Að verðlauna friðinn

Að flestu leyti má segja að Evrópusambandið sé vel að friðarverðlaunum Nóbels komið. Enginn (að ég tel) neitar því að "Sambandið" hefur stuðlað að friði og samvinnu innan Evrópu, alla vegna oftast nær.

En auðvitað er ef til full mikil einföldun að þakka "Sambandinu" fyrst og fremst þá staðreynd að Evrópu hefur átt frekar friðsælt skeið nú í ríflega 60 ár.

Líklega er rétt að þakka það frekar auknu lýðræði og vitundarvakningu, en að sérstakt samband þurfi til, en það hefur vissulega hjálpað til.  Það eru ekki lýðræðisþjóðir sem hafa staðið fyrir ófriðnum í Evrópu undanfarnar aldir.

Þjóðir geta slíðrað sverðin án þess að formleg bandalög komi til.  Í ár eru 200 ár síðan Bandaríki Norður Ameríku og Kanada háðu síðast stríð og ég hygg að ekki hafi verið mikil hætta á vopnuðum átökum þar undanfarna áratugi.  Lýðræði enda gróið í báðum ríkjunum og mikil efnahagslegs samvinna og samtvinnun átt sér stað.  Samvinna sem skilaði til dæmis  FTA samningnum, sem síðar varð grundvöllur að NAFTA.

Og þó að í dag sé ef til vill ekki rétti dagurinn til að hnýta í "Sambandið", er það einmitt einhver stærsti gallinn við framþróun þess, að lýðræðis hefðin hefur ekki verið sett í forgang við uppbyggingu þess. Lýðræðishallinn innan "Sambandsins", enda oft ræddur.  Ríkjum innnan "Sambandsins" og þó sérstaklega eurosvæðisins, er þröngur stakkur skorinn og  brestur í saumum, nákvæmlega núna þegar "Sambandið" fær friðarverðlaunin.

Þess vegna þarf friðarverðlaunahafinn að sætta sig við það að innan vébanda hans eru táragassprengjur í reglulegri notkun, þegnarnir kasta Molotovkokteilum (sem voru vissulega uppfundnir innan núverandi landamæra "Sambandsins") á löggæslulið, barsmíðar og óeirðir er daglegt brauð og hreyfingum andstæðum lýðræðinu vex fiskur um hrygg.

Það að steypa mörgum þjóðum saman í eitt ríki, eins og nú virðist vera stefnt að leynt og ljóst er ekki örugg uppskrift að friði.  Sum af grimmilegustu stríðum sögunnar hafa enda verið borgarastyrjaldir, eða styrjaldir sem brotist hafa út þegar ríki hafa brotnað upp.

En það er engu að síður rétt að óska "Sambandinu" til hamingju með verðlaunin.  

P.S.  Brandarar dagsins fjalla margir um það að nú sé skollið á "kalt stríð" innan "Sambandsins" um hver fái að taka við verðlaununum fyrir hönd þess.  Barroso, Van Rompuy eða Schulz. 


mbl.is Valið á ESB staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband