Slæmur grikkur Grikkja - Þjóðaratkvæði stendur í Sambandinu

Tilkynning Papandreou forsætisráðherra þess efnis að hann hygðist efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um "björgunarpakka" þann sem Grikklandi hefur verið úthlutað, sem og þátttöku landsins í Eurosvæðinu hefur vakið upp hörð viðbrögð víðast um lönd.  Jákvæðar raddir finnast þó sömuleiðis. 

En hvers vegna þjóðaratkvæði?

Ef til vill  finnst Papandreou að lengra verði ekki haldið án þess að hinn almenni Grikki fái að segja álit sitt.  Að engar aðhaldsaðgerðir komi til með að standast nema hann fái almenning með sér.  Ef Grískir stjórnmálamenn geta ekki sannfært hinn almenna Grikkja um að "björgunarpakkinn" sé besta lausnin sem bjóðist og að vera þeirra á Eurosvæðinu sé þeim til góða, þá á "björgunarplanið" ekki mikla von.

Hvaða möguleika á að bjóða upp á í staðinn liggur ekki ljóst fyrir.

En vikurnar sem líða þangað til atkvæðagreiðslan fer fram, ef hún fer þá fram, geta orðið örlagaríkar.

Því þessi tilkynning Papandreou afhjúpar sem aldrei fyrr veikleika Eurosvæðisins. Það eru of margir sem ráða, það eru of margir forætisráðherrar.  Það eru svo mörg ólík sjónarmið sem þarf að sætta.  Það eru of margir með neitunarvald.

Sem aldrei fyrr blasir við að Euroinu var komið á fót með pólítíska draumsýn að leiðarljósi.  Efnahagslegum og stjórnmálalegum veruleika var ýtt til hliðar.  Evrópskir stjórnmálamenn riðu um héruð og seldu kostina en neituðu að horfast í augu við gallana.  Víða um lönd er afneitunin enn til staðar.

Á næstu dögum verður ákaft reynt að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin, ekki er ólíklegt að það þýði fall Grísku stjórnarinnar, sem yrði þá önnur ríkisstjórnin í Eurolöndunum sem yrði krísunni að bráð. 

Hvernig þetta allt endar er engin leið að spá um.  En hin fleygu orð,  "You Ain’t Seen Nothing Yet", sem Bachman Turner Overdrive, Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa í sameiningu og þessari röð gert ódauðleg, gætu vel átt við nú.

En hjá Íslensku ríkisstjórninni, Samfylkingunni og Vinstri grænum er stefnan skýr.  Þarna vill stjórnin inn.  Ásókn Íslenskra vinstrimanna eftir óróa, illindum og úlfúð lætur ekki að sér hæða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru það ekki ær og kýr vinstra fólks að standa í illindum og ósamlyndi?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 2.11.2011 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband