Langur tími, lítill afrakstur?

Fyrir síðustu kosningar var talað um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, mætti klára af á u.þ.b. 2. árum.  Það væri lítið mál og aðild Íslands að Evrópska efnhagssvæðinu (EEA/EES) gerði það að verkum að það væri frekar lítið sem stæði út af.

Nú hefur það vissulega komið í ljós að þessar fullyrðingar voru rangar, eins og svo margt annað sem þessir sömu aðilar hafa haldið að Íslendingum hvað varðar "Sambandsaðild".

En hvað þarf þetta ferli að taka langan tíma, hvað þurfa Íslendingar að standa lengi í samningaviðræðum við Evrópusambandið?

Að sjálfsögðu er erfitt að segja nákvæmlega hvað samningaviðræður ættu að taka langan eða skamman tíma.  

Sem dæmi má nefna að Eistland samdi við Evrópusambandið (í hóp með öðrum ríkjum) á tæpum 5 árum.  Þó held ég að enginn myndi halda því fram að Eistland hefði staðið betur hvað varðaði inngöngu í Evrópusambandið en Ísland.

Munurinn er hins vegar sá að í Eistlandi var pólítískur vilji til inngöngu til staðar.  Sú var og er ekki raunin á Íslandi.

Um það bil 25% kjósenda vilja  ganga í "Sambandið" ef marka má skoðanakannanir.  En það sem meira er, allir gera sér grein fyrir því að sá meirihluti sem náðist á Alþingi fyrir umsókn, fékkst með baktjaldamakki, klækjastjórnmálum og hótunum. 

Raunverulegur meirihlutastuðningur er ekki til staðar á Alþingi.  Líklegt er að stuðningur við "Sambandsaðild" verði enn minni á því Alþingi sem tekur við eftir kosningar.

Undir þessum kringumstæðum er auðvitað eðlilegt að aðildarviðræðurnar gangi ekki vel.  Hvorki "Sambandssinnum" á Íslandi, eða "Sambandinu" sjálfu finnst aðlaðandi að ljúka aðildarviðræðunum undir þeim kringumstæðum að ljóst sé að ferlinu verði hafnað bæði af Alþingi og kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeirra eina von er að draga samningaviðræðurnar á langinn og vonast eftir að viðhorfið breytist og áróður Evrópu(sambands)stofu nái að snúa viðhorfi Íslendinga.

Þess vegna er talað um að nú að aðildarviðræðurnar verði "komnar vel á veg" árið 2015.

Það err hins vegar engin ástæða fyrir Íslendinga að halda áfram að teygja lopann.  Réttast væri að slíta viðræðunum og láta gott heita í bili.

Staðreyndin er líklega sú að ekkert hefur skaðað aðildarferlið meira en þjösna og flumbrugangur Samfylkingar í málinu.

Það er eitthvað sem við andstæðingar "Sambandsins" grátum ekki.

En umsókn að Evróusambandinu er einmitt eitt af málum sem ekki á að "keyra í gegn", eða ná fram með klækjum.  Þessu er fráfarandi ríkisstjórn að komast að (og ekki bara hvað varðar aðildarumsóknina), og er refsað fyrir.  

Til að ná árangri í stórum málum sem þessu, þarf að byggja upp víðtækari sátt.  Ef hún næst ekki er betra að leggja málið til hliðar, en að keyra það í gegn með "hnefanum", klækjum og ofstopa.

En það er einmitt arleifð fráfarandi ríkisstjórnar.

Allt virðist stefna í að Samfylkingin og Vinstri græn uppskeri í samræmi við það sem þau sáðu.

 

 

 

 

 


mbl.is Óverulegar undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá frétt úr mogganum árið 2008;

"Meirihluti landsmanna er hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru, ef marka má skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Samtök iðnaðarins og sagt var frá í fréttum Útvarpsins.

Könnunin var gerð síðustu dagana í júní og fyrstu dagana í júlí en SI hafa látið gera slíkar kannanir með reglubundnum hætti undandarin ár. Þegar spurt var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur því að teknar yrðu upp aðildarviðræður við Evrópusambandið kváðust 6 af hverjum 10 ýmist mjög eða frekar hlynntir en 2 af hverjum 10 voru andvígir.

Þá sagðist ríflega helmingur hlynntur ESB-aðild en um fjórðungur var andvígur því. Þá sögðust um 60% svarenda hlynnt því að evra yrði tekin upp sem gjaldmiðill hér í stað krónu en rúmlega 20% voru andvíg því.

Fleiri stuðningsmenn Framsóknarflokksins, Frjálslynda flokksins, Vinstri grænna og Samfylkingar eru hlynntir ESB aðild en eru henni andvígir.

Fram kom í könnuninni að 45 til 50% stuðningsmanna Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Frjálslynda flokksins og VG eru hlynnt því að hafnar verði aðildarviðræður en um 85% stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru á þeirri skoðun. Þá eru fleiri stuðningsmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins hlynntir aðild að Evrópusambandinu en eru andvígir henni. Loks eru fleiri stuðningsmenn allra flokka hlynntir evru en eru andvígir."

Í kreppu er það vel þekkt að almenningur hræðist breytingar og vill helst reisa girðingar, einangra sig og skríða í skjól undir sæng.

Espolin (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 11:54

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er vissulega partur af sögunni, eins og núverandi ríkisstjórn verður bráðum, sumir óttast jafnvel að þeir flokkar sem standa að henni fái svipuð örlög.

Á sama tíma trúðu fjölmargir Íslendingar að landið væri komið á þann stað að sjávarútvegur skipti ekki máli.  Væri einfaldlega hluti af sögunni og skemmtileg "aukabúgrein".

Samfylkingin og Vinstri græn höfðu ekki pólítískt hugrekki til þess að bera aðildarumsóknina undir þjóðaratkvæði eins og þó kom fram tillaga um á Alþingi.

Líklega þeirra stærstu mistök og flokkast undir pólítísk afglöp.  Ég ætla ekki að fullyrða hvort að umsókn hefði verið samþykkt eða hafnað.  Það hefði líklega getað farið á hvorn veginn sem er.

En hefði umsóknin verið samþykkt, þá hefði verið byggð upp frekari sátt eins og ég minnist á hér að ofan.  Umsóknin hefði verið mörgum sinnum sterkari og engin væri að tala um að draga hana til baka núna.

En hefði henni verið hafnað hefði verið hægt að snúa sér að öðrum málum.

En eins og svo margt annað sem Samfylkingin og ríkisstjórnin ætlaði sér á kjörtímbilinu, þá ætti einfaldlega að keyra málið í gegn.  Flest þessi mál enduðu illa fyrir ríkisstjórnina og í öngstræti eins og ESB umsóknin.

Það reyndist ekki nægilegur pólítískur vilji fyrir umsókninni, þó að það tækist að snúa upp á nógu margar hendur til að koma henní í gegn á Alþingi.

Hvers vegna heldur Espolin svo að svo illa miði áfram í aðlögunarviðræðunum?

G. Tómas Gunnarsson, 16.4.2013 kl. 12:39

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo bæta því við hér að þegar hluti þeirra sem greiðir atkvæði með aðildarumsókn, lýsir því yfir við það tækifæri að þeir hyggist greiða atkvæði gegn aðild þegar þar að komi, þá sést auðvitað hvers kyns skrípaleikur var á ferðinni.

Eina leiðin til að undirbyggja aðildarumsókn svo vel færi við þær aðstæður hefði verið að setja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En eins og ég sagði áður, hafði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ekki pólítískt hugrekki til þess.

Hvers vegna ekki, ef yfirgnæfandi hluti kjósenda var fylgjandi aðild og umsókn?

G. Tómas Gunnarsson, 16.4.2013 kl. 12:59

4 identicon

Hefur þú séð þessa athyglisverðu grein eftir gamla heimspeki kennarann minn úr FVA.  Það er alltaf mjög skemmtilegt að lesa bloggið hans Atla.

 http://atlih.blogg.is/2013-04-12/hvernig-er-haegt-ad-komast-i-evropusambandid-thott-flestir-vilji-vera-fyrir-utan-thad/

Arnfinnur Jónasson (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 22:56

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka þér fyrir þennan tengil Arnfinnur.  Ég hafði heyrt af greininni, en ekki séð hana.  Ég sé svo gott sem aldrei prentútgáfu Moggans.

En ég er í öllum meginatriðum sammála Atla.  Það er engin vafi á því í mínum huga að ef skoðanakannanir yrðu jákvæðar um nokkurn tíma, myndu samningaviðræður klárast ótrúlega fljótt.

Það mátti heldur ekki stoppa, það varð að kýla umsóknina inn, eins fljótt og auðið var og án þess að gefa almenningi nokkurn tíma til þess að hugsa.

Þess vegna var þjóðaratkvæðagreiðsla algert bannorð hjá Samfylkingu og Vinstri grænum.  

Ekki nóg með að það hefði gefið almenningi tóm til þess að hugsa málið, heldur hefði stór hluti Vinstri grænna gefið upp afstöðu sína og hvatt til þess að málið yrði fellt.  Jafnvel sumir hinir sömu og höfðu greitt aðildarumsókn atkvæði á Alþingi.

Slíkt hefði jafnvel megnað að splundra ríkisstjórninni.

Með skrípaleik hófst umsóknarferlið.  

Ég vona að það takist að slíta því með meiri virðingu.

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2013 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband