Er ég þá Útvarp Saga?

Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð þau ummæli sem kært er fyrir, og ég hlusta aldrei á Útvarp Sögu, þá verð ég að viðurkenna að þessi ákæra fær mig til að velta því fyrir mér hvert stefnir á Íslandi.

Það er ekki gott að hata. Slíkt hugarfar skilar yfirleitt ekki nokkrum einstaklingi fram á við.

En bönn við hugsunum og tjáningu hafa yfirleitt ekki gert það heldur.

Ef við lítum nú á þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi í garð samkynhneigðra. Heldur einhver að hún hafi orðið vegna lagasetninga eða að bönn hafi verið sett?

Lagasetningar eru vissulega nauðsynlegar til að móta viðmót hins opinbera og lög eða reglugerðir eru nauðsynlegar í kringum giftingar, ættleiðingar, blóðgjafir o.s.frv.

En það voru ekki lög og reglugerðir sem breyttu viðhorfi almennings.

Það gerðist vegna hreinskilinna umræðna, fræðslu og ekki síst skemmtilegri og heiðarlegri framkomu samkynhneigðra.

Ég hygg að margir geti sagt, rétt eins og ég sjálfur, að þegar litið er til baka hafi ég haft fordóma í garð samkynhneigðra.

Ég hef stundum bætt við að hvernig hafi það getað verið öðruvísi miðað við það samfélag sem ég ólst upp í.  Það er þó í raun ekki næg afsökun, en það er hægt að kenna "gömlum hundum" nýja hugsun.

En þegar fyrir nokkrum misserum við sögðum svo mörg: Ég er Charlie, hvað vorum við að meina?

Meintum við "bara" að við værum á móti því að blaðamennirnir voru myrtir, eða vorum við einnig á móti því að reynt væri að skerða tjáningarfrelsi þeirra? Jafnvel þó að það sama tjáningarfrelsi þætti mörgum meiðandi, niðurlægjandi og hatursfull árás á trú þeirra og skoðanir?

Hefði okkur verið nákvæmlega sama ef blaðinu hefði bara verið lokað? Eða hefði okkur fundist ákjósanlegt að dæma blaðamennina í fangelsi?

Eða finnst okkur að þeir eigi rétt á því að tjá sig?

Ef ég segi já, er ég þá ekki sömuleiðis Útvarp Saga?

Þess vegna stend ég (með ofangreindum fyrirvörum) með Útvarpi Sögu.

P.S. Málið er athyglisvert og ef til vill er þörf á því að slíkt mál komi til kasta dómstóla.

Það er betra fyrir Íslendinga að vita hversu mikið löggjafinn hefur skert tjáningarfrelsi þeirra en að velkjast í vafa.

En ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Útvarp Saga hafi verið brotleg við lög og nauðsynlegt sé að refsa henni, legg ég til eftirfarandi: Að Útvarp Saga verði dæmd til að láta samtökum samkynhneigðra í té endurgjaldslaust 1. klukkustund á dag á milli 8 og 20, til að að útvarpa fræðslu og kynningu á sínum málefnum.


mbl.is Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þessum pistli.

Ég hlusta oft á Útvarp Sögu og þar finnst mér alveg sérstaklega áberandi hvað öll sjónarmið fá að koma fram.  

Hinn ágæti útvarpsmaður Pétur Gunnlaugsson heldur yfirleitt vel utan um þetta og er vanur að draga heldur úr ómálefnalegum ummælum.

Það er illa komið fyrir opinni umræðu ef A er gerður ábyrgur fyrir sjónarmiðum B ef þetta er eins og mér skilst að það séu ekki hatursfull ummæli Péturs sjálfs (hef aldrei heyrt slíkt til hans) heldur meint hatursfull ummæli innhringenda. 

Einn af helstu utanaðkomandi álitsgjöfum á Sögu er reyndar ekkert að liggja á þeirri staðreynd að hann sé hommi og er hafður mjög í hávegum á viðkomandi stöð, var held ég kosinn innhringjandi ársins af hlustendum í fyrra eða hitteðfyrra.

Þetta mál er náttúrulega gjörsamlega út í hött!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 08:59

2 identicon

Þetta er eitt af þeim svæðum sem menn verða að stíga ofurvarlega til jarðar (líkt og með innflytjendahælisleitendaflóttamannamál). Eitt orð sem er ekki í samræmi við pólitíska rétttrúnaðinn og þú getur verið sakaður um hatursræðu.

Er reyndar jafnfáfróður og þú um efni kærunnar af sömu orsökum og þú (sbr. innganginn), en ég velti fyrir mér hvort viðbrögðin yrðu svipuð ef þau beindust gegn einhverjum öðrum sem eru ekki eins verndaðir af pólitíska rétttrúnaðinum. 

Svo er enn önnur spurning; hvað er hatursræða? Hvaða skoðanir má hafa og tjá og hvernig? Ég öfunda satt að segja ekki þá dómara sem eiga eftir að þurfa að dæma um þetta.

ls (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 09:08

3 identicon

Sæll.

Lög um hatursorðræðu bjóða upp á misnotkun. Slík lög eiga ekki að vera til. 

Ef ég vil vera vitlaus og hata gyðinga, samkynhneigða eða aðra hópa á ég að mega það. Ef ég vil kalla gyðinga eða samkynhneigða ógeð eða eitthvað slíkt á ég að mega það. Næsta skref í þessu öllu saman er að meina fólki að tjá sig um málefni sem henta ekki sumum. Verður næsta skref að kalla það hatursorðræðu að vera á móti umhverfisvernd? Hvar ætlum við að draga mörkin? Má ekki særa tilfinningar fólks?

Tíma lögreglu er mun betur varið í að verja eignarrétt og líf og limi fólks, ekki tilfinningar þess. 

Helgi (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 09:38

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Ef við lítum nú á þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi í garð samkynhneigðra. Heldur einhver að hún hafi orðið vegna lagasetninga eða að bönn hafi verið sett?"

Eh já.  Það eru grunnforsendurnar.  Bannað að ofbeldast í orði eða verki að nefnum.  

Það er meir að segja stutt síðan að tekið var á þessu í Færeyjum með lagasetningu.  

Maður hélt nú að ekki þyrfti að segja ofsa-hægrimönnum og ÚS-lingum þetta.  En jú.  Það er eins og stór huti fólks viti ekki neitt nú til dags.

Áróðurinn á ÚS er svo þjóðarskömm og á ábyrgð framsjalla og annara öfga-hægrimanna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.11.2016 kl. 10:05

5 identicon

Þú hefur gaman af að setja saman orð Ómar Bjarki, en ekki er nú samsetningurinn þó alltaf merkilegur,meira samhengislítið skítkast. 

Ég vona þó að enginn sé svo vitlaus að fara að lögsækja þig fyrir kjánaskapinn, hvað þá bloggarann sem þú skrifar athugasemdina hjá. 

Varðandi lagasetningu þá hafa lög aldrei komið í staðinn fyrir gott siðferði. Hérlendis eru það hetjur eins og t.d. Hörður Torfason og slíkir sem þorðu að koma fram og tala fyrir réttindum homma og lesbía til að fá að vera þau sjálf, sem hafa haft miklu meiri áhrif til góðs á skoðanir almennings heldur en einhver lagasetning. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 11:18

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta. Tek undir þín sjónarmið. Eins og ég sagði áður hlusta ég ekki á Útvarp Sögu (hlusta reyndar lítið á íslenskt útvarp), en heyri ákaflega misjafnlega af henni látið, en það er líka ágætt að skoðanir séu skiptar og séu ekki allir að þjóna sama markhópnum.

@ls Þakka þér fyrir þetta. Þetta er eins og mörg önnur "svæði" býsna eldfim, en samt má ekki láta það vera að tjá sig um þau eins og önnur. Hræðslan má ekki hefta tjáninguna. En slík "þöggun" er þó að verða ískyggilega algeng í dag.

En auðvitað er "skotleyfi" á ákveðna aðila.

@Helgi Þakka þér fyrir þetta. Ég held að þessi lög hafi ákaflega takmarkaðan tilgang en þó hafa einstaklingar verið dæmdir eftir þeim ef ég man rétt.  En það er heldur ekki langt síðan menn þurftu að verjast ákærum gegn guðlasti.

@Ómar Bjarki Þakka þér fyrir þetta. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að viðhorfsbreytingin í garð samkynhneigðra hafi byrjað löngu áður en lögum var breytt.  Gleðilegangan ein og sér hefur líklega gert meira gagn en allar lagasetningar.

En ég held að það sé ekki síst einstklingum eins þér að þakka hve "bannglöðum" flokkum á Íslandi gengur illa að ná í fylgi. Einstaklingar sem halda að rökræður vinnist með því að nota stór orð og skeyta "öfga" fyrir eins mörg og hægt er, sem "umburðarlyndi" nær aðeins til málefna sem þeir eru samþykkir og líta helst svo á að allt sé bannað, nema það sé sérstaklega leyft, hafa sem betur fer mikinn fælingarmátt.

En ég held að skrif þín myndu lítið skána þó að það yrði bannað að skrifa heimskulega.  :-)

G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2016 kl. 14:38

7 Smámynd: Kristján Magnús Arason

Mjög athyglisverðar og hreinskilnar pælingar hjá þér, Tómas.  Mér fannst nú mest sláandi klausan sem ákæran er byggð á.  Voru orðin sem um ræðir þá árás "á hóp manna vegna þjóðern­is þeirra, litar­hátt­ar, kynþátt­ar eða trú­ar­bragða"?  Ég sé ekkert þarna um kynhneigð.

Kristján Magnús Arason, 29.11.2016 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband