Af skýrum valkostum - litið til lengri tíma

Nú upp á síðkastið hefur verið mikið rætt um að almenningur eigi rétt á skýrum valkostum þegar kemur að kosningum, almenningur eigi rétt á því að vita hverjir vilji mynda saman ríkisstjórn.  Almenningur eigi rétt á að vita hvort að stjórnarflokkarnir ætli að starfa saman eftir kosningar og hvort stjórnarandstaðan komi til með að standa saman og mynda ríkisstjórn eftir kosningar fái hún meirihluta á þing.

Að sömu leyti eru þetta eðlilegar kröfur, í annan stað er þetta fásinna.

Íslendingar búa við fjölflokka kerfi, hefðin á Íslandi er samsteypustjórnir, jafnvel ólíkra flokka.

Ef við gefum okkur að stjórnarflokkarnir fái góðan meirihluta í næstu kosningum er ekkert óeðlilegt að þeir hugsi sér að starfa áfram saman.  Ef ríkisstjórnarflokkarnir fá hins vegar nauman meirihluta er ekki óeðlilegt að menn reyni nýtt mynstur til að skapa sterka ríkisstjórn. 

Að sama skapi er ekki nema eðlilegt að stjórnarandstaðan ræði saman og reyni að finna sameiginlegan grundvöllf fyir samstarfi ef hún hlýtur tilskilinn meirihluta.

Gefum okkur nú að stjórnarandstaðan myndi ríkisstjórn.  Síðan þegar aftur verður kosið, á þá valið aðeins að vera á milli ríkisstjórnar Samfylkingar, VG og Frjálslyndra og að stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknar taki við?

Hvenær er þá leyfilegt að skipta um "mynstur"?  Eðli málsins samkvæmt hlýtur alltaf annað hvort ríkisstjórn eða stjórnarandstaða að fá meirihluta úr kosningum.

Ef einhver flokkur er hins vegar harðákveðinn í því að starfa einvörðungu með einhverjum einum flokki, eða alls ekki með einhverjum flokki, er sjálfsagt að þeir skýri frá þeirri staðreynd ef þeir kjósa svo.

Allt tal um að kjósendur eigi heimtingu á því að vita hvernig ríkisstjórn flokkar vilja mynda að kosningum loknum, er því að mínu mati rangt, raunar hálfgert lýðsskrum.  Það er enda erfitt að sjá fyrr en þeir sömu kjósendur hafa fellt dóm sinn í kosningum og ákveðið styrk einstakra flokka.

Það er því fyllilega eðlilegt og sjálfsagt að ganga óbundinn til kosninga. 

Hitt er að sjálfsögðu líka möguleiki að flokkar myndi bandalög og heiti hvor öðrum "tryggðum".  Flokkunum standa þessir möguleikar opnir, síðan dæma kjósendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband