Viðræðuslit koma líklega fæstum á óvart

Ég held að fæstum hafi komið á óvart að slitnað hafi upp úr viðræðum vinstri flokkanna og Viðreisnar.

Það eru jú ástæður fyrir því að þetta eru 5 flokkar. Það eru ástæður fyrir því að nú eiga 7 flokkar sæti á Alþingi.

Við getum velt endalaust fyrir okkur hvers vegna Vinstri græn vildu ekki renna inn í Samfylkinguna (eins og staðan var þá, með félögum sínum úr Alþýðubandalaginu), hvers vegna Björt framtíð klofnaði úr Framsóknarflokki/Samfylkingu, hvers vegna Viðreisnarfólk klauf sig frá Sjálfstæðisflokki (þó að félagar komi vissulega víðar að) eða hvers vegna Píratar fundu sér ekki samastað í neinum öðrum flokkum.

Sömuleiðis getum við velt fyrir okkur hvers vegna fjöldi flokka hefur boðið fram upp á síðkastið, án þess að ná árangri fyrir erfiðið.

Að einhverju leyti má sjálfsagt tengja þetta við hina "klæðskerasaumuðu" tilveru "nútímamannsins". Við "veljum" okkur fréttir og fjölmiðla sem hentar okkar lífsviðurhorfi, "lifum" í hópi skoðanasystkina, og viljum starfa í stjórnmálaflokki án "málamiðlana".

Er eitthvað sem segir eða bendir til þess að líklegra sé að málamiðlanir geti orðið til á milli flokka heldur en innan flokka?

Eða er auðveldara að ná sáttum þegar fleiri hafa vegtyllur s.s. formaður, þingflokksformaður o.s.frv.?  Er eitthvað sem bendir til þess?

Það þarf einnig að hafa í huga að samvinna og samstaða í stjórnarandstöðu er býsna ólíkur hlutur og að starfa saman, gera tilslakanir og bera ábyrgð í ríkisstjórn.

Það má því segja að íslensk stjórnmál séu "sundruð" og skilaboðin sem lesa má út úr nýafstöðnum kosningum misvísandi.

Það er líklegt að slík staða verði um all langa hríð.

 

 


mbl.is Hver er Svarti-Pétur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ég þá Útvarp Saga?

Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð þau ummæli sem kært er fyrir, og ég hlusta aldrei á Útvarp Sögu, þá verð ég að viðurkenna að þessi ákæra fær mig til að velta því fyrir mér hvert stefnir á Íslandi.

Það er ekki gott að hata. Slíkt hugarfar skilar yfirleitt ekki nokkrum einstaklingi fram á við.

En bönn við hugsunum og tjáningu hafa yfirleitt ekki gert það heldur.

Ef við lítum nú á þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi í garð samkynhneigðra. Heldur einhver að hún hafi orðið vegna lagasetninga eða að bönn hafi verið sett?

Lagasetningar eru vissulega nauðsynlegar til að móta viðmót hins opinbera og lög eða reglugerðir eru nauðsynlegar í kringum giftingar, ættleiðingar, blóðgjafir o.s.frv.

En það voru ekki lög og reglugerðir sem breyttu viðhorfi almennings.

Það gerðist vegna hreinskilinna umræðna, fræðslu og ekki síst skemmtilegri og heiðarlegri framkomu samkynhneigðra.

Ég hygg að margir geti sagt, rétt eins og ég sjálfur, að þegar litið er til baka hafi ég haft fordóma í garð samkynhneigðra.

Ég hef stundum bætt við að hvernig hafi það getað verið öðruvísi miðað við það samfélag sem ég ólst upp í.  Það er þó í raun ekki næg afsökun, en það er hægt að kenna "gömlum hundum" nýja hugsun.

En þegar fyrir nokkrum misserum við sögðum svo mörg: Ég er Charlie, hvað vorum við að meina?

Meintum við "bara" að við værum á móti því að blaðamennirnir voru myrtir, eða vorum við einnig á móti því að reynt væri að skerða tjáningarfrelsi þeirra? Jafnvel þó að það sama tjáningarfrelsi þætti mörgum meiðandi, niðurlægjandi og hatursfull árás á trú þeirra og skoðanir?

Hefði okkur verið nákvæmlega sama ef blaðinu hefði bara verið lokað? Eða hefði okkur fundist ákjósanlegt að dæma blaðamennina í fangelsi?

Eða finnst okkur að þeir eigi rétt á því að tjá sig?

Ef ég segi já, er ég þá ekki sömuleiðis Útvarp Saga?

Þess vegna stend ég (með ofangreindum fyrirvörum) með Útvarpi Sögu.

P.S. Málið er athyglisvert og ef til vill er þörf á því að slíkt mál komi til kasta dómstóla.

Það er betra fyrir Íslendinga að vita hversu mikið löggjafinn hefur skert tjáningarfrelsi þeirra en að velkjast í vafa.

En ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Útvarp Saga hafi verið brotleg við lög og nauðsynlegt sé að refsa henni, legg ég til eftirfarandi: Að Útvarp Saga verði dæmd til að láta samtökum samkynhneigðra í té endurgjaldslaust 1. klukkustund á dag á milli 8 og 20, til að að útvarpa fræðslu og kynningu á sínum málefnum.


mbl.is Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband