Dagurinn sem hluthafar töpuðu 500 000 000 000!

Þegar stór verkefni tefjast, geta afleiðingarnar verið stórar. Þegar ég las um seinkun þá sem verður á afhendingum á nýju Airbus risaþotunni og það sem eftir fylgdi á hlutabréfamörkuðum, varð ég þögull í smá stund og reiknaði í huganum.

Það er þegar ég les fréttir sem þessar að ég gleðst yfir því að hafa ekki stórar upphæðir bundnar í hlutabréfum (núna er eiginlega allt komið í fasteign fjölskyldunar, og því best að krossleggja fingurna að fasteignverð fari ekki lóðbeint niður).  Þegar fyrirtæki lækkar í verði um fjórðung, er ekki ólíklegt að "stress" herji á einhverja hluthafa og reyndar fleiri.  Ef fyrirtæki eins og Airbus "hóstar", verða býsna margir með "kvef" um alla Evrópu.

Verðmæti EADS minnkaði um u.þ.b. 500 milljarða íslenskra króna, hlutabréf í félaginu lækkuðu um 26%, á einum degi. Félagið á 80% í Airbus verksmiðjunum, en verksmiðjurnar tilkynntu í dag (miðvikudag) um 7 mánaða seinkun á afhendingu nýju risaþotunnar, A380, til viðbótar við 6 mánaða seinkun sem tilkynnt var um á síðasta ári.

Þetta hljómar ef til vill ekki svo skelfilega en þetta hefur víðtækar afleiðingar.  Ekki nóg með að Airbus telji að þetta minnki hagnað félagsins um u.þ.b. 200 milljarða á árabilinu 2007 til 2010, heldur er einnig reiknað með að flugfélög sem þegar hafa pantað flugvélina muni sækja skaðabætur á hendur Airbus.  Hvaða upphæðir þar er um að ræða er erfitt að fullyrða, en flugfélög og flugvellir um víða veröld hafa nú þegar lagt í gríðarlegar fjárfestingar til að þjóna nýju þotunni, undirbúið breikkun flugbrauta og nýja landganga. Heathrow hefur reiknað með að kostnaður þar verði ríflega 60 milljarðar íslenskra króna.

En það er ekki bara A380 sem verður á eftir áætlun, A350, ca 300 manna vél, er líka orðin á eftir áætlun.

Það kom svo eins og salt í sárið, og herti á sölunni,  að Singapore Airlines tilkynntu um áætlanir um að kaupa 20 Dreamliner þotur frá Boing (með kauprétti á 20 til viðbótar), og fram kom í fréttum að OAO Aeroflot væri einnig í Boing hugleiðingum.

Þetta er gríðarhögg fyrir Airbus, mikill álitshnekkir fyrir stjórnendur þar, og að margra áliti stórt áfall fyrir Evrópu og Evrópusambandið í heild.

Loks er vert að geta að samsæriskenningasmiðir telja sumir að um vísvitandi lækkun sé að ræða, þar sem BAE Systems, hafa viljað selja sín 20% í Airbus, en flestir telja slíkt nokkuð fráleitt.

Svo er auðvitað rétt að hafa í huga að ómögulegt er að segja um hvort þessi lækkun er komin til að vera eða ei.  En líklega þurfa hluthafar að hafa "sætisbeltin spennt" ef svo má að orði komast, það er líklega ókyrð framundan. 

Fréttir Globe and Mail, The Guardian, The ToL og NYT.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband