Klúðurslegt

Þó að kappaksturinn í Ungverjalandi í morgun hafi verið ágætis skemmtun, er klúðurslegt líklega besta orðið til að lýsa honum.

Ekki nóg með það að keppnin hafi verið klúðursleg fyrir mína menn, heldur var hún í raun einnig klúðursleg fyrir McLaren, og það þrátt fyrir að þeirra maður hefði sigur.

Ferrari er að missa af lestinni.  Það er ekki hægt að segja að þeir eigi raunhæfa möguleika á titlum í ár.  Það er enda varla við því að búast að lið sem ekki getur fyllt sómasamlega á tankinn sé í baráttunni um titla.  Þá erum við ekki byrjaðir að tala um vandræði hvað varðar áreiðanleika bílanna.

Það er líklega raunhæfast að líta á það sem eftir er af tímabilinu sem undirbúning fyrir næsta ár.

En helgin var ekki góð fyrir McLaren heldur.  Þó að Hamilton hafi unnið góðan sigur, þá er liðið eiginlega í sárum eftir helgina.  Það segir sig sjálft að þegar Alonso er farinn að gefa út yfirlýsingar í þá veru að Hamilton sé stærsta vandamál liðsins, að þá er komið hættulega nærri því að upp úr sjóði.

"Biðstaðan" í tímatökunum sýndi svo með eftirminnilegum hætti að lítið má út af bregða.  Hvort að rekja má atvikið til óhlýðni Hamilton eða Alonso, skiptir í raun ekki máli, aðalmálið er að liðið er ekki að virka sem heild.  Vissulega er vandamálið að því leiti jákvætt að það snýst um 2. mjög góða ökumenn sem báðir eru reiðubúnir að leggja því sem næst allt í sölurnar fyrir sigur.  Það neikvæða er að það getur líklega ekki gengið til lengdar.

Það eru enda byrjaðar vangaveltur víða um hvor þeirra það verði sem yfirgefi liðið að tímabilinu loknu.

En því miður er staðan sú að það er því sem næst eingöngu spurning um hvor þeirra McLaren manna verður heimsmeistari í ár, ég hef því sem næst enga trú á því að Ferrari ökumennirnir nái að blanda sér í þá baráttu.

En akstur Hamilton var til mikils sóma í dag, fumlaus frá upphafi til enda og sigri hans aldrei ógnað, Heidfeld góður í 3ja, en þó að Raikkonen hafi náði að innbyrða annað sætið, er þetta kappakstur sem Ferrari menn vilja gleyma sem fyrst að ég tel, enn eitt glatað tækifæri.


mbl.is Hamilton stóðst pressu Räikkönens
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er að mínu mati skelfilega langsótt (og skelfilega PC eitthvað) að fara að blanda kynþáttahatri inn í þessa jöfnu.

Ef marka má útskýringar liðsins liggur sökin frekar Hamilton megin þannig að hann verður að axla ábyrgðina.

Hins vegar er það nokkuð ljóst að tvöflaldur heimsmeistari, tveggja síðustu ára, kann því frekar illa að nýliða skjóti honum ítrekað ref fyrir rass.  Ég held að það skipti engu máli hvernig liturinn á nýliðanum væri, pirringurinn væri sá sami.

Auðvitað liggur það nokkuð ljóst að það fer í taugarnar á Alonso sem hefur án efa litið á ráðningu sína sem ráðningu "1. ökumanns liðsins", að nýliðinn sé með forystu í keppninni til heimsmeistara og í raun sá ökumaður sem kemur í veg fyrir að hann væri því sem næst búinn að tryggja sér heimsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.

Að blanda litarhætti inn í dæmi er allt of langsótt að mínu mati.

G. Tómas Gunnarsson, 6.8.2007 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband