Hólsfjalla

Það var hangikjöt á borðum að Bjórá í dag.  Ekta Íslenskt Hólsfjallahangikjöt.  Uppstúf með, rauðkál, grænar, rauðrófur og meira að segja malt og appelsín, maltblandan þó ekki "ekta", ekki frekar en grænu baunirnar.

En þetta var ljúf máltíð, seðjandi fyrir bæði líkama og sál.

Við buðum kunningjafólki okkar að deila þessum dásemdum með okkur, en þau höfðu aldrei séð, heyrt eða smakkað hangikjöt áður.

Til að færa þetta allt í stílinn bauð ég upp á snakkrétti áður en hin eiginlega máltíð hófst, Íslenskan kavíar og hertan steinbít og ýsu.  Smá brennivínstár með því.

Það er skemmst frá því að segja að fólkinu líkaði vel.  Kunnu afar vel við harðfiskinn, sérstaklega steinbítinn og kavíarinn féll sömuleiðis í kramið.

En hápunkturinn var þó hangikjötið.  Það kom þeim alfarið á óvart, bragðið og "texturinn" og hvað það var meyrt og gott.

Aðeins tvisvar sinnum sá ég koma á þau svip sem lýsti því að eitthvað væri skrýtið og þau væru ekki alveg viss um hvort þau ættu að trúa mér eður ei.

Í fyrra skiptið var það þegar ég sagði (á afar kurteisan og varfærin hátt) að eldsneytið við reykinguna væri "skíturinn úr skepnunni".  Í seinna skiptið var það þegar ég svaraði spurningu þeirra í þá veru hvað þetta kostaði á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband