Ef sala og auglýsingar "fíkniefna" væri lögleg en ekki neysla þeirra.

Ef sala fíkniefnum væri lögleg á Íslandi, en neysla þæirra væri refsiverð mætti líklega lesa svipaða frétt og þá sem hér fer á eftir á Íslenskum miðlum.
 
Á fimmta tug manna hafa nú réttarstöðu sakbornings vegna kaupa á fíkniefnum  á höfuborgarsvæðinu eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar í desember. Fylgst var með auglýsingum 11 fíkniefnaasala í nokkrar vikur. Engin fíkniefnasalanna sagðist vera fórnarlamb mansals í skýrslutöku hjá lögreglu. Sakborningar eiga yfir höfði sér sektir og eða dóm eftir alvarleika brotanna. 
 
Í desember síðastliðnum réðst lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í umfangsmiklar aðgerðir við að kortleggja framboð á fíkniefnum. Leitað var að auglýsingum hjá meintum fíkniefnasölum og unnið út frá þeim.
Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi segir að á fimmta tug manna hafi nú réttarstöðu sakbornings.
„Það voru einhverjir handteknir í þessum aðgerðum, en ég er því miður ekki með tölurnar á því en það voru ekki margir. Yfirheyrslur yfir þessum mönnum sem njóta réttarstöðu sakbornings eru nú á lokametrunum.“
Málunum lyktar með sektum og eða dómi eftir alvarleika brota.
„Þetta voru 11 auglýsingar sem við fylgdum eftir. Við ræddum við nokkra af þeim fíkniefnasölum sem að voru á bak við þær auglýsingar. Engin þeirra taldi sig í viðtölum við lögreglu vera fórnarlamb eins né neins og ekki fórnarlömb mansals og allir neituðu því að einhver þriðji aðili væri að hagnast á þeirra starfsemi. Þeir sögðust allir vera hér af fúsum og frjálsum vilja. Og þær sem við töluðum við þá viðurkenndu allir að vera hér til þess eins að stunda fíkniefnasölu. Þeir voru allir af erlendu bergi brotnir þeir sem við töluðum við.“
Lögreglan fer reglulega í aðerðir sem þessar til að fylgjast með málum.
„Og við munum alveg klárlega halda því áfram efir því sem fram vindur.“

 

Þessi frétt er tekin af vef RUV, en í stað vændisseljenda er sett fíkniefnaseljendur.

Hvernig skyldi ástandið vera á Íslandi ef það væri löglegt að selja fíkniefni en ekki að neyta þeirra?

Hvað ef fíkniefnasalar gætu starfað þar óáreittir, auglýst þjónustu sína án vandkvæða, en lögregla fylgdist með auglýsingum og handtæki þá sem vildu kaups sér efni?

Þetta er svo kölluð "Sænsk leið" sem er í gildi á Íslandi.

Það er löglegt að selja, það er löglegt að auglýsa, en það þeir sem "neyta" eru sakfelldir.

Er það rökrétt?

Er ekki rökréttara að annaðhvort sé starfsemi lögleg, eða allar hliðar hennar séu bannaðar?

Skyldu einhverjir þeirra sem nú eru ákærðir fyrir vændiskaup fá vægari dóm á þeirri forsendu að þeir séu kynlífsfíklar?

Er rökrétt að refsa fíklum?

Eykur framboð eftirspurn?

Er það bara eftirspurnin sem drífur áfram framboðið?

Hefur framboðið aukist eða minnkað eftir að framboðshliðin var gerð lögleg?

En eftirspurnin?

Það má ekki auglýsa áfengi, en það má selja og  neyta þess á Íslandi.

Það má selja og auglýsa vændi á Íslandi, en ekki "neyta" þess?

Það má ekki selja, auglýsa eða neyta "fíkniefna" (nema auðvitað áfengis, kaffis, tóbaks, sykurs o.s.frv., eftir skoðun hvers og eins) á Íslandi.

Vill einhver rökstyðja þetta í athugasemdum?

P.S. Bætt við 20. febrúar. 

Það er varla hægt annað en að velta því fyrir sér, hvort að í miðjum faraldri, lögreglan hafi gengið úr skugga um að vændisseljendur hafi virt sóttkví, grímuskyldu og aðrar sóttvarnarreglur sem giltu í desember.

En líklega er auðveldara að reka vændissölu á Íslandi, en að hafa opinn "pub".

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hér ríkir grafarþögn enda aðeins á færi alþingismanna að útskýra. 

Ragnhildur Kolka, 21.2.2021 kl. 08:16

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ragnhildur, þakka þér fyrir þetta.  Þetta eru nú bara eitthvað sem kom upp í huga mér og ég hamraði á lyklaborðið.

Ég er ekki að ætlast til þess að neinn svari þessu, en kasta þessum vangaveltum og spurningum fram.

Af því að dæma sem ég man eftir að hafa lesið í fréttum hefur framboð á vændi á Íslandi frekar aukist á undanförnum árum, eftir gildistöku "Sænsku leiðarinnar".

En hvort að það sé raunin veit ég ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 21.2.2021 kl. 13:03

3 identicon

Hver stakk upp á að feminismi yrði bannaður?

GB (IP-tala skráð) 21.2.2021 kl. 19:02

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@GB, þakka þér fyrir þetta.  Þá uppástungu hef ég reyndar ekki heyrt og myndi aldrei styðja.

Bann við hugmyndum er aldrei vænlegt til árangurs.

G. Tómas Gunnarsson, 21.2.2021 kl. 19:34

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er sala á fíkniefnum og sala á vændi alveg sambærilegt?

Hver er ástæðan fyrir því að "vændissala" (er það orð?) er ekki ólögleg? Gæti sú ástæða líka átt við um fíkniefnasölu? 

Auðvitað eru einstök tilvik misjöfn, en svona almennt?

Kristján G. Arngrímsson, 21.2.2021 kl. 20:42

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Krisján, þakka þér fyrir þetta.  Hvað er sambærilegt og hvað er ekki?  Slíkt má ræða fram og aftur og líklegt er að margar mismunandi skoðanir komi fram.

Er sala á áfengi og fíkniefnum sambærileg?  Sumir vilja meina að áfengi sé einfaldlega í hópi fíkniefna.

Hefur lögleg vændisstarfsemi, en bann við "neyslu" skilað árangri?  Hefur dregið úr vændisstarfsemi eða eftirspurn eftir vændi?

Hvor er líklegri til að kaupa vændi, einstaklingur sem sér vændisauglýsingu, þar sem gefið er upp símanúmer og einhverjar aðrar upplýsingar, eða einstaklingur sem sér enga auglýsingu, vegna þess að starfsemin er bönnð og stöðvuð eins fljótt og auðið er af lögreglu?

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að löngu sé tímabært að leyfa fíkniefnasölu (í það minnsta upp að ákveðnu marki), rétt eins og t.d. er gert í Kanada og setja í kringum það ákveðinn lagaramma.

Það gæti hæglega einnig átt við um vændi.

En eftirspurn getur skapað framboð og framboð getur einnig skapað eftirspurn.

G. Tómas Gunnarsson, 22.2.2021 kl. 01:15

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þú víkur þér listilga undan kjarna málsin, spurningunni um hvort vændi og fíkniefni séu sambærilegar "söluvörur".

Og hvers vegna eru kaup á vændi bönnuð en "sala" þess ekki? Fyrir því er áreiðanlega einhver ástæða, þótt vissulega kunni einhverjir að vera ósammála henni.

Það má t.d. velta fyrir sér hvort fíkniefnasalar og vændissalar séu í sambærilegri aðstöðu gagnvart kúnnanum, hvort það sem þeir eru að selja snerti þá sjálfa á sambærilegan hátt, og vísast fleira.

Kristján G. Arngrímsson, 22.2.2021 kl. 07:17

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég veit ekki hversu "listilega" ég vék mér undan spurningu þinni,  Fannst í sjálfu sér ekki ástæða til að svara henni, frekar en ég fer fram á það að þeir sem hér tjá sig, svari spurningum mínum, t.d. þeim sem settar eru fram í þessum pistli.  Hitt var svo að spurningunni verður ekki svarað svo vel fari nema í all löngu máli, sem ég einfadlega hafði ekki tíma til.

En vændi (kynlíf) og eiturlyf eru misjafnar söluvörur en eiga þó margt sameiginlegt.

Slíkt má líklega segja um býsna margar "söluvörur". Bæði vændi og fíkniefni hafa gjarna verið á "jaðri" þjóðfélagsins.  Bæði hafa gjarna verið bönnuð og gríðarlegum fjármunum og mannauði hefur verið eytt í tilraunum við að stemma stigum við þeim eða "útrýma" starfseminni.

Með yfirleitt litlum sem engum árangri. Hér tala ég ekki eingöngu um Ísland, heldur víða veröld.

Bæði vændi og fíkniefni eru enda útbreidd um veröldina og ekkert lát þar á þrátt fyrir áratuga eða alda baráttu gegn slíkri sölu.

Í kúnnahópi beggja má líklega oft finna  hlutfall af fíklum.  Sama gildir um sölumennina.  

Vændissalar eru ekki "neytendur" eigin vöru, en það er eins og áður sagði upp og ofan með þá sem selja fíkniefni.

En kynlíf er varla eins og "hver önnur vara", en hversu frábrugðið það er fer líklega mikið eftir því hvað viðhorf einstaklingar hafa til kynlífs og líklegt að svörin verði æði fjölbreytt.

Það hefur þó aldrei verið skortur á einstaklingum sem þykir "sín sýn" á það sú "eina rétta".

Klámleikarar eru ef til vill það sem kemur fyrst upp í hugann sem sambærileg stétt, en þó að þar sé skörun, er það ekki 100% samsvörun.

Ég hef þó lesið um einstaklinga sem eru ófeimnir um að tjá sig um klámleik sinn (og sölu), fylgdarþjónustu o.s.frf. 

Þó ég fylgist nú ekki með þeim heimi á Íslandi, þá er ekki annað hægt en að verða var við slíkt í fjölmiðlum.  Mér hefur sýnst að "frægasti" Íslendingurinn í þeim bransa sé ungur karlmaður, sem kemur "hispurslaust" fram í fjölmiðlum.

Ég hef t.d. hvorki heyrt hann né aðra tala um hann sem fórnarlamb, en ég held að dreifing kláms sé enn ólögleg á Íslandi.

En ég held að fáir eigi sér vændi eða fíkniefnasölu sem óskastarf, ef þeir gætu fengið sambærileg eða betri laun í öðrum störfum.  En hvar mörkin í því liggja er það líklega einstaklingsbundið. En staðreyndin er líklega sú að ýmsir af þeim sem koma til Íslands til að bjóða vændi (kynlíf) geta tekið inn árslaunin sín (heima fyrir) á 10 til 14 dögum.

En svo verður að minnast á mansal, sem að mörgu leyti væri líklega réttar einfaldlega að kalla þrælahald.

Það þekkist í raun í bæði störfum fíkniefna og vændissala, sem og ýmsum öðrum starfsgreinum.

En engin þeirra 11 vændiskvenna sem lögreglan talaði við í frétt RUV, sagði sig vera haldin sem þræl.

Ef þær koma hingað til þess að bjóða vændi (kynlíf) gegn greiðslu vegna þess að þær hafa svo ákveðið, er einhver ástæða til þess að refsa þeim sem kaupa?

Svo er hitt að hugsanlega eru einhverjar af þeim ekki að segja sannleikann.

En svo er vandamálið að finna það út og hver er trúverðug?

En er ástæða til að hindra viðskipti þeirra sem segja satt?  Vísindavefurinn fer líklega nokkuð "listilega" í kringum efnið: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3897

En er ekki hluti af vandamálinu ef talið er að hugsanlega sé um að ræða þrælahald, að refsileysið takmarkar aðkomu lögreglunnar?

Lögreglan hefur enga heimild til að yfirheyra vændissala eða halda honum á nokkurn hátt, því hann hefur jú ekkert gert af sér.

Væri staða lögreglu sterkari ef hún gæti boðið aðstoð og jafnframt niðurfellingu refsingar gegn samstarfi?  Ég er í sjálfu sér ekki að segja að refsiramminn eigi að vera harður.

En hver er árangurinn af núverandi fyrirkomulagi (Sænsku leiðinni)?

Hefur framboðið eða eftirpurnin dregist saman?  Eða aukist? Eru meiri vandamál í þeim löndum þar sem vændi er löglegt?

Það eru verulega skiptar skoðanir um "Sænsku leiðina" eins og allt annað og ekkert óeðlilegt við það.

Hér er t.d. nýleg frétt frá Kanada, en þar hafa svipuð lög gilt.  https://globalnews.ca/news/6580684/ontario-judge-rules-bill-c-36-unconstitutional/

En það eru að sjálfsögðu ótal hliðar á á þessu máli, jafnvel fleiri en mörgum öðrum.

En umræða og skoðanaskipti eru af hinu góða svo lengi sem þær fara fram með yfirveguðum hætti.

Eins og þú sérð, er þetta í lengra lagi, en persónulega tel ég yfirleitt að 2 - 3. setningar eða "meme" séu pólítískri og þjóðfélagslegri umræðu ekki til framdráttar, þó að slíkt sé ef til vill nauðsynlegur hluti hennar.

G. Tómas Gunnarsson, 23.2.2021 kl. 14:24

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já vísast er eitthvað sameiginlegt með fíkniefnum og kynlífi sem söluvöru, og því hvernig kaupin gerast á þessari eyrinni, en það sem ég var að reyna að koma að með retorískum spurningum var að það er grundvallarmunur á söluvörunni - eðlismunur, getum við sagt - og hann gerir að verkum að allur samanburður á þessu tvennu sem söluvörum missir marks, sýnist mér, eða skiptir ekki máli þegar upp er staðið.

Siðferðisleg spurning: má maður selja sjálfan sig í þrældóm? (sem felur í sér að maður afsalar sér einstaklingsfrelsi sínu að öllu leyti).

Kristján G. Arngrímsson, 23.2.2021 kl. 18:42

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er margt líkt með "markaðnum" með þessar vörur, þó að vörurnar séu ólíkar.

Það er því alls ekkert ótrúlegt að lesa mætti svipaða frétt og ég færði í stílinn hér að ofan ef sömu lög giltu um sölu á fíkniefnum og vændissölu.

Það var nú "burðarvirki" upphæflegu færslunar, ásamt að velta því t.d upp að það má ekki auglýsa áfengi, en það má auglýsa vændi, það má neyta áfengis, en ekki "neyta" vændis o.s.frv.

Það stefnir svo allt í að ekki megi selja fíkniefni, ekki auglýsa þau, en það megi neyta þeirra.

Að mínu mati skiptir þetta allt máli, en í annara augum ekki.  Það er mér sömuleiðis að meinalausu.

Það hvort að það sé siðferðislega rétt að selja sjálfan sig í þrældóm, kemur svo (að mínu mati) vændi ekkert við, þannig að ég skil ekki hvert erindi sú spurning á hér.

En það er í sjálfu sér erfitt að sjá siðferðislega meinbugi á því að einstaklingur ráði yfir sjálfum sér.  Lagalega er það hins vegar víðast bannað.  Er það siðferðislega rétt að brjóta lög?

Það má líka spyrja:  Er það siðferðislega rétt að taka eigið líf?  Á einhver rétt á því að banna einstaklingi slíkt?

Er það siðferðislega réttlætanlegt að biðja um fóstureyðingu, eða framkvæma hana?

Hvað er líf, hvenær byrjar það og hver "á það"?

Og hvenær verður einhver "sjálfráða"?  Eða er hann það sjaldnast eða aldrei?

En svo sé vitnað í dægurlögin, þá er vissulega "Highway to Hell", en það er bara "Stairway To Heaven".

En er það eitthvað sem vert er að taka mark á?

G. Tómas Gunnarsson, 24.2.2021 kl. 01:55

11 identicon

Góður pistill og lokahnykkurinn þar sem spurningunni um grímuskyldu og nálægðarmörk er varpað fram varðandi vændissala!  

"Sænska leiðin" gerir líklega ráð fyrir að vændissalar séu svo mikil fórnarlömb að ekki gildi um þá sóttvarnarlög. 

Möglulega er vænlegasta ráðið varðandi fíkniefnavandann að afglæpavæða fíknina.  Færa söluna í ríkisstofnanir eða stofnanir undir ströngu eftirliti hins opinbera (þ.á.m. skattsins).

Til að gæta samræmis þá er spurning hvort ekki verði að fara svipað að með kynlífsfíkla. Þá þarf auðvitað mentaða og vottaða vændisverkamenn til starfa. 

En að öllum hálfkæringi slepptum þá eru þetta snúnar siðferðisspurningar sem lúra þarna undir. 

Hvernig ætli sænska leiðin hafi annars reynst í Svíþjóð?

Ætli vændið hafi farið í felur og enn verri farveg rétt eins og sumir telja að gerist með fóstureyðingar séu þær bannaðar og því verði að leyfa þær?

Skeiðháholt 3 EHF (IP-tala skráð) 24.2.2021 kl. 17:29

12 identicon

ps. fyrir mistök lenti vitlaus undirritun undir þetta hjá mér, hér er ekki talað í nafni neins fyrirtækis. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.2.2021 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband