Hæglát sumarpólítík - Hverjir fara fram? Hverjir hætta? Fullt af spurningum og fá ef nokkur svör.

Pólítíkin er yfirleitt með rólegasta móti á sumrin, enda yfirleitt í nógu að snúast, sumarleyfi í hámarki og svo framvegis.

Það er þó aldrei svo að ýmsar vangaveltur séu ekki í gangi og ýmsar slúður og gróusögur, missannar eftir atvikum.

Kosning nýs formanns Framsóknarflokksins er yfirvofandi og bættist nýr óvæntur frambjóðandi þar við nýlega. 

Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar að það það verði verulega óvænt ef Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz verða ekki "forystupar" Framsóknar.  "Haukurinn" gefur þó þeim sem vilja láta í ljós óánægju sína tækifæri til að láta hana í ljós.  Það gætu orðið þónokkur atkvæði.

Svo er byrjað að fljúga fyrir nöfn sem menn halda eða gætu hugsað sér að sjá í framboði fyrir næstu alþingiskosningar.  Ekki er að efa að þar verða margir "kallaðir", en heldur færri útvaldir.

Í fréttum var nýlega til dæmis minnst á hugsanlega frambjóðendur Sjálfstæðisflokks í N-V kjördæminu.  Eins og eðlilegt er á þessum árstíma tala hugsanlegir frambjóðendur eins og véfréttir, segja hvorki af né á. Heldur þykir mér þó svar Borgars Þórs klént, menn eiga að sækjast eftir sæti á framboðslista vegna þess að þeir hafa áhuga og metnað til að starfa á Alþingi, ekki vegna þess að þeir séu þrábeðnir um það eða "kallaðir" til starfa.  Persónulega finnst mér "fjölda áskorana" "klisjan" afskaplega leiðinleg áheyrnar. 

En burtséð frá því, get ég alveg séð bæði Ragnheiði og Borgar Þór taka sæti á listanum, bæði eiga þau þangað fullt erindi.

Það sem margir eru þó að velta fyrir sér varðandi N-V kjördæmið er á hvaða lista Kristinn H. Gunnarsson verður, eða hvort hann verði í framboði.  Það er nokkuð ljóst að straumar þeir sem hafa farið á milli Kristins og forystu Framsóknar hafa ekki verið hlýir, og ennfremur að 2. sæti á lista Framsóknar er langt frá því að geta talist öruggt eins og fylgi flokksins er um þessar mundir. 

En hvaða flokkur myndi vilja Kristinn í sínar raðir og hvaða flokksmenn væru tilbúnir til að víkja fyrir honum?

Ennfremur hef ég heyrt að Samfylkingin hafi hug á því að bjóða fram sjónvarpskonuna Sirrý (einhver sagði mér að það hefði heyrst á NFS).  Hugmyndin væri þá að hún færi fram í Reykjavík suður.  Ekki þykir mér skrýtið að Samfylkingin vilji hressa upp á framboðslista sína með þekktu fólki, niðurstöður skoðanakannana, nú 2. mánuði í röð, hlýtur að hafa skotið þeim nokkurn skelk í bringu. 

Vandamálið við þessa "hugdettu" hlýtur þó að vera að fyrir er á framboðslistanum nokkuð vösk sveit Samfylkinga, eða þau Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Mörður Árnason og sjálfur varaformaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson.

Nú þekki ég ekki það vel til að vita hvort einhver af ofangreindum þingmönnum hefur hugsað sér að draga sig í hlé, en þyki það ekki mjög líklegt.  Hitt verður svo gaman að sjá, hvaða sæti varaformaðurinn kemur til með að skipa á listanum, eða flytur hann sig um set?  Það verður líka að teljast ólíklegt, eins og staðan er í dag,  að Samfylkingin auki við sig í Rvk-suður kjördæminu (eða þingmönnum yfirleitt), alla vegna ef miðað er við skoðanakannanir og úrslitin í borgarstjórnarkosningunum, þá væri frekar hætta á því að þingmönnum Samfylkingar fækkaði.

Norð-Austur kjördæmið hlýtur líka að valda mönnum og flokkum heilabrotum.  Þar er ákaflega erfitt að stilla upp listum og sætta öll sjónarmið.  Spurningar eins og hvort Halldór Blöndal haldi áfram, er eitthvað til í þeim orðrómi að Dagný Jónsdóttir sækist ekki eftir endurkjöri, heyrast nú oft.  Ef  svo er, getur Framsókn farið fram með Grenvíking í 1. og Siglfirðing í 2., ljóst er að Jón Kristjáns, er að hætta.  Margir segja nei, það þurfi austfirðing, nú eða akureyring.  En hvað fær Framsókn marga menn í kjördæminu?  Ekki var staða þeirra á Akureyri skemmtileg í bæjarstjórnarkosningunum. Þeir fengu þó heldur betri kosningu fyrir austan. Og þá hlýtur líka að vakna spurningin, hvaða austfirðingur?

Ennfremur er orðrómurinn um Kristján bæjarstóra öllum kunnur.  Ég þori ekki að spá um það, en segi þó að ef Halldór hættir, hlýtur Kristján að fara fram.

Það hlýtur líka að vera ljóst að Akureyri hlýtur að vera flokkunum nokkuð ofarlega í huga, en ég heyri marga akureyringa ekki vera of hressa með hlut sinn á framboðslistum.  En ég bendi þeim á að tilllögur um frambjóðendur má setja hér í athugasemdir.

Ekki er hægt annað heldur en að minnast á þrálátan orðróm um að Bjarni Benedikstsson ætli að hætta á þingi, og snúa sér að viðskiptum.  Þó að vissulega yrði eftirsjá að Bjarna á þingi, verður það að mörgu leyti að teljast jákvætt, að "samgangur" sé á milli atvinnulífsins og Alþingis, og þá ekki endilega einstefna.  Þingmenn gætu farið til annarra starfa og svo jafnvel boðið sig fram aftur að 4, 8 eða 12 árum liðnum. 

Þó er ég ekki viss um að allir þingmenn ættu greiða leið eða erindi inn í atvinnulífið en það er önnur saga.

Ætli ég láti þetta ekki nóg heita af vangaveltum í bili, en kem örugglega inn á framboðsmál í seinni pistlum, enda kosningavetur framundan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Heitir sjallinn ekki Borgar Þór?

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 2.8.2006 kl. 18:24

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað hárrétt. Ég þakka fyrir ábendinguna og hef leiðrétt þetta í textanum.

Einhver samsláttur hefur átt sér stað í höfðinu á mér, og bið ég viðkomandi, sem og þá sem hafa lesið afsökunar.

G. Tómas Gunnarsson, 2.8.2006 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband