Bankamenn eða snatar stjórnmálamanna?

Það fer um mig hrollur þegar ég les frétt eins og þessa.  Fréttin er í heilu lagi hér að neðan.

Það virðist sem að ýmsir Íslenskir stjórnmálamenn hafi ekkert lært, eða hafi algerlega gleymt sér í lýðskruminu, ja nema hvoru tveggja sé.

Mega Íslendingar eiga von á því að bankastjórar séu kallaðir fyrir þingnefndir með reglulegu millibili til að skýra frá því hverjum þeir hafi lánað eða ekki lánað?  Eða er ef til vill vissara fyrir Íslendinga að fá "gott veður" hjá þingmönnum áður en þeir fá lánað fé í ríkisbönkunum?

Ráðherrar skipuðu bráðabirgðabankaráð, þau réðu bankastjóra og voru yfir þá sett.  Stjórnmálaflokkarnir tilnefndu sína menn í bankaráð sem fjármálaráðherra skipaði, þau ráð eru yfir bankastjórana sett, geta ráðið þá eða rekið.

Eiga svo bankastjórarnir til viðbótar að þurfa að sætta sig við að einhverjar þingnefndir kalli þá fyrir og heimti svör, um hvort að þeir hafi lánað ákveðnum aðilum, eður ei?

Bankastjórarnir eiga í mínum huga aðeins tvo kosti.  Sýna þjóðinni að þeir séu bankamenn eða að sýna þjóðinni að þeir séu snatar stjórnmálamannana.  Trúverðugur bankastjóri lætur ekki uppi upplýsingar um einstök viðskipti við bankann nema að undangengnum dómsúrskurði.

Það er rétt að taka það fram að ég er ekki hrifinn af fjármálagerningnum sem slíkum, en eðlileg lög og reglur verða að gilda.  Ef grunur leikur á því að lög hafi verið brotin, eða á annan hátt gengið gegn starfsreglum, þá er sjálfsagt að láta til skarar skríða.  Slíkt er ekki þeirra sem setja lögin (alþingismanna) heldur þeirra sem hafa eftirlit og framfylgja þeim (lögregluyfirvalda, fjármálaeftirlits, bankaráða). 

Það skiptir engu máli hvaða álit menn hafa á Jóni Ásgeiri eða fjármálagjörningum hans, hann á rétt á sömu bankaleynd, sama trúnaði og aðrir viðskiptamenn bankanna.

Afskiptum stjórnmálamanna af bönkunum á að ljúka með tilnefningu/skipan bankaráða. 

Því miður er ástandið eins og það virðist vera á Íslandi í dag frjór jarðvegur fyrir lýðskrumara. 

Hví er brýnt fyrir þingmenn að fá úr því skorið hver lánaði Jóni einn og hálfan milljarð?  Er það málefni löggjafarsamkundunnar?  Er grunur um að lög hafi verið brotin?  Ef svo væri, á það að koma til kasta Alþingis? 

Hér má sjá lista yfir þá sem sitja í viðskiptanefnd.

"Alþ.: Hvaða banki lánaði Rauðsól?

Bankastjórar ríkisbankanna hafa verið boðaðir á fund viðskiptanefndar Alþingis á föstudag. Formaður nefndarinnar segir brýnt að fá úr því skorið hver lánaði Jóni Ásgeir Jóhannessyni einn og hálfan miljarð til að kaupa fjölmiðlahluta 365.

Ari Edwald, forstjóri 365 hf., sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að 365 hefði unnið að lausn sinna mála með viðskiptabanka sínum Landsbankanum. Í því gæti falist ráðgjöf og flutningur á lánum. Landsbankinn hefur ekki viljað gefa upp hvort hann hafi lánað Jóni Ásgeiri féð."

P.S.  Vilja Íslendingar ef til vill að hinir nýju ríkisbankar setji það upp á vegg hverjum þeir hafa lánað með reglulegu millibili? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Hefur bönkunum verið treystandi, hafa eftirlitsstofnunum verið treystandi? Þú verður að átta þig því, undir hvaða kringumstæðum verið er hugsanlega að lána þessa peninga. Er bara ekki komið nóg af vafasömum viðskiptaháttum? Villtu tapa meira af peningum, Er ekki rétt að láta reynskuna njóta vafans? Ég hef annars ekkert á móti heilbrigðum viðskiptaháttum, en aðstæður í þjóðfélaginu er vægast sagt sérstakar!

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 12.11.2008 kl. 06:58

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Er þá málið að koma með einhverja auka eftirlitsnefnd, skipaða þingmönnum, er þeim treystandi?

Flokkarnir tilnefna bankaráðsmenn, ráðherra skipar þá.  Bankaráð ræður bankastjóra.

Eiga alþingismenn að geta yfirheyrt bankastjóra um einstök lán, eða viðskipti einstaklinga?

Ég er ekki þeirrar skoðunar, sama hvort að um er að ræða Jón Ásgeir eða einhvern annan.  Bankaleynd á að vera fyrir alla, nema að dómsúrskurður komi til.

G. Tómas Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 07:13

3 identicon

Það er sko eins gott að hafa eftirlit með þessu liði og styð ég þá 100% í því. Það er nefnilega þannig að ef þú hefur ekkert að fela er allt í lgi að skoða

Guðrún (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 08:27

4 identicon

Það gilda lög um bankaleynd hér á landi, og ég er ekki viss um að stjórnvöld hefðu verið sérstaklega ánægð með það ef fyrri eigendur bankanna hefðu getað krafist upplýsinga um einstaka lán til viðskiptavina.

Guðrún, er þá ekki í lagi að bankarnir birti upplýsingar um þín viðskipti líka fyrir alla að sjá, t.d. hvað þú skuldar mikið, hvort þú hafir lent í vanskilum í einhverja daga og svo framvegis?  Það hlýtur að vera í lagi ef þú hefur ekkert að fela, og svo væri það líka rosalega gott fyrir aðra að vita sem t.d. myndu vilja taka við Visakortinu þínu eða ráða þig í vinnu.  Vita hversu áreiðanlega þú ert.  Viltu ekki deila með okkur hvað þú skuldar mikið, hvað þú ert með í laun, og hvenær þú síðast borgaðir reikning á eindaga (eða síðar)?  Það hlýtur að vera í lagi ef þú hefur ekkert að fela. 

Einar (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 16:06

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Alltaf finnst mér það með ólíkindum að meðan fjárglæframenn sem keyru Ísland í gjaldþrot ganga lausir og fá frítt spil til að halda áfram og eyðileggja frjálsa fjölmiðlun, séu til menn sem eru að leggja til að þeir sæti enn minna eftirliti.

Theódór Norðkvist, 12.11.2008 kl. 16:41

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Guðrún og Einar:  Einar svarar Guðrúnu með ágætis hætti, það eiga allir rétt á þvi að bankinn haldi trúnað við sig, ef þeir hafa haldið sig innan ramma laganna.  Það skiptir engu máli hver á í hlut.  Þó að ég telji mig ekki hafa neitt að fela (er reyndar því sem næst í engum viðskiptum við Íslenska banka, en þó örlítið) kæri ég mig heldur ekki um að mín viðskipti við bankann séu opinber.  Það mætti segja með sömu rökum að það þeir sem hafa ekkert að fela, ættu ekki að hafa neitt á móti því að grædd væru í þá staðsetningartæki.  Það myndi hjálpa yfirvöldum að hafa upp á þeim sem eru brotlegir.

Theódór:  Það á jafnt yfir alla að ganga, það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum.  Auðvitað má hugsa sér að það verði sett lög þar sem bankastjórum verði gert skylt að upplýsa viðskiptanefnd Alþingis um öll lán, eða öll lán sem fara yfir ákveðna upphæð.  En þangað til eiga einstaklingar rétt á því að viðskipti þeirra við bankann séu trúnaðamál, nema að grunur leiki á um lögbrot og dómsúrskurður komi til.

Eins og staðan er nú eru Íslendingar með bankaráð sem eru skipuð af stjórnmálamönnum og bankastjóra sem þessi bankaráð hafa ráðið.  Stjórn fjármálaeftirlits er skipað af stjórnmálamönnum, en sú stjórn ræður síðan framkvæmdastjóra. Þess utan er auðvitað hægt að leita til lögregluyfirvalda ef grunur leikur á um að lög hafi verið brotin. 

Þurfa Íslendingar einhverjar viðbótar eftirlitsstofnanir af hendi alþingismanna?

Hvað varðar fjölmiðlana, þá hefði Íslendingum ef til vill verið hollara að samþykkja fjömiðlalögin umdeildu.  Ég er þó þeirrar skoðunar að það hefði engu breytt.  Það má alltaf fara í kringum slík lög.  Það eru alltaf til "leppar" sem eru til í "alvöru viðskipti".

G. Tómas Gunnarsson, 12.11.2008 kl. 19:19

7 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Eru ekki lögin um bankaleynd einmitt hluti af vandamálinu? Ef aflétt væri bankaleynd t.d. af öllum viðskiptum yfir einn miljarð, væru minni líkur á að glórulaus rekstur bankanna hefði viðgengist svona lengi.

Ef bankar vilja ávinna sér traust á ný, gerist það ekki nema draga úr bankaleynd.

Ef ríkið afnæmi kröfur um bankaleynd er ekki spurning í mínum huga að bankar sem vilja starfa fyrir opnum tjöldum myndu hafa vinninginn í að ná til sín innlánum. Ljóst er að Fjármálaeftirlitið var gagnslaust þegar á reyndi.

Sammála því að við hefðum átt að setja fjölmiðlalögin. Það er ömurlegt á köflum að horfa upp á fjölmiðlamenn sem eru svo augljóslega málpípur eigenda sinna.

Finnur Hrafn Jónsson, 13.11.2008 kl. 00:05

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað er hægt að afnema lög um bankaleynd. En ég gæti trúað að  það sé ekki almennur vilji til þess, flestir vilja hafa sín fjármál fyrir sig.

Auðvitað er hægt að skylda banka til að hengja upp á vegg lista með skuldunautum sínum, hafa þetta allt upp á borðinu.

En umfram allt, þá eiga lögin að gilda og það sömu lög fyrir alla.  Það á ekki að láta lýðskrumara eins og Ágúst Ólaf vaða uppi með blekkingum.

Hann gæti hins vegar lagt fram frumvarp þess efnis að afnema bankaleynd, síðan yrði það rætt á þinginu og samþykkt eða fellt.  Það væri rétta leiðin.

Ekki að reyna að slá sig til riddara með því að spyrja spurninga sem bankastjórar hafa ekki heimild til að svara.

G. Tómas Gunnarsson, 13.11.2008 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband