Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hringurinn

Þessi frétt afhjúpar á miður skemmtilegan hátt hvernig vinnubrögðin virðast vera í ríkisbönkunum nýju.  Reynt virðist að fela sannleikann í lengstu lög, þræta fyrir og halda áfram að vinna áfram bakvið tjöldin.

En það er eftirfarandi klausa í fréttinni á vef RUV, sem ekki er minnst á í fréttinni hér á mbl.is, sem er hvað athygliverðust:

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði Tryggvi milligöngu um að Hagar kæmu með tilboð í þrotabúið, og þá sat hann fund þar sem tilboð Haga var rætt, en lánsvilyrði frá Landsbankanum var forsenda þess tilboðs. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að Tryggvi hafi haft bein afskipti af sölu Skífunnar til Senu, dótturfyrirtækis 365 sem er í eigu Baugs. Hann kom á fundum milli manna, sá um að útvega gögn og aðstoðaði við tilboðsgerðina. Þá var Tryggvi viðstaddur, ásamt lögmönnum félaganna, þegar samningar voru undirritaðir, en Landsbankinn fjármagnaði kaupin fyrir 365. Hinu tilboðinu í þrotabú BT var ekki svarað formlega en skiptastjóri yfir þrotabúinu var Helgi Jóhannesson. Helgi sat um tíma í stjórn Fjárfars, sem er félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og var einn af verjendum í Baugsmálinu svokallaða. Þá sótti hann mál gegn Jóni Geraldi Sullenberger í Flórída fyrir hönd Jóns Ásgeirs. Hann vildi hvorki láta af hendi kauptilboðin né kaupsamninginn við Haga þegar eftir því var leitað og bar fyrir sig trúnaði við hlutaðeigandi.

Feitletranir eru blogghöfundar.

Þetta hefur líklega ekki verið flókið að ganga frá smámáli, eins og kaupum á einni verslunarkeðju, þegar saman koma menn sem eru vanir að vinna saman.

En það er ekki að efa að stjórnendur Landsbankans njóti fyllsta trausts bankaráðsins sem réði þá og að bankaráðið njóti fyllsta trausts stjórnmálamannana sem skipuðu þá.

 


mbl.is Tryggvi hafði bein afskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi verður að sjá hver þau [áhrifin] verða á næstu misserum og mánuðum

Fékk þennan skemmtilega hlekk í póstinum í morgun.  Sé honum fylgt má lesa stutta frétt á vefsíðunni eyjan.is, síðan í desember 2007.

Vitnað er í heimasíðu viðskiptaráðherra (en þar hefur allt verið þurkað út, að virðist vera) og eftir honum haft:

“Lán í erlendum myntkörfum hafa mjög svo rutt sér til rúms á skömmum tíma og nú er ríflega 12% lána hérlendis tekin í erlendum myntum. Og fer vaxandi. Fjölmyntasamfélag má með sanni segja og almenningur einfaldlega metur það gengisháhættunnar virði að taka slík lán á mun lægri vöxtum óverðtryggð. Einhverskonar evruvæðing almennings heldur áfram og hefur mjög markað þetta ár allt. Sú væðing dregur að sjálfsögðu úr vægi peningastefnu Seðlabankans þar sem æ stærri hluti hagkerfisins er í gjaldmiðlum sem vaxtastefnan nær ekki til: verðtryggð langtímalán í íslenskum krónum og erlendar myntkörfur. Þetta hefur verið hröð þróun og hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Spennandi verður að sjá hver þau verða á næstu misserum og mánuðum. Sérstaklega ef það gengur eftir sem verkalýðshreyfingin boðar að í kjarasamningum komandi verði sérstakur rammi sniðinn utan um laun íslenskra fyrirtækja greidd í erlendum gjaldmiðlum.”

Viðskiptaráðherra fagnar ákaflega að æ stærri hluti Íslensks viðskiptalíf og fjármálakerfis njóti stýringar einhvers annars en Seðlabanka Íslands. 

Sérstaka athygli hljóta eftirfarandi setningar að vekja:  Sú væðing dregur að sjálfsögðu úr vægi peningastefnu Seðlabankans þar sem æ stærri hluti hagkerfisins er í gjaldmiðlum sem vaxtastefnan nær ekki til: verðtryggð langtímalán í íslenskum krónum og erlendar myntkörfur. Þetta hefur verið hröð þróun og hefur að sjálfsögðu mikil áhrif. Spennandi verður að sjá hver þau verða á næstu misserum og mánuðum.

Það voru hins vegar margir flokksbræður ráðherrans sem vildu kenna áðurnefndri peningastefnu um flestar eða allar ófarir Íslendinga.

En ekki þarf að efa að viðskiptaráðherra hefur fylgst spenntur með áhrifum sem þverrandi áhrif Seðlabanka höfðu.

 

 


Skuldsett yfirtaka?

Ég hálf hló við þegar ég las þessa frétt, dulítið fyndið að sjá orðfæri úr viðskiptunum fært yfir í stjórnmálin með þessum hætti.

Næsta hugsun var svo, hvaða gengi skyldi hafa verið boðið?

Tapa Finnur og félagar stór fé á yfirtökunni og skyldi hún vera skuldsett?


mbl.is Fjandsamleg yfirtaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fella niður skuldir

Það er mikið rætt um niðurfellingu skulda á Íslandi þessa dagana.  Þeir eru enda margir þeirrar skoðunar að ekki verði hjá því komist að fella niður umtalsverðar skuldir sem hvíla á Íslenskum fyrirtækjum ef þau eiga að eiga möguleika til þess að lifa, hvað þá dafna.

Ég er sammála því að líklega verður ekki hjá því komist að bankarnir niðurfæri umtalsverðar skuldir, hjá því verður líklega ekki komist og eins og einhverntíma var sagt, það verður ekki kreist blóð úr steini.

En það skiptir meginmáli hvernig að þeirri niðurfærslu er staðið.

Í engu tilfelli á að niðurfæra skuldir nema annað komi í staðinn, s.s. hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki í fullu samræmi við þær upphæðir sem eru felldar niður og verðmat á viðkomandi fyrirtæki.

Ef skuldir hafa vaxið fyrirtækjunum yfir höfuð þá eignast bankarnir einfaldlega meirihluta í fyrirtækjunum eða hreinlega fyrirtækið allt eftir því hvernig staðan er.

Bankarnir verða síðan að ákveða hvort þeim er hagfeldara að reka fyrirtækin um einhvern tíma, eða selja þau strax.  Sjálfsagt er að hið opinbera setji tímaramma á hvað lengi fyrirtæki eða hlutabréf geti verið í eigu bankanna.

Söluferlið á að vera opið, allar eigur og öll hlutabréf eiga að vera auglýst, eða fyrirtækið skráð á markað.

Undir engum kringumstæðum eiga núverandi eigendur fyrirtækja að fá niðurfærðar skuldir án þess að tilkomi eignarhluti í staðinn.

Íslendingar þurfa ekki fleiri rauðsólir á loft.


Blóð er þykkara en ...

Það kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart þó að einhver uppstokkun verði í Íslenskum stjórnmálum þessa dagana.  Mikið hefur gengið á og nóg framboð af mismunandi skoðunum.

Ég verð þó að viðurkenna að þessi vistaskipti komu mér nokkuð á óvart, enda hlýtur það að teljast til nokkurra tíðinda að varaþingmaður og fyrrverandi aðstoðarmaður 100 daga borgarstjórans skipti um vist.

Víst er að ekki veitir Framsóknarflokknum af auknum liðstyrk og má vera nokkuð sama hver kemur eða hvaðan, staða flokksins er slík.

En víða flýgur það fyrir að Guðmundur hyggist styðja Pál Magnússon sem formann Framsóknarflokksins, ég á erfitt með að tengja það við þá yfirlýsingu að taka þátt í endurreisnarstarfi flokksins af heilum hug, en vissulega er eðlilegt að misjafnar skoðanir séu á því.

En svo er líka minnst á gegnsæi í fréttatilkynningunni sem leiddi huga minn að því að ekkert er minnst á hvort að Guðmundur hafi, eða hyggist segja sig frá því að vera varaþingmaður sem, en þá vegtyllu hlaut hann eins og flestum er kunnugt fyrir atbeina stuðningsfólks Samfylkingarinnar.


mbl.is Guðmundur í Framsóknarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir samsteypunnar

Þessi deila gefur (miður) skemmtilega innsýn í hvernig Íslenskt viðskiptalíf hefur þróast og virkað undanfarin ár.

Hér er gott dæmi um hvernig hagsmunir samsteypunnar sem á meirihluta í fyrirtækinu (51%) eru látnir vega þyngra en hagsmunir fyrirtækisins og minnihluta eigenda.

Að sjálfsögðu er það eigendum í sjálfvald sett hvernig þeir haga viðskiptum sínum ef um einkahlutafélag er að ræða, en annað gildir þegar um er að ræða hlutafélag.

Það verður fróðlegt að fylgjast með í hvaða farveg þetta mál fer, hvort að yfirvöld koma að málinu, eða hvort minnihluta leitar til dómstóla.

Miðað við söguna mætti álykta að dómstólar myndu telja þetta "bara viðskipti" en það er spurning hvort að yfirvöldum hefur aukist kjarkur til að láta til sín taka og eðlilegir viðskiptahættir séu hærra skrifaðir á þeim bænum en áður.

 


mbl.is Hlýtur að koma til skoðunar samkeppnisyfirvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn keppur til í sláturtíðinni

Það stefnir allt á sömu leið, spurningin er hvort að allar flóðgáttir opnist.

Það er búið a dæla fé í fjármálafyrirtæki, margir (og þar á meðal verðandi forseti) virðast vera þeirrar skoðunar að réttlætanlegt sé að taka fé af almenningi til að rétta við bílafyrirtæki sem framleiða bíla sem hinn sami almenningur er ekki ginkeyptur fyrir því að kaupa. 

Hið opinbera hér í Ontario og Kanada er þegar búið að ákveða að afhenda nokkra milljarða dollara til hinna þreyttu bílafyrirtækja.

Er þá ekki eðlilegt að að það þurfi að koma stálfyrirtækjunum til hjálpar?

Svo er það timburiðnaðurinn sem stendur höllum fæti og ekki er nú olíuiðnaðurinn að gera það gott þegar verðið hrapar.  Eftirspurnin eftir öðrum málmum hefur sömuleiðis hrapað, þannig að námafyrirtækin sjá fram á erfiða tíma.

Ekki standa nú flugfélögin heldur of vel og sama má segja um humarveiðimenn.

Hverjum skyldi svo ætlað a greiða fyrir þetta allt saman?  Hvaðan eiga peningarnir að koma?

Hvað skyldi hið opinbera eiga margar leiðir til að ná í fé?


mbl.is Óttast hrun stáliðnaðarins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt ár, sama ....

Þá er komin tími til að blog þetta lifni við eftir að fjölskyldumeðlimirnir að Bjórá hafa slegið slöku við undanfarna daga.  Það hefur enda verið í nógu að stússast, mikill tími hefur farið í að elda hangikjöt, nautasteikur, kalkúna og aðra fugla og næstum í því jafn langur tími fór í að snæða herlegheitin, sérstaklega þegar bætt var við ís, konfekti og öðru góðgæti.

Hingað komu góðir gestir ofan að Íslandi, sem eftir smá hrakninga komust í hús ríflega 9. á aðfangadagskvöld, og ég held að allir hafi átt góð og frekar róleg jól að Bjórá.

Gestirnir drifu sig svo heim þann 30. og Bjórárfjölskyldan fagnaði áramótunum í ró og kyrrð heima fyrir, með stjörnuljósum og púðurgosum.  Fyrst var kveikt í flugeldum kl. 5 til að fagna Eistnesku áramótunum og svo aftur kl. 7 til að fagna þeim Íslensku.  Þessi háttur var hafður á, þar sem talið var (sem reyndist rétt) að yngri helmingur Bjórárfjölskyldunnar myndi ekki megna að vaka til miðnættis að staðartíma.  Rétt er þó að taka fram að Bjórár flugeldarnir voru þeir einu sem ég sá í nágrenninu, enda ekki til siðs að skjóta hér svo neinu nemi um áramót.

Horft var á Skaupið á netinu stuttu fyrir miðnætti, og var það hin besta skemmtun, vel gert og gott grín, þó að hlátrasköll hafi ekki verið mörg, þá var ég mjög ánægður með Skaupið.

En nú er liðið 2008, ár sem líklega verður helst minnst fyrir það sem aflaga fór, en reyndist okkur að Bjórá gott ár að lang mestu leyti, margt sem gladdi þó að fjárfestingar okkar til elliáranna séu ekki þar á meðal.

2009 er enn óskrifað blað, en verður vonandi happadrjúgt og farsælt, þó vissulega séu blikur á lofti.

Bjórárfjölskyldan óskar öllum nær og fjær hamingju og farsældar á nýbyrjuðu ári.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband