Vorkoman að Bjórá

Það er engu líkara en að veðurfarið hér í Kanada hafi ákveðið að fylgja hinni Íslensku hefð og láta sumarið byrja á morgun (fimmtudag).  Hér brast á með sólskini og hlýindum í dag eftir frekar kalda og hægfara vorkomu hingað til.

Vorkoma hér er nokkurt upplifelsi fyrir nábleikan Íslending eins og mig, sem nú fagnar henni í fyrsta sinni í eigin garði.  Það sem einna helst vekur athygli er allt lífið sem flögrar og hleypur hér um.  Fjórar tegundir íkorna, svartir, gráir, brúnir og jarðíkornar,   klifra upp um tré og rafmagnsstaura og éta blómlaukana í garðinum (nokkuð sem er partur og "prógramminu" og verður að sætta sig við), í ljósaskiptunum má sjá þvottabirni ef heppnin er með, en á minna lukkulegum dögum velta þeir um ruslatunnunni í leit að æti.

Mýgrútur flýgur og vappar hér um í leit að æti.  Það sem helst veku athygli Íslendingsins er að þeir eru ekki allir móbrúnir eða gráir, heldur sjást hér rauðir fuglar, þ.e. kardínálar, bláir fuglar, Blue Jays, og gular finkur sjást stöku sinnum.

Sé útivistarsvæðin heimsótt, eru nokkrar líkur á því að sjá skjaldbökur og froska, auk hefðbundnari tegunda eins og svani og gæsir.  Einsaka sinnum hef ég verið svo heppinn að rekast á snáka.

En blessaðri vorkomunni fylgja líka vorannirnar, það þarf að hlúa að blessuðum gróðrinum.  Undanfarna daga höfum við grafið og fært til plöntur, hlúð að kirsuberjatrénu (sem fuglarnir átu öll berin af í fyrra), fært til myntuna, snyrt í kringum hindberjarunnana, og hreinsað í kringum ótal plöntur sem ég kann ekki nöfnin á.

Síðan á á planta um helgin, gulrótum, tómötum hugsanlega kartöflum og eitthvað var verið að ræða um vínvið og bláberjarunna sömuleiðis.

Um allt þetta veit ég næsta lítið, telst líklega frekar hafa gráar hendur en grænar (svo nýtísku flokkanir séu notaðar) en hlýði yfirgripsmikilli og öruggri leiðsögn konunnar í þessum efnum.  Hún þekkir þetta út og inn, enda alin upp í sósíalísku skipulagi, þar sem öruggara var að rækta sitt eigið grænmeti en að treysta á framboðið í verslunum "alþýðunnar".

Þetta garðadútl leysir líka úr brýnni þörf Foringjans til að þess að komast í snertingu við mold og drullu, og fer hann þreyttur og ánægður að sofa á eftir.

Þannig að ef börnin verða drullug og ánægð og eitthvað ætilegt hefst af erfiðinu, er tímanum líklega nokkuð vel varið.

Hér er líklega við hæfi að óska þeim sem lesa gleðilegs sumars, og þakka þeim sem við höfum haft samskipti við fyrir veturinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband