Hrátt úr þankanum

Það er ýmislegt sem brýst um í kollinum svona dags daglega.  Hér er smá sýnishorn af því sem hefur flakkað á meðal gráu sellanna undanfarna daga.

 Nú á dögum gríðarlega hás eldsneytisverðs, þegar því sem næst á hverjum degi berast fregnir af því að flugfélög séu að leggja upp laupana, draga úr sætaframboði, segja upp fólki, hækka verðin  og þar fram eftir götunum.  Sömuleiði er talað um gríðarlega mengun af flugferðum og nauðsyn þess að leggja "kolefnisskatt" á flugferðir sem myndi að sjálfsögðu gera þær enn dýrari.

Fer þá ekki að verða æ erfiðara að veðja á "ferðabransann" og verða ekki "ál og virkjanir" æ álitlegri kostur?

....

Írland var eina landið í "Sambandinu" sem lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um "Lissabon sáttmálann" svokallaða.  Það var gert vegna þess að það er skýrt tekið fram í Írsku stjórnarskránni að allt framsal á fullveldi skuli borið undir þjóðaratkvæði.

Svarar það ekki einhverjum spurningum um hvort að fullveldisframsal felist í aðild að "Sambandinu"?

....

Nú þegar árar frekar illa í efnahagslífinu og einkareknum og einkavæddum fyirtækjum gengur misjafnlega nota margir tækifærið og tala eins og allur "kapítalisminn" sé ónýtur, "frjálshyggjan" sé í dauðateigjunum og þurfi að henda henni frá og þar fram eftir götunum. 

Nú sé að koma í ljós að það sé ríkisreksturinn sem "blívi" og jafnvel þurfi að "þjóðnýta" eitt og annað.  Gömlu kommarnir virðast sumir jafnvel telja að þeirra tími sé kominn aftur.

En vissulega hafa einkavædd fyrirtæki eins og til dæmis bankarnir átt betri daga.  En það verður ekki horft fram hjá því hvað þeir hafa aukið umsvif sín og skila miklu til samfélagsins.  Það virðist enda svo að það eru einna síst þeirra fjárfestingar sem eru til vandræða.

En sameignarsinnarnir virðast vera búnir að gleyma að þetta er langt í frá eina "bankakreppan" sem hefur hrist upp í Íslenskum bönkum.  Skemmst er auðvitað að minnast þess að fyrir u.þ.b. 25 árum þurfti ríkissjóður að leggja Landsbankanum til nokkra milljarða til að forða honum frá gjaldþroti.  Þannig hafði ríkisreksturinn leikið hann.  Hvað skyldi sú upphæð vera að núvirði?

Það er merkilegt að heyra menn tala eins og slíkur rekstur sé lausnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband