Athygliverð könnun, nýtt vinstristjórnarmynstur, sherryfylgi og tómt Hálslón

Þessi nýjasta skoðanakönnun er allrar athygliverð.  Það er þó rétt að hafa í huga að hún er gerð áður en Íslandshreyfingin tilkynnti framboð sitt.  En það er einnig einn af þeim hlutum sem gera hana athygliverða, það verður svo fróðlegt að bera hana saman við þá næstu, og sjá þá hvaða fylgi "Hreyfingin" fær og hvaðan það kemur.

Það er engum blöðum um það að fletta að sigurvegari þessarar könnunar (og kannana síðustu vikna) eru VG.  Ekki nóg með það að þeir fái 17 þingmenn, heldur eru VG stærsti stjórnmálaflokkur landsins á meðal kvenna og sömuleiðis gerist það að ég held í fyrsta skipti að VG er stærsti flokkur í kjördæmi.

Þessi könnun markar því nokkur tímamót hvað VG varðar.

Sjálfstæðisflokkurinn er á þokkalegu róli á Suðvesturhorninu, en fylgi hans í landsbyggðarkjördæmunum hlýtur að teljast áhyggjuefni.  Þá vekur það auðvitað sérstaka athygli að VG er stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í NA og því stærsti flokkurinn.

Niðurlæging Samfylkingar heldur áfram og mælist flokkurinn nú rétt í sherryfylgi og virðist flokknum ekkert ganga í haginn.  Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að enn geti sigið á síðri hliðina fyrir flokkinn þegar Íslandshreyfiningin kemur til skjalanna í næstu könnun, en það gildir vissulega um fleiri flokka.

Framsókn og Frjálslyndir síga báðir örlítið á, en það er spurning hvað Íslandshreyfingin nær að höggva af Frjálslyndum, en ég hef ekki trú á því að þeir haggi Framsókn mikið.

En hver er þá líklegasta ríkisstjórnin að kosningum loknum?

Auðvitað verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks með annaðhvort VG eða Samfylkingu að teljast nokkuð líkleg en það eru fleiri möguleikar sem eru vert að gefa gaum.

Margir tala um VG, Samfylkingu og Framsókn, og vissuleg væri það líklega óskastaða VG, enda ættu þeir lang sterkasta tilkallið til forsætis.

En ef Íslandshreyfingin nær þokkalegum þingstyrk þá yrði að teljast afar líklegt að nýtt vinstristjórnarmynstur yrði til.   VG, Samfylking og "Hreyfingin".

Allir þessir flokkar leggja ríka áherslu á "Stoppið" og ættu því að vera sterkur samhljómur þar.  Ég held að önnur "smámál" s.s. ESB ættu ekki að þvælast fyrir samkomulagi.

Spurningin sem vaknar þá er auðvitað, yrði þá hleypt úr Hálslóni?  Ómar er því fylgjandi, Steingrímur hefur lýst því að hann myndi styðja slíkt og sumir Samfylkingarmenn gætu ábyggilega stutt slíka feigðaflan.

Vonandi fá fjölmiðlamenn fram svör við slíkum spurningum á næstu vikum.

En það er ljóst að spennan fer vaxandi.

 


mbl.is Þorgerður: Þátttaka okkar forsenda umburðarlyndrar miðjustjórnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Margt skrifað af skynsemi. Sherry er til í sterkara formi í uppsveitum Spánar. Smakkað allt að 34% styrkleika. En spennan vex og óákveðnum fækkar. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:45

2 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Samkvæmt hádegisfréttum rúv eru það nú vinstri græn sem tapa mestu til aldraðra og íslandsframboðsins þannig að það er nú full snemmt að útnefna þann flokk sem sigurvegara kosninganna.

Guðrún Helgadóttir, 24.3.2007 kl. 16:47

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það á eftir að koma í ljós frá hverjum "Hreyfingin" tekur fylgi sitt, sjálfur hef ég trú á því að það eigi eftir að koma að mestu leyti frá stjórnarandstæðunni.  Það verður þó að teljast afar líklegt að VG verði sigurvegari kosninganna, þó að fylgi þeirra verði ekki í þeim hæðum sem er um þessar mundir.

Hvað varðar orðið að síga, þá tel ég sjálfan mig ekki neinn sérfræðing í Íslensku.  Hvað varðar orðið að síga, þá þýðir það hins vegar ekki í öllum tilfellum að fara niður. Ég hef vanist því að það að "síga á", sé andstæða þess að "láta undan síga", en það orðatiltæki sem er upprunnið úr sjóorrustum, ef ég man rétt, og þýðir ekki að fara niður, heldur að hörfa.

G. Tómas Gunnarsson, 26.3.2007 kl. 05:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband