Framsóknarflokkur 29.5% - Ríkisstjórnarflokkarnir 21.2%

Það virðitst ekkert lát á velgengni Framsóknarflokksins - í það minnsta í skoðanakönnunum.  Nú mælist flokkurinn langstærsti flokkur landsins í þessari skoðanakönnun MMR.

Framóknarflokkurinn er ríflega 5 prósentustigum stærri en Sjálfstæðisflokkurinn, sem verður ef þetta gengur eftir að sætta sig við að vera annar stærsti flokkur Íslands, annað kjörtímabilið í röð.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri græn ná í engu að bæta stöðu sína og Björt framtíð heldur áfram að missa fylgi.  Samanlagt þessara þriggja flokka er nú 33.2%, eða litlu meira en fylgi Samfylkingar í síðustu kosningum.  Samfylking og Björt framtíð eru aðeins með 24.5% samanlagt.

Í þessari könnun má segja að Framsóknarflokkurinn sé eini sigurvegarinn.  Hann sópar að sér fylgi úr öllum áttum.  Auðvitað verður heldur ekki litið fram hjá því að árangur Bjartrar framtíðar er góður, það eitt að komast á þing, er sigur fyrir nýjan flokk.  En velgengni þeirra virðist fylgja nokkuð þekktu mynstri nýrra framboða, fylgið rýkur upp og fer svo að síga niður aftur.  Spurning hvort að þeim tekst að stöðva fylgistapið fyrir kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist stefna í að bíða afhroð aðrar kosningarnar í röð.  Allt undir 30% myndi líklega flokkast sem tap þar á bæ, en undir 25% getur ekki flokkast sem neitt annað en afhroð.  Það sama má segja um Samfylkingu og Vinstri græn, þeirra bíður afhroð, ef þessar niðurstöður ganga eftir.

En hvaða ríkisstjórn kæmi út úr þessu?

Það er auðvitað varasamt að spá um slíkt, en auðvitað liggur beinast við að spá að eina mögulega tveggja flokka stjórnin tæki við, stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Það helsta sem gæti komið í veg fyrir slíka stjórn, er inngróin hræðsla Framsóknarflokks við að starfa "of oft" til hægri og að flokkurinn hafi farið það illa út úr síðasta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Einnig gæti gætt nokkurs hiks hjá Sjálfstæðisflokki, ef flokkurinn fengi útreið á við þá sem birtist í þessari skoðanakönnun.

En ég hygg að stjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar væri vel inn í myndinni sömuleiðis.   Framsóknarflokkurinn væri þá ótvírætt sterki flokkurinn í því samstarf, með meira fylgi en hinir tveir flokkarnir samanlagt

Það er nokkuð merkilegt að ef þessi könnun gengi eftir, myndi Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins fagna 100 ára afmæli sínu, sem er á næsta kjörtímabili, sem stærsti flokkur Íslands.

Það er nokkuð sem ég held að enginn, ekki einu sinni á meða hörðustu Framsóknarmanna, hefði vogað sér að spá, jafnvel ekki í upphafi þessa árs.

 


mbl.is Framsóknarflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og ég hef oft sagt þá eru 90% Íslendinga  framsóknarmenn með litlu effi!

Verst að Framsóknarmenn hafa ekki alltaf verið framsóknarmenn í verki.

Vandinn við 3. flokka stjórn með krötum og Bjartri framtíð er sá að kratarnir taka ekki rökum og eru uppfullir af eigin sjálfbirgingslegu prógrömum, svo sem eins og inngöngu í ESB og hinar og þessar kerfiskúnstir sem engu skila t.d. umba skuldara.

Alveg sama þó kratar hafi verið við stýrið í hruninu, samt ætluðust þeir til þess að vera teknir gildir sem hið þjóðfrelsandi afl þekkingar og hreinna hugmynda.

Stundum er sagt að VG hafi dregið Samf. til vinstri. Bull og vitleysa. V.G. létu fallerast úr góðri vígstöðu inn á ESB óra Samf. vegna brjálaðs metnaðar formannsins í bland við heift og biturð hans vegna undanfarinna höfnunarára.

Ef Framsókn velur Samf. til fylgilags þá skulu kratarnir mæta berfættir og fullir iðrunar og hógværðar gagnvar eigin þjóð og þeim verkum sem þarf að vinna. Ekki uppfullir af hroka gerfiþekkingar og andþjóðernishyggju, með kjötkatlaglýgju ESB í augunum eins og sannaðist svo rækilega á þá í Icesave málum  (svei þeim margfallt fyrir það)

Þá bið ég miklu heldur um Sjálfstæðisflokk til handa Framsókn vonandi nægilega rassskellta til að taka sönsum varðandi þá uppstokkun efnahagslífsins sem þarf að framkvæma, nauðsynlega skattlagningu og hömlur á einkavædda einokun og pilsfaldakapítalsima!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.3.2013 kl. 15:25

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sjálfstæðisflokkurinn gæti aldrei farið í stjórn með Framsókn við stjórnvölinn. Það væri hrein niðurlæging fyrir flokk sem lítur á sig sem hið eðlilega stjórnvald á Íslandi og hefur hingað til stjórnað með stuðningi framsóknar. Að snúa við því valdahlutfalli er eins og fyrir karlmann með gamaldags kynjahlutverkahugmyndir að verða allt í einu stjórnað af konu.

Sjálfstæðisflokkurinn er einmitt karlmaður með gamaldags kynhlutverkahugmyndir. Sbr. Brynjar Níelsson og Hönnu Birnu.

Kristján G. Arngrímsson, 26.3.2013 kl. 15:44

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alveg rétt hjá þer Bjarni, að Framsóknargen leynast í býsna mörgum Íslendingum.  Sjálfur hef ég alltaf haft nokkra ímugust á Framsóknarflokknum, og tel fátt betur fallið til þess að halda þeim genum í skefjum, en að hafa alist upp að Akureyri.

Ég verð þó að gefa Framsóknarflokknum það kredit að þeir hafa endurnýjað flokkinn býsna vel, sótt frambjóðendur (og formann) fyrir utan hinar hefðbundnu uppeldistöðvar flokksins og þannig náð að breyta flokknum, þó án þess að fara úr lopapeysunni.  Ég hygg að akkúrat núna sé að finna ferskari hugsun í Framsóknarflokknum, en hefur mátt finna þar um áratugaskeið.  Sömuleiðis varð mikil framför og lyftistöng fyrir flokkinn að losna við þann hluta sem flutti sig yfir til Bjartrar framtíðar.

En ef að niðurstaða kosninga yrði eins og þessi könnun, verður Framsókn í algerlega draumastöðu.  Ekki nóg með að flokkurinn myndi hafa unnið stórsigur í kosningum, heldur hafa hinir flokkarnir flestir á að skipa formönnum sem ættu því sem næst þann eina möguleika til þess að halda sæti sínu, að koma flokkum sínum i ríkisstjórn.

Ef til vill má segja að Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn ætti að hafa lært af þeirri vitleysu að styðja núverandi stjórnarflokka til valda, en sá lærdómur gæti hæglega gleymst þegar stórsigur hefur unnist.  Árni Páll verður líka líklega tilbúinn til að fórna því sem næst hverju sem er til að komast í stjórn.  Vandamálið við slíka stjórn yrði þó ekki hvað síst, að líklega myndi Samfylkingn halda utanríkisráðuneytinu.

Hvort að Sjálfstæðisflokkurinn myndi vilja fara í stjórn með Framsóknarflokki sem "junior partnerinn", er opin og góð spurning.

Ég reikna með því að Bjarni Benediktsson myndi glaður vilja mynda stjórn með Framsóknarflokki.  Aðrir myndu hugsanlega frekar vilja vera utan stjórnar, skipta um formann og fara að undirbúa næstu kosningar, sem gætu orðið fyrr en varir, ef mynduð yrði stjórn B, A og S.

Þó að flestum stjórnmálaflokkum þyki það afleitt hlutskipti að vera utan stjórnar, er það enn verra hlutskipti að vera í vondri og óvinsælli stjórn.  Því eru núverandi stjórnarflokkar að kynnast.

En stjórnarmyndun gæti orðið erfið, en gæti einnig orðið létt og snögg.

G. Tómas Gunnarsson, 26.3.2013 kl. 19:07

4 identicon

Það að líta svo á að einstaklingurinn sé lítils virði án þess samfélags er hann tekur þátt í, að það sé skylda samfélagsins að hjálpa þeim veika og smáa, að vera tilbúinn að taka til hendinni og bjarga uppskeru eða afla meðan gefur,grípa gæsina þegar hún gefst og haga seglum eftir vindi þó lagst sé á árarnar ef með þarf,bera hæfilega litla virðingu fyrir valdaelítunni vitandi að hún er sjaldnast opinn fyrir því sem almenningi kemur.  Þetta eru nokkur þau atriði sem liggja djúpum rótum í þjóðarsálinni og einkenna um leið framsóknarmenn.

Ég eins og þú hef á stundum ýmigust á Framsóknarmönnum enda er það svo að kostum fylgja gallar.    Helstu gallarnir eru t.d. prinsipleysi. Það að haga seglum eftir vindi og leysa málin í þeirri röð sem þau berast að felur um leið í sér ákveðið fyrirhyggjuleysi og "þetta reddast" hugarfar.  

Þetta að meta samfélagið ekki síður en einstaklinginn getur þróast út í óþolandi forræðishyggju og svo jafnvel hitt að lukkuriddarar og blekkingameistarar ná að slá ryki í augu hins almenna framsóknarmanns og sölsa undir sig sameiginlega sjóði í nafni almannahagsmuna.

Kratarnir geta (eða eiga að geta) komið með smá fyrirhyggju í hugsunarhátt framsóknarmanna og (sannir) hægri menn að fá þá til að meta gildi kapítalsins án of mikillar íhlutunnar.Kaupmaðurinn þarf ekki að vera óvinur!

Það má eiginlega slá fram þeirri kenningu um framsóknarmenn að þeir séu ekki heppilegir þegar vel gengur og vísir til að klúðra ýmsu, en þegar í harðbakkann slær, þá eigi þeir að taka við.   

Þannig má segja að maður þurfi ekki að verða fyrir vonbrigðum með framsóknarmenn. Þeir eru eins og þeir eru.  Vonbrigðin eru miklu fremur með aumingjaskap og getuleysi íslensku pilsfaldakapítalistanna og úrræðaleysi og hreinann kjánaskap kratanna.  Hrunið opnaði þá ormagryfju sem ekki gleymist í bráð.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.3.2013 kl. 21:17

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Staðreyndin er auðvitað sú að flestir stjónmálamenn eru stórhættilegir þegar vel gengur.

Þegar tekjur hins opinbera eru góðar, eyða stjórnmálamenn yfirleitt öllu sem inn kemur og gjarna gott betur.

Þess vegna er nú ástandð víða svo erfitt nú þegar sverfur að, því að ekkert stendur eftir eftir "góðu árin".

Ísland er gott dæmi um þetta, hið opinbera belgdist út á góðu árunum og kom verulega illa undirbúið undir mögru árin.  Þar á Sjálfstæðisflokkurinn stóra sök og "keypti" samstarfsflokka sína í ríkisstjórnum allt of dýru verði.  Margir Sjálfstæðismennirnir þurftu svo sem ekki mikla hvatningu.

Sem betur fer hafði hið opinbera greitt upp mestan hluta skulda sinna, en eyðslan varð yfirgengileg og að virðist næstum eftirlitslaus.

Það er ekki síst af þessu þyrfti að læra.  Það er sjálfsagt að vona að Framsóknarflokkurinn (og auðvitað hinir flokkarnir) hafi lært sína lexíu af þessu, enda var þetta í raun mesta niðurlægingarskeið flokksins og Halldór Ásgrímsson, sem þeir litu á sem mikinn foringja, afhjúpaði sig í raun sem svo lítils nýtan að hann gat ekki einu sinni sagt af sér með þokkalegri reisn.

En ef til vill er ég full bjartsýnn.

G. Tómas Gunnarsson, 27.3.2013 kl. 09:56

6 identicon

Tommi, strax þegar Sigmundur fór á móti Höskuldi hér fyrir norðan svaraði Villi Ágústar því til að hann ætlaði að styðja Sigmund...því það væri svo sterkt fyrir kjördæmið að forsætisráðherran kæmi héðan :)

Sig.Aðils (IP-tala skráð) 27.3.2013 kl. 09:57

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þó að megi deila um hvað mikið Sigmundur "kemur" úr NorðAustur kjördæmi hefur Villi auðvitað, eins  og endranær mikið til síns máls.  

Líklega hefur NorðAustur ekki átt raunhæfari möguleika á því að leggja til forsætisráðherra í aðra tíð, og hvort sem við fordæmum kjördæmapot eður ei, þá þýðir ekki að líta fram hjá því að það skiptir máli hvaðan ráðherrar koma.

Ég spái því að Framsókn rúlli upp NorðAustur kjördæmi og verði aftur stærsti flokurinn.

Ég hef enda áður sagt að líklega prísa stuðningsmenn Höskuldar sig nú sæla með að hafa ekki náð að skella Sigmundi.  Hefði það gerst væri gengi Framsóknarflokks líklega allt annað nú, en raun ber vitni.

Bið að heilsa í Sundlaugina/gufuna.

G. Tómas Gunnarsson, 27.3.2013 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband