Pólítískur ómöguleiki, illdeilur og viðræður

Ég veit ekki hversu byltingarkennd úrslit nýafstaðinna alþingiskosninga eru, ég held að þau endurspegli frekar sundrungu samfélagsins en ákalli eftir byltingu.

Úrslitin í sjálfu sér ekki svo langt frá úrslitunum 1987.  Alls ekki eins, enda annar tími, aðrir flokkar og aðrar "persónur og leikendur".

En úrslitin reyna hins vegar á stjórnmálamenn og ekki síst hæfni þeirra til að gefa eftir, gera málamiðlanir og horfa á málefni en ekki persónur eða flokka.

En fleiri flokkar gera slíkt að sjálfsögðu ekki einfaldara. Það skiptir engu máli þó fjölbreytni geti verið af hinu góða, þá er ekkert auðveldara fyrir stjórnmálamenn að starfa saman á milli flokka, en innan flokka (ég bloggaði stuttlega um það fyrir stuttu síðan).

Hvoru tveggja krefst samstarfsvilja og stjórnmálamenn þurfa að geta sæst á málamiðlanir og jafnvel sætta sig við pólítískan ómöguleika - alla vegna um stund.

Ef litið er til þeirra illdeilna sem hafa svo gosið upp á vinstri væng stjórnmálanna eftir að "hin 5 fræknu" slitu viðræðunum, er ekki erfitt að skilja hvers vegna viðræðurnar náðu ekki einu sinni að verða "formlegar".

Það er jú ástæða fyrir því að vinstri vængurinn á Alþingi telur 5 til 6 flokka (plús svo þá sem ekki náðu að komast á þing), svona eftir því hvernig vilji er til að skilgreina vinstri.

En ef vinstri menn á Íslandi telja það bestu leiðina til samstarfs, ættu þeir auðvitað að stofna fleiri flokka, því gleðin og samstarfsviljinn felst í fjölbreytileikanum, ekki satt?


mbl.is Ekki á einu máli um framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjórlíki og trúarlíki

Þegar undarleg lög og skattar gilda er algengt að viðbrögð einstaklinga verði nokkuð skrýtin, en einstaklingar eru hugmyndaríkir grípa til ýmissa ráða til að sniðganga eða milda áhrifa undarlegra ákvarðana hins opinbera.

Þannig varð hið "sér íslenska" bjórlíki til þegar Alþingi þverskallaðist lengi við að aflétta banni við sölu áfengs bjórs á Íslandi.

Bjórlíkið dró fram fáranleika bannsins og átti án efa þátt í því að banninu var á endanum aflétt.

Þar fóru Sjálfstæðismenn í fararbroddi, eðlilega, enda sjálfsagt að aflétta banninu og treysta einstaklingum til að ákveða sjálfir hvort að áfengi sem þeir kjósa að innbyrða sé í formi bjórs eða annars, kjósi þeir á annaðborð að neyta þess.

Nú er hins vegar farið að bera nokkuð á því sem mætti kalla "trúarlíki".

Vegna undarlegra ráðstafana hins opinbera, sem hefur fellt "sóknargjöld" inn í almenna skattheimtu þannig að þeir sem standa utan trúfélaga þurfa að greiða jafnt gjald og þeir sem "telja" í afhendingu "sóknargjalda", hafa einstaklingar komið á fót trúfélögum og til þess að "endurheimta" fé sem þeir telja í raun sitt.

"Lífsskoðunarfélög" (hvað sem það svo þýðir) hafa einnig fengið stöðu trúfélaga og og fá sama "sóknargjald" og trúfélögin.

Rétt eins og bjórlíkið, dregur þetta fyrirkomulag fram fáranleika þess kerfis sem hið opinbera hefur byggt upp.

Annars vegar má halda því fram að um ekkert "sóknargjald" sé að ræða, einungis sé um að ræða "styrk á hvern haus", og þá má spyrja hver vegna hið opinbera á að standa í slíkri styrkveitingu?

Hins vegar er að um "sóknargjald" sé að ræða, hvers vegna þeir sem standa utan trú, lífskoðunar og trúarlíkisfélaga eigi að greiða gjaldið?

Réttast væri að að fella styrkveitinguna niður og lækka skattprósentuna samsvarandi, eða jafnvel hækka skattleysismörkin um "sóknargjaldið".

Hitt er svo einnig möguleiki, að breyta "sóknargjaldinu" í nefskatt, þar sem framteljendum væri boðið upp á þann möguleika að "haka í reit" þar sem framteljandi samþykkti að af honum væri dregið "sóknargjald" samkvæmt skráningu hans í Þjóðskrá.

Þannig fengist upplýst samþykki framteljanda, þeir sem svo kysu greiddu, aðrir ekki.

Að sjálfsögðu ætti flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins að vera í fararbroddi í slíkum breytingum, það segir sig eiginlega sjálft.

 

 


Bloggfærslur 14. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband