

Það er óhætt að bjóða Pírata velkomna í "djúpu laugina".  Svona er pólítísk barátta á Íslandi í dag.  Svo velta menn því mikið fyrir sér hvers vegna "góðir menn" vilja ekki gefa kost á sér og vegna hvers virðing fyrir stjórnmálunum fer minnkandi.

Ég ætla ekki að kjósa Pírata.  Ég hef áður sagt hér á þessu svæði að mér margt jákvætt hjá þeim þeir  sinna málum sem ekki er gefinn nægur gaumur, en samt, þeir fá ekki mitt atkvæði og stóð ekki til.

En ég hvet alla sem hafa hugleitt að gefa Pírötum atkvæði sitt, að leiða þessa "smear campaign" hjá sér.  

Takið ákvörðun á eigin forsendum.

Að lokum ætla ég að endurbirta hér pistill sem ég ritaði hér á þennan sama stað þann 30. ágúst 2006, þær skoðanir sem ég viðra þar eru enn í fullu gildi.

Af sakamönnum og dómgreind kjósenda

Ég er þegar búinn að fá 2. tölvupósta sem segja mér af "uppreist æru" Árna Johnsen, þetta virðist hafa hitt "íslensku þjóðarsálina" beint í hjartastað.  Einnig sýnist mér "netsamfélagið" á Íslandi hafa tekið vel við sér og sparar ekki stóru orðin, nú sem oft áður.

Persónulega er ég fyllilega sáttur við þessa framkvæmd, og er raunar þeirrar skoðunar að breyta eigi lögum um kjörgengi, þannig að hver sá maður sem er frjáls og á ekki eftir að afplána neinn dóm sé kjörgengur. 

Ég get enga ástæðu fundið til þess að svipta þá menn sem hafa hlotið dóm þessum réttindum.   Ég er líka sáttur við þá skýringu sem kemur fram frá Dómsmálaráðuneytinu í frétt mbl.is.

Það er engin ástæða til annars en að leyfa kjósendum að ráða, þeim er fyllilega treystandi fyrir þessu verkefni eins og flestum öðrum.  Ef kjósendur vilja kjósa fyrrverandi sakamenn sem fulltrúa sinn á Alþingi, eða til sveitarstjórna, sé ég ekkert athugavert við það.  Það verður hver og einn að gera það upp við sig hvern og hvernig menn þeir kjósa til þings.

Vilji Árni sækjast eftir þingsæti er það mér og mínum að meinalausu, hann getur reynt að bjóða sig fram á vegum Sjálfstæðisflokksins, einhvers annars flokks, eða farið í sérframboð.  Ég er alveg pollrólegur yfir því, vegna þess að ég veit að hann sest ekki á þing nema hann hafi til þess tilskilinn stuðning kjósenda. 

Við verðum því að treysta á dómgreind kjósenda, nú sem hingað til.

Hitt er svo annað mál, að ef ég yrði spurður hvort ég myndi kjósa Árna Johnsen, yrði svarið afdráttarlaust:  Nei. 

En ég hef bara 1. atkvæði (ég held að ég megi ennþá kjósa í Alþingiskosningum) og ekki í því kjördæmi sem Árni er líklegastur til að bjóða sig fram í, ef af verður.

Það getur komið til kasta þeirra sem velja á framboðslista (hvort sem um er að ræða uppstillingu eða prófkjör) en endanlegt val og ábyrgð liggur alltaf hjá kjósendum, þannig á það að vera.

Þeir eru að velja sinn fulltrúa.

 

Og svo allra síðast.  Smá léttleiki.  Pírata lag frá George Harrison.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það má kalla þetta "smear campaign", ef manni finnst gaman af samsæriskenningum.  En það vill bara svo til að þetta byrjaði allt á því að Gísli nokkur Ásgeirsson sem er feminískur aktívisti þekkti aftur nafnið á hrottanum í níunda sæti á norðurlandi, sem hótaði Hildi Lilliendahl dauða.  Og við það vaknaði forvitni femínista um annað fólk á lista Pírata.  Ég er femínisti og ég var að hugsa um að kjóas Pírata, en ég persónulega gæti aldrei kosið jafn and-feminíska einstaklinga á þing eins og efstu menn á lista í Reykjavík.  Það þarf ekkert "smear campaign" orð þeirra dæma sig sjálf.

Erna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 10:32

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er fullgilt sjónarmið. Sjálfur myndi ég til dæmis aldrei vilja kjósa feminsta á þing. Ég tel mig jafnréttissinna.

Ég set ekki samasem merki á milli femisma og jafnréttis.

En hitt er sjálfsagt að fordæma þá sem hóta ofbeldi og dauða. Það hafa Píratar sjálfir gert ef ég hef skilið rétt.

G. Tómas Gunnarsson, 15.4.2013 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband