Að treysta flokksfólki skapar sterkan lista

Þó að listar Sjálfstæðisflokksins komi ekki til með að líta nákvæmlega eins út og ef ég hefði verið fenginn til þess að stilla þeim upp, verð ég að segja að mér líst ágætlega á úrslitin.

Listinn er samblanda af reynslu og nýliðun og getur, ef vel er haldið á spilum, markað upphaf nýrrar sóknar Sjálfstæðisflokksins á meðal ungs fólks.

En til framtíðar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að líta í eigin barm og stokka spilin öðruvísi.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum (vinstristjórnir eru í martraðir í mínum draumförum) er ákveðin einsleitni listans og því takmörkuð skýrskotun til þjóðfélagsins.

Fyrstu fjögur sætin eru "úr ráðuneytunum", að sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt við að ráðherrar skipi efstu sæti á framboðslistum, en ef til vill er þörf á því að gefa því gaum þegar 3. af 8 efstu eru aðstoðarmenn ráðherra, eða fyrrverandi.

Eru lögfræðingar 5. af 8 efstu í prófkjörinu?  Einhvern veginn taldist mér svo til, þó að ég geti ekki verið 100% viss um menntun allra frambjóðenda.

Vissulega fækkar um einn lögfræðing ef Brynjar afþakkar sæti á listanum, en eigi að síður er þetta umhugsunarvert.

Hvað skyldu margir á listanum hafa einhverntíma verið í þeirri stöðu að greiða út laun í stað þess að taka á móti þeim?

Það er einmitt af slíkum ástæðum sem svo ánægjulegt er að sjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur vinna góðan sigur í Suðurkjördæmi, komandi beint úr atvinnulífinu.

Því það er atvinnulífið sem skapar velsæld og velmegun.

Auðvitað eru slíkar vangaveltur langt í frá bundnar við Sjálfstæðisflokkinn.  Ég þori nú ekki að segja að að minni mitt sé gott, en er ekki eini frambjóðandinn sem hefur komið fram hjá nokkrum flokki (enn sem komið er) og tengist verkalýðshreyfingunni, fyrrverandi formaður hjá verkalýðsfélagi háskólamanna?

Lýðræði er ekki fullkomið stjórnarfar, en hefur óendanlega möguleika, en líklega jafn marga pitti.

En það fer best á að Alþingi sé samkoma einstaklinga héðan og þaðan úr þjóðfélaginu, með reynslu af alls konar aðstæðum.

Einsleitni mun ekki skila Íslendingum fram á við.

Það er þarft að hafa í huga.

 

P.S. Svo má auðvitað velta fyrir sér að ef úrslitin hefðu verið á þann veg að karlar hefðu skipað 3. af 4. efstu sætunum, hvað margar "Sjálfstæðiskonur" væru að íhuga að segja sig úr flokknum.

En það kann að koma flokknum til góða að það eru engin "karlafélög" starfandi innan hans.

 


mbl.is Guðlaugur Þór sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þeir tveir þingmenn sem voru pent afþakkaðir eru sömu þingmenn og hafa haft sig mest í frammi gegn sóttvarnaraðgerðum. Tilviljun? Held ekki.

Kristján G. Arngrímsson, 7.6.2021 kl. 08:23

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég ætla nú ekki að fullyrða neitt um hvaða "kraftar" réðu því hvernig greidd voru atkvæði í prófkjörinu, en það getur verið gaman að velta vöngum yfir því eins og mörgu öðru.

Reyndar fær Brynjar í raun alls ekki slæma kosningu, þó að það hafi ekki skilað honum hærra en í 5. sæti.  Það myndi á þokkalegum kjördegi skila honum á þing. 

5. sætið í prófkjörinu myndi setja Brynjar í 3ja sæti í Reykjavík norður, sem var þingsæti síðast.

En ég hef það á tilfinningunni að sóttvarnir hafi ekki spilað stóra rullu í þessu, en ég hef sömuleiðis á tilfinningunni að það hafi ekki margir gengið sérstaklega í Sjálfstæðisflokkinn til að kjósa Brynjar, þannig að líklega hafi hann fengið í raun góða kosningu hjá þeim sem hafa verið í flokknum til lengri tíma.

En þetta byggir auðvitað ekki á "solid grunni", enda engin leið að vita hvernig atkvæði skiptast eftir "hópum".

G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2021 kl. 10:40

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er reyndar full ástæða til að taka ofan fyrir Brynjari fyrir að hanga ekki á þingsætinu eins og hundur á roði. Sjálfsagt hefðu margir gripið til þess.

Kristján G. Arngrímsson, 7.6.2021 kl. 10:58

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Brynjar hafði metnað til að ná hærra sem gekk ekki eftir.  Hann er hreinskiptin eins og áður og ákveður að draga sig í hlé.

Það er ákveðin eftirsjá að Brynjari, en enginn er ómissandi. 

Ég hugsa að Brynjari sé það heldur ekkert á móti skapi ef að Birgir Ármanns lyftist um eitt sæti.

G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2021 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband