Athyglisverð skoðanakönnun

Þessi könnun er athglisverð nú u.þ.b. 2. vikum eftir kosningar.

Eins og oft er með kannanir á fylgi er hægt að skoða hana með tvö mismunandi viðmið.  Annars vegar er hægt að bera niðurstöðurnar saman við kosningaúrslit, eða þá að bera þær saman við síðustu könnun sama fyrirtækis, sem birtis degi fyrir kjördag.

Ályktanirnar sem hægt er að draga af könnuninni eru nokkuð misvísandi eftir því hvort viðmiðið er valið.

Þannig er t.d. Sjálfstæðisflokkurinn nokkuð undir kjörfylgi, en bætir sig frá könnun sama fyrirtækis deginum fyrir kjördag.

Vinstri græn bæta við sig, en minna sé miðað við skoðanakönnunina en kjördag.

Fylgið virðist halda áfram að hrynja af Pírötum, en hrunið er þó mun meira ef miðað er við skoðanakönnunina en kjördaginn.

Viðreisn stendur nokkuð í stað frá kjördegi, en bætir við sig miðað við skoðanakönnunina.

Sama má segja um Bjarta framtíð, þar er bæting frá báðum viðmiðum.

Það er öfugt með Framsóknarflokkinn, þar er tap á báðum vígstöðvum.

Samfylkingin rekur svo eins og áður lestina, þar er tap á báðum vígstöðvum, tapið frá kosningum er þó varla mælanlegt, aðeins 0.1%, en flokkurinn missir hálft prósentustig frá skoðanakönnuninni.  Neðri vikmörk tækju hann út af þingi (nema hugsanlega kjördæmkjörinn þingmann í NE).

Eins og oft áður skiptir máli hvert viðmiðið er í hinni pólítísku baráttu, en þó eru þarna  vísbendingar um fylgishreyfingar þó að þær séu ekki miklar.

En það eru þeir flokkar sem hafa verið mest í umræðunni í kringum stjórnarmyndun sem koma best út, hinir síður.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að segja að niðurstaðan komi á óvart

Ég get ekki sagt að þessi niðurstaða komi mér á óvart.  Ég hefði talið það gæti ekki talist annað en neyðarbrauð að leggja af stað með ríkisstjórn með 1. þingmanns meirihluta nú.

Hvert framhaldið verður er eitthvað sem ég ætla ekki að spá um.

Sú frétt að Bjarni og Katrín hafi rætt saman gefur ástæðu til örlítillar bjartsýni.

En þar sem ég hef alltaf gaman af því að hafa rétt fyrir mér, spái ég að næst verði stjórnarmyndunarviðræður þar sem Katrín Jakobsdóttir kemur við sögu.

En læt ósagt hvaða aðrir flokkar verði þar viðloðandi.

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlítið um "góða fólkið" sem stuðlaði að kjöri DJ Trump

Hér er myndband frá "fréttaritaranum" Jonathan Pie (sem er alter ego grínistans Tom Walker). Hann er nokkuð ómyrkur í máli, og það má segja að "fuck" sé ef til vill of stór hluti orðaforðans. En það má vel hafa gaman af þessu og reyndar gagn ef út í það er farið. Enda fer naglinn beint á höfuðið í mörgum tilfellum. P.S. Ef til vill er það sorglegasta við þennan rant og og þennan "fréttamann" sú staðreynd að ótrúlega margir telja hann alvöru. Ef til vill segir það eitthvað um ástand fjölmiðla í nútímanum.


Hræsni Evrópusambandsríkja

Ég er reyndar sammála Þýskum stjórnvöldum þegar þau segja að Trump megi ekki gleyma Aleppo eða Krímskaga.

En ef til vill færi betur á því að Þýsk stjórnvöld og Evrópusambandið sjálft liti í eigin barm.

Hvað hafa þau gert fyrir Krímskaga? Hvað hafa þau gert til þess að Ukraína geti endurheimt stjórn yfir austur hluta landsins, hvað þá endurheimt yfirráð yfir Krímskaga?

Hvaða ríki er berjast fyrir lagningu annarar gasleiðslu yfir Eystrasaltið, frá Rússlandi til Þýskalands?

Og hvers vegna skyldu Rússar vilja leggja þá leiðslu? Hvaða hag sjá Þjóðverjar í því að hún sé lögð?

Leiðslan, ef af verður, mun auðvelda Rússum að beita þvingunum hækka verð til A-Evrópu án þess að styggja viðskiptavini sína í V-Evrópu. Auðveldar sömuleiðis valdbeitingu í ríkjum eins og Ukraínu, ef út í það er farið.

En jafn ógeðfelld sú tilhugsun er, er ég þeirrar skoðunar að Krímskagi komist aldrei aftur í hendur Ukraínu. Rússar munu komast upp með þá innrás, enda líklega flestum ljóst að í raun hefur öll andstaða þar að lútandi verið innantóm.

Þjóðir Evrópusambandsins mættu sömuleiðis líta í eigin barm, eða öllu heldur til eigin herja.

Her Þýskalands komst í fréttirnar fyrir all nokkru vegna þess að hluti hans æfði með kústsköftum vegna skorts á vopnum.

Flugherinn er "grándaður" að stórum hluti vegna fjárskorts og jafnvel innan við 10% af orustuþotum í flughæfu standi.

Því miður er svipaða sögu að segja af herjum of margra "Sambandsríkja".  Belgíski herinn er að margra mati óvenjulega vel "vopnaður eftirlaunasjóður".

En sem betur fer virðast raunveruleikinn vera að ná til einhverra.  Svíar og Finnar hafa t.d. vaknað upp við vondan draum, þegar Rússar stórauka "nærveru" sína.

Sigur Trump virðist einnig hafa vakið ýmsa stjórnmálamenn í Evrópusambandsríkjunum til umhugsunar. Að ef til vill þurfi þau að auka sínar eigin varnir, að ef til vill þurfi hergögn að "virka".

Að ef til vill sé ekki nóg að treysta á að Bandaríkin komi til bjargar og þau geti vanrækt eigin varnir.

Ef kosning Trumps hefur orðið til þess, má ef til vill segja að hún hafi þegar haft áhrif - til góðs.

 


mbl.is Trump má ekki gleyma Aleppo eða Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað eiga "flautuleikarar" ekki að spila lög um "góða fólkið".

Það er áhugavert að heyra að það sjónarmið að Wikileaks hafi gengið of langt í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna.

"Upp­ljóstr­ar­ar sem varpa ljósi á spillt­ar rík­is­stjórn­ir og stríðsglæpi eru ekki svik­ar­ar. Skamm­astu þín.."

En þegar ljóstrað er upp um spillta frambjóðendur og vafsamar gjörðir þeirra, þá er "gengið of langt".

Ég ritaði hér á blogginu fyrir nokkrum dögum:

"Wikileaks, sem hefur verið eins og "lýsandi viti" fyrir hinn "frjálslynda heim", er nú "handbendi Rússa". Lekar eiga ekkert erindi til almennings ef þeir hjálpa "vondu köllunum"."

Það má lengi deila um hvaða upplýsingar eigi erindi til almennings og hverjar ekki.

Í gegnum árin hefur Wikileaks birt mikið magn af gögnum sem hafa m.a. innihaldið mjög viðkvæmar persónulega upplýsingar.  Upplýsingar sem hafa skapað mörgum persónuleg vandræði og jafnvel sett líf þeirra í hættu.

Gögn á vefsvæði Wikileaks hafa einnig innihaldið nöfn "leynilegra útsendara", eða heimildarmanna, staðsettum í löndum sem slíkt setur líf þeirra sjálfkrafa í hættu.

Þess vegna hefur viðhorf margra til Wikileaks verið blendið í gegnum tíðina.

En það er ekki hægt annað en að kíma, þegar það er atganga gegn Hillary Clinton sem snýr svo mörgum gegn þeim.

Hafi upplýsingar þær sem Wikileaks hefur birt í gegnum tíðina átt erindi til almennings, ættu gögnin frá Hillary Clinton og Demókrötum svo sannarlega erindi.

En auðvitað eiga "flautuleikarar" að þjóna "góða fólkinu".

Það flækir svo auðvitað málið að það getur verið svo skratti erfitt að sjá hverjir það eru.

 

 

 

 


mbl.is Sagði höfundi Downton Abbey að skammast sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki best að skipta á vöffum í viðræðunum?

Nú ætla Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð að "kíkja í pakkann" og athuga hvort að þar leynist eitthvað sem þeir geta sameinast um að mynda ríkisstjórn í kringum.

Ég verð að lýsa þeirri persónulegri skoðun minni að mér lýst ekki á þessa ríkisstjórn.

Ég held að þetta sé ekki það sem Ísland þarfnast nú.  Vissulega hljómar þetta betur en 5 flokka vinstristjórn, en ríkstjórn með tveimur til þess að gera nýjum flokkum og eins manns meirihluta er ekki eitthvað sem ég held að sé rökrétt í stöðunni.

Ég held að Ísland þarfnist stjórnar sem geti stjórnað af meiri festu og með víðari pólítíska skírskotun.

Best væri auðvitað að skipta á "vöffum" í þessum viðræðum, að VG kæmi inn í viðræðurnar í stað Viðreisnar.

En það er auðvitað spurning hvað samband Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er sterkt?

En auðvitað þarf landið að fá ríkisstjórn og rétt á líta málin opnum huga, alla vegna þangað til (ef) stjórnarsáttmáli lítur dagsins ljós.

 


mbl.is Formlegar viðræður hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem vita betur en kjósendur

Ég er í sjálfu sér sammála Páli Vali, að ég get hugsað mér margar betri ríkisstjórnir en AC/D(C) stjórnina sem nú er reynt að basla saman.

En á hinn bóginn tel ég að í raun eigi allir þeir flokkar sem nú eiga sæti á Alþingi að geta átt þokkalega "samleið".  Það má í raun segja að það sé skrýtið að heyra hið gagnstæða frá einum af þeim fyrrverandi þingmönnum sem einmitt hefur verið svo tamt að tala um "ný vinnubrögð".

En reyndar hef ég stundum fengið það á tilfinninguna að "ný vinnubrögð" séu svolítil "einstefna".  Það er að segja að hjá þeim sem má heyra þetta hugtak hvað oftast, þá meina þeir að taka eigi tillit til þeirra sjónarmiða, en þeir hafa engan áhuga á því að taka tillit til sjónarmiða annara.

Því þeir "vita betur".

Ég er ekki frá því að Óttar Proppe skilji hvað ég er að fara.

Hvað varðar svo Bjarna Benediktsson og "Panamaskjölin", þá virðist fyrrverandi þingmaðurinn, Páll Valur Björnsson, ekki skilja til hvers kosningar eru. 

Þær eru til þess að kjósendur geti fellt sinn dóm.

Og sá dómur var felldur fyrir u.þ.b. tveimur vikum.

Sá dómur var á þann veg að kjósendur juku við fylgi Sjálfstæðisflokksins, hann er lang stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Í öllum kjördæmum landsins er hann stærsti stjórnmálaflokkurinn. Í kjördæmi Bjarna Benediktssonar hlaut flokkurinn mjög glæsilega kosningu, sem flestir eru sammála því að hafi verið góður persónulegur sigur fyrir Bjarna.

Á sama tíma minnkaði fylgi Bjartrar framtíðar og kjósendur felldu þann dóm yfir þingsetu Páls Vals Björnssonar, að frekari þingsetu af hans hálfu væri ekki óskað.

Að því leiti má sjálfsagt segja að ekki sé verið að óska eftir því að Björt framtíð eigi samleið með einum eða neinum í ríkisstjórn.

En lýðræðið tekur á sig ýmsar myndir. Stærstur hluti kjósenda óskar eftir Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.

Öllum flokkum ber skylda til þess að vinna heilshugar að því að á Íslandi myndist starfhæf ríkisstjórn. Það er eðlilegt að undir þeim kringumstæðum þurfi allir flokkar að gefa eftir. 

Oft fer það svo að minni flokkar þurfa að gefa meira eftir en þeir stærri. Það getur varla talist óeðlilegur, ólýðræðislegur gangur.

Ég held að flestir kjósendur skilji það.

En það eru líka margir sem telja sig "vita betur" en kjósendur.

P.S. Vissulega var minnst á Bjarna Benediktsson í "Panamaskjölunum". Engan hef ég heyrt svo mikið sem ýja að því að það hafi verið tengt einhverju ólöglegu. Hefði svo verið má telja líklegt að mun meira hefði verið gert úr hans þætti fyrir kosningar.

Sjálfsagt hefði Ríkisútvarpið ráðið verktaka í málið.

 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband