Að þola andstæðar skoðanir

Vilja til að hindra eða "útrýma" andstæðum skoðunum verður vart í vaxandi mæli nú á tímum.

Umburðarlyndi virðist víða fara þverrandi.

Starfsfólk New York Times þoldi t.d. ekki að grein hefði birst í blaðinu sem það var ósammála og þótti ekki samrýmast stefnu blaðsins að það "neyddi" ritstjóra aðsendra greina til að segja upp störfum.

Starfsfólk útgefanda J. K.  Rowling mótmælti harðlega að barnabók hennar yrði gefin út af fyrirtækinu, að því virðist vegna skoðanna sem hún hefði viðrað á samfélagsmiðlum. 

Bókin, The Ickabog, eða efni hennar virðist hafa verið aukatriði.

Kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan Peterson, virðist einnig hafa "strokið rangælis", starfsfólki útgáfyrirtækis síns, að það krafðist að fyrirtækið hætti við að gefa út nýjustu bók hans.

Bókin sem mun heita:  "Beyond Order: 12 More Rules for life", er reyndar ekki komin út, er væntanlega 2. mars.

Sumir segja reyndar að bók Peterson gæti ekki fengið betri auglýsingu, en alla þá sem virðast vera á móti útgáfunni, en það er líklega önnur saga.

Fjölmargir sem starfa "útgáfubransanum" hafa einnig skrifað undir ákall um að bókaútgefendur gefi ekki út endurminningar þeirra sem starfað hafa í ríkisstjórn Donalds Trump.

Að sjálfsögðu er öllum frjálst að hafa sínar skoðanir í málum sem þessum, en mér finnst merkilegt hvað margir virðast þeirra skoðuna að andstæðar skoðanir eigi helst ekki að heyrast.

Nú geri ég mér ekki grein fyrir því hvað mikill markaður er fyrir endurminningabækur þeirra sem störfuðu með Trump á síðasta kjörtímabili. Ég tel heldur ekki líklegt að ég eigi eftir að kaupa þær. 

Heilt yfir er ég ekki mikill aðdáandi sjálfskrifaðra bóka stjórnmálamanna, en af þeim hefur vissulega verið meira en nóg framboð undanfarin ár.

En ég sé ekkert að því að fyrrverandi ráðherra gefi út bækur, ef áhugi er fyrir þeim þá seljast þær.

Rétt eins og ég tel það fjölmiðlum til tekna ef þeir birta breitt svið skoðana.  Slíkum miðlum fer því miður fækkandi.

Frekar er reyndum blaðamönnum sagt upp vegna "skringilegra" atvika sem áttu sér stað fyrir einhverjum árum. Einstaklingar missa vinnu vegna "tísta" o.s.frv.

Merkilegt nokk, virðast oft í fararbroddi einstaklingar og fjölmiðlar sem kenna sig við og stæra sig af "frjálslyndi".

Umburðarlyndið virðist ekki partur af frjálslyndinu og raunar víðs fjarri.

Síðan undrast margir "pólaríseringu" og að heift hlaupi í umræðu.

En einhvern tíma var sagt að mest væri ástæða til að hafa áhyggjur þegar svo gott sem allir væru sammála.

Ef til vill er sitt hvað til í því.

 

 

 

 

 


Vatnsdeigsbollur í fyrsta sinn

Hjá mér hefur það fylgt því að búa erlendis, að þegar löngun í "Íslenskan" mat vaknar þá hef ég þurft að lára að gera eitt og annað sjálfur.

Þannig lærði ég að búa til graflax, ég sýslaði við skyrgerð fyrir mörgum árum, sem betur fer þarf ég þess ekki lengur, enda margar tegundir af skyri í flestum verslunum núorðið.

Ég hef sömuleiðis soðið bæði rauðrófur og -kál fyrir flest jól, soðið baunasúpu og svo að sjálfsögðu bakað bollur.

VatnsdeigsbollurÞað er eiginlega með eindæmum að bakarar víða um heim hafi ekki uppgötvað hvað mikill fengur væri að bolludeginum fyrir þá.

Venjuleg hef ég bakað venjulegar gerbollur og fyllt þær rjóma og húða með súkkulaði.

En nú rakst ég á góða uppskrift á Vísi og tók bollubaksturinn á næsta stig og bjó til vatnsdeigsbollur.

Það tókst svona ljómandi vel, uppskriftin virðist algerlega "ídíótaheld" þó að ef til vill megi deila um hvað vel tókst til með lögunina.

Það gleymist þó þegar rjómi, sulta og súkkulaði er bætt við.

P.S. Svo ég nöldri nú yfir einhverju, þá verð ég eiginlega að benda á að það jaðrar við "upplýsingafölsun" að kalla þetta vatnsdeigsbollur, eiginlega ættu þær að heita smjörbollur.

En það hljómar vissulega heilsumsamlegar að segjast hafa fengið sér 3. vatnsdeigsbollur en að hafa sporðrennt þremur smjörbollum.

 

 

 


Bloggfærslur 15. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband