Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Indianapolis

Það fór eins og mig grunaði að það yrði á brattan að sækja fyrir okkur Ferrari menn í Indianapolis.  Það er frekar erfitt að sætta sig við það að vera heilum klassa fyrir neðan McLaren.

McLaren bar svo af að undrum sætir, og það segir ef til vill nokkuð um kappaksturinn að mesta spennan var hvort að Alonso næði að fara fram úr Hamilton.  Það var aldrei nein spurning að þeir yrðu í 2. efstu sætunum, nema að kæmi til bilana. 

Talandi um þá tvo, þá er það skondin tilhugsun að nýliðinn Hamilton sé líklegastur til að koma í veg fyrir að Alonso nái að verða heimsmeistari 3. ár í röð.

Eina vísbendingin um að betri tímar gætu verið í vændum var að Raikkonen setti hraðasta hring, en það eitt dugir þó að sjálfsögðu skammt.

Ég verð að vona að Ferrari nái að koma til baka í Frakklandi eftir hálfan mánuð.  Því miður bendir allt til þess að ég verði það upptekin að ég geti ekki séð þann kappakstur, en við sjáum til.


Til fyrirmyndar

Ég er afar ánægður með þessa framgöngu Steinunnar Valdísar, hún er hreint til fyrirmyndar. 

Ég hef oft minnst á á skoðun mína að stjórnmálamenn eigi að einbeita sér á annað hvort á Alþingi eða í sveitarstjórnum.  Vissulega er ekkert sem bannar að setið sé á báðum stöðum og auðvitað er engin ástæða til að banna það, en mér finnst eðlilegt að stjórnmálamenn sýni það siðferði að sinna aðeins einu starfi í senn.

Skyldu þeir stjórnmálamenn sem sitja bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum vilja gefa þá yfirlýsingu að hvort um sig sé aðeins hálft starf?

Eru þeir þeirrar skoðunar að starfsystkin þeirra sem gegna aðeins starfi á öðrum vettvanginum séu ekki í fullri vinnu?

Ef svo er, þá er vissulega ástæða til að líta á launakjör þeirra öðrum augum.


mbl.is Hættir í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði

Ég horfði ekki á tímatökurnar í dag, þar sem Íslendingar hér um slóðir fögnuðu fullveldinu í dag, þá kaus ég heldur að eyða tímanum þar.

 Auðvitað blasir það svo við þegar heim er komið að sem Ferrari aðdáandi missti ég ekki af neinu stórkostlegu.  Vissulega höfum við 3ja og 4ja sætið, en það er ekki það sem við viljum sjá.

 Það er nokkuð skondið að sjá að Hamilton hefur tekið annan pólinn í röð og hirt hann "af nefinu" á Alonso.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig úr þessu spilast á morgun og hvernig Alonso tekur þessu mótlæti.  Ef Hamilton nær að sigra á morgun, verður eðlilegt að McLaren fari að huga að því hvort ekki sé rétt að leggja þyngri lóð á vogarskálar Hamilton, þar sem það er ekki gott fyrir lið að stigin dreifist of jafnt.

En auðvitað vona ég að Massa nái að skjóta þeim báðum ref fyrir rass og ekki er ég búinn að gefa upp alla von að Raikkonen nái að sýna hvað í honum býr, en það má segja að fyrir hann er ekki eftir neinu að bíða með það.

En ég get ekki sagt að bjartsýnin sé mikil fyrir morgundaginn.


mbl.is Hamilton á ráspól í Indianapolis og Alonso annar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæ, hó og sextándinn

Eins og venja er til fagna Íslendingar hér í Toronto og nágrenni Þjóðhátíðardeginum. Það er þó hefð að gera það helgina undan eða eftir, því að sjálfsögðu er dagurinn ekki frídagur hér í Kanada. Gjarna verður laugardagurinn fyrir valinu og svo var það þetta árið. Það voru grillaðar pylsur og borgarar, etin Prince Polo, farið í sund og menn skemmtu hvor öðrum. Það var enginn "Íslenskur bragur" á Þjóðhátíðarveðrinu, sól skein í "heiði" og hitinn var eitthvað á fjórða tuginn í celsíus gráðum talinn.

Foringinn kunni afar vel við sig í sundlauginni og var fyrsti maður út í og þó að honum væri orðið ofurlítið kalt, svaraði hann spurningunni um hvort hann vildi ekki koma upp úr alltaf: "Ég þarf að synda aðeins lengur."

Set hér inn 2 stutt myndbönd sem ég tók á littlu "imbavélina" mína.


Bandamenn

Eystrasaltsþjóðunum veitir svo sannarlega ekki af bandamönnum, enda ástæður fyrir því að þau sóttu fast og hratt að komast í NATO og raunar einnig ESB. 

 Þau vildu tilheyra bandalögum, njóta stuðnings og hafa bakhjarla í viðskiptum sínum við risastóran nágrannan, Rússland.

Það er hins vegar merkilegt að Rússar virðast í samskiptum sínum við þessar litlu þjóðir (og auðvitað fleiri) líta á sig sem beint framhald af hinu Sovéska heimsveldi.

Rússar verða að gera sér grein fyrir því að þessar þjóðir eru ekki hernumdar lengur, heldur sjálfstæðar.  Þær taka sjálfstæðar ákvarðanir, jafnt í innanríkismálum sem utanríkis.  Vissulega bera þær ótta til Rússneska "bjarnarins", en þær láta ekki traðka á sér.

Það er auðvitað löngu tímabært að Rússar komi fram við nágranna sína sem jafningja og af virðingu, en það er þó ekki of líklegt að það gerist á næstunni.


mbl.is Bandaríkin segja Rússum að vera ekki með hótanir gagnvart Eystrasaltsríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimasætan

Varð að skella hér inn 2. nýjum myndum af heimasætunni að Bjórá.  Þær eru teknar í gær og fyrradag.

 

 

 


Að standa á eigin fótum

Það er ekki alltaf einfalt að standa á eigin fótum, það þekkja líklega flestir. En það gildir að gefast ekki upp og auðvitað er gott að hafa eitthvað til að styðja sig við. Þegar maður er bara 10 mánaða, er þetta "tilgangur lífsins", en næsta þrep er að sjá út um gluggann, þangað til er best að skoða bara bók. Hér er svo aftur frá því að fyrst var farið í rólu, en það er mikil upplifun fyrir ekki eldri dömu. Enda skemmti hún sér vel.

Kvótinn búinn?

Ég held ekki bókhald yfir það hversu oft er grillað, en það er þó næsta ljóst að "grillkvótinn" er búinn þetta árið, ef ekki á að stefna heilsu og vellíðan fjölskyldunnar í hættu.

En það er eitthvað sem segir mér að grillað verði "utan kvóta" vel fram á haustið.  Það er nefnilega allt annað líf að elda utanhúss, og svo mikið þægilegra þegar heitt er í verði að vera ekki að kveikja á ofninum eða eldavélinni, sem hitar upp eldhúsið og næsta nágrenni.

Það er því umhverfisvænt að grilla, enda þarf þá ekki jafn mikla loftkælingu.

Hitt er svo annað mál, að auðvitað reyni ég að forðast það að brenna matinn og gildir þá einu hvort ég elda á pönnu, í potti, í ofni eða á grillinu.  Ég er ekki einn af þeim sem sækist eftir tjörubragðinu.

Sömuleiðis er ekki notað mikið af grillsósu, eða sterkri marineringu, enda þykir mér best að kjötbragð sé of kjötinu og fiskbragð af fiskinum.  Salt og Malabar pipar er þó notað í hæfilegu magni.  Annað sem þykir gott að nota á þessu heimili er olífuolía, jógurt, whisky, og eitt og annað smáræði af kryddi, svo sem rosmarin, steinselja og blóðberg svo nokkur dæmi séu tekin.  En allt í hófi, þannig að bragð hráefnisins njóti sín.


mbl.is Grillarar lifa hættulegu lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setning dagsins

Setning dagsins að Bjórá kom úr munni Foringjans, nú í dag eins og svo marga aðra daga hér, hér að Bjórá.

Oft er baráttan hörð við að fá Foringjann til að borða matinn sinn og er þá frekar reynt að beita jákvæðum hvötum en neikvæðum.

Það er líklega ástæðan fyrir því að drengurinn sagði allhátt við morgunverðarborðið:

"Mikið ertu dugleg amma, þú ert bara búin að borða jógúrtið þitt.".


Brakandi þurkur

Hér að Bjórá hefur verið brakandi þurkur í gær og dag.  Svo brakandi er þurkurinn að Íslenska bóndagenið tók sig upp í húsbóndanum í gær og ég dreif mig í því að slá lóðina, sem hafði verið trassað vegna anna við bað- og herbergismálun.

Slægjan var ekki mikil en þornaði skjótt í hitanum.

Heimilisfólkið tollir illa úti við yfir hádaginn og jafnvel Foringinn kemur inn og segir að það sé frekar heitt og hann ætli að vera inni og fer síðan með bílana sína niður í kjallara þar sem andrúmsloftið er alltaf svalara.

Í gær fór hitinn langt yfir 30°, en gaf örlítil grið í dag og var fór ekki mikið yfir þriðja tuginn.

Síðan fór húsbóndinn út rétt fyrir háttinn og brynnti gróðrinum, enda er vonast eftir góðri uppskeru af kartöflum, gulrótum, paprikum og tómötum.  Einhver von er ennþá um að baunirnar taki við sér.

Kirsuberin eru byrjuð að taka lit, þannig að nú hefst baráttan við íkornana og fuglana um hverjir fái að njóta þeirra.

Nú þegar er byrjað að nytjaaf rósmarin, steinselju og myntuna, en dillið lætur ennþá bíða eftir sér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband