Að skipta um peningamálastefnu

Það hefur mikið verið í umræðunni á Íslandi að það þurfi að skipta um peningamálastefnu.  Það eru flestir ef ekki næstum allir sammála um það.  Það hefur mátt heyra alvörugefna stjórnmálamenn fullyrða þetta, ábúðarmiklir hagfræðingar hafa sagt þetta nauðsyn og áköl um þessi "skipti" hafa endurómað í fjölmiðlum og bloggheimum.

Fæstir hafa hins vegar sagt á hvaða hátt þeir vilja breyta peningamálastefnunni, þeir hafa látið nægja að segja að nauðsyn sé að breyta henni.

Allmargir hafa hins vegar látið að því liggja að samfara þessum "skiptum" verði að skipta um "áhöfn" í Seðalbankanum.

Í raun er það hins vegar alls ekki "áhöfnin" í Seðlabankanum sem ræður peningamálastefnunni, ekki frekar en "áhöfnin á Halastjörnunni".

Peningamálastefnan er mörkuð af Alþingi, þar eru (og hafa verið) samþykkt lög um Seðlabankann, þar með talinn markmið hans.

Þannig segir um markmið Seðlabankans, í lögum um hann frá 2001:

3. gr. Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.

Þessi lög má sjá hér Umræður um lögin má sjá hér, en þessi lög voru samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum, 7 þingmenn voru fjarstaddir.

Það sem þarf að gerast til þess að skipt sé um peningamálastefnu er að Alþingi samþykki slíkar breytingar, þá er "áhöfninni" í Seðlabankanum skylt að vinna eftir þeim lögum.

Svo má vissulega deila um hvernig "áhöfninni" hefur gengið að ná markmiðum laganna, það er í raun allt annar handleggur, en það má líka deila um hvaða verkfærum þeim hefur verið úthlutað til að ná markmiðunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband