Á menntun að tryggja hærri laun, eða glittir í "sovétið"?

Hér og þar hef ég séð umræður um að meta þurfi menntun til launa, að launabil sé of lítið, eða of mikið og svo auðvitað að menntun, eða prófskírteini eigi alls ekki að tryggja eitt né neitt.

Ég sá að Kári Stefánsson lagði í púkkið að réttast væri að borga námsmönnum á meðan þeir væru í námi, þannig útskrifuðust þeir án námslánaskulda og gætu sem best verið á "sömu launum" og aðrir.

Þetta fyrirkomulag var við lýði í Sovétríkjunum sálugu.  Þar fengu námsmenn greidd laun, en oft á tíðum voru þeir með lægri laun eftir útskrift heldur en til dæmis kolanámuverkamenn.

Þetta gerði það að verkum að oft á tíðum var þjónustulund með allra minnsta móti. Því sátu væntanlegir viðakiptavinir eða sjúklingar á biðstofunni með hænu í fanginu, grænmeti, sælgæti, vodkapela eða hvað annað sem þeir gátu séð af til að færa t.d. lækninum um von um betri og skjótari þjónustu.

Enn má víða sjá enduróm af þessari tíð í A-Evrópu, þó sem betur fer hafi hænunum fækkað, en það eru ótrúlega margir sem t.d. fara aldrei tómhentir til tannlæknis.

En svona kerfi getur gengið nokkra hríð í "lokuðu" landi.

En vel menntað fólk sem er eftirspurn eftir víða um lönd, t.d. heilbrigðisstarfsfólk og tölvmenntaðir einstaklingar, var auðvitað á meðal fyrsta fólksins sem yfirgaf landið.

En á menntun á að tryggja hærri laun?  Það er mikilvæg spurning og ekki síður mikilvægt að velta því fyrir sér hvort að hún geri það?

Og hvað með starfsreynslu?

Eins og oft er svarið ekki einhlýtt.

Ákveði einhver að setja á stofn eigin fyrirtæki, tryggir menntun ekki árangur eða laun. Oft getur menntun þó vissulega nýst vel í slíkum kringumstæðum, en ekkert er gefið.

Í einkageiranum er líklegt að góð menntun geti tryggt starfsviðtal og í mörgum tilfellum starf og hærri laun.

En í öðrum tilfellum, sérstaklega til lengri tíma, held ég að menntunin tryggi ekki starfið eða launin, ef árangurinn í starfinu er ekki í samræmi við væntingar vinnuveitandans.

En hjá hinu opinbera er það menntunin sem gildir, þar vilja flestir að "hr. excel" ráði ferðinni, settar eru inn gráðurnar, starfið o.s.frv og neðst á skjalinu birtist svo launaflokkurinn og kaupið.

"Georg Bjarnfreðarson" er því líklega fyrsti kostur í flest störf, enda með "5. háskólagráður" og líklega launaður eftir því.

En nú er mikið rætt um hver launamunurinn eigi að vera hjá "ófaglærðum" og hve mikið á menntun að lyfta á laununum.  Mest hefur verið rætt um leikskóla og hvers virði háskólamenntunin eigi að vera þar.

Persónulega get ég vel skilið að eðlilegt þyki að launamunur sé þar þó nokkur við upphaf starfs, háskólamenntuðu fólki í vil.

En hvers virði er starfsreynslan?

Nú hefur marg komið fram að vegna starfseklu á leikskólum sé það nokkuð þekkt að ófaglært starfsfólk með mikla starfsreynslu sé t.d. deildarstjórar.

Eiga þeir einstakingar ekki skilið sömu laun og aðrir deildarstjórar, burt séð frá menntun? 

Gildir ekki þar sem annarsstaðar að greiða eigi sömu laun fyrir sömu störf?

Eiga leiksskólarekendur að ná sparnaði í launum, vegna þess að þeir geta ekki mannað stöðuna með faglærðu fólki?

Ég ætla að kasta fram einni(þær urðu nú óvart tvær) spurningu til þeirra sem kunna að lesa þessa bloggfærslu.

Aðstæðurnar eru þannig að þu hefur r fjögur ung börn á þínu framfæri, og aðstæður spiluðust þannig að þú þyrftir á einkagæslu að halda.  Þú auglýsir eftir starfskrafti býður þokkaleg laun o.s.frv.

Tveir umsækjendur eru um stöðuna. Annars vegar einstaklingur sem er nýútskrifaður úr háskóla sem leikskólakennari og hins vegar einstaklingur sem hefur rétt rúmlega 15. ára starfsreynslu á leikskóla og kemur með mjög góð meðmæli frá yfirmanni sínum.

Hvorn mundir þú ráða?

Ef þú segir einstaklinginn með 15. ára starfsreynsluna, myndir þú þá bjóða honum lægri laun?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Kári Stefánsson heldur því fram að ekki eigi að meta menntun til launa. Í næstu setningu leggur hann til að námsmenn fái laun meðan þeir eru í námi. Með því er vitanlega verið að meta menntun til launa. En lengra nær nú geta vísindamannsins ekki í því að hugsa skýrt.

Hitt er svo annað mál hvort það þurfi fimm ára háskólanám til að geta passað börn. Ég hef verulegar efasemdir um að þess þurfi.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2020 kl. 19:41

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Eins og ég skyldi Kára þá leit hann einfaldlega svo á að nám væri vinna, það gæti verið launað, en þá missti námsfólk ekki af launum á meðan og þyrfti þvi ekki sérstaka umbun eftir útskrift.

Það er vissulega ekki nauðsynlegt, enda væri þá líklega einhverjar menntunarkröfur varðandi barneignir  :-)

Mér skilst einnig að víða sé u.þ.b helmingur starfsfólks leikskóla án háskólamenntunar.

En ég get líka skilið að þeir sem hafa menntað sig sérstaklega vilji fá það metið.  En ég hef þá trú að þeir sem hafa t.d. starfað á leikskóla við góðan orðstý í ef til vill 15. ár hafi lært sitt hvað.

Ef til vill er ekki síst þörf á að meta starfsreynslu, því ég held að flestir séu sammála því sem hafa haft mannaforráð, að því minni starfsmannavelta, því betra.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2020 kl. 20:25

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sammála því að starfsreynsla er gjarna ekki metin að verðleikum.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2020 kl. 20:54

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Varðandi spurninguna þína í lokin yrði raunveruleikinn líklega sá, að sá einstaklingur sem hægt væri að ráða á lægri laun fengi starfið. Að minnsta kosti ef um einkarekinn leikskóla væri að ræða.

Annars er ég alveg sammála því að starfsreynsla skipti mestu.

Það er algengur misskilningur að eini tilgangur náms sé að öðlast "hæfni" til ákveðinna starfa. En nám hefur líka þann tilgang að "mennta" - þ.e. gera fólk að betri manneskjum. Á því græðir sosum enginn en einstaklingurinn sjálfur nýtur sannarlega góðs af því. (Hér tala ég af eigin reynslu, aðallega).

Kristján G. Arngrímsson, 16.2.2020 kl. 08:58

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Til að forða misskilningi vil ég taka fram að ég er alls ekki að segja að menntun tryggi það að maður verði goð manneskja - sbr. Ted Bundy sem var hámenntaður. Bestu manneskjur sem ég hef kynnst um dagana voru lítið menntaðar.

Kristján G. Arngrímsson, 16.2.2020 kl. 09:04

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Spurningin var einfaldlega hvort sá sem svaraði spurningunni myndi telja eðlilegt a borga lægri laun í tilfelli starfsreynslunnar en menntunarinnar.

En spurningin fjallað aðallega um hvort vægi þyngra, prófskírteinið eða 15. ára starfsreynslan og meðmælin.

Einkarekinn leikskóli kom málinu ekki við, heldur var um að ræða að ráða einstakling til að líta eftir börnum í eigin umsjá.

En ég held reyndar að einkareknir leikskólar borgi almennt alls ekki lægri laun, frekar á hinn veginn.  Þeir eiga enda meira undir starfsemi án truflana.  Þeir hafa sterkari þörf fyrir tekjur heldur en starfsemi á vegum hins opinbera, ef svo má að orði komast.

En svo er það spurningin um menntunina.  Þetta er líklega ekki síst spurningin um mismun og samspil menntunar og skólagöngu.

Það er hægt að mennta sig án þess að koma í skóla og hægt að útskrifast lítt menntaður úr skóla.  Um þessa setningu má samt deila og rökræða lengi ef menn hafa áhuga fyrir slíku.

En svo sé snúið sér aftur að leikskóla, þá get ég alveg skilið að ungur reynslulítill og ómenntaður einstaklingur sem hefur störf sé á lágum launum.

En launakerfið hlýtur að þurfa að taka utan um þá sem vilja ílengjast í starfinu og gera það jafnvel að ævistarfi.

Þess vegna ætti starfsreynslan að vega mjög þungt, að mínu mati.

G. Tómas Gunnarsson, 16.2.2020 kl. 18:51

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Raunveruleikinn er sá (ég skal ekki segja um hvernig hlutirnir ættu að vera) að bæði menntun og starfsreynsla getur dregið úr atvinnumöguleikum vegna þess að hvort tveggja (menntun og starfsreynsla) kallar á að starfsmaður fái hærri laun. Þess vegna er freistandi fyrir atvinnuveitanda að ráða lítt menntaðan og reynslulítinn starfsmann vegna þess að þá er launakostnaðurinn lægri.

Svona er raunveruleikinn. Þetta var (og er held ég) sérstaklega áberandi í fjölmiðlastéttinni þar sem reynsluboltar eru hiklaust látnir fara vegna þess að þeir eru orðnir svo dýrir. Það er hægt að ráða tvo til þrjá nýliða fyrir sama pening og dekka þar með fleiri vaktir.

Það sama á við í kennarastéttinni. Eftir því sem kennarar eldast í starfi (fá meiri reynslu) hækka þeir í launum og vinnuskyldan minnkar (þannig eru samningarnir). Það er því freistandi fyrir skólastjóra í fjársveltum skóla (hvort sem er ríkis- eða einkareknum) að fá inn nýliða.

Kristján G. Arngrímsson, 16.2.2020 kl. 19:01

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Menntun og starfsreynsla draga ef til vill ekki úr starfsmöguleikum nema í undantekningartilfellum.  En það er vissulega þekkt og ekki með öllu óeðlilegt að atvinnurekendur vilja oft forðast að ráða "of hæfan" einstakling í starf.

Á einkamarkaðnum er það ekki endilega út af launum, heldur hræðslu um að viðkomandi stoppi stutt við, vegna þess að honum bjóðist hærri laun í betra starfi.

Fjölmiðlar eru ef til vill sérstakt tilfelli á Íslandi og reyndar víðar eins og staðan er í dag.

Þeir hafa lent í því sem næst "fullkomnum stormi", tækninýjunga og tekjusamdráttar.

Umhverfið er gríðarlega breytt.  Við slíkar aðstæður kann að vera að starfsreynsla skili ekki auknum tekjum, þó að hún kunni vissulega að skila betri miðli.

Það þarf heldur ekki að skoða lista yfir mest lesnu fréttir til að sjá að starfsreynsla er ef til vill ekki það sem skiptir mestu máli við skriftir þeirra.

Íslenskt umhverfi svo einnig sérstakt, með stóran fjölmiðil með skylduáskrift og svo stórir flokkar auglýsinga bannaðir.  Þó geta sömu flokkar auglýsinga t.d. sést í beinum útsendingum erlendis frá.

En ég gæti skrifað langt mál um fjölmiðla, geri það ef til vill seinna, en slíkt á ekki erindi hér sem "athugasemd".

Ég vil þó nefna að það er auðvitað getur enginn að ég tel gefið eiginlega allt sitt efni, flestir erlendir fjölmiðlar enda farnir að reyna að selja aðgang með einum eða öðrum hætti.

En Íslenskir fjölmiðlar þurfa líka að taka á "þjófnaði" og "sníkjulífi" sjálfs síns.

Það er alltof algengt að sjá í Íslenskum fjölmiðlum að fréttir séu endursagðar lítt breyttar frá öðrum Íslenskum fjölmiðlum.  Stundum bætt við "þessi eða hinn sagði fyrst frá", oft alls ekki.

Ég skrifaði um eitt slíkt dæmi fyrir nokkrum árum.

https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2161292/

Læt þetta duga nú.

G. Tómas Gunnarsson, 17.2.2020 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband