Ósnortin náttúra eða?

Bjórstífla

Eins og sagði í síðustu færslu þá lagði Bjórárfjölskyldan land undir fót (fórum þó á Pontíaknum mest megnis) og heimsóttum Baptistevatn og ýmsa aðra merkisstaði þar um slóðir, þar á meðal Algonquin þjóðgarðinn.

Garðurinn er gríðarstór, eða rétt tæplega 8.000 ferkílómetrar og býður upp á ríkulega náttúru og dýralíf og sömuleiðis upp á nokkrar sýningar sem áhugavert er að skoða.

Eitt af því sem við skoðuðum í þessari ferð var einmitt skógarhöggssafnið, en þar má sjá sögu skógarhöggs á svæðinu, allt fram til dagsins í dag.  Sömuleiðis skoðuðum við sýningu um samspil gróðurs og dýranna í þjóðgarðinum. 

Þar var það ein setning öðrum fremur sem vakti athygli mína.  Ef henni væri snarað yfir á Íslensku hljóðaði hún eitthvað á þessa leið:

Það er algengur misskilningur hjá þeim sem heimsækja Algonquin þjóðgarðinn að hér sé náttúran ósnortin af mannavöldum.  Hið rétta er að maðurinn hefur sett svip sinn á nátturuna hér og sömuleiðis verið mótaður af henni í u.þ.b. 7000 ár.

Þetta fékk mig til að hugsa.  Það má líklega segja að ósnortin náttúra sé ekki til lengur.  Það er ekki til það svæði sem maðurinn hefur ekki sett mark sitt á með einum eða öðrum hætti, þó að "fótsporin" séu vissulega misjafnlega stór og djúp.

Annað dýr sem sömuleiðis hefur í för með sér miklar breytingar hvar sem það sest að, er bjórinn, með stíflum sínum breytir hann landinu og lífsmöguleikum fjölda annara dýra, ýmist til hins betra eða verra.

Meðfylgjandi mynd er af haganlegri bjórstíflu í Algonquin þjóðgarðinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband