Euro krísan: Almenningur orðinn langþreyttur á stjórnvöldum sem hlusta ekki

Það er gömul saga og ný að þjóðaratkvæðagreiðslur vekja ekki lukku innan Evrópusambandsins, hvorki að efna til þeirra, né niðurstöðurnar.

Það má segja að það sannist enn á ný, nú á Ítalíu. Matteo Renzi varð undir með hugmyndir sínar um stjórnarskrárbreytingar og það með miklum mun. Rétt um 60% þeirra sem greiddu atkvæði höfnuðu þeim. Þeim hefur enda ekki þótt rétt að verðlauna léleg stjórnvöld með frekari völdum.

Ef marka má fréttir þá snerist atkvæðagreiðslan, eins og oft vill verða, ekki nema að hluta til um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni.

Kjósendur vildu nota tækifærið að refsa stjórnvöldum og það er af nógu að taka í þeim efnum á Ítalíu.

Atvinnuleysi er í hæstu hæðum og hreyfist lítið niður á við, þó að atvinnuþátttaka minnki. Hagvöxtur er svo gott sem enginn og heildar hagvöxtur frá því að Ítalía tóku upp euroið er sömuleiðis óþægilega lágur. Skuldir ríkisins hafa aukist jafnt og þétt og eru nú yfir 130%/GDP. Fjármál héraðstjórna og borga eru sömuleiðis í mörgum tilfellum í kaldakoli.

Við þetta má bæta bankakerfi sem hriktir verulega í, fallandi útflutningshlutdeild og svo flóttamannastrauminn, sem mörgum Ítölum þykir "Sambandið" gera lítið til að hjálpa þeim að kljást við, hvað þá leysa.

Líklega mætti segja að þessu sé í raun haldið saman af Seðlabanka Eurosvæðisins, það er engin leið til að segja um hvernig ástandið væri án atbeina hans.

En Ítalir eiga enga leið til að "refsa" þeim sem halda um stjórnartaumana í Brussel, en grípa "það sem hendi er næst" sem er þeirra eigin forsætisráðherra, sem hefur þó gagnrýnt "Sambandið" í vaxandi mæli.

Það þykir "góð latína" nú til dags að tala með niðrandi tón um "populíska" flokka. En staðreyndin er sú að almenningur vill að á sig sé hlustað og tekið tillit til sjónarmiða sinna.

Það er lexía sem stjórnmálamenn þurfa að læra. "Alþjóðleg stjórnmála elíta", er ekki eitthvað sem hrífur kjósendur með sér, og þegar þjóðarleiðtogar eyða æ meiri tíma á "krísufundum" Evrópusambandsins, snúa kjósendur sér annað.

En það að má segja að það ríki krísa í Evrópusambandinu - nokkuð stöðugt. Í upphafi snerist hún fyrst og fremst um fjármálamarkaði, banka og euroið, en hún hefur færst í vaxandi mæli yfir á hið pólítíska svið.  Það er eðlilegt, enda euroið í eðli sínu verkefni sem tók meira tillit til hins pólítíska veruleika en hins efnahagslega.

Stjórnmálaleiðtogar hverfa á braut nú með vaxandi hraða.  Cameron, Renzi, Hollande þorir ekki að bjóða sig fram, fæstir höfðu áhuga á því að sjá Sarkozy aftur, nýjar ríkisstjórnir hafa verið myndaðir í Danmörku, Eistlandi og Litháen.

Svo verða kosningar í Frakklandi og Þýskalandi á næsta ári, þó að ég reikni og voni með að þær verði með heldur "hefðbundnari" sniði, ef nota má það orðalag.

Svo eiga eftir að verða magnaðar deilur innan "Sambandsins" næstu tvö árin, í það minnsta, vegna Brexit.

Það er í raun ótrúlegt að enn skuli aðildarumsókn vera stórt atriði í stjórnarmyndunarviðræðum á Íslandi.

 


mbl.is Frestar afsögn fram yfir fjárlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Orð að sönnu! Afar undarlegt að sumir stjórnmálamenn haldi að íslenska þjóðin vilji ganga inn í brunarústir ESB og evrunnar. 

Júlíus Valsson, 7.12.2016 kl. 08:26

2 identicon

Ítalir eru heppnir með það að þessar ríkisskuldir eru að mestu við almenning innanlands. Þannig að þetta eru innanlandsskuldir. Varðandi bankakerfið á Ítalíu þá hangir Deutsche Bank á bláþræði og þar með margir stórir bankar vítt og breytt um heiminn, einnig Ítalskir.

Og sérfræðingar segja að ef Deutsche Bank fellur þá falli evran örugglega og Evrópusambandið verði gjörbreytt, það sem eftir verður af því.

Til marks um það hvað þetta er alvarlegt ástand með Deutsche Bank þá er sagt að áhrifin af falli hans séu fimm til sexföl áhrifin af falli Lehman Brothers.

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 7.12.2016 kl. 13:03

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn Þakka þér fyrir. Ríkisskuldir Ítalíu eru að ég best veit almennt ekki við ítalskan almenning, en hins vegar hafa ítalskir bankar keypt mikið af þeim.

En ætli stærsti einstaki kaupandinn upp á síðkastið hafi ekki verið Seðlabanki Eurosvæðisins/ítalski Seðlabankinn.

Það er auðvitað bæði gott og slæmt eins og allt annað.

Getur verið slæmt, ef hlutirnir snúast til verri vegar.

En það er líka út af þessari tengingu sem bankakreppur og hin pólítíska kreppa tvinnast svo saman.

En hins vegar er ekki hægt að líta hjá því að þjóð sem hefur ekki sinn eigin gjaldmiðil og skuldar yfir 130% af GDP er í stórkostlegum vandræðum. Verðhjöðnun og önnur vandamál hafa svo gert "súpuna" enn súrari.

Vandamál Japans eru af svipuðum toga, en þar sem Japan hefur eigin gjaldmiðil, og eigin sjálfstæðan seðlabanka, eru þau ekki jafn alvarleg, þó að þau séu af engu minni stærðargráðu, þvert á móti.

G. Tómas Gunnarsson, 7.12.2016 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband