Það fjölgar að Bjórá

p1000427_45041.jpg

Íbúum Bjórár, og jafnframt þeim sem eru í aðalhlutverki í þessu bloggi, fjölgaði um einn á miðvikudaginn.  Þann daginn tókum við hjónin snemma, fórum á fætur fljótt upp úr 6 og læddumst út áður en foringinn vaknaði. Líklega er þetta fyrsti morguninn sem hann vaknar og hvorki pabbi né mamma eru í nágrenninu.  Hann var skilinn eftir í öruggri umsjá ömmu sinnar og samkvæmt fréttum, æmti hann hvorki né skræmti.

Leiðin lá á Sínaí fjall, eða Mt. Sinai sjúkrahúsið.  Þar klukkan 10.29 um morgunin kom dóttir okkar í heiminn.  Þetta var "high tech" fæðing.  Keisaraskurður með "öllu tilheyrandi".  Þarna voru "maskínur sem sögðu ping", læknar, hjúkrunarkonur og aðstoðarfólk.  Það var ekki laust við að mér þætti ég vera lítill, allt að því fyrir í öllu þessu "gangverki", það þó að ég væri "dressaður" upp í "sterílan" galla, lítandi út eins og læknir.  Enda sat ég prúður við hlið konunnar, horfði á hana og tjaldið sem aðskildi mig frá "aksjóninni" og beið þolinmóður.  Það var ekki laust við að ég væri örlítið áhyggjufullur, enda stúlkurnar úr "Bjórárfjölskyldunni" báðar undir hnífnum.

En allt gekk þetta að óskum, bæði móður og dóttur heilsast vel og að öllu óbreyttu koma þær mæðgur heim að Bjórá á laugardag.

Þetta er unaðsleg tilfinning, sem ég upplifði nú í annað sinn, sitjandi við tjaldið, heyra grátinn, kíkja yfir og vera svo rétt barnið blautt og glansandi, en svo óendanlega fallegt.  Hjálpa svo til við að þurka það, snyrta naflastrenginn, vefja þau í teppi, og reyna svo að halda þeim rólegum, uns læknarnir hafa lokið starfi sínu, allir eru færðir yfir í annað herbergi og mamma getur gefið brjóst.  Þennan tíma, grétu þau nokkuð, enda býður pabbi þeim ekkert að sjúga, nema þeirra eigin fingur.

Það var sami læknirinn, Dr. Gareth Seaward,  sem hefur stjórnað "aðgerðum" í fyrir bæði börnin okkar, á stundum líður mér eins og hann sé fjölskylduvinur, andrúmsloftið er svo gott, óþvingað og öruggt í kringum hann.  Hún er stór "skuldin" sem ég á að gjalda manninum sem hefur "skorið" báðum börnunum mínum leið út í heiminn.

Foringinn, sem hækkar sjálfkrafa "í tign" og verður "stóri bróðir" kom með okkur tengdó á sjúkrahúsið seinnipartinn í gær.  Hann lét sér þó fátt um finnast og hafði lítinn ef nokkurn áhuga á "litlu systur".

Meðfylgjandi er svo mynd af heimasætunni á Bjórá, tekin þegar sú litla var orðin u.þ.b. 4 tíma gömul.

Meira og fleiri myndir síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband