Samkomulag sem gat ekki náðst?

Það kemur ef til vill ekki á óvart að ekki hafi náðst samkomulag á milli allra "Sambandsríikjanna" um breytingar.  Það kemur heldur ekki á óvart að það skuli fyrst og fremst stranda á Bretlandi.  Að sumu leyti er það engu líkara en sú niðurstaða hafi verið "hönnuð".

Þegar leiðtogar Frakklands og Þýskalands (hér má velta því fyrir sér hvers vegna enginn virðist efast um rétt þeirra til þess að semja tillögurnar aðeins tvö) koma saman og semja tillögur sem vitað er að því sem næst ómögulegt er fyrir leiðtoga Bretlands að samþykkja og leggja það síðan fyrir öll "Sambandslöndin", kemur það ekki beint á óvart að Bretland samþykki ekki tillögurnar.  Bretar vilja ekki gefa eftir meira af fullveldi sínu og þeim er sérstaklega umhugað að engar breytingar verði gerðar skattalega sem gæti ógnað fjármálageiranum þeirra, sem er sá öflugasti í Evrópu. 

Þeir standa enda betur að mörgu leyti en meginlandslöndin, álagspróf fyrir Evrópska banka sýndi að bankakerfið þeirra stendur betur heldur en hinna meginlandanna í "Sambandinu". 

En það er auðvitað pólítískt auðveldara fyrir Merkel og Sarkozy að leggja fram tillögur sem leggja frekari byrðar á Breta en eigin þjóðir.  Það kann að fara örlítið í skapið á leiðtogunum á meginlandinu að núna er það að koma svo vel í ljós að Bretland valdi réttu leiðina, að standa fyrir utan eurosvæðið og flest þau rök sem komu fram fyrir þeirri ákvörðun hafa reynst rétt.  Meira að segja Jacques Delors lætur slíkar skoðanir í ljós.  Það kann líka að vera að "Merkozy" hafi þótt það ásættanleg niðurstaða, þar sem alltaf var ljóst að samhljóða ákvörðun væri erfitt að ná, að það kæmi í hlut Bretlands að vera hinn "neikvæði" aðili.

Það má alveg hugsa sér verra vegarnesti fyrir Sarkozy í komandi forsetakosningum heldur en að hafa verið harður í horn að taka við "Róstbíf æturnar".

En hvert framhaldið verður er ómögulegt að spá fyrir um nú.  Bretland er enn í "Sambandinu".  Stofnanir "Sambandins" geta ekki með góðu móti farið að starfa fyrir minna samband innan "Sambandsins".  ´

Nú þegar má sjá alls kyns vangaveltur um hvernig þjóðirnar sem ætla að standa að samkomulaginu geti gert það án þess að hleypa almenningi að ákvörðunartökunni, enda lýðræðið álitið til trafala þegar taka þarf ákvarðanir innan "Sambandsins".

En það á ýmislegt eftir að ganga á áður en það tekst að negla saman niðurstöðu af þessum fundum.  Ýmsar yfirlýsingar eiga eftir að heyrast og það verður líklega einhverjir dagar í að "rykið nái að setjast".

Nýlega voru Finnar að hrista eitthvað upp í "samkomunni", en Jutta Urpilainen fjármálaráðherra Finnlands lét hafa eftir sér:

As we are strongly committed to unanimous decision making, in practice that means we have two options. Either we keep to the original agreement that decisions are taken unanimously on the permanent mechanism, or Finland doesn’t participate in the permanent mechanism.

...

It’s natural that a country that has taken meticulous care over its finances has certain conditions they want to hold onto.  We are a small country and think it’s important to respect democracy and allow each member state influence over decisions that imply large financial consequences and liabilities.

Það er ekki ólíklegt að smá hnökrar sem þessir skjóti upp kollinum á næstu dögum.  Reynt verður að berja þá niður jafn óðum en ómögulegt er að sjá hvernig eða hvenær þessu lýkur.

En það er vissulega til bóta að eurosvæðið ætli að sýna ábyrgari fjármálastjórn í framtíðinni, en vandamálin sem ekki er búið að leysa eru enn ærin.  Bankakerfið er veikt, skuldir ríkjanna eru enn gríðarlegar (það ætti þó að hægja á vexti þeirra) og samkeppnisstaðan á milli "suður" og "norður" ríkjanna er ennþá úr jafnvægi.  Vöxtur svæðisins er afar lítill og síðast en ekki síst á alveg eftir að sjá hvernig ríkisstjórnum landanna gengur að höndla niðurskurðarhnífanna, en ljóst er að þeim hlýtur að verða beitt ósparlega á næstu misserum.

 


mbl.is Öll ESB-ríki nema Bretar sammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband