Tíðindalítið á pólítísku vígstöðvunum - "Sambandsvíglínan" liggur um Sjálfstæðisflokkinn

Það er ekki hægt að segja að þessi könnun færi mikil tíðindi. Þó eins og alltaf er nokkuð merkilegt að sjá hvernig fylgi flokkanna er.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr lang stærsti flokkurinn. En þrátt fyrir að vera eini flokkurinn sem getur gert kröfu til að teljast "burðarflokkur" í Íslenskum stjórnmálum, er staða hans í sögulegu samhengi slök, afar slök.

Þegar fylgi flokksins er undir 30%, þarf flokkurinn á átaki að halda.

Slök staða annara flokka, þá sérstaklega "eldri" flokkana, er engin réttlæting fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sætta sig við slíkt fylgi.

En allir aðrir flokkar eru undir 20% fylgi.

Hinn stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfin, hefur aðeins um 13%, sem er þó framför frá síðasta mánuði. Ef til vill ekki að undra, vel hefur verið barið á flokknum undanfarin misseri, enda framganga margra þingmanna gefið andstæðingunum ágætis færi.

Samfylkingin er með 18%. Það hlýtur að teljast slakur árangur hjá flokknum og erfitt fyrir formanninn að sækjast eftir endurkjöri, með því fororði að hann "sé að fiska". Líklega verður það honum þó til happs, að vandséð er að annar skárri kostur finnist. En þó þykir mér furðulegt ef annað framboð kemur ekki fram undir þessum kringumstæðum. Alltaf traustara fyrir formann að sigra (ef það er með þokkalegum mun) en að vera klappaður upp.

Að mörgu leyti er ótrúlegt að sjá hvað Vinstri græn eru með lítið fylgi, þegar litið er til þess hve formaður flokksins nýtur mikilla vinsælda. En það dugar líklega ekki til, þegar kjósendur horfa til annarra einstaklinga sem flokkurinn býður fram.

Björt framtíð stendur vel. Ég get tekið udnir með mörgum sem sagt hafa að þeir skilji ekki alvega hvers vegna. En þegar mikil óánægja er með aðra flokka, þarf líklega ekki mikið meira en að vera nokkuð "vinalegu" til að ná í kjósendur.

Mér líst hins vegar vel á uppgang Pírata. Ég held að skýringin á því séu góðir sprettir hjá þingmönnum þeirra upp á síðkastið upp á síðkastið.

En hvaða ríkisstjórn kæmi út úr svona úrslitum?

Það er engin 2ja flokka ríkisstjórn í úrslitum eins og þessum. Þó mætti ef till vill gæla við hugmynd eins og að Sjálfstæðisflokkurinn krafsaði yfir 30% og Samfylkingin hífði sig upp á nöglunum yfir 20%. En það er langt í frá gefið.

Það er líka ljóst að það er engin 3ja flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins í þessum úrslitum.

Vinsra Reykjavíkurmynstur, þar sem Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar störfuðu saman, kæmi vel til greina, en yrði varla farsæl stjórn.

Þess vegna er lang líklegast að ríkistjórn myndi innihalda Sjálfstæðisflokkin og 2. aðra flokka.

Samfylkingu og Bjarta framtíð, eða Bjarta framtíð og Framsókn, eða jafnvel Framsókn og Vinstri græn.

Það er því auðvelt að sjá í þessari stöðu að víglínan hvað varðar "Sambandsaðild" liggur um Sjálfstæðisflokkinn.

Þess vegna leggja "Sambandssinnar" alla áherslu á að reyna að vinna Sjálfstæðismenn yfir.

Þess vegna þykir þeim líka vænlegast að herja eins og mögulegt er á Framsóknarflokkinn, "senda hann út í ystu myrkur".  Framsóknarflokkurinn hefur enda verið nokkuð hjálplegur við slíkar herferðir.

En eins og oft áður ræðst afstaðan í Sjálfstæðisflokknum.

 


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæðisflokkurinn verður ekki í næstu ríkisstjórn ef úrslitin verða í samræmi við þessa skoðanakönnun, þrátt fyrir að ekki er hægt að mynda ríkisstjórn með þremur flokkum eða færri nema með hann innbyrðis.

Ástæðan er að málefnalega er samstarfsgrundvöllur milli stjórnarandstöðuflokkanna meiri. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn kæmi ekki til greina af þeirra hálfu frekar en í borgarstjórn eftir kosningarnar í fyrra.

Ef þetta væru kosningaúrslit væru allir stjórnarandstöðuflokkarnir sigurvegarar. Píratar auka fylgi sitt um 135%, Björt framtíð um 58%, Samfylking um 42% og Vinstri græn um 20% frá síðustu kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur hins vegar í stað og Framsókn tapar nærri helming fylgis síns.

Eins og áður er fylgi Samfylkingar mun meira en Bjartrar framtíðar skv Capacent Gallup meðan það er mjög svipað hjá MMR.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 20:52

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Gaman að sjá þig aftur.. lol

Eins og þú segir er það alveg möguleiki. 4ja flokka stjórn gæti hæglega verið í spilunum. Eins og ég segi í upphaflega pistlinum, en tek reyndar fram að það yrði varla farsæl stjórn.

En vissulega er slík stjórn í spilunum.

Ég hef þó reyndar mikla trú á að Sjálfstæðiflokkurinn nái yfir 30% í næstu kosningum, en slíkt er auðvitað langt í frá gefið.

Enn er langt til kosninga.

Gallup hefur upp "tendens" til að ofmeta Samfylkingu, ég veit ekki af hverju.

Eins held ég að spurningin hvort að líklegra sé að kjósa Sjálfstæðisflokk, sé flokknum í mínus nú, rétt eins og hún var flokknum í plús áður.

Persónulega hef ég svo trú á því að, ástandið á Eurosvæðinu eigi eftir að spila upp í hendurna á þeim flokkum sem eru á móti "Sambandsaðild", en það er vissulega meira tilfinning en vissa.

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2015 kl. 21:09

3 identicon

G. Tómas, hélstu að ég væri alfarinn úr því að ég vildi ekki ræða spurningar þínar um ESB-aðildarviðræðurnar?

Stjórnarflokkarnar hafa í raun báðir verið að tapa fylgi. Sjálfstæðisflokkur hefur fengið álitlegan hluta af fylgistapi Framsóknar en tapað álíka til stjórnarandstöðuflokkanna.

Hrollvekjandi frammistaða stjórnarflokkanna, með heilbrigðiskerfið, menntakerfið og menningargreinarnar stórskaddaðar, og geigvænlega fjármagnsflutninga frá hinum verr settu til hinna betur settu, mun valda frekara fylgistapi þeirra. Það verður auðvelt fyrir stjórnarandstöðuna að útskýra á sannfærandi hátt hvers vegna fólk á ekki að kjósa þá.

Nú þegar Sjálfstæðismenn hafa skilað sér frá Framsókn mun fylgisflóttinn koma fram í minna fylgi Sjálfstæðisflokksins sérstaklega ef tillagan um slit aðildarviðræðna verður lögð fram. Einnig mun sjávarútvegsfrumvarp Sigurðar Inga valda fylgistapi stjórnarflokkanna, einnig flutningur Fiskistofu ef af honum verður.

Ég spái Framsókn 8% fylgi í næstu kosningum og verður hann þá langminnstur flokka. Þegar í ljós kemur að fólk flest finnur ekkert fyrir skuldalækkuninni, hrapar fylgið. Framsókn mun reyna nýja brellu fyrir kosningar en í þetta sinn hafa kjósendur engu gleymt.

Fastafylgi Sjálfstæðisflokks er sagt vera 20%. Það eru þeir sem myndu alltaf kjósa Sjálfstæðisflokkinn þó að hann væri í djúpum skít. Þessi 20% fara þó smám saman minnkandi vegna þess að slíkir stuðningsmenn fara yfir móðuna miklu án þess að nýir komi í staðinn.

Ég spái Sjálfstæðisflokknum 22-23% fylgi í næstu kosningum. Meirihluti stjórnarandstöðuflokkanna verður því svo mikill að þrír þeirra geta myndað meirihluta. Þeir verða þó allir í stjórn því að annars er hætt við að meirihlutinn verði of tæpur eins og í Reykjavík.

Vegna þess hvernig staðið er að könnunum MMR eru kannanir Capacent-Gallup mun marktækari enda er þar staðið mjög faglega að málum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 22:21

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Ég var hreinlega ekki viss, en það skiptir engu máli, eins ég sagði eru allir þeir sem setja mál sitt fram kurteislega, alltaf velkomnir hér.

Ég hef reyndar trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn komist yfir 30% í næstu kosningum, en það er vissulega of langt í þær til að spá af "alvöru".

Fylgi Framsóknarflokks verður hins vegar líklega í kringum helming af því sem var í síðustu kosningum.

Hann hefur ekki nýtt það tækifæri sem hann fékk.

Það sem mun líklega skipta þó mestu hvernig næstu kosningar verða, er hvernig vinnst úr kjarasamningum á næstunni.

Hvað varðar afturköllun á umsókninni, er lang best að drífa í því. Ég held að ástandið í "Sambandinu" vinni með slíku á næstunni. "Sambandið" virðist ekki megna að komast af "neyðarfundastiginu" og nú bætist eiginlega við að það þyrfti að fara að eyða stórum fjárhæðum í uppbyggingu varna sinna. Þeir auka ef til vill hraðann á prentvélunum til þess?

En stjórnarandstaðan hefur nú ekki verið beysin, og sætir enda vaxandi gagnrýni úr ólíklegust áttum.

Ég er í sjálfu sér einna mest hissa á hvað VG gengur illa með Katrínu í fararbroddi, en vissulega eru nægar "atkvæðafælur" henni samferða.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2015 kl. 05:57

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

P.S. Heldurðu að það geti ekki bara verið að Íslendingar séu alltof kröfuharðir?  Svona rétt eins og Reykvíkningar?

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2015 kl. 06:08

6 identicon

Ég er ekki viss við hvað þú átt með spurningunni um hvort Íslendingar séu of kröfuharðir.

Ég hef stundum áhyggjur af að stjórnmálamenn séu oft dæmdir of hart að ósekju. Ef menn verða að eiga von á því er hætt við að margir hæfir einstaklingar gefi alls ekki kost á sér. Niðurstaðan getur þá auðveldlega orðið vanhæfir einstaklingar við stjórnvölinn.

Síðasta ríkisstjórn er gott dæmi um að stjórnmálamenn voru dæmdir allt of hart. Í raun stóð hún sig frábærlega vel við mjög erfiðar aðstæður eins og viðurkennt var víða um heimsbyggðina.

Gagnrýnin var oftast algjörlega fráleit eins og þegar ætlast var til að ríkið gerði eignir kröfuhafa í gömlu bönkunum upp á hundruð milljarða upptækar til að lækka skuldir einstaklinga um 20%.

Að tala um slíkt sem hagsmunagæslu fyrir fjármálastofnanir eftir að búið var að færa fleiri þúsund milljarða frá almennum kröfuhöfum til innistæðueigenda nær auðvitað ekki nokkurri átt. Stjórnin hefði auðvitað aldrei komist upp með slíkt enda er þetta stjórnarskrárbrot.

Harkaleg gagnrýni á núverandi stjórn er hins vegar mjög réttmæt. Að komast til valda með loforðum sem síðan er boðað að verði svikin er einfaldlega nýr kafli í þróun spillingar í íslenskum stjórnmálum. Ef stjórnin sér ekki að sér er hún ótvírætt spilltasta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins.

Það er lágmarkskrafa, þegar flestir ef ekki allir þeirra sem síðan urðu ráðherrar lofa þjóðaratkvæðagreiðslu, að loforðið sé efnt.

Ríkisstjórnin hyggst hins vegar ganga lengra í spillingunni með því að slíta viðræðum og binda þannig hendur komandi ríkisstjórna. Þetta er ekki bara spilling, þetta er gjörspilling.

Ráðherrar og þingmenn Framsóknar virðast að mestu vera kjánar sem eru í engu treystandi. Gagnrýni á störf þeirra er síst of mikil.

Í stað þess að leita til sérfræðinga um lausn á flóknum málum segja þeir sérfræðingunum hvernig lausnin eigi að vera og biðja þá bara um að útfæra hana. Sem betur fer veitir Sjálfstæðisflokkurinn þeim aðhald.

Sjálfstæðisflokkurinn er þó einnig í vondum málum. Hann hefur flutt gífurlegt fjármál frá hinum verr settu til hinna betur settu.

Hvort sem um var að ræða skuldaleiðréttingu, tekjuskattslækkun, afnám auðlegðarskatts, breytingar á virðisaukaskatti, greiðslu grunnlífeyris TR til allra, svo að eitthvað sé nefnt, var það allt þessu marki brennt.

Ókeypis kvóti til útvaldra, sem síðan geta selt hann dýrum dómum, er svo kapítuli út af fyrir sig. Veiðigjöldin eiga aðeins að dekka kostnað ríkisins vegna útgerðarinnar. Slíkri sjálftöku ríkra úr sameiginlegum eignum okkar allra, verður að linna.

Í stað þess að afnema auðlegðarskatt hefði átt að bæta við hann einu þrepi. Svokallaður hátekjuskattur hefði átt að halda áfram en einnig hefði átt að bæta við einu skattþrepi upp á td 52% á tekjur yfir 1.200 á mánuði. Seinna mætti bæta við enn einu þrepi.

Það er mikið í umræðunni í heimspressunni að misskiptingin í heiminum sé orðin allt of mikil og að nauðsynlegt sé að snúa þróuninni við. Ríkisstjórn auðmanna á Íslandi tekur það auðvitað ekki í mál.

Þvert á móti fer hún yfir allt sviðið eins hrægammar. Það er rétt eins og hún trúi því að þetta sé hennar síðasti sjens til að skara eld að eigin köku.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 10:38

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þetta er nokkuð líflegur "rantur". Spurningin var nú einfaldlega góðlátlegt grín að þessu:  http://www.ruv.is/frett/reykvikingar-krofuhardir-segir-dagur

Það væri gaman að lífa fyrir stjrnmálmenn, ef þeir kæmust upp með að afsaka óánægju kjósenda, með því að þeir séu of kröfuharðir.

Auðvitað gerði síðasta ríkisstjórn ýmislegt ágætlega, en annað var hreinlega til skammar.

IceSave máli var auðvitað dæmi um það, en það sem var þó skammarlegast við það, þegar ríkisstjórnin reyndi að fá samininginn samþykktan, án þess að ætla að leyfa þingmönnum að sjá hann.

Hærra rís valdhrokinn varla.  Og ekki var hún það "glæsileg niðurstaðan" sem ætti að berja þannig í gegn.

Annar "hápunktur" vitleysunnar var þegar síðasta ríkisstjórn lagði fram frumvarp til að umbylta grunnatvinnuvegi þjóðarinnarr, sem Össur Skarphéðinsson lýsti réttilega sem "bílslysi". 

Það er eðlilegt að rifist sé um kvótakerfið. En ef þú skoðar sögu þess er því ekki komið á í valdatíð Sjálfstæðisflokks. En það er nauðsynlegt að allar breytingar á því séu gerðar eftir vandaðan undirbúning og umhugsun.

Hvað margar þjóðir geta státað sig af sjávarútvegi jafn góðum og Íslendingar, og sem er burðarás í atvinnulífinu, en ekki "byrði"? Það hefur ekki alltaf verið svoleiðis og fyrir nokkrum áratugum hófust flestir fréttatímar á vandræðum útgerða og frystihúsa og hvað hið opinberar þyrfti að gera til að leysa úr þeim.

Hvað varðar svik sem vissulega eru alltaf teigjanleg í samsteypustjórnum, verða þó varla stærri en snúningur Steingríms og VG í "Sambandsumsóknarmálinu".

Hvað varðar eignir kröfuhafa voru það vissulega "teigjanlegar" eignir á þeim tíma. Þó að alltaf hafi staðið til að greiða sannvirði fyrir þær, var sannvirðið langt í frá "eitt".

Sigurður G. fer ágætlega fyir það í nýlegri grein: http://www.pressan.is/pressupennar/LesaSigurdurG/hver-er-kjarni-sannvirdis

Það hljóta allir að fagna því ef málið verður rannsakað, enda heyrði ég Björn Val, segja í sjónvarpi að ef ríkisstjórnin myndi ekki leggja það til, myndi hann og VG gera það.  Slíkt ætti því að fljúga í gegn á þinginu.

"Leiðréttingar" sem almenningur fékk á síðasta kjörtímabili, komu í ríkari mæli frá dómstólum en ríkisstjórn, og þá meira að segja reynid hún að taka þær burt um ólöglegum lögum.  Segir það ekki eitthvað?

Enda er það gömul saga og ný að stjórnmálamenn teja almenning "ómögulegan" og dæma sig of hart.  rétt eins og þúverð síðustu ríkisstjórn með hér.

Stórauknir skattar bitna mesta á launþegum, aðrir hafa fjöldan allan af leiðum til að "hagræða" skattgreiðslum sínum.

Auðlegðarskatturinn fældi í það minnsta eitt gott fyrirtæki úr landi og er í flesta staði afar óréttlátur, enda afar misjafnt hvað miklar eignir skila miklum arði, ef nokkrum.

Enda stefna í rétta átt á Íslandi, þó að margt þurfi að laga enn. Þá er vissulega bjartara fyirr.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2015 kl. 14:55

8 identicon

Ertu búinn að gleyma því að flestir sjálfstæðismenn, þar á meðal formaður og varaformaður, greiddu atkvæði með síðasta Icesave-samningnum? Um 70% þingmanna greiddu atkvæði með honum.

Því miður þá skildu fæstir hvað Icesave gekk út á. Flestir héldu að þjóðin væri að kjósa um hvort hún ætti að greiða Icesave eða ekki rétt eins og það væri hennar val.

Málið gekk hins vegar út á að samþykkja samninginn eða taka þá áhættu að þurfa hugsanlega að greiða margfalt meira því að þá gilti ekki samningurinn lengur. Það var óðs manns æði að taka slíka áhættu.

Ef samningurinn hefði verið samþykktur hefðum við þurft að greiða fáeina tugi milljarða. Þetta er mun lægri upphæð en skuldaleiðréttingin og miklu minna en kostnaður vegna krónunnar á ári.

Fáfræðin um Icesave náði upp í efsti lög stjórnsýslunnar. Þannig furðaði Brynjar Níelsson sig á að stjórnarandstaðan sæi ofsjónum yfir skuldaleiðréttingunni úr því að hún var tilbúin til að greiða tíu sinnum hærri upphæð vegna Icesave.

Í meðförum þingmannsins var mun lægri upphæð en skuldaleiðréttingin sögð vera tíu sinnum hærri en hún.

Þegar Steingrímur benti á að skuldaleiðréttingin væri mun hærri upphæð en hlutur ríkisins í Icesave hefði orðið, svaraði Jóhannes aðstoðarmaður SDG með sama rugli og Brynjar. Það er skelfilegt að svona vanhæfir menn skuli stjórna landinu.

Það er eitthvað mikið að hjá þjóð sem ræður til sín með ærnum kostnaði færustu sérfræðinga til að semja og lýsir svo yfir mikilli ánægju með samninginn en telur sig svo vita betur og hafnar honum.

Það var mikil mildi að Ísland vann málið fyrir EFTA-dómstólnum. En það breytir ekki því að svona gífurlega áhættu á ekki að taka, sérstaklega þegar færustu sérfræðingar vara við því.

Þar að auki tel ég að kostnaðurinn við þær tafir sem höfnunin olli hafi verið mun meiri en það sem við hefðum þurft að greiða ef samningurinn hefði verið samþykktur.

Það er meira að segja líklegt að fyrri samningar hefðu verið hagstæðir vegna þess hve fljótt málið hefði leyst.

Rekstrahagfræðingur reiknaði út tiltölulega fljótlegA eftir hrun og birti í fjölmiðli hve mikið tafirnar á lausn Icesave kostuðu og komst að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn fyrir hvern mánuð sem málið tafðist skipti tugum milljarða. Man ekki hvort það voru tuttugu eða þrjátíu milljarðar.

Lausn málsins fljótlega eftir hrun hefði einnig getað haft tvennt mikilvægt í för með sér: Losun gjaldeyrishafta og ríkisstjórn án Framsóknar í brúnni. Það hefði verið auðveldast að losa um gjaldeyrishöftin sem fyrst eftir hrun. En það var ekki hægt fyrr en niðurstaða var komin í Icesave.

Svo má ekki gleyma því að fyrri ríkisstjórn hélt svo vel utan um málið fyrir EFTA-dósmstólnum að það vannst. Það má heldur ekki gleyma því að Steingrímur gerði sér ferð til stóru matsfyrirtækjanna þegar stefndi í að lánhæfismat færi ruslflokk og kom í veg fyrir það.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 16:23

9 identicon

Báðir ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu svo að það er alveg útilokað að það sé eitthvað teygjanlegt við það.

Úr því að útgerðarfyrirtæki geta selt kvóta sín á milli fyrir milljarða eða milljarðatugi er algjörlega fáránlegt að eigandi kvótans, almenningur í landinu, fái aldrei neitt. Er það ekki ljóst?

Þau atriði sem þú nefnir sem dæmi um mistök fyrri ríkisstjórnar eru harla léttvæg í stóra samhenginu. Öfugt við núverandi ástand var hlustað á rökstuddar mótbárur.

Fyrri ríkisstjórn var sökuð um að afskrifa skuldir sumra, einkum fyrirtækja, en ekki annarra. Ríkisstjórnin hafði hins vegar ekkert með það að gera. Þetta var alfarið mál bankanna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 17:07

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þessi vörn breytir engu um hve mikil valdhroki, vitleysa og í raun valdnýðsla það var að ætla að keyra samninginn í gegnum þingið án þess að þingmenn fengu að lesa hann.

Það skelfilegasta var í raun og veru að þingmenn Samfylkingar og VG virtust vera reiðurbúnir að sætta sig við það.

Þegar samningarnir voru gerðir, var engin vissa um hvað myndi fást úr þrotabúi Landsbankans. Alls herjar ábyrgð ríkisins var upp á upphæð sem enginn vissi hver yrði. 

Það er staðreynd. Áhættan var því ekki minni í þá áttina.

Hins vegar hafa þegar sparast milljarðatugir vegna vaxta, það er önnur ella.

Það var sömuleiðis fullt af sérfræðingum sem fullyrti að Ísland hefði allan rétt sín megin.  Sem kom auðvitað á daginn.

Það var ekki "mildi" að málið vannst, heldur einfaldlega á "logic", þó að Evrópusambandið reyndi vissulega að beita áhrifum sínum til að setja málið í aðra átt.

Það var ekki "fancy" lögfræðivinna sem bjargaði deginum, heldur réttarstaða landsins.  Hins vegar þurfti góða lögfræðinga til að verja hana.  Og það má Árni Páll eiga, að hann hélt vel á því máli, opnaði það fyrir öllum, ef svo má að orði komast, bæði stjórnarandstöðu og "baráttuhópum".

Margir stjórnarþingmenn og ráðherrar eru sekir um að nota afar "loðið" orðbragð.  Ýmsir lofuðu því að viðræðum yrði ekki fram haldið án þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi frétt segir auðvitað sitt: http://jaisland.is/umraedan/9802/

Hvers vegna stendur sjávarútvegur á Íslandi að jafnaði betur en víða eða alls staðar annars staðar?

Það að fyrri ríkisstjórn náði almennt ekki að koma málum sínum í "bílslysalíki" í gengum þingið var ekki síst vegna innbyrðis ágreinings. Sem Íslendingar geta vissulega þakkað fyrir, því slíkt er ekki sjálfgefið.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2015 kl. 17:34

11 identicon

Það var orðið nokkuð ljóst, þegar samningurinn var gerður, að ríkið mundi aðeins greiða vexti. En það skiptir i raun ekki máli vegna þessa að upphæðin sem við hefðum þurft að greiða ef málið hefði tapast hefði hækkað hlutfallslega jafnmikið eða jafnvel enn meira.

Ég lít á það sem meðmæli með ríkisstjórninni ef helsta gagnrýnin gegn henni  er að hún hafi ætlað að keyra ákveðið mál í gegnum þingið. Stjórnarandstöðunni var i lófa lagið að koma i veg fyrir það enda er það hlutverk hennar. 

Í samanburði við mörg afglöp núverandi stjórnar er þetta ekki neitt neitt. Maður mundi ekki taka eftir neinu álíka hjá núverandi stjórn því að það mundi alveg falla í skuggann af raunverulegum afglöpum hennar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.2.2015 kl. 18:50

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Það var langt í frá vitað hvað mikið myndi lenda á ríkinu ef samningurinn hefði verið samþykktur.  Bara sem dæmi, þá var Iceland verslunarkeðjan langt í frá seld, þegar samningar voru undirritaðir.

Allar ríkisstjórnir reyna að keyra mál í gegnum þing endrum og sinnum, það er ekki til fyrirmyndar en samt partur tilverunni.  Því neitar enginn.

En ég man ekki eftir að nokkru sinni áður, né síðar, hafi verið reynt að keyra eitthvað, svo maður nefni nú ekki stærðargráðuna, í gegnum þingið án þess að þingmenn ættu að fá að kynna sér málið.

Það er valdhroki og valdnýðsla af hæstu gráðu. Það er líklega til of mikils mælst að þú skiljir muninn, alla vegna voru þingmenn VG og Samfylkingar flestir sáttir við slíka afgreiðslu og voru reiðubúnir til að taka þátt í henni.

Sem betur fer tókst að stoppa það.

G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2015 kl. 09:20

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Loksins er svo farið að bóla á gagnrýni á bankadeikur síðustu ríkisstjórnar innan úr Samfylkingunni.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/02/07/vinstri-flokkarnir-toku-ekki-nogu-fast-a-fjarmalakerfinu/

Betra seint en aldrei.

G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2015 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband