Hugurinn reikar

Borgarmálin og ekki síst málefni REI hafa komið nokkuð oft upp í hugann að undanförnu, þó að þau hafi nú ekki haldið fyrir mér vöku, enda börnin mín einfær um það þegar slíkt er nauðsynlegt.

En það er ýmislegt í þessari umræðu sem ég hef ekki skilið til hlýtar og skýtur upp í kollinum annað slagið.

Eitt af því sem kemur aftur og aftur upp í hugann er þessi setning Björns Inga Hrafnssonar:

"Við mig hefur verið sagt að ég hafi gert frábæran viðskiptasamning sem mér yrði hælt fyrir í viðskiptalífinu en af því ég er í stjórnmálum þá er ég skammaður."

Þá velti ég fyrir mér, að hvaða leyti kom Björn Ingi að gerð samningana á milli REI og GGE?  Var hann í stóru hlutverki við gerð hans, eða var hann einfaldlega að reyna láta líta svo út, eða vantaði honum ástæðu til að slíta meirihlutanum þáverandi?

Á sama tíma man ég eftir að einhver borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins (ég man ekki hver eða hvar) lét hafa eftir sér að Björn Ingi hefði sagt á meirihlutafundi að um væri að ræða hans pólítísku framtíð.

Þá vaknar sú spurning, hvort að Björn Ingi hafi farið í nýjan meirihluta (meirihluta II) og verið gefið undir fótinn með að samruninn myndi standa?  Er raunveruleg ástæða þess að hann hvarf úr stjórnmálum sú að ljóst var að svo yrði ekki?

Ef svo væri, hvernig gat þessi samruni vegið svona þungt í hans pólítísku framtíð?

Annars man ég ekki betur en að Dagur fyrrverandi, sagði rétt áður en hann tók við "djobbinu" að líklega væri of seint að hætta við samrunann.  Í svipaða veru talaði Sigrún Elsa Smáradóttir, þegar ég heyrði í henni í útvarpi á þessu tímabili.

Bendir það til þess að Björn Ingi gæti hafa talið sig hafa ádrátt um að samruninn myndi standa?

Það er ef til vill ekki að undra að skýrslan fræga hafi ekki verið ýkja bitmikil.

En það væri þarft verk ef einhver blaðamaðurinn tæki sig til og safnaði saman á einn stað öllu því sem hinir ýmsu borgarfulltrúar (og aðrir pólitíkusar) hafa sagt um málefni REI á hinum ýmsu tímum, bæði í meiri og minnihluta.

Eitthvað rámar mig líka í að Sigrún Elsa hafi talað um að stjórn orkuveitunnar hefði verið sýndur listi með nöfnum þeirra sem hefðu átt að fá kaupréttarsamninga.  Þá hefðu sum nöfnin verið strikuð út.

Ég reyndi að googla þetta en fann ekkert bitastætt um þetta, nema þessa færslu á blogsíðu Össurar Skarphéðinssonar, en þar segir:

"Hvaða nöfn voru tekin út?

Tók enginn nema ég eftir síðustu setningunni sem Sigrún Elsa Smáradóttir mælti í Kastljósi fimmtudagsins? Þær stöllur, Sigrún og Svandís Svavarsdóttir, leiðtogaefni VG, ræddu þar af kappi samruna orkufyrirtækjanna. Í samræðu um kaupréttarsamningana – hinn svarta blett samrunans – sagði Sigrún undir lok þáttarins, að stjórn Orkuveitunnar hefði verið sýndur listi með nöfnum. Sum nöfnin hefðu verið þannig, sagði Sigrún Elsa, að þau hefðu fokið samstundis út af honum. 

Hvaða nöfn voru það sem meirihluti stjórnarinnar féllst á að taka út? Það er engu líkara en fjórða valdið sé sofnað svefninum langa. 

Fri, 5 Oct 2007 22:27 "

En eins og flestir muna voru fáir meira hlynntir sameiningunni en Össur, og fáir ef nokkur náði á reikna Íslendinga í jafn mikinn hagnað af ævintýrinu.  En iðnaðarráðherrann fór líka um víðan völl á vegum GGE og REI, og talaði nokkuð digurbarkalega, ekki bara um orkuveitur heldur líka álver.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott greining hjá þér væni minn - greinilega gott að skoða þetta í fjarlægð.

Við hér erum náttúrulega komin með leið á málinu (eins og gerist ansi oft) og viljum fara að tala um eitthvað annað :-)

kveðja,
Hjördís

Hjördís (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband