Hræsni Evrópusambandsríkjanna

Nú er Brexit loksins orðin staðreynd. Bæði Evrópusambandið og þjónar þess í Bretlandi urðu að játa sig sigraða þegar Breska þjóðin felldi dóm sinn í kosningum í desember.

"Sambandið" gat ekki þvælt málin lengur, hundsað úrslitin, eða efnt til annarar þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og svo oft hefur orðið raunin áður, þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki verið "Sambandinu" þóknanlegar.

Blákalt lýðræðið blasti við þeim.

Þá byrjar undirbúningur fyrir samningaviðræður.

Þá ber svo við að "Sambandslöndin" vilja draga á flot allar deilur sem sem þú kunna að hafa haft við Breta í gegnum aldirnar.

Spánn kemur fram með Gíbraltar og Grikkir byrja að tala um "Elgin marmara lágmyndirnar".

En eru þetta ekki eðlilegar kröfur kann einhver að spyrja?

Já og nei.

Þetta á ekkert erindi í fríverslunarviðræður.

En hins vegar, ef "Sambandið" ætlar að endurskoða stefnu og skoðanir sínar í slíkum málum, er betra að taka það upp á öðrum vettvangi.

Getur t.d. verið að Evrópusambandið sé andsnúið að Spánn eigi landsvæði handan Miðjarðarhafsins, í Afríku?

Hvað með allar landareignir Frakka um víða veröld?

En ef til vill er best að leysa allan slíkan ágreining með skipulögðum, lýðræðislegum,  sannjörnum atkvæðagreiðslum, sem væru undir alþjóðlegu eftirliti, hvort sem um er að ræða Gíbraltar, nú eða Katalóníu.

Og hvað varðar meintan "listaverkastuld" Breta í Grikklandi, þá er það sannkallað "Pandórubox", eða ég veit ekki hvort að veröldin sé reiðubúin til þess að það sé opnað.

Ætti að ræða um listaverk sem herir Napóleons rændu á Ítalíu? Nú eða alla fornmunina/listaverkin sem Frakkar rændu í Egyptalandi (þeir eru reyndar langt frá því að vera þeir einu sem eru sekir). 

Ítalir hafa meira að segja á stundum viljað að Mona Lisa snúi heim, því vissulega er hún máluð á Ítalíu, af Ítala, en ekki í Frakklandi.

Hvað um hvernig Spánverjar fóru ránshendi um S-Ameríku? Skyldi eitthvað af þeim list/fornminjum enn að vera að finna á Spáni?

Skyldi Evrópusambandið ætla að að krefjast þess að Rússar skili öllum þeim listmunum sem þeir stálu í lok síðari heimstyrjaldar í Þýskalandi, mörgum sem Þjóðverjar höfðu áður stolið hér og þar í Evrópu?

Eða er "Sambandið" of hrætt við að Rússar skrúfi fyrir gasið?

En það er merkilegt að mörg "Sambandsríkjanna" hafa lýst þeirri skoðun sinni að samstarf "Sambandinsins" og Bretlands í varnarmálum verði jafn mikilvægt og áður og lítið sem ekkert þurfi að breytast.

Slíkum "smámunum" er óþarfi að blanda saman við fríverslunarsamninga.

Sú afstaða helgast auðvitað af því að Bretland var fremsta herveldið (þó að það hafi vissulega látið á sjá) innan "Sambandsins".

Því miður bendir framkoma "Sambandsins" til þess að jafn líklegt sé og ekki að Bretland yfirgefi Evrópusambandið að fullu um næsu áramót, án þess að viðskiptasamningur liggi fyrir.

Það verður til tjóns fyrir báða aðila og vitanlega mun fleiri ríki.

Það verður fyrst og fremst vegna hræsni, hroka og hefnigirni Evrópusambandsins.

Slík er "smásál" "Sambandsins".

Það er vert að hafa í huga.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Evrópusambandið hefur ekkert gert til að hindra úrsögn Breta. Bretar báðu sjálfir um frestina, þeim voru ekki boðnir frestir. Að veita Bretum ekki frest á útgöngunni var rætt í fullri alvöru.

Það eru Bretar sem eru að sækjast eftir samningi. Og það væri í meira lagi undarlegt ef Evrópusambandið reyndi ekki að fá sem mest út úr öllum samningum og gæfi Bretum ekkert. Evrópusambandið er ekki góðgerðarstofnun fyrir þá sem utan standa. Og Evrópusambandið semur bara með sín aðildarríki í huga.

Það er ekki Evrópusambandsins að láta loforð Brexitliða rætast og ekki við Evrópusambandið að sakast þó Bretar kjósa að valda sér skaða. Ef það væri Evrópusambandinu hagstætt þá mundi það setja í samninginn að Bretar gengju bara í vinstrifótarskóm og nærbuxunum yst fata.

Vagn (IP-tala skráð) 25.2.2020 kl. 11:55

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vagn, þakka þér fyrir þetta.  Það er nú ef til vill ekki rétt að "Sambandið" hafi ekkert gert til þess að leggja steina í útgönguferil Breta. En það er alveg rétt að Bretar báðu um fresti, rétt eins og Írar "ákváðu sjálfir" að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon samninginn.

Þannig gerast hlutirnir stundum.

Það er reyndar ekki rétt að það séu eingöngu Bretar sem sækjast eftir samningi, því "Sambandið" hefur marg lýst yfir vilja sínum til að fá fríverslunarsamning við Breta og sóst eftir slíku, rétt eins og Bretar. Viðskipti á milli þessara aðila hafa enda verið "Sambandinu" mjög í hag og því eðlilegt að það sækist eftir samningi.

Það er engin ástæða til að tala um "Sambandið" sem góðgerðarstofnun, enda langt frá tilgangi þess.

En það er gamaldags hugsunarháttur, en ennþá algengur og hættulegur, að telja að hagsæld eins komi alltaf á kostnað annars, og að samningur geti ekki verið einu ríki hagstæður, nema að hann sé öðru ríki óhagstæður.

Og það virðist einmitt vera gryfjan sem "Samdbandið" er að falla í nú. Með hræsni, hroka og hefnigirni í farteskinu.

Það virðist blinda "Sambandinu" sýn á þá miklu sameiginlegu hagsmuni sem það á með Bretlandi.

Þess í stað eru dregin upp aldagömul ágreiningsmál (sem virtust lítið vefjast fyrir þeim á meðan Bretar voru í "Sambandinu") og flest gert til að draga málin á langinn og þæfa.

Ef til vill segir það meira um "Sambandið" að það virðist óttast samkeppni við Breta nema það geti haft löggjafar- og dómsvald yfir þeim.

Þetta gerir það einfaldlega að verkum að það eru meiri líkur en minni á að Bretar fari samningslausir út úr "Sambandinu".  Alls ekki "heimsendir" en engum til góða.

Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta sinn sem þjóðir á meginlandi Evrópu telja sig vera með Breta upp að vegg.

G. Tómas Gunnarsson, 25.2.2020 kl. 13:47

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

"Hart Brexit" mun verða þungt áfall fyrir báða aðila, í fyrstu. Bretar munu hins vegar verða fljótir að vinna sig út úr þeim vanda og koma sterkir út. Fyrir ESB er hart Brexit aftur öllu verra og óvíst að sambandið muni lifa það af.

Þegar kosið var um úrgöngu Breta úr ESB var kosið um útgöngu, ekkert annað. Ef niðurstaðan verður sú að Bretland samþykki einhvern samning um annað en viðskipti, er verið að svíkja kjósendur. Þá er ekki verið að ganga úr ESB, heldur verður Bretland þá einskonar hjálenda þess.

Það er ekki bæði hægt að ganga út og vera inni. Hins vegar er auðvelt að skiptast á vörum yfir þröskuldinn.

Gunnar Heiðarsson, 25.2.2020 kl. 20:31

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ruglið og ímyndunarveikin í ykkur andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi og í Bretlandi er orðin þreytt della. Það er staðreynd að útganga Bretland úr Evrópusambandinu er orðin hörmung og þó er Bretland eingöngu í aðlögunartímabilinu þessa mánuðina. Bretland er ekki lengur aðili að Evrópusambandinu þar sem aðild þess endaði þann 31. Janúar 2020 eins og kemur fram á vefsíðu Evrópusambandsins.

Frá og með 1. Janúar 2021 verða íslendingar að sækja um vegabréfaheimild til þess að fá að starfa og koma til Bretlands sem ferðamenn. Þeir sem ætla að sækja þar um starf og búsetu þurf að uppfylla kröfur sem næstum því enginn stenst í gegnum punktakerfi sem hefur eingöngu þann tilgang að halda fólki frá Bretlandi. Þetta mun auka ennþá á þær hörmungar sem eru í Bretlandi vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Bretar þurfa einnig að sækja um vegabréfsheimildir til þess að fá að koma til Íslands og uppfylla kröfur sem aðildar utan ESB/EES/EFTA þurfa að sæta til þess að fá að starfa og búa á Íslandi.

Brexit verður eingöngu áfall fyrir Bretland. Áhrifin á Evrópusambandið verða lítil eins og það hefur sýnt sig nú þegar. Allt tal um að þetta sé áfall fyrir Evrópusambandið er tóm þvæla og sjálfsblekking.

Jón Frímann Jónsson, 25.2.2020 kl. 22:03

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Gunnar, þakka þér fyrir þetta.  Það mun baka báðum aðilum tjón, ef enginn samningur næst, en viðskipti á WTO skilmálum er enginn "heimsendir".

Mig minnir að meðal WTO tollar "Sambandsins" séu að meðaltali u.þ.b. 2.8%.  En mikið hærri á bílum, að mig minnir 10% og enn hærri auðvitað á landbúnaðarvörum.

En hlutur "Sambandsins" í útflutningi Breta er vissulega stór, en hefur skroppið saman um ca. 10%stig, á undanförnum árum.

En við eigum auðvitað eftir að sjá hvernig Bretar stilla sínum WTO tollum upp.

Bretar munu ólíklega afhenda löggjafar- og dómsvald til "Sambandsins", enda það stór hluti þess að kjósendur vildu út.

@Jón, þakka þér fyrir þetta.  Ég hugsa að þér færi betur að spara stóryrðin og setja eitthvað "kjöt" á þau "umræðubein" sem þú býður hér upp á.

Bretar þurftu ekki vegabréfsáritun til Íslands áður en Ísland varð aðili að EEA/EES, nú þurftu Íslendingar áritun til Bretlands. 

Íbúar hvors lands um sig þurftu hins vegar að sýna vegabréf, og þurfa þess nú, og munu líklega þurfa þess eftir aðlögunartímann.

Bretar hafa aldrei tekið þátt í Schengen.

En líklega verða breytingar á hvað varðar atvinnuleyfi og búseturéttindi, þó að við eigum eftir að sjá hvernig samningar Íslands og Bretlands verða.

Bretum hefur gengið ágætlega eftir að landið gekk úr "Sambandinu", þó að vissulega megi eiga von á að það reyni eitthvað á um næstu áramót.

Það gengur nú ekkert sérstaklega vel hjá "Sambandinu" að berja saman fjárlög fyrir næstu ár, og er býsna hart deilt, enda verður all stór "hola" í þeim nú þegar Bretar munu ekki greiða lengur til þess.

Langtímaáhrifin eiga svo eftir að koma í ljós, enda verður að öllum líkindum um einhverjar breytingar í "valdaballans" og því miður líklega ekki til góða.

Til lengri tíma hef ég meiri trú á Bretum en "Sambandinu".

G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2020 kl. 03:55

6 identicon

Maður sem er svo gegnsýrður af hatri á ESB að hann getur ekki annað en kallað það "Sambandið" er augljóslega ómarktækur

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 26.2.2020 kl. 09:06

7 identicon

Það er ekki hræsni, hroki og hefnigirni að nýta sér yfirburða samningsstöðu. Aðeins hálfvitar gera það ekki. Bretar vilja mikið en hafa tiltölulega lítið að bjóða.

"Hart Brexit" mun valda báðum aðilum skaða. Bretar munu hins vegar verða lengur að vinna sig út úr þeim vanda, og vandséð að þeim takist það. Fyrir Breta gæti hart Brexit hæglega verið upphafið að upplausn Bretlands. Fyrst munu Skotar segja sig frá Bretlandi. Síðan Írar. Og Gibraltar gæti einnig ákveðið að slíta sig frá upplausninni í Bretlandi auk Man­ar, Jersey og Guernsey.

Tollar eru aðeins hluti af því sem Bretar vilja semja um. Og þó tollar, heilbrigðisvottorð og landamæraskoðun séu stór mál þá er að einblína á þá og hundsa alla aðra liði mikil einföldun. Til dæmis býr fjöldi Breta innan Evrópusambandsins, ellilífeyrisþegar, námsmenn og fólk sem vinnur þar og á jafnvel fasteignir eða fyrirtæki, réttindi þeirra þarf að semja um. Starfsemi Breskra fjármálafyrirtækja verður óheimil innan Evrópusambandsins án samnings. Og miðstöð fjármálastarfsemi Evrópu færist frá Bretlandi.

Fjárlög eru ætíð deiluefni, Evrópusambandið er þar engin undantekning. Og Bretar hætta ekki að borga fyrr en aðlögunartímanum og framlengingum sem Bretar gætu sótt um er lokið.

Vagn (IP-tala skráð) 26.2.2020 kl. 12:37

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Björn, þakka þér fyrir þetta. Ég veit ekki hvaðan þið "Sambandssinnarnir" fáið það út að það sé eitthvað sífellt hatur út í "Sambandið".

"Sambandið er ágætis orðnotkun og má finna víða. Þú gætir "gúgglað" þessa setningu til að finna uppruna hennar: 

Sambandið starfar á sviðum frá heilsugæslu og efnahagsmálumutanríkis- og varnarmálum en aðildarríkin hafa framselt mismikið af valdi sínu til ESB eftir því um hvaða málaflokk er að ræða. Hvað varðar peningastefnu, landbúnað, viðskipti og umhverfismál til dæmis má líkja ESB við sambandsríki að völdum.

En það er alveg rétt hjá þér að orðnotkun og merking þeirra skiptir máli.  Hvað þýðir það t.d. að vera "Evrópusinni"?  Hvað þýðir það að "við þurfum meiri Evrópu"?

@Vagn, þakka þér fyrir þetta. Ég held að margir ofmeti "yfirburðastöðu" "Sambandsins". Það er einmitt partur af "hrokanum".

Bretland er næst stærsta útflutningsland "Sambandsins" á eftir Bandríkjunum.  Bretland er sömuleiðis næst stærst á eftir Bandaríkjunum þegar kemur t.d. að plús viðskiptajöfnuði fyrir Þýskaland, sem og "Sambandið" í heild.

"Sambandið" er auðvitað sömuleiðis gríðrlega mikilvægur markaður fyrir Bretland, en útflutningur þangað hefur dregist hlutfallslega saman undanfarin ár.

Bretar hafa líklega hug á því að lækka það hlutfall frekar.

En ef enginn samningur verður þýðir það ekki endalok viðskipta. Tvö af stærstu viðskiptalöndum "Sambandsins", Bandaríkin og Kína, hafa ekki fríverslunarsamning, þó að samkomulag á ýmsum sviðum sé í gildi.

En verði jafnir tollar á báða bóga, leggst það þyngra á þann sem hefur viðskiptajöfnuðinn sín megin. Ef stórlega dregst úr bílainnflutning til Bretlands, og útflutning sömuleiðis, þá er eftirspurnin í Bretlandi meira en nóg til að taka upp slakan Bretlandsmegin.

En ég er sammála því að samningsleysi mun skaða báða aðila, ég hef hins vegar mikla trú á því að Bretar nái að vinna sig út úr því.

En það er heldur ekkert útilokað að Bretar eigi eftir að gera mistök, mér sýnist t.d. að kerfið sem þeir ætla að taka upp í innflytjendamálum sé full strangt, þó að ég skilji vilja þeirra til að herða löggjöfina.

Samningur um réttindi EU/UK íbúa sem búa á "hinum staðnum", er nokkuð ef ekki alveg frágenginn. BBC birti ágætis frétt um það  https://www.bbc.com/news/uk-49973387

Fjármálafyrirtækin virka nokkuð í báðar áttir og ég reikna mað að flest fyrirtæki hafi baktryggt sig nokkuð í þeim efnum.  Fleiri fyrirtæki hafa til dæmis hafið starfsemi í Bretlandi en reiknað var með.

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2020/01/20/1_000_fyrirtaeki_opna_i_bretlandi/

Það er víða deilt um fjárlög, en oftast tekur ekkert langan tíma að koma þeim saman og samþykkja.

En það verður líkega frekar erfitt hjá "Sambandinu" nú, enda stór greiðandi að hverfa á braut.  Plastskatturinn verður líklega verulega útþynntur og nettó greiðendur eru ekki tilbúnir að auka hlut sinn. Nú er verið að ræða rammann fyrir 2021 til 2028, þannig að Bretar greiða ekki í það, nema um frestun verði að ræða.

Hræsnin sem ég minnist á er svo að ætla að blanda umræðu um list/fornmuni inn í umræðuna.  Ef "Sambandið" ætlaði að opna umræðu um að ríki heims myndu almennt skila list/fornmunum til upprunalanda, nema hægt væri að sýna fram á 100% lögmæt viðskipti, þá myndi ég fagna og styðja það.

En þessi framsetning er ekkert nema hræsni af þess hálfu.

Það er hægt að halda endalaust áfram, en ég hætti hér nú, líklega skrifa ég eitthvað meira um þessi málefni fljótlega, enda finnst mér þetta áhugavert efni.

En að lokum er vert að hafa í huga að erfiðleikarnir hvað varðar Brexit eiga líklega eftir að hverfa í skuggann af þeirri vá sem nú blasir við vegna "Wuhan veirunnar".

Ef fram heldur sem horfir, verður mikill samdráttur í efnahag víða.  Ekki síst hjá ríkjum sem eiga mikið undir ferðamennsku eins og í S-Evrópu.

G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2020 kl. 17:30

9 identicon

"Sambandið".

Gæsalappirnar segja allt sem segja þarf um þráhyggjuna.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 27.2.2020 kl. 12:09

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Björn, þakkak þér fyrir þetta. Þú misskilur að ég held notkun gæsalappa eða gerir þeir ekki grein fyrir öllum mismunandi tilgangi þeirra.

Þú virðits álíta að hér sé um háð, eða kaldhæðni að ræða, og er hægt að nota gæsalappir í þeim tilgangi.

Mér hefur oft verið legið á hálsi að nota gæsalappir í "óhófi", en ég hef alltaf haft gaman af notkun þeirra og á ábyggilega eftir að halda henni áfram.

En ein af notkun gæsalappa t.d. í Enskri tungu er: "To indicate a nickname written as part of a formal name."

Það er nákvæmlega það sem býr að baki þeirri ákvörðun að nota "" um orð eins og "Sambandið", enda getur þú farið yfir "bloggið" mitt og séð að þegar ég nota orði Evrópusambandið, eru aldrei gæsalappir.  Það er auðvitað sami "hluturinn", en fullt heiti.  Þarna nota ég til dæmis gæsalappir vegna þess að "Sambandið" er ekki hlutur.

En þið "Samdbandssinnar" eruð margir hverjir alltof uppteknir af því að einhver hati "Sambandið", það eru fáir ef nokkrir sem eru í þeim "pakka".

En það þýðir ekki að mörgum líst ekkert á vegferð þess og hvert það stefnir.

En það er líka að fyrir margar þjóðir getur "Sambandið" verið nokkuð álitlegur kostur, en fyrir aðrar ekki.

"One size fits all", gildir ekki í þessu tilfelli sem og mörgum öðrum.

Ég myndi hvetja þig til að berjast fyrir "Sambandinu" á jákvæðum nótum og leggja eitthvað til málanna, annað en að ásaka aðra um "hatur", "þráhyggju" og þar fram eftir götunum.

Ég hygg að það skaði frekar málstað þinn en hitt.

G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2020 kl. 12:44

11 identicon

Mér dettur ekki í hug að 'berjast fyrir' ESB, enda ekki í því, og ég hef af lestri bloggs þíns í rúman áratug (þó sjaldan upp á síðkastið) að ég gæti sagt nokkuð það sem þú myndir taka mark á.

Sannfæring þín um gæði Brexit segja allt um það.

Björn Friðgeir (IP-tala skráð) 28.2.2020 kl. 09:33

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Björn, þakka þér fyrir þetta. Það þarf enginn að berjast fyrir "Sambandinu" frekar en hann kýs svo.

En ég tek alltaf mark á því sem mér finnst vel fram sett (þínar athugasemdir hér hafa ekki uppfyllt það að mínu mati) og svo verður þú að hafa í huga að ég er ekki sá eini sem gæti séð þann fróðleik sem þú kannt að hafa fram að færa um "Sambandið".

Ég kann þér hins vegar þakkir fyrir að hafa lesið bloggið mitt svo lengi og oft, ég skrifa það aðallega til þess að halda Íslenskunni minni við, en hef auðvitað gaman af því að einhverjir lesi það.

Hvað gæði "Brexit" varðar, er það margslungið mál.

Mín skoðun er sú að Bretar hafi haldið illa á sínum málum, þangað til nýlega.

En Brexit gefur möguleika, til að Bretland njóti möguleika sem það hefði ekki átt innan "Sambandsins", en jafnframt ber það í sér hættur ef Bresk stjórnvöld halda ekki rétt á spöðunum.

Núna er ég bjartsýnn fyrir hönd Breta, þó að ég sé ekki sammála öllums skrefum sem þeir hafa stigið.

En ég tel þá á betri vegferð en "Sambandið" sem heild.

En sagan mun vissulega leiða margt í ljós, en hún mun líka vera túlkuð á marga mismunandi máta.

G. Tómas Gunnarsson, 29.2.2020 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband