Rétttrúnaðarlögreglan lætur til sín taka

Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega steinhissa. Persónulega þykir mér ótrúlegt að ég sé að fylgjast með atburðum sem þessum á Íslandi árið 2016.

Sjálfur er ég svo illa "tjúnaður" inn á hinn pólítíska rétttrúnað að ég get einfaldlega ekki séð neitt hatur í þeim ummælum sem birt eru í þessari frétt.

Ég sé einfaldlega tjáningu á andstæðum skoðunum.

Og slíku framferði er ég vel kunnugur. Hér á þessari bloggsíðu (og víðar) hef ég átt í "útistöðum" við alls kyns fólk, um hin mismunandi málefni. Þannig gerast skoðanaskipti.

Einn af þeim sem ég hef átt í "rifrildum" við hér er "sökudólgurinn" Jón Valur Jensson. 

Oftar en ekki erum við á algerlega öndverðum eiði.  Jón er enda einn af þeim sem ég kalla stundum "kristilega talíbana".  Það er ekki vegna þess að ég sé að saka þá um að fara um með morðum og limlestingum, heldur vegna þess að fyrir minn smekk eru þeir full trúaðir á "bókstafinn".

En þó að enga hafi ég trúnna, get ég vel unnt öðrum slíkrar bábilju.  Slíkt verður hver að eiga og velja fyrir sig.

Ég get vel unnt þeim að slengja á mig "ritningunni" og jafnvel þó þeir hóti mér helvítisvist skiptir það mig engu máli.

Ég hef fulla trú á því að þeir eigi jafnan rétt og ég að tjá sig, og hef haft það að reglu hér á bloggi mínu, að allt sem er kurteislega sett fram fái að standa.

En sagan geymir vissulega margar ljótar sögur af rétttrúnaði.  Fjöldi einstaklinga hefur hefur dæmdur fyrir villutrú, píndir, limlestir og drepnir.

Réttarhöld í nafni kristilegs rétttrúnaðar eru svartur blettur á sögunni, en þau sem hafa verið haldin í nafni "pólítísks rétttrúnaðar" eru ekki hætis hótinu skárri.

Nú stefnir allt í réttarhöld "pólítísks rétttrúnaðar" á Íslandi.  Það er miður.

Það er að mínu mati umræðunni ekki til framdráttar og réttindabaráttu samkynhneigðra ekki heldur.

"Kristilegir píslarvottar", verða umræðunni ekki til framdráttar.

Skerðing á tjáningarfrelsi er það ekki heldur.

P.S. Það hljóta einhverjir að vera farnir að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að lögin um guðlast taki gildi aftur.  :-)

 


mbl.is Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur, siðferði og Panamaskjölin. Dómstóll kjósenda

All margir stjórnmálamenn virðast líta á Framsóknarflokkinn sem "líkþráan" nú um stundir. Við hann eigi ekki að hafa nein samskipti.

Er þá vitnað til þess að það hafi verið vegna Panamaskjalanna sem kosið var nú í haust og forsætisráðherra hafi þurft að segja af sér.

Flestir þeirra virðast kjósa að líta fram hjá þeirri staðreynd að í millitíðinni felldu kjósendur sinn dóm.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum af þingmönnunum að það fóru fram kosningar.

Ég hef ekki heyrt neinn færa fyrir því sannfærandi rök að í Panamaskjölunum hafi fundist neitt sem varðaði við lög.

En ef svo væri þyrfti að sjálfsögðu að vísa málinu til íslenskra dómstóla.

En hins vegar varðar málið siðferði og upplýsingaskyldu stjórnmálamanna.  Það brugðust enda ýmsir stjórnmálamenn býsna snöggt við og uppfærðu sínar upplýsingar.

En hvað gerir stjórnmálamaður sem er talinn vera uppvís að siðferðisbresti eða öðrum ámælingum sem ekki varða við lög?

Kostirnir eru ýmsir. Hann getur reynt að sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist, eða hann getur sagt af sér.  Ráðherrar hafa á Íslandi sagt af sér sem ráðherrar en setið áfram sem þingmenn.

Stjórnmálamaðurinn getur ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnmálum, en geri hann það ekki mætir hann dómi kjósenda, fyrr eða síðar. 

Hjá því verður ekki komist.

Og það er einmitt sá dómur sem skiptir öllu máli. Það eru kjósendur sem velja sér fulltrúa á Alþingi.

Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi í nýafstöðnum kosningum. En hann fékk meira fylgi en Samfylkingin, meira fylgi en Björt framtíð og meira fylgi en Viðreisn.

Þannig féll dómur kjósenda.

Ef við svo skoðum kjördæmi Sigmundar Davíðs, þess sem kom fyrir í Panamaskjölunum og sú umræða snýst mikið um, er niðurstaða kjósenda eftirfarandi:

Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi, en er þrátt fyrir það næst stærsti flokkur kjördæmisins.

En listi flokksins fær mikið meira fylgi með Sigmund sem efsta mann á lista en listi Samfylkingarinnar, sem leiddur er af núverandi formanni, eða listi Viðreisnar sem sömuleiðis er leiddur af formanni flokksins. 

Jafnvel þó að við tökum frá atkvæði þar sem strikað var yfir nafn Sigmundar þá hefur flokkurinn fleiri atkvæði.

Þannig féll dómur kjósenda.

Það er meiri vilji á meðal kjósenda landsins í heild að Framsóknarflokkurinn komist til áhrifa en að Samfylkingin, Björt framtíð eða Viðreisn geri það.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu val hvers og eins flokks hvern eða hverja hann velur sem samstarfsflokk eða -flokka.  Og auðvitað skiptir traust þar mestu máli.

En flokkar ættu að vega og meta úrslit kosninga og þau skilaboð kjósenda sem í þeim felast.

 


mbl.is Kannast ekki við gagnrýni á Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarit íslenskra hermanna

Ég var að þvælast um netið og rakst á þessa ágætu grein á Vísi. Þar er fjallað um hermenn frá Íslandi, eða af íslenskum ættum sem börðust með herjum Bandaríkjanna og Kanada í fyrri heimstyrjöld.

Þá rifjaðist upp fyrir mér bók sem ég fann á netinu fyrir all löngu og heitir Minningarit íslenskra hermanna 1914 - 1918 og var gefið út í Kanada, stuttu eftir heimstyrjöldina fyrri.

Í bókinni er stutt æviágrip í það minnsta flestra þeirra sem tóku þátt í hildarleiknum og voru Íslendingar eða af íslenskum ættum.

Mynd er af flestum þeirra og einnig eru í bókinni ritgerðir um sögu stríðsins og þátttöku Kanada.  Öll bókin er á íslensku.

Það er fróðlegt að fletta bókinni og ég yrði ekki hiss þó að margir Íslendingar finndu þar jafnvel ættingja, rétt eins og ég gerði.

En bókin hefur veri skönnuð inn og er aðgengileg öllum á netinu endurgjaldslaust.

 

 

 


Frelsi eða dauði breyttist í dauða frelsisins

Bylting Fidels Castro og félaga á Kúbu var undir slagorðinu "Frelsi eða dauði". En eitt það fyrsta sem dó eftir að Castro tók við völdum var frelsið.

Þannig lýsti einn af fyrrum félögum Castros þróun byltingarinnar á Kúbu.

Í upphafi var enda ætlunin að halda frjálsar kosningar, en bylting Castros, rétt eins og margar aðrar byltingar, þurfti að éta börnin sín til að halda sér gangandi.

Fangelsanir, kúganir, ofríki og fátækt varð hlutskipti þegnanna.

Hvað best hafa þeir það sem eru seldir í vinnu hjá erlendum stórfyrirtækjum, þó þeir fái í eigin hendur aðeins brotabrot af þeim launum sem fyrirtækin greiða.

En fæstir eru alslæmir. Menntun og heilsugæsla voru á meðal helstu baráttumála byltingarinnar, og þó að menntunin hafi að hluta til snúist um innrætingu og heilsugæslan hafi á síðari árum mátt sín lítils vegna skorts á nauðsynlegum lyfjum og tækjum, þá voru það vissulega framfarir.

En án utanaðkomandi stuðnings gat byltingin ekki gengið áfram, ekki á Kúbu, hvað þá að Kúbumenn gætu tekið að sér að vera "verktakar byltingarinnar" í fjarlægum löndum.

Þeim fer óðum fækkandi "sæluríkjum sósíalismans", ríki eins og Kúba og Venuzuela eru í raun á heljarþröm.

Íslendingar þekkja í samtímanum Kúbu líklega helst út frá notkun landsins í hræðsluáróðri.

Það er svo ef til vill tímanna tákn, að margir af þeim sem töldu það versta sem gæti komið fyrir ríki þriðja heimsins væri að vera í viðskiptum við Vesturlönd, sem mergsygu þau og arðrændu.

Nú jafnvel kenna sumir hinna sömu viðskiptabanni Bandaríkjanna um vesöldina á Kúbu.


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband